Eðal chilli nautahakk á kálbeði með góðum lager

Ok þetta er eitt af því fyrsta sem ég prófaði frá Gordon Ramsay fyrir mörgum árum síðan.  Það er til nautahakk og svo er til nautahakk sem búið er að lyfta upp á annað plan.  Þetta er geggjað gott og fáránlega einfalt að gera og svo er þetta lág kolvetna! Hollur og ljúfur götumatur ef svo má segja.  Sósan sem er í þessu er eitthvað sem ég nota reyndar oft á ýmislegt, t.d. til að marinera naut ofl.   Ég hef undanfarið verið að skoða lager stílinn og reynt að endurvekja áhuga minn á þessum bjórstíl.  Mig vantaði því einhvern rétt sem væri hægt að para vel við.

Það sem þarf í þetta (ca fyrir 4):

  • 800g nautahakk
  • 500-800g svínahakk
  • 2-3 msk ólífuolía til steikingar
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 tsk sesam olía
  • 1-2 ferskur chilli, rauður og smátt skorinn
  • 3 hvítlauksgeirar, skornir í smátt
  • ca 3 msk smátt skorin fersk engiferrót
  • 5 msk smátt skorinn vorlaukur
  • 1,5 msk púðursykur
  • sletta af fiskisósu
  • 1 límóna, rifinn börkur og safi
  • Stökkt sallat sem myndar bolla eða litlar skálar.  Finnið bara eitthvað sem hentar

Fyrir sósuna (þetta er svona ca, maður smakkar bara til):

  • 2 msk púðursykur
  • 5-6 msk soya sósa (kikkoman)
  • 1 msk sesam ólía
  • 2-3 msk ólifuolía
  • 1 tsk fiskisósa
  • 2 límónur, safinn
  • 1 ferskur rauður chilli, skorinn í sneiðar
  • góð lúka af kóríander, gróft skorinn

Bjórinn:

  • Einhver flottur lager, hér kemur margt til greina, ljós premium eða pilsnerSchwarzbier eða bock er jafnvel enn betra!


Aðferðin

Það er gaman að gera þennan rétt því útkoman er svo flott og fólk sem smakkar þetta heldur að maður hafi staðið sveittur í eldhúsinu.  Byrjum á að salta og pipra kjötuð áður en það er steikt.  Svo kemur mikilvægi hlutinn, að steikja kjötið þannig að það verði stökkt en ekki sjóða það á pönnunni.

Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið vel, myljið svo nautahakk og svínahakkið á pönnuna og notið tréskeið til að mylja þetta á pönnunni.   Veltið þessu reglulega til og frá svo brenni ekki.  Stundum er eins og það myndist slatti af vökva við steikinguna og þá byrjar kjötið að sjóða, við viljum það ekki, við viljum heyra snarkið á pönnunni.  Ég hef stundum bara hellt þessum vökva af og haldið áfram að steikja.   Þegar kjötið er orðið fallega brúnt og brennt á stöku stað er það sett í sigti og látið standa þannig.  Hér lekur vökvi og fita af kjötinu.

Svo er það að þerra pönnuna, ekki þvo hana.  ca 1 tsk sesam olía á pönnuna og hitið pönnuna á meðal hita eða svo.   Skerið niður 1 – 2 chilli, 2-3 hvítlauksgeira og svo ferska engiferrót þannig að þið endið með um 3-4 msk.  Þetta er reyndar allt eftir smekk bara.  Skellið þessu á pönnuna, ca 1,5 msk púðursykur yfir og steikið aðeins.  Sykurinn skapar smá karmelliseringu.  Lyktin á þessu stigi er geggjuð.

Bætið svo kjötinu á pönnuna og steikið áfram og blandið öllu saman.  Rífið svo límónubörk yfir, þetta lyftir upp kjötinu og gerir þetta ofsalega djúsí.   Svo kreistið þið safa úr 1-2 límónum yfir til að skapa smá sýrujafnvægi.  Smakkið á þessu núna, þetta er geggjað.   Skerið svo vorlauk í smátt og bætið saman við síðustu 30 sek.   Færið allt saman yfir á disk eða skál sem þið berið þetta fram í.

Svo er það sósan.  Hér hef ég bara slumpað í þetta og smakkað til.    Náið í skál, setjið 2 msk púðursykur, hellið 5-6 msk soya yfir og hrærið aðeins saman.  Svo er það ólifuolían og sesam olían, 1 tsk fiskisósa og safi úr amk 2 límónum.  Hrærið öllu saman og bætið svo chilli skífunum og kóríander út í.  Ef ykkur finnst vanta meira lime eða soya þá bara bætið þið við.  Sósan á samt að vera bragðmikil og rífa ögn í.  Best er að setja þetta svo í gallega skál með skeið og bera þannig fram. 

Rétturinn er þannig að maður fyllir sjálfur kjötið í kálblaðið og setur svo sósuna yfir.  Þetta er puttamatur og svolítið messí þannig að hafið endilega þurrkur við höndina.  Við höfum stundum með þessu líka sriracha majo (majones blandað með sriracha sósu eftir smekk).

IMG_8314-01.jpeg

Pörunin

Þessi réttur er með dálitlum hita frá chilliinu og svo mikið salt einnig en fersk límónan léttir aðeins á þessu öllu og opnar upp. Svínakjötið gefur einnig nokkuð feita djúsí áferð en kjötið er þó þægilega stökkt og skemmtilegt og svo er sallatblaðið líka stökkt.  Hér þarf bjór sem ræður við þetta allt án þess að það skemmi bjórinn eða áferðina á réttinum.  IPA magnar upp salt og chilli hitann og gæti verið allt of mikið hér.  Lagerinn er hins vegar fullkominn, hann er léttur og nettur með sætum undirtón frá maltinu en er þó þægilega beiskur og krispí til að tækla hitann og seltuna.  Lager er líka nokkuð kolsýrður en búblurnar vinna frábært verk við að hreinsa gómboga milli bita og létta á öllu saman.   Við vorum hér með nýja lagerinn frá Borg og Fræbbblunum, Bjór NR. C18 sem passaði fullkomlega með þessu.  Þessi bjór er meira humlaður en klassískur pilsner en það gefur bjórnum meiri beiskju og ávaxtablæ frá humlunum en humlarnir virka hér eins og enn eitt kryddið á kjötið og eins og ég segi alltaf, humlar og kóríander eru töfrandi blanda, það gerist bara eitthvað svo magnað þegar þetta kemur saman!