Fyrir mörgum árum gerði ég nautasalat að hætti Godron Ramsay. Reyndar með dálítið öðruvísi dressingu og kryddum en meistarinn. Útkoman var geggjuð. Um helgina ákvað ég að reyna að muna hvernig ég gerði þetta. Útkoman er blanda af Gordon og Freysa sem óhætt er að mæla með. Svakalega var þetta gott og svo er þetta „low carb“ réttur fyrir þá sem eru að eltast við slíkt. Ég ákvað að skrifa þetta hér svo ég myndi ekki gleyma þessu aftur og auðvitað svo þið hin gætuð notið þess. Dressingin er reyndar sú sama og ég hef gert oft með mjúku taco nema með smá hvítlauk aukalega núna.
Það sem þarf í salatið (fyrir ca 4):
- 6 radísur, fínt skornar í sneiðar
- 3 vorlaukar saxaðir
- 3 skalotlaukar skornir í sneiðar
- 15 – 20 kokteiltómatar skornir í tvent
- Hálf gúrka, flysjuð og skorin með ostaskera í þunnar ræmur
- 3 stórar gulrætur, skornar með ostaskera í ræmur
- eitthvað kál, t.d. blandað salat eða álíka eftir smekk
- lúka af ferskri myntu smátt skorið
- Rjómageitaostur, nokkrar matskeiðar
- 250-300 g ungnautafilet, skorið í þunnar sneiðar
- parmesan ostur rifinn mjög smátt
- salt og pipar
Það sem þarf fyrir dressinguna:
- 2.5-3 dL Ólífuolía
- 2.5-3 dL Soya sósa
- safi úr 2 límónum
- 3 mtsk púðursykur
- 1 stór rauður ferskur chilli ávöxtur skorinn í sneiðar
- stór lúka af ferskum kóríander skorinn gróft
- 1 hvítlauksgeiri fínt skorinn
Bjórinn með:
Hér er gaman að prófa og leika sér. Ég gæti séð fyrir mér einhvern nettan súrbjór hér, t.d. Oud Beersel Oude Gueuze já eða bara flottan saison. Ég ákvað hins vegar að prófa New England IPA með þessum rétt af því að ég var bara að drekka slíkan þegar ég var að spá í að gera réttinn. Trillium Vicinity bara til að hafa það með! Vandinn er að hér heima er enn sem komið er erfitt að fá þennan stíl, mjög erfitt reyndar en lítil fluga laumaði að mér um helgina að það stæði mögulega til bóta. Kryddað, mjúkt og mikið rauðvín gengur líka ofsalega vel með þessu en við ræðum það ekki frekar hér.
Aðferðin.
Byrjið á að gera dressinguna klára, skerið svo kjötið í þunnar sneiðar og saltið og piprið eftir smekk og leggið svo í ílát með loki. Hellið dressingu yfir en passið að halda eftir eins og 1 dL. Látið svo standa í ískáp í ca 2 tíma, má alveg vera lengur.
Blandið öllu grænmetinu í skál, hellið dressingu yfir eftir smekk og blandið saman. Færið svo yfir á flott fat eða disk. Steikið kjötið örsnöggt og raðið fallega ofan á salatið. Dreifið geitaostklípum yfir allt og rífið svo parmesan yfir salatið og berið fram. Það er fínt að eiga aðeins eftir af dressingu ef fólk vill bæta enn á salatið.
Pörunin.
Þetta salat er geggjað, hér er maður með mikið af allskonar bragðflækjum sem takast á, chilli-ið rífur dálítið í en mynta, límónusafi og kóríander koma á móti og tóna aðeins niður og mynda nýtt bragð. Rjómakenndi geitaosturinn vinnur einnig skemmtilega með chilli brunanum og myntan blandast svakalega vel við ostinn. Kjötið er ofsalega bragðmikið og mjúkt eitt og sér en með þessu öllu nær það alveg nýjum hæðum og nýtur sín til fulls. Safaríkur New England IPA er mjög flottur hér, beiskjan frá humlunum er frekar látlaus en dregur þó fram chilli bragðið og hitann frá dressingunni, flottir ávaxtatónarnir frá humlunum koma svo með mjög skemmtilega viðbót í þetta allt saman og vinna dálítið á móti beiskjunni en við erum líka með smá beiskju frá radísum og vorlauk sem taka vel á móti bjórnum og í raun draga beiskjuna aðeins meira fram aftur. Kolsýran í bjórnum vinnur svo stórkostlegt verk en hún léttir á þessu öllu saman og hreinsar alla palettuna eftir hvern sopa. Þannig eru bragðlaukar nokkurn veginn núllstilltir fyrir næsta bita. Mjög flókið samspil bragðtóna sem gengur skemmtilega vel upp.
Ég held að amerískur pale ale eða léttur IPA myndi ganga vel líka í stað New England IPA, sérstaklega ef hann er dálítið sætur og ávaxtalegur. T.d Aycayia frá Borg/Cigar City. Double IPA bjórar eru stundum nokkuð sætir og ávaxtalegir, hér gæti Stone Ruination IPA eða To Öl Dangerously Close To Stubit verið skemmtileg pæling lika. Það er bara um að gera að prófa!!!