Hægelduð Bleikja í Kampavínssósu með Fennel Sellerírótarsalati

Ok, bleikja er góð en þessi er alveg mögnuð. Við Sigrún mín vorum í matarboði um daginn hjá Hreim og Tobbu nágrönnum okkar og þar var elduð ofan í okkur 6 rétta máltíð sem sló svo sannarlega í gegn. Meðal rétta var hægelduð bleikja. Þetta er eitthvað sem manni hafði aldrei dotti í hug að gera en þetta var bara alveg geggjað. Þetta bara dettur í sundur í munni og bráðnar. Það var Erla Þóra Bergmann Landsliðskokkur sem töfraði þetta fram fyrir okkur og vil ég hér með þakka kærlega fyrir mig.

Við vorum ekki með uppskrift en prófuðum okkur áfram. Þetta heppnaðist fullkomlega.

Það sem þarf fyrir 6

  • 600 g bleikja
  • Ólífuolía sem dekkar bleikjuna
  • Hálf sítróna í bátum
  • 1 skarlottulaukur skorinn fínt
  • 2 hvítlauksgeirar fínt skornir
  • Smjör og ólífuolía til steikningar
  • 2 – 2,5 dl kampavín
  • 1 til 1,5 dl rjómi
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • Ca 300 g sellerírót rifin í strimla
  • Eitt epli rifið í strimla
  • 1 mtsk fennel fræ kramin
  • 2 mtsk japanskt majones
  • 2 mtsk ristaðar möndluflögur
  • Smá dill til að skreyta eða fennelgreinar

Aðferð

Setjið bleikjuna í eldfast mót saltið flökin og bætið fennelfræjum yfir og hellið svo olífuolíu yfir þannig að hún þekji fiskinn. Skerið sítrónu í báta og leggið í olíuna, setjið inn í ofn við 60 gráður í 50 mín. Takið út og hellið olíunni af.

Á meðan bleikjan er í ofninum þá takið þið til við salatið. Þetta átti að vera fennel salat en við búum á Íslandi og aldrei hægt að ganga að hráefnum vísum. Fann sem sagt ekki fennel þannig að úr varð sellerirótar salat með fennel kryddi.
Rífið sellerírót niður í strimla, setjið í skál. Rífið svo epli niður líka í strimla, kreistið sítrónu yfir, aðeins minna en hálf sítróna. Kremjið um tsk af fennel fræjum og bætið við þetta ásamt majonesi. Svo um 2 mtsk ólífuolía samanvið og blandið vel.

Kampavínssósa, hljómar voða flókið en er það alls ekki. Skerið skarlottulauk og hvítlauk í smátt, mýkið í smjöri og olíu í potti. Bætið svo 2-2,5 dl kampavíni útí pottinn og sjóðið niður. Loks er það um 1,5 dl rjómi, lækkið hita undir og látið malla aðeins. Smakkið til með sítrónusafa.

Skerið bleikjuna í hæfilega stóra bita og setjið á fallegan disk. Toppið bleikjuna með salatinu, ristuðum möndluflögum og smá dilli. Setjið kampavínssósuna við hliðina og appelsínubát. Berið fram kalt!

Færðu inn athugasemd