Djúpsteikt Maísrif með chipotle majo

Þetta er skemmtilegur biti sem Björk og Maggi í næsta húsi gáfu okkur að smakka um daginn. Algerlega frábært nasl t.d. fyrir matinn eða bara eitt og sér yfir leiknum. Mér finnst líka gaman hversu framandi og óvenjulegt þetta lítur út á diskinum, manni gæti dottið í hug kolkrabbi eða álíka.

Það sem þarf

  • 4 maískólfar skornir til helminga svo aftur í fernt eftir endilöngu
  • Olía til djúpsteikingar
  • Ca 1 mtsk chilliduft
  • ca 1 mtsk hvítlauksduft
  • Hálf til ein mtsk reykt papríka
  • Salt og pipar
  • Nokkrar límónur
  • 1 bolli majones
  • 1-1,5 tsk chipotle paste
  • Límónusafi
  • salt og pipar

Aðferð

Notaðu beittan hníf annars er hætt á því að missa nokkra putta. Skerðu hvern maískólf til helminga, svo stillirðu helmingunum upp á rönd og skerð niður til helminga endilangt og svo aftur til helminga endilangt þannig að þú endar með 4 rif úr hverjum hálfum maískólfi. Sem sagt úr einum maískólfi færðu 8 rif.

Gerðu kryddblönduna, chilliduft ca matskeið, hvítlauksduft ca matskeið og svo reykt papríka. Líklega er hálf matskeið nóg. Smá salt og pipar, þetta er dálítið slump. Smakkaðu þig aðeins áfram.

Djúpsteiktu rifin við um 170 gráður í 7-8 mínútur. Takktu rifin uppúr olíunni og veltu þeim uppúr kryddblöndunni. Kreistu svo límónusafa yfir rifin.

Svo er það 1 bolli majones í skál, hrærðu saman við 1 til 1,5 tsk chipotle paste, kreistu smá límónusafa saman við eftir smekk. Smakkaðu þig svo til með salti og pipar.

Berðu fram með límónubátum.

Færðu inn athugasemd