One Love – Ommi Nr. 62

Surtarnir 2019 eru komnir í búðir og eru í nokkrum ólíkum útgáfum að vanda. Við erum að tala um þrjá mismunandi að þessu sinni, m.a. Surt 61 sem er frábær en verður líklega umdeildur bakkelsis stout og má lesa nánar um hann hér. Það sem er hins vegar öðruvísi þetta árið er að það er auka bjór með Surtunum að þessu sinni og er sá ekki Surtur heldur old school og heiðarlegur russian imperial stout með nafnið Ommi NR. 62.

Bjórstíll þessi einkennist af þrótt og þéttleika oft með keim af dökku súkkulaði, kaffi og dökkum þurrkuðum ávöxtum. Beiskja getur verið áberandi en þessi bjórstíll er jafnan nokkuð sætur á tungu en allt er þetta í góðu jafnvægi. Tengingin við Rússland er að stíllinn var fyrst bruggaður í Englandi fyrir Rússlands keisara fyrir ansi ansi mörgum árum síðan. En það er ekki það sem er merkilegt við Omma.

„einstakur og sögulegur bjór leyfi ég mér að segja“

Ommi NR. 62 er algjörlega einstakur og sögulegur bjór leyfi ég mér að segja fyrir þær sakir að hann er bruggaður til heiðurs og minningar um ljúfan og elskulegan karakter, Omma eða Ómar Friðleifsson sem féll frá á síðasta ári allt allt of snemma. Ég veit ekki til þess að íslenskt brugghús hafi áður bruggað bjór til minningar um fallna félaga sem segir ansi margt um hann Omma. Ég var svo lánsamur að kynnast Omma aðeins í tengslum við sameiginlegan áhuga á bjór og ljúfum stundum. Bjórinn var kynntur til leiks 25.1.19 á Session craft bar á sérstöku Omma kvöldi til heiðurs Ómari Friðleifssyni. Það var vel mætt og ljúf stemning og ég held að allir hafi verið mjög sáttir við þetta frábæra öl. Allur ágóði sölunnar á Omma rennur svo til Líknardeildar Landspítalans!

Ommi NR. 62 er skemmtilegur 9.1% bjór sem ekki bullar neitt í manni. Ekkert glys og glimmer, ekkert bakkelsi eða skýjahnoðrar heldur bara heiðarlegur gamaldags russian imperial stout sem kemur til dyranna nákvæmlega eins og hann er klæddur. Frábært að fá svona bjór sem togar mann aftur niður á jörðina og minnir mann á gömlu góðu bjórstílana sem maður féll fyrir hér á árum áður.

Ekki missa af þessum kæru vinir og takk fyrir fallegan bjór Borg Brugghús. Á flöskunni stendur…

„Lífið er dýrt, dauðinn þess borgun. Drekkum í kveld, iðrumst á morgun. – One Love.“