Ég er fyrir löngu kominn með leið á heimagerðum hamborgara, hann verður alltaf einhvern veginn einsm, sama heimabragðið. Líklega er maður bara alltaf með sama eða svipað álegg. Ég hef reyndar stundum dottið niður á eitthvað alveg spes og ljúffengt en gleymi alltaf hvað ég gerði. Í kvöld var svona dagur sem enginn nennti að elda neitt sérstakt og við vorum alls ekki í stuði fyrir eitthvað heimsent. Það varð úr að gera hamborgara og ég verð að segja að útkoman var frábær. Hrikalega var þetta gott.
Við fórum í krónuna og hentum alls konar í körfuna og ég ætla að reyna hér að muna hvað það var. Við ákváðum að kaupa ribeye steikarborgara sem fæst í Krónunni, við höfum gert hamborgara með þessu kjöti áður og vorum mjög ánægð. Kvöldið áður vorum við með kjöt og ostaveislu og áttum því alls konar osta til að moða úr. Við ákváðum að prófa Guinnes cheddar og Castello Havarti Jalapeno en báðir þessir ostar eru ægilega góðir, fást í ostaborðinu í Hagkaup. Guinnes osturinn inniheldur Guinnes bjór og maður finnur það vel í gegn, hrikalega gott, svo er Havarti osturinn dálítið spicy og rífur ögn í en í senn mjúkur og fullur.
Auk þessara osta vorum við með eftirfarandi álegg:
- sneiddan Avocado
- sneidd gúrka (gæti verið frábært að pækla hana)
- kettasalat
- heimagert chipotle mayo (sjá að neðan)
- BBQ sósa Hamborgarafabrikkunnar, bragðbætt með reyktu paprikudufti og Sriracha sósu
- rauð paprika,sneidd niður
- tómatur stór og safaríkur, sneiddur niður
- pæklaður hálfur rauðlaukur (sjá að neðan)
- smjörsteiktir sveppir með smá púrtvíni
- pönnuristuð chorizopylsa
- salt og pipar
- smá sykur
- rauðvínsedik
- hamborgarabrauð Fabrikkunnar
Aðferðin
Þetta er svo sem sára sára einfalt. Best að byrja á að pækla rauðlaukinn svo hann nái nú að verða pæklaður. Skerið hálfan rauðlauk í eins þunnar sneiðar og þið getið án þess að skera ykkur. Leggið í litla skál sem hægt er að loka. ‘Eg mældi þetta svo sem ekki en ég sauð um 1 dl af vatni og 2 tsk sykur til að leysa upp sykurinn. Svo hellti ég 2 dl af rauðvínsediki yfir laukinn og loks sykurvatninu. Bætti nokkrum rauðum piparkornum saman við og lét svo standa þar til hamborgarinn var tilbúinn.
Svo er það Chipotle mayo, 4-5 msk majones, ca 2 tsk sriracha (fer eftir hversu sterkt þetta á að vera) og um 1 tsk reykt paprikuduft. Hrært saman og sett í sprautuflösku.
BBQ sósan frá Hamborgarafabrikkunni er ofsalega góð en mig langaði í aðeins reyktari og meira spicy útgáfu og bætti því sriraca og reyktri papriku við. Ofsalega gott.
Svo er það bara að sneiða niður grænmetið, skola klettasalatið og gera allt klárt.
Sveppirnir eru steiktir í smjöri, miklu af smjöri. Kryddað með Estragon, salt og rauðum pipar. Ég notaði líka smá hvítlaukssalt og örlítið af reyktri papriku. Í lokin bætti ég smá púrtvín á pönnuna og kláraði steikinguna. Þetta gefur ofsalega ljúfan keim í sveppina.
Chorizo pylsa er góð fersk en mig langaði að fá stökka áferð og bragðmeiri. Ég prófaði því að steikja sneiðarnar á pönnu þar til þær urðu stökkar. Ofsalega gott með.
Loks er að steikja hamborgarana, salt og pipar og leggja svo ostinn yfir þegar búið er að snúa kjötinnu einu sinni.
Pennslið svo neðri hluta af brauðinu með BBQ sósunni, raðið svo álegginu bara á, t.d. chorizo pylsu, papriku og tómat, svo kjötið, klettasalat og avocado, piklaði rauðlaukurinn og sveppirnir efst. Sprautið svo fallega slatta af chipotle mayo yfir og lokið með efra brauðinu.
Berið fram með bökuðum frönskum t.d. Geggjað gott.
Ég átti svo til Þorrabjór frá Gæðingi en þessi bjór er að koma mér virkilega skemmtilega á óvart. Um er að ræða 5% brown ale á bourbon eik. Ofsalega þægilegur bjór, mjúkur með léttri karamellurist og svo notalegum eikar bourbon keim. Frábær matarbjór og alveg smellpasaði með þessum hamborgara. Maltið í bjórnum tengir svakalega vel við t.d. BBQ sósuna og brauðið, einnig fínt mótspil við sterku kryddunum í ostinum og chipotle mayo ofl. Mér fannst líka þessi bourbon keimur koma vel út með kjötinu og púrtvínssveppunum.
Þetta er bjór sem ég mun kaupa núna yfir Þorra, vel gert Gæðingur!