Hin árlega íslenska bjórhátíð 2019, Dagur 1

Nú er ballið byrjað, fyrsti dagur á bjórhátíð búinn en það er svo sem engin ástæða til að örvænta, gleðin heldur áfram á ýmsum börum borgarinnar með alls konar viðburðum.  Haukur Heiðar félagi minn tók það saman um daginn.  Undirritaður pakkaði hins vegar í vörn og hélt heim að lokinni session í Ægisgarði enda þarf að passa sig að halda heilsu til að geta mætt til leiks á nýjan leik á morgun.

Að þessu sinni var hátíðin haldin sem fyrr segir í Ægisgarði sem er nokkuð minna rými en kjallarinn á KEX og því var heldur þröngt á þingi. Þetta truflaði mig dálítið því mér finnst ekki spennandi velkjast um í mannmergð.  Þetta gekk þó nokkurn veginn en hefði ekki mátt vera meira fólk.

IMG_8260.JPG
Eins og í fyrra var Omnom fólkið á staðnum með súkkulaðið sitt sem gaman er að para við bjórinn.  Komdu bara með glasið þitt til þeirra og þeir leiðbeina þér með súkkulaðið sem passar við það sem þú ert með, þú getur auðvitað líka bara prófað þig áfram sjálfur.  MS var líka þarna með virkilega skemmtilega osta af ýmsum toga sem allir höfðu legið í mismunandi bjór.  Hér er sko gaman að leika sér með paranir.  Það var þarna ostur sem bragðaðist nánast eins og djúsí humlar, geggjað. Nýtt þetta árið eru matarvagnarnir eða food trucks eins og þeir kallast á enskunni. En alla hátíðina munu mismunandi matarvagnar standa fyrir utan en það er alveg ómetanlegt að geta borðað á svona hátíð, fóðrað meltingarveginn og taka inn sölt og fitu til að vinna á móti vökvatapinu og verja aðeins slímhúðir í meltingarvegi.   Frábært.

Ég ákvað að reyna að smakka sem flest, ekki bara fara í þau brugghús sem eru snillingar í þeim bjórstíl sem er í uppáhaldi hjá mér persónulega.   En það sem stóð uppúr í gær er eftirfarandi.

Í súrbjórnum, þá held ég að ég verði að segja De Garde bjórinn, þeir voru báðir svakalegir hjá þeim.  Fonta Flora var líka með ofsalega flottan súrbjór en svo lærði ég að þeir gera alls konar bjór, ekki bara súrbjór.  T.d. eru þeir mikið í lager og þeir voru einmitt með 8.5% steinbock í gær líka.  Þetta var mjög skemmtilegur bock en þeir nota grjót úr grjótnámu skammt frá brugghúsinu og hita það yfir eldi og svo henda þeir grjótinu út í bjórinn og ná þannig upp suðunni eins og gert var í árdaga.  Bjórinn tekur vissulega í sig einhvern keim frá grjótinu.  Frábær bjór og þessi 8.5% voru algjörlega hulin. Aslin var með mjög flottan laktósa súrbjór líka sem var helvíti magnaður en svo náði ég bara ekki að komast yfir Black Project eða Brekeriet í gær, þetta er bara svo mikið.

20190221_174736.jpg

Talandi um lager, þá er þetta stíll sem menn eru dálítið hættir að drekka finnst manni, það snýst einhvern veginn allt um súrt, ofur beiskt, heavy stout eða skrítna nammibjóra.  Ég held að það sé komin dálítil þreyta í mann og kannski tímabært líta aftur á hina gömlu góðu rótgrónu bjórstíla aftur.  Það voru nokkrir helvíti góðir lagerbjórar í boði í gær, Ölverk var með mjög flottan lager, krispí og clean og To Öl var með skemmtilegan Kölsch sem reyndar var DDH, sem sagt þurrhumlaður þannig að hann minnti dálítið á pale ale.   Svo var það steinbockinn frá Fonta Flora auðvitað.

NYC brugghúsin voru svo að gera frábært mót, KCBC, Finback, Interboro og Other Half.  Þeir negldu IPA stílinn og voru öll með flotta bæði NEIPA, IPA og DIPA.  Ég reyndar smakkaði ekkert frá Other Half í gær.   Tired Hands var líka með frábæra bjóra en þeir voru með dósir og flöskur til að hella.   Lagerinn þeirra Prayer Group var mjög spes vægast sagt, hveiti lager bruggaður með þýsku pilsner malti og hveiti og svo gerjaður með lager geri.  Loks er bjórinn látinn liggja í 5 vikur á örlitlu magni af sítrónusafa, mjög skemmtilegt og nánast funky bragð.

Svo var það stout flokkurinn en það er alveg klárt að Malbygg tók hann í nefið með Brewhaha sem þeir brugguðu í fyrra með Cycle og KEX brewing.  Bjór þessi er vægast sagt magnaður, þvílík sprengja.  Það er alls konar skemmtilegt í honum, kaffi, kakónibbur, kókos ofl.  Svo hefur hann legið á bourbon tunnum í marga mánuði.   Eftir að hafa smakkað þennan í gær þá urðu allir aðrir imperial stoutar frekar bara svona venjulegir.  Ég vona að þið náið að smakka í kvöld því í gær stíflaðist eitthvað kerfið og þeir urðu að loka dælunni.

20190221_182020.jpg

Það voru svo mörg önnur íslensk brugghús á hátíðinni t.d. Smiðjan Brugghús sem kemur hér með sína allra fyrstu bjóra en þeir verða með 6 bjóra í heildina sem þeir hafa aldrei bruggað áður í stóra brugghúsinu.  Í gær voru þeir með 3% session IPA sem var bara alls ekki svo galinn og svo 4.7% Porter sem var virkilega ljúffengur.  Það verður gaman að skoða þetta nýja brugghús næstu daga.  Og Natura var líka á hátíð í fyrsta sinn með eina bjórinn sem þeir gera bláberjabjór sem var bara nokkuð skemmtilegur.  Í kvöld verður það svo vín og á morgun kokteill eða eitthvað slíkt skilst mér.

En nóg þvaður, heilsan er að lagast og tími að fara rúlla á session 2.  Sjáumst

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s