Geggjuð krydduð / spicy Bearnaise sósa

Það er svo skemmtilegt að fá innblástur þegar maður fer út að borða eða í matarboð hjá góðum vinum. Við höfum gert bearnaise sósu margoft, alltaf þessa klassísku bara sem er ofsalega góð. Maður stundum festist bara í klassíkinni og gleymir að þróa réttina sína áfram. En alla vega, við vorum á Brand um daginn, Brand er frábær staður í Mathöll Hafnartorgi en þar fengum við okkur algerlega frábæra spicy bearnaise sósu og áttuðum okkur á að auðvitað má leika sér með þessa sósu. Einu sinni sem oftar þá fór ég heim, náði mér í steik og prófaði að gera kryddaða útgáfu af þessum klassíker. Þvílík snilld bara, þetta er geggjuð sósa með nautalund, lambalund og alls konar. Svona gerði ég þetta.

Það sem þarf fyrir ca 4

  • 3 eggjarauður
  • 150 g smjör
  • 2-3 tsk bearnaise essense
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 mtsk fáfnisgras (estragon)
  • 1/2 til 1 tsk Cayenne pipar, eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð

Ok þetta er mun minna mál en þú heldur, andaðu bara rólega, fáðu þér sopa af góðu rauðvíni og helltu þér út í þetta.

Bræddu 150 g smjör í potti, Ekki verra að gera brúnt smjör en það er bara bónus. Láttu það svo kólna aðeins.

Settu vatn í pott, settu skál yfir sem þolir hita. Ekki láta vatnið snerta skálina. Hitaðu vatnið þannig að það nær nánast að sjóða. Settu 3 eggjarauður í skálina og pískaðu stöðugt þar til rauðurnar fara að þykkna. Fylgstu með hitanum á eggjunum með því að dýfa fingur í. Ef þetta er að verða heitt þá tekur þú skálina af aðeins.

Þegar þér finnst eggjarauðurnar orðnar dálítið þykkar þá bætir þú um 2-3 tsk bearnaise essense saman við. Ekki hætta að píska. Svo byrjar þú að hella smjörinu í mjórri bunu saman við á meðan þú pískar stöðugt. Bættu svo um 1 tsk af sítrónusafa samanvið og smakkaðu þig svo til bara. Í lokin bætir þú kryddunum við, 1 mtsk af estragon, 1/2 – 1 tsk Cayenne pipar eftir smekk og svo salt og pipar. Smakkið þetta bara til.

Nú er svo bara að njóta. Mundu að ef sósan fer að þykkna meðan þú bíður eftir öðru þá getur þú alltaf bætt heitu vatni saman við og pískað til þannig að verði þunnfljótandi aftur.

Færðu inn athugasemd