Kjúklingur er ágætt hráefni og það er sannarlega hægt nota hann í stórkostlega rétti. Þessi réttur er svo magnaður að ég er sannfærður um að þetta verði besti kjúklingaréttur sem þú munt smakka á þessu ári. Ég elska að djúpsteikja allan andskotan, þegar ég sá nafna minn Ragnar Frey (Læknirinn í Eldhúsinu) gera þetta einhvern tíman á instagram þá varð ég bara að prófa. Eða í raun var það Sigrún mín sem eldaði og þetta var alveg magnað. Krakkarnir okkar elska þetta en þau kalla þennan rétt rauða kjúllann.
Sigrún hefur eldað þetta nokkrum sinnum en nú langaði mig að prófa. Uppskriftin er á síðunni hans Ragnars en fyrir mig sem þarf að hafa allt mjög skipulagt og einfalt uppsett þá fannst mér dálítið erfitt að lesa mig í gegnum hana. Ég ákvað því að skrifa þetta upp til að auðvelda mér verkið næst þegar ég elda þetta því það verður svo sannarlega gert oft, krakkarnir einfaldlega krefjast þess.
Ég er svo aukalega með döðlu raita og saffran hrísgrjón sem passa svakalega vel með!
Það sem þarf fyrir 6
Fyrir marineringu
- 1.4 kg Kjúklingalæri úrbeinuð (tveir bakkar)
- 1 dós grísk jógúrt (350ml)
- 2 sítrónur, safinn
- 2 egg
- 3 mtsk túrmerik
- 3 mtsk garan masala
- 3 mtsk paprikuduft
- 2 mtsk chiliduft
- 1/2 – 1 mtsk chiliflögur, fer eftir hversu sterkar þær eru
- 2 mtsk svartur pipar
- 1 bolli maísmjöl
- 3 mtsk engifermauk
- 3 mtsk hvítlauksmauk
- 50 mll rauðrófusafi
- salt
- 2-2,5 L djúpsteikingarolía
Fyrir sósuna
- 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
- 50 ml rauðrófusafi
- 5 mtsk tómatsósa
- 2 mtsk sæt chilisósa
- 2 mtsk sriracha sósa
- salt og pipar eftir smekk
- 1 grænn chili, skorinn fínt
- 10-15 karrílauf, má sleppa, nota þá ca tsk karrí í staðinn
- 1 mtsk engifermauk
- 1 mtsk hvítlauksmauk
Döðlu raita
- 1 dós grísk jógúrt
- 1/2 búnt kóríander, saxað
- 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 15-20 steinlausar döðlur, skorið smátt
- salt
Allt hrært saman í skál
Saffran Hrísgrjón
- 5 dl basmati hrísgrjón
- 1 L vatn
- 1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
- 1/2 – 1 tsk saffran þræðir
- 1/2 sítróna, bæði hýði og safi
- 1 tsk salt
- 2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Aðferð
Marinering
Byrjið á að skera kjúklingalærin í hæfilega bita. Ég fékk 4 bita úr hverju læri t.d. Finnið til stóra skál og setjið kjúklinginn í hana. Þvínæst er öllum kryddunum, jógúrti, sítrónusafa, rauðrófusafa, eggjum og öllu því sem ég er líklega að gleyma að telja upp, bætt í skálina. Svo er bara að hnoða þetta eða blanda vel saman með höndunum. Látið standa í 2-3 klst eða lengur.

Sósan
Takið til skál, hrærið saman 1 dós af grískri jógúrt, 50 ml rauðrófusafa, 5 mtsk tómatsósu, 2 mtsk sæta chilisósu, 2 mtsk sriracha, salt og pipar eftir smekk. Skerið chili smátt, hitið olíu á pönnu og steikið svo aðeins chili, engifermauk, hvítlauksmauk og karrí. Hellið svo sósunni út á pönnuna og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Sósan er þá í raun tilbúin en svo er þetta hitað upp með kjúklingnum á eftir.
Hrísgrjónin
Gott er að koma hrísgrjónunum af stað áður en byrjað er að djúpsteikja. Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Djúpsteikingin
Notið djúpsteikingarpott ef þið eigið. Hitið um 2 L olíu upp í 170 – 180 gráður. Djúpsteikið svo kjúklinginn í ca 4 mínútur. Kannið hvort þetta sé eldað í gegn, ef ekki þá bætið þið við mínútu ef þarf. Látið svo standa á ofngrind og kólna. Hér er fínt að henda í raita en það er alveg ómissandi með. Þetta mun slá í gegn við matarborðið. Skerið dölurnar og kóríander smátt og hrærið svo bara öllu saman í skál. Smakkið til með salti.
Naan brauð
Það verður að vera naan með til að þurrka upp þessa geggjuðu sósu. Við höfum gert ýmsar útgáfur, en Sigrún mín hefur verið dugleg að prófa sig áfram. Ég held samt að hveitikökuuppskriftin mín (tortilla) komi best út með þessu. Mótið hvert naan að vild en hafið kannski deigið aðeins þykkara en þegar gert er tortilla. Staflið naan brauðunum upp og pakkið inn í álpappír.
Þegar allt er klárt þá setjið þið kjúklingabitana út í sósuna og veltið vel saman þannig að bitarnir hjúpist alveg. Hitið aðeins upp þessa blöndu en ekki sjóða eða steikja. Skreytið með ferskum kóríander og berið fram.
Þetta er dálítið sterkt en alls ekkert sem rífur of mikið í. Mér finnst best að para indverskt með flottum premium lager, amk þennan rétt hér. Sætan í lagernum dempar dálítið brunann frá chili-inu, kolsýran og létt beiskjan opna upp sósurnar og létta á öllu. IPA gengur líka en þá þarf maður að vera tilbúinn í að bruninn í matnum verði meira áberandi.

You must be logged in to post a comment.