Vá þetta var langt nafn á færslu, mér fannst bara einhvern veginn ekki „rækjusalat“ koma nægilega vel út. Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta salat sem við Sigrún settum fyrst saman einn daginn í miðjum covid 19 faraldri en þetta er svakalega gott og sumarlegt salat. Þetta salat hefur slegið rækilega í gegn í hvert sinn sem við bjóðum gestum uppá þetta. Lykillinn eru sósurnar sem eru með, sterka flotta sriracha sósan, mín eigin uppfinning kóríander mayoið og svo afsprengi þess, karrí mayoið hennar Yesmine sem varð til þegar við Yesmine elduðum saman og pöruðum íslenskan bjór við indverskan mat.
Þetta er einfalt og fáránlega gott. Er þetta ekki bara dálítið rauði þráðurinn í mínum færslum? Mér finnst ég alltaf segja einfalt og gott en þannig er það bara, oft er flókið bara of flókið og útkoman ekkert endilega þess virði.
Alla vega, hér kemur loks uppskriftin, þökk sé vini mínum Ragnari Frey Ingvarssyni, Lækninum í eldhúsinu en hann óskaði eftir uppskrift eftir að hafa borðað hjá okkur í gær. Þegar Læknirinn í Eldhúsinu vill uppskrift, þá fær hann uppskrift!
Það sem þarf (fyrir 6-8)
- 2 bollar kínóa
- 2 mango ávextir, skornir í bita
- 3 avocado, skorið í bita
- 1 og 1/2 ferskur chili, rauður, sneitt í fína hringi
- 2 öskjur kirsuberjatómatar, skornir í tvent
- 3-4 maískólfar, grillaðir og maískornin skafin af
- heil askja ferskur kóríander, amk 3 dl.
- 1 kg af risarækjum
fyrir marineringuna
- 400 g grísk jógúrt
- 4 tsk sriracha
- 1 mtsk steytt kóríanderfræ
- 4 tsk chilikrydd
- 1 tsk salt
- 1/2 tsk reykt papríka
ATH hér er önnur marinering sem er jafnvel betri. Já maður er að þróa þetta stöðugt.
fyrir kóríander mayo
- 2 dl majones
- 2 hvítlauksgeirar
- ein askja ferskur kóríander
- 1 tsk steytt kóríanderfræ
- ca 2 mtsk mjólk, til að þynna ef þarf
fyrir karrí mayo
- 2 dl majones
- 2 hvítlauskgeirar
- 2 mtsk engiferrót
- 1/2 mtsk kapers
- 2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
- hálfur ferskur rauður chili án fræja
- 1 tsk salt
- 1 og 1/2 mtsk gott karrí krydd
- 1-2 mtsk mango chutney
Aðferð
Marineringin hér er ekkert það eina sem gengur, þetta er bara eitthvað sem ég henti saman eftir að hafa smakkað geggjaða spicy jógúrtssósu sem kom með Eldum Rétt. Ég hafði ekki notað sósuna og ákv að leggja risarækjur í marineringu í henni í staðinn. Þær komu svakalega vel út. Þessi marinering er því bara tilraun mín til að líkja eftir þessari sósu.
Rækjur marineraðar
Hrærið bara saman grískri jógúrt, sriracha (4 tsk), chili kryddi (3-4 tsk) og mörðum kóríanderfræum (1 mtsk). Smakkið til, þetta má rífa vel í. Smá salt og svo setti ég ca 1/2 tsk reykta papríku í þetta.
Veltið svo afþýddum rækjunum uppúr þessu og látið standa í skál meðan annað er græjað.
Sósurnar útbúnar, karrí mayo og kóríander mayo
Setjið allt í skál og maukið með töfrasprota. Ég notaði nutribullet til að mauka þetta. Það er samt hætt við að maukið sé of þykkt fyrir nutribullet og erfitt að ná að mauka allt saman en þá er í lagi að nota smá mjólk til að þynna aðeins svo þetta náist saman. Þið gerið eins fyrir báðar sósurnar. Setjið þetta svo í sprautuflöskur, t.d. frá Pro Gastro!
Ath hér valdi ég að mauka karrí mayoið vel svo ég gæti sett í sprautuflösku því mér finnst svo fallegt að gera fínar sósulínur yfir rækjurnar. Upphaflega útgáfan er hins vegar grófari með litlum engifer, kapers og gúrkubitum. Þetta er útgáfan sem Yesmine kom með upphaflega þegar við elduðum saman indverskt. Þetta karrí mayo er hriiiikalega gott og ég get lofað ykkur að þið eigið eftir að elska þetta. Vá hvað ég er stoltur yfir að hafa orðið kveikjan að þessari sósu en Yesmine sá færsluna mína um kóríander mayoið mitt og fékk þennig hugmyndina af karrí útgáfunni. Þetta á eftir að verða álíka merkileg uppgötvun og penicillinið held ég.
Setjið sósurnar svo bara í ískáp og græjið rest.
Kínóa salatið
Nú er fínt að henda í salatið, byrjið á kínóa.
2 bolli kínóa á móti 4 bollum af vatni. Smá salt. Sett í pott, látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann í lágan hita og látið krauma með lok yfir í 20 mín. Gott að hafa viskastykki yfir pottinum undir lokinu.
Látið maískólfana liggja í vatni í um 15 mín. Þerrið svo og kryddið með salti og pipar. Pennslið maískólfana með miklu af bræddu smjöri. Meira salt yfir og grillið svo.
Skerið niður avocado, mango, rauðan ferskan chili og tómatana. Rífið niður kóríander. Blandið þessu saman við kínóa þegar það hefur kólnað. Skerfið maískornin af grilluðum maískólfunum og blandið við salatið. Nú er allt klárt fyrir rækjurnar.
Hitið grillið og grillið rækjurnar á hvorri hlið, ca 2-3 mín. Smakkið til bara, passið að ofelda ekki. Raðið svo rækjunum yfir salatið og sprautið línum yfir með sriracha, kóríander mayo og karrí mayo. Þetta er gullfallegt, ég gæti kannski kallað þetta grillað risarækju regnbogasalat.
Pörunin
Hér nota ég gott hvítvín eða freyðivín með ögn sætuvotti því þurr freyðivín geta farið illa á móti chilibrunanum í þessu. Þetta er svakalega gott. Bjór gengur líka, ég sé fyrir mér saison eða jafnvel belgískan blond. Öflugur wild ale kæmi líka vel til greina. Svo er ein pörun sem ég veit að kemur svakalega vel út er Sæmundur frá Borg en um er að ræða pale ale sem pakkaður er með mango. Hér er tengingin við salatið augljós! Þetta hlakka ég til að prófa næst.
You must be logged in to post a comment.