Hátíðar Humarsúpa

Við erum alltaf í vandræðum með hvað við viljum hafa í matinn á jóladag. Það er einhvern veginn allt orðið þreytt og maður er eiginlega að springa. Þetta árið ákváðum við að gera humarsúpu og gera hana frá grunni. Við höfum ekki gert það sjálf áður en útkoman var hrikalega góð. Svo góð reyndar að nú er komin ný hefð hér á bæ, jóladags humarsúpan.

Við vorum mest megnis með lítinn humar í súpuna ásamt nokkrum stórum hölum ofan á. Við vorum sammála um að næst myndum við sleppa litu körlunum og nota bara stóran humar og þá hafa minna af honum. Það er miklu betra!

Það sem þarf (fyrir 4-5):

  • Humar í skel, stór, því stærri því betra. Slepptu litla súpu humarnum. Magn fer eftir smekk bara, 700 g er fínt t.d
  • Smjör, 50g
  • Ólifuolía
  • Rauð paprika, 1 stk skorin smátt
  • Gulur laukur, 1 stk, skorinn smátt
  • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
  • Gulrætur, 2-3 stk skornar í litlar sneiðar
  • Hvítlaukur, 2-3 geirar
  • Tómat purré, 2 mtsk
  • Cayenne pipar, 1 tsk
  • Hvítvín 0,5 dl
  • Kókósmjólk, þykka gumsið efst/rjóminn, ca hálf dós.
  • Rjómi, 500 ml + þeyttur rjómi, 1 peli
  • Philadelfia rjómaostur, 200 g
  • Humarsoð (sjá að neðan)

Fyrir soðið:

  • Humarskeljar af 700g humar
  • Smjör, 50g
  • Ólifuolíu
  • Gulur laukur, 1 stk skorið gróft
  • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
  • Gulrætur, 4 litlar skornar í litla bita
  • Hvítlauksgeirar, 3-4 skornir smátt
  • Fennel fræ, 2 tsk
  • Cayenne pipar, 1 tsk
  • Vatn, 2L
  • Hvítvín, 1,5-2 dl
  • Humarkraftur, 4 mtsk
  • Salt og pipar

Aðferðin

Svona gerðum við þetta. Byrjuðum á að afþýða humar yfir nótt. Skelflettum og hreinsuðum garnir úr. Svo er það smjör (50g) í stóran pott, ólifuolía og humarskeljarnar (af ca 700g humarhölum), 2 tsk fennelfræ og 1 tsk Cayenne pipar. Við brúnuðum skeljarnar í smá stund svona. Bættum svo útí skornum lauk (1 stk), blaðlauk skorinn í sneiðar (1 stk), smátt skornum gulrótum (4 stk) og hvítlauksgeirunum (3-4 stk).

Létum þetta mýkjast á rúmlega meðalhita. Svo bættum við ca 2 dl hvítvíni samanvið og fljótandi humarkrafti (4 mtsk) og létum aðeins sjóða niður. Lyktin á þessu stigi lofar svo sannarlega góðu. Loks bættum við 2 L vatni samanvið og náðum upp suðunni. Við létum þetta svo malla í líklega 3 tíma á lágum hita undir loki. Það má vel láta þetta malla lengur svo sem, þá verður soðið bara sterkara. Við sigtuðum svo soðið frá grænmetinu og lögðum til hliðar. Smakkið soðið til með salti og pipar.

Þá er það súpan sjálf. Þetta er mikið til sama innihald og í soðinu. Skárum niður 1 rauða papriku, 1 gulan lauk, 1 blaðlauk og ca 3 gulrætur. Mýktum þetta í potti í olíu og 50g smjöri ásamt Cayenne pipar (1 tsk). Bættum svo um hálfum dl hvítvíni samanvið. Þegar þetta er orðið mjúkt þá bættum við tómatpúrruni (2 mtsk) saman við og blönduðum vel. Settum þetta svo í blandara sem þolir hita (t.d. Vitamix) ásamt ca dl af soðinu og hvítlauksgeirum og maukuðum þetta vel þar til engar agnir voru sjáanlegar.

Settum svo maukið aftur í pottinn, bættum saman við soðinu og rjómaostinum (200 g) og hrærðum vel saman og náðum upp suðu. Bragðbætt með salti og pipar og jafnvel humarkrafti ef ykkur finnst vanta bragð. Þetta var mjög bragðmikið hjá okkur á þessu stigi. Þegar þetta var búið að malla dálítið bættum við 500 ml rjóma og svo kókosmjólk eftir smekk. Við notuðum í raun kókosrjómann sem er efst í dósinni og smökkuðum til. Þetta var ca hálf dós.

Svo er það humarinn (skelflettur). Ég steikti hann uppúr slatta af smjöri, pressuðum hvítlauk (3 geirar) og smá þurrkaðri steinselju (átti ekki til ferska). Mjög basic, bara passa að steikja þá frekar of lítið en hitt, súpan klárar svo verkið. Ef þið eruð með litla súpu humarhala þá skolið þið þá bara, þerrið og bætið þeim útí súpuna um leið og hún er borin fram. Þeir sjóða strax þar. Stóru humarhalana settum við ofan á súpuna þegar súpan var komin í skálarnar ásamt þeyttum rjóma.

Pörunin

Það þarf ekkert að para neitt við þetta en það er skemmtilegra, það var hátíð í bæ hjá okkur og við áttum flotta flösku af Dom Perignon kampavíni sem paraðist stórkostlega við súpuna. Gott hvítvín, þurr saison eða belgiskur tripel myndu eiga svakalega vel við líka.

Sigrún gerir ofsalega góðar brauðbollur og við ákváðum að hafa þær með súpunni, nýbakaðar og lungnamjúkar með smjöri. Frábær veilsa. Njótið.

Njótið

Djúpsteiktir brie-ostabitar með ferskju mauki og krydduðum saison.

Okkur Sigrúnu var boðið í mat fyrir nokkru síðan til vina okkar Hafdísi og Magga sem töfruðu fram dásamlega veislu bæði fyrir bragðlauka og augað. Í forrétt voru þau með djúpsteiktan brie ost með heimagerðu ferskju chutney og svo auðvitað borið fram með mjög vel völdum saison. Maggi og Hafdís voru með Leif frá Borg þetta kvöld, hann alveg small við þetta.

Við vorum að fá okkur djúpsteikingarpott í dag og ég ákvað því að vígja hann með því að taka Magga og Hafdísi á þetta og henda í þessa uppskrift. Ég veit í raun ekkert hvaðan hún er komin ég ég fékk hana beint frá Magga. Mig langaði svo að prófa annan mjög flottan saison með að þessu sinni, Skaða frá Ölvisholt brugghús en þessi saison er virkilega fínn, hann er nokkuð beiskari og þróttmeiri en Leifur og þolir þannig öflugari rétti.

Það sem þið þurfið í þetta (sem forréttur fyrir 4):

  • 2 brie ostahringir, skorið í 1/8 bita
  • 3 egg, pískuð
  • 2 bolllar hveiti
  • 2 bollar panko brauðrasp
  • 2 msk ferskt rósmarín fínt saxað
  • um 2,5 L djúpsteikingarolía (fer eftir potti)
  • Saison bjór, t.d. Leifur frá Borg eða Skaði frá Ölvisholti

fyrir ferskju maukið

  • 1 dós niðursoðnar ferskjur, 470 g (þetta er vel ríflegt)
  • 2 msk epla edik eða hvítvíns edik
  • 2 msk sykur
  • 1 tsk kúmen fræ
  • 1 msk sinnep

20190406_182955-01579846776.jpeg

Aðferð

  1. Skerið brie ostinn í 8 bita, setjið hveti í skál, 3 egg í aðra skál og pískið til og í 3. skálina setjið þið 2 bolla panko brauðrasp. Skerið rósmarín smátt og hrærið saman við brauðraspið. Allt í lagi að pipra dálítið líka.
    .
  2. veltið svo ostabitunum upp úr hveiti, dustið létt, svo veltið þið uppúr eggjunum og loks hyljið þið hvern bita vel með brauðraspinu og látið svo standa á grind. Gerið þetta við alla bitana. Svo kemur hér smá trikk, skv uppskrift er þetta svona en þegar ég gerði þetta fyrst fyrir nokkrum vikum síðan þá láku margir bitarnir í steikingunni og voru bara tómir þegar kom að því að borða þá. Ég prófaði núna að heylja þá með tvöföldu lagi núna og þá lak ekki einn einasti. Sem sagt hver biti fer seinni umferð í gegnum hveiti, egg og loks aftur brauðrasp.
    .
  3. Látið standa í kæli í 10 mín.
    .
  4. Hellið olíu í pott, best að hafa djúpsteikingarpott sem heldur hitastiginu jöfnu en venjulegur pottur gengur alveg en þá þarf hitamæli. Hitinn á að vera svona 170 gráður.
    .
  5. Þegar olían er orðin heit steikið þið 3-4 bita í senn í um 4-5 mín eða þar til orðið fallega gullbrúnt að lit. Leggið svo til hliðar á grind.
    .
  6. Það er gott að byrja á ferskju maukinu á meðan osturinn kólnar í kælinum og olian er að hitna. Sem sagt eftir skref 3 hér að ofan. Allt sett í lítinn pott, 1 dós af ferskjum (safinn með), 2 msk epla edik, 2 msk sykur, 1 tsk kúmen og 1 msk sinnep. Látið suðu koma upp og maukið ferskjurnar, lækkið svo hitann og hrærið vel saman reglulega. Látið malla þar til þetta er orðið maukað og þykkt eins og marmelaði.

Pörunin

IMG_8641

Berið þetta fram sem forrétt eða sem snarl á síðkvöldi með góðum bjór. Fínt að bera þetta fljótlega fram eftir að steikingu er lokið, þ.e.a.s þannig að osturinn sé enn bráðinn að innan. Þá er þetta dásamlega stökkt að utan og svo vellur mjúkur osturinn út þegar maður opnar þetta. Ferskju maukið gefur þessu skemmtilegan blæ, það er sæta frá ferskjunum en sýran jafnar þetta út og svo er kúmen keimurinn áberandi og spennandi. Þetta breytir alveg ostabitunum og tvinnar allt saman í flotta heild. Saison er mildur oftast en þó nægilega þróttmikill til að ráða við þetta. Það er nokkuð sæta í bjórnum sem vinnur vel með ferskju maukinu en svo gefur gerið af sér ögn jörð og sveit sem á svo vel við brie osta. Þetta gerir mjög áhugaverða blöndu, sérstaklega þegar kúmenið frá maukinu kemur saman við þetta. Frábær tenging. Loks er Skaði þægilega beittur með brakandi humlum sem eru svo mikilvægir í svona mat þar sem mikið er um fitu. Beiskjan klippir á fituna og gerir allt aðgengilegra, humlabitið tengir líka vel við stökku áferðina utna um ostabitana.

Þetta var virkilega flott pörun, og steikingarpotturinn svínvirkaði. Ég hef hingað til verið að gera þetta í venjulegum potti en þá hefur verið vesin að ná matnum uppúr og hitinn sveiflast mikið og ég hef lent í að steikja of mikið og mikil bræla. Í kvöld var þetta bara ekkert vandamál, nánast engin bræla og hver biti gullfallegur og fullkomlega djúpsteiktur. Mæli með þessu.

Hvað er saison?

Saison er orðinn mjög vinsæll á Íslandi enda stórskemmtilegur bjór sem er „örðuvísi“ ef maður miðar við lagerinn en ekki sérlega krefjandi stíll. Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið. Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af. Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5% án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann. Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.

Stilton brokkoli súpa með dásamlegum sveitabjór sem breytir öllu

Stundum fæ ég svona „craving“ í eitthvað ákveðið, nú er það góð súpa. Líklega áhrif frá ferðafélaga mínum Viktori í San Diego í síðustu viku en Viktor var alla ferðina að leita eftir góðri súpu á þeim stöðum sem við tilltum okkur á.  Ég rak svo augun í þessa um daginn þegar ég var að skrattast á Fésinu, Stilton brokkoli súpa frá Nigellu Lawson sem alltaf er í miklu uppáhaldi hjá mér…..já og hún eldar líka frábærlega.  Það sem greip mig var líklega orðið „Stilton“ og svo þessi dásamlega fallega græni litur.   Ég elska osta og Stilton ostur er bara ofsalega ljúfur.  Þessi blanda hljómaði bara skemmtilega og er einföld.   Súpan tókst vel hjá mér og það sem meira er, yngsta barnið borðaði tvær skálar og sá elsti eina.  Frábær leið til að lauma brokkolí í þessi börn.

Það sem þarf (fyrir 4):

  • 1 kg Brokkoli, frosið er betra (skv Nigella)
  • 6 Vorlaukar skornir fínt
  • 3 mtsk Olífuolía með hvítlauk
  • 1250ml heitur grænmetiskraftur, ég notaði 3 teninga.
  • 2 tsk þurrkað Timian
  • 200g Stilton ostur, mulinn
  • svartur pipar, mulinn
  • Ferskur cilli pipar ef vill

Bjórinn með: Hér er alveg rakið að fara í belgískan Saison. Súpan er þykk, matarmikil og þekur dálítið góminn.  Við erum með jarðartóna í súpunni, timian, vorlauk og brokkoli sem parast afskaplega vel með jörðinni frá belgíska gerinu í bjórnum.  Saison er gosríkur bjór en gosið skefur skánina af gómnum og opnar allt upp fyrir næstu skeið og léttir á.  Einnig er örlítil beiskja í bjórnum sem hjálpar til auk þess sker hún fituna frá ostinum upp.  SKAÐI frá Ölvisholti er frábært dæmi um Saison og gekk mjög vel hér.

Aðferðin
Einfalt er lykillinn, ég var samt furðu lengi að þessu.  Skerið 2 hvítlaukrif í smátt og blandið við ólifuolíuna.  Setjið í stóran pott og hitið aðeins og bætið svo vorlauknum út í og látið malla í 2-3 mín.

Bætið svo frosnu brokkoli út í og Timian og veltið um í 2 mín.  Því næst brjótið þið ostinn ofan í og hellið grænmetiskraftinum yfir.

Látið suðu koma upp, lok yfir og látið malla í 5 mín.  Svo þarf að smella þessu í blandara eða nota töfrasprota ef það er til og mauka þetta vel.  Við viljum þykka mjúka áferð, enga ostabita eða brokkoli.  Smakkið til með möluðum pipar.

Setjið í skálar og skreytið með fíntskornum rauðum chilli pipar ef svo ber undir.

Saison/Farmhouse Ale eða Sveitabjór

Saison er orðinn mjög vinsæll á Íslandi enda stórskemmtilegur bjór sem er „öðruvísi“ ef maður miðar við lagerinn en ekki sérlega krefjandi stíll.  Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins og svo geymdur fram á sumar. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið.  Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af.  Saison stíllinn eins og menn túlka hann í dag er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum eða um 5-6.5%  án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann.  Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.

Pörunin
Súpan er bragðmikil þar sem timian og osturinn eru áberandi.  Vorlaukurinn kemur einnig aðeins í gegn með beiskju og smá bit.  Þetta er þykk og mikil súpa sem þekur vel góm og tungu.  Hér þarf bjór sem er tilbúinn í að takast á við þessar bragðflækjur en vera léttur og frískandi og opna upp réttinn.  Saison er frábær í þetta því belgíska gerið (hér franskt ger) á mjög vel við jarðartóna sem við fáum frá kryddunum í súpunni.  Kolsýran í bjórnum skefur einnig skánina af gómnum og léttir á öllu, humlarnir með sína beiskju vinna einnig vel á feitri áferðinni og opna upp.  Svo er bjórinn nokkuð sætur en það passar vel á móti söltum ostinum og beiskjunni frá vorlauknum.   Ef maður notar svo chilli þá hjálpar beiskjan til að draga aðeins fram brunann frá piparnum.   Frábær pörun í alla staði.

Skaði sem upphaflega var Oktoberfestbjór frá Ölvisholti fæst nú allan ársins hring. Bjórinn er gerjaður með frönsku geri sem samkvæmt lýsingu bruggmeistarans gefur af sér þurran bjór með miklum esterum, kryddi og sítrusangann.  Þrátt fyrir frönsku tenginuna ætti ekki að rugla bjórnum við frönsku útgáfuna af sveitabjór, Biére de Garde sem er gjarnan mýkri, sætari og á meiri malt nótum.  Ölvisholt notar að hluta til maltaðan rúg í bjórinn sinn en það styður vel við kryddkarakterinn í stílnum og gefur notalega fyllingu í bjórinn.  Rúsínan í pylsuendanum eða botnfallið í bjórglasinu kannski eru svo hvannarfræin en bruggmeistarar Ölvisholts bættu við þurrkuðum alíslenskum Ölvisholts hvannarfræum á þroskunarstiginu til að gæða bjórinn íslenskum eiginleikum.

Í glasi er hann fallegur með karamellubrúnum blæ og  léttan froðuhaus.   Í nefi er sterkur keimur þar sem saman kemur ger, ávextir og krydd.  Í munni er hann áberandi gosríkur og léttur en þó bragðmikill og með dálitlum flækjum.  Saison yfirbragðið er greinilegt, beiskja er vel merkjanleg og áberandi kryddaðir tónar skapa flotta kontrasta og svo kemur hvönnin lúmskt fram í bakgrunni.  Skemmtilegur bjór sem smellpassar við Ölvisholt brugghús sem vissulega er sveitabrugghús.

Bao brauð með djúpsteiktum portobello og ferskur IPA með

Það hefur ekki farið framhjá lesendum að við höfum verið að rannsaka dálítið gufusoðna Bao brauðið síðustu daga.  Hér er fylling sem mig langaði að prófa eftir að ég smakkaði portobello fyllinguna á Skúla Bao Bun.  Djúpsteiktir portobello sveppir með súrum gúrkum, kóríander og spicy majo, þetta var svo sem ekki alveg eins og hjá Skúla en var alveg svakalega gott.

Það sem þarf fyrir soðbrauðin finnið þið hér, ásamt aðferðinni.

ÞAÐ SEM ÞIÐ ÞURFIÐ (fyrir portobello fyllingu):

Portobello sveppir, 2-3 hattar

½ bolli hveiti (ca 120ml)

1 og ½ bolli brauðrasp (um 350ml)

¼ bolli (60ml) fínt rifinn parmegano ostur, má alveg vera ódýrari þurr ostur

2 mtsk ferskl steinselja skorin fínt

½ tsk þurkaður chilli pipar (flögur)

Salt og malaður svartur pipar

3 egg, pískuð létt

AÐFERÐ:
Takið sveppina, dustið mold af og fjarlægið stilkana og fjarlægið fanirnar („tálknin“ undir sveppnum) og snyrtið kanta.  Skerið svo hattinn í ræmur, ca 1 cm breiðar.  Setjið eggin í skálina og pískið létt, hveitið í aðra skál og í þá þriðju setjið þið kryddin, raspið og rifna ostinn.   Hitið olíuna í potti þar til að þið sjáið að hún er oriðin vel heit eða (ca 170 gráður).   Takið svo sveppina, veltið fyrst uppúr hveiti, svo eggjum og loks kryddblöndunni.  Setjið svo varlega ofan í pottinn og látið krauma þar til orðið vel krispí og fallega gullbrún.  Látið svo drjúpa af þeim á eldhúsbréfi.  Smakkið svo bara til, ef ykkur finnst sveppirnir ekki alveg tilbúnir innst þá má alveg lauma þessu í ofn aðeins.

Svo klippið þið niður kóríander, ekki nota stilkana.  Hrærið saman majonesi og sriracha sósu og smakkið til eftir smekk.  Það er líka mjög flott að nota bara sriracha óblandaða.  Raðið þessu svo öllu í Bao brauðin þegar þau eru tilbúin, ekki gleyma súru gúrkunum og berið svo strax fram á meðan brauðið er volgt. Steiktur laukur er pottþétt gott líka með þessu.

IMG_6550
Fallegast og skemmtilegast er að gufusjóða og bera fram í bambus gufugrindinni ef hægt er

BJÓRINN:
Saison er snilld hér, jörðin í bjórnum gengur vel við jarðbundna sveppina og svo koma þessi belgísku krydd mjög vel út með kóríandernum.  Sýran í gúrkunum blandast við léttu sýrðu tónana í bjórnum og svo kemur sætan frá bjórnum og gerinu mjög vel á móti chilli sósunni.  Það fer auðvitað eftir bjórnum en flestir saison bjórar eru léttir og frískandi og halda vel velli þrátt fyrir sriracha sósuna og sérstaklega ef menn fara bara í spicy-mayo sem er auðvitað ekki eins sterk.  Bjórinn léttir stemninguna þannig að rétturinn verður ekki of þungur í maga. Dæmi um saison hér heima er t.d. SKAÐI frá Ölvisholti ef hann fæst þá enn? SAISON DUPONT sem er eiginlega konungurinn í saison fjölskyldunni og svo er LEIFUR frá borg nokkurs konar saison, hann er hins vegar kryddaður með blóðbergi og beitilyngi sem gefa alveg nýtt bragð með þessum rétti.

Ég valdi hins vegar ÚLF frá Borg með þessu, minn uppáhalds íslenski bjór um þessar mundir, sérstaklega eftir breytingarnar.  Úlfur er IPA sem gengur gríðarlega vel með þessu, bjórinn hefur beiskjuna og snerpuna sem þarf eiginlega á móti svona djúpsteiktum mat sem er jú dálítið mikið löðrandi í fitu, beiskjan gerir áferðina beittari og dregur úr þunganum frá fitunni.  Svo koma sýrurnar í humlunum með alls konar sítrus og blóm sem algjörlega knúsa kóríanderinn og gera hann ofsalega skemmtilegan. Súru gúrkurnar eru einnig flottar með humlunum og svo eins og svo oft hefur komið fram þá magnar beiskjan alltaf aðeins brunann í chilli-inu en þessi áhrif eru mest í upphafi bara.  Fyrir okkur hér þá er beittur ferskur IPA einmitt það sem þarf til að einhvern veginn gera alla máltíðina léttari og þægilegri og skapar pláss fyrir fleiri soðbrauð hvort sem það er jákvætt eða ekki.  Þetta combo var alveg svakalega ljúffengt.  Auðvitað kona fleiri IPA til greina, ss GOTO frá Stone, STONE IPA, TUMI HUMALL frá Gæðingi ofl. Þið getið einfaldlega prófað þetta sjálf heima eða rölt niður á Skúla Craft bar og prófað!

 

Þurrkryddað íslenskt lambalæri með Leffe Blond!


RÉTTUR: Þurrkryddað íslenskt lambalæri að hætti mömmu.  Bakað í ofni í 4 tíma.  Meðlæti, gular og grænar baunir, brúnaðar kartöflur, rauðkál og svo rabbabarasulta.  Sósan er lykilatriði, rjómalöguð sveppasósa með villisveppaosti og soði a

BJÓRINN: Lambið er dásamlegt kjöt uppfullt af „jörð“ og villigrösum enda er lambið alið á því nánast allt árið í íslenskri náttúru.  Bjórinn með þarf að vera mildur en þó með persónuleika og tengja við jörðina.  Belgískur bjór eins og saisonog blond eru fínir í þetta hlutverk, engir humlar eða beiskja að ráði heldur afgerandi gerkeimur, krydd og ávaxtatónar.  LEFFE BLOND er mjög flott pörun hér en saison eins og SKAÐI frá Ölvisholti og ég tala nú ekki um LEIF frá Borg ef maður er t.d. með blóðberg í kryddinu ganga líka vel.


Hér erum við með algjöran klassíker, okkar ástkæra lambalæri með rauðkáli, grænum og gulum baunum, rabbabarasultu og rjómalagaðri sveppasósu.  Íslenskara getur það bara varla verið.  Sumir hafa þetta á jólunum á meðan aðrir grípa í lærið á öðrum tillidögum eða bara t.d. á sunnudögum.  Í hvert sinn sem ég borða lambalærið þá átta ég mig á því að ég borða þetta bara allt of sjaldan.

Við Sigrún höfum drukkið alls konar bjór með lambinu í gegnum tíðina og koma margar góðar paranir til greina, það fer vissulega líka dálítið eftir hvernig lambið er kryddað og svo hvernig sósa er með lambinu og annað meðlæti.  Oft er skemmtilegt að reyna að tengja við kryddið í lambinu með svipuðum tónum í bjórnum eða draga fram sætuna í sultunni og rauðkálinu með ögn sætum bjór. Hér erum við með hugmynd af tveim mjög flottum pörunum sem við hvetjum ykkur til að reyna næst þegar þið skellið lambinu á borð.

Veljið gott lambalæri og kryddið eftir smekk, salt,pipar,rósmarin, blóðberg eða bara það sem ykkur dettur i hug.  Það má alveg líka kaupa bara þurrkryddað læri, það er t.d. bara helvíti gott frá Kjarnafæði.  Lambið er svo sett í ofn og látið krauma þar í um 4 tíma.  Við viljum fara hægt í sakirnar og gera þetta vel.  Það eru auðvitað ýmsar leiðir að elda lambalæri, hér er bara ein hugmynd sem við notum oftast nema við grillum lærið á grilli.  Alla vega, læri í ofn á 50 gráður í ca 2 tíma.  Gott að ausa soðinu annað slagið yfir þegar líður á.  Eftir tvo tíma er hækkað í 150 gráður til að loka lambinu og fá smá skorpu.  Eftir klst er svo sett á 200 gráður í klst til að klára dæmið.  Takið svo kjötið út og látið hvíla.

Meðlæti er gert samhliða, við erum að tala um brúnaðar kartöflur, gular og grænar baunir aðeins hitað og rauðkálið er ómissandi.  Svo finnst okkur Sigrúnu rabbabarasultan algjört möst en hún gefur þessu öllu dálitla sætu og frískar upp á máltíðina.

Sósan er svo lykilatriði, hægt er að gera ýmsar sósur.  Við förum oftast í rjómalagaða sveppasósu með bræddum villisveppaosti og sveppum auðvitað.  Gott er að nota aðeins soðið af lærinu í sósuna til að þykkja og bragðbæta.

img_5720


Bjórinn
! Belgískur Blond eða Saison eru bjórstílar sem kalla á lambalærið eða kannski hrópar lambið meira á bjórinn?  Hér erum við með bjórstíla sem eru mildir og fágaðir en gefa þó mikið bragð og hafa virkilega skemmtileg áhrif á réttinn hvor með sínum hætti.  Belgíska gerið gefur frá sér einkennandi kryddkeim og sætu sem mynda einhvern veginn svo fína brú yfir í jarðartóna lambsins og sveppina í sósunni. LEFFE BLOND er mjög klassískur belgískur blond, einnig kallaður abbey eða klausturöl.  Þetta er mildur en þó margslunginn bjór með sætum ávaxtablæ og gerkeim.  Græn epli koma í hugann einnig.  Leffe var einn fyrstur belgískra bjóra sem við Sigrún féllum fyrir einhverjun 20 árumum síðan, þá stödd á restaurant í Prag. Hann á alltaf ákv sess í hjarta okkar þessi karl.   Með lambinu er hann dásamlegur sætan og eplakeimurinn blandast vel við sæta sultuna , brúnuðu kartöflurnar og rauðkálið og svo eru belgísku kryddin notaleg á móti kryddunum í lambinu.  Þægilegt gosið í bjórnum losar svo einhvern veginn um bragðflækjurnar í kjötinu og sósunni hrisstir upp í þessu öllu saman.  Frábært combo.   Við prófuðum svo einnig SKAÐA frá Ölvisholti sem er mjög skemmtilegur saison en saison er einn af okkar uppáhalds bjórstílum með lambakjöti.  Skaði kom líka virkilega vel út en hann er þó aðeins beiskari og svo verður áfengið ögn meira áberandi.  Prófið endilega báða og jafnvel Leif frá Borg sem er svakalega skemmtilegur „lambabjór“.

Grafið lamb með graflaxsósu og Leif saison frá Borg.

img_5672

Það er stórkostlegt þegar maður dettur niður á eitthvað nýtt og gott.  Ég var í kjötbúðinni um daginn, Kjötsmiðjunni Fosshálsi að næla mér í tvíreykt hangikjöt og þá benti kjötmeistarinn mér á grafið lamb.  Okkur Sigrúnu fannst það hljóma vel og ákv að prófa, kjötmeistarinn mælti með graflaxsósu og soðið egg með.


RÉTTUR: Grafið lamb, fínskorið í þunnar sneiðar með ögn graflaxsósu og soðnu eggi.  Fínt á snittubrauð eða bara beint á diskinn.  

BJÓRINN MEÐ: bjórinn má ekki yfirtaka senuna, lambið er svo dásamlegt og ljúft og þarf að fá að njóta sín.  Mildur saison/sveitabjór á borð við LEIF frá Borg er flottur með. Við viljum íslenskan bjór með íslensku lambi ekki satt? Það væri vel hægt að velja SKAÐA saison líka frá Ölvisholti, eða einhvern erlendan ef maður vill svíkja lit!


 

Ég er hrifinn af tvíreykta lambinu en ég verð að segja að þetta grafna lamb er bara dásamlegt.  Það er svo mjúkt og djúsí með aðeins piparkryddi og öðru góðgæti.  Feiti „kindakeimurinn“ sem maður finnur í hangikjötinu er alveg fjarverandi.  Graflaxsósan er svo alveg sérstök, hún er samt sem áður alls ekki neitt sem þarf að vera með en lífgar samt uppá réttinn en lambið eitt og sér er bara svo gott.  Eggið er skemmtilegt með (á myndinni eru litlir puttar reyndar búnir að taka eggið og borða það en það verður að hafa það).

Hér eru dálítið viðkvæmir bragðtónar á ferð og þegar maður ætlar að para drykkinn með þarf að hafa það í huga, maður vill alls ekki yfirgnæfa réttinn með of öflugum drykk.  Rauðvínið er eiginlega of mikið myndi ég segja.  Við ákváðum að fara í sveitabjór eða saison með þessum rétt en við höfum lengið haft gaman að þessari pörun, þ.e.a.s saison með lambakjöti.  LEIFUR er sérstaklega skemmtilegur því í honum er íslenskt blóðberg sem passar vel við „jarðartóna“ í kjötinu. Venjulega er engin beiskja í saison og hann er skemmtilega kryddaður með ögn sítrustónum og í Leif er svo notað aðeins piparkorn.  Það var mjög gaman að sjá hvernig blóðbergið lifnaði við í bjórnum í þessari pörun.  Bjórinn bætti svo notalegu kryddi og sætum gerkeim við kjötið án þess að taka neitt frá því.  Mjög skemmtileg pörun sem vert er að prófa.