Blog

Reykt bleikja á amerískum minipönnsum með klettasalati, piparrótarsósu, kavíar og rifnum límónuberki

Það er alltaf ljúft að eiga notalega stund með góðum félaga á flottum veitingastað og láta nostra við sig og bragðlauka.  Stundum upplifir maður eitthvað alveg nýtt og spennandi sem gefur manni hugmyndir og innblástur.   Við Sigrún prófuðum Fjallkonuna um daginn og fengum meðal annars frábæran smárétt, léttgrafin bleikja á lummum með ýmsu öðru gúmmilaði.  Mér fannst þetta frábært combo, bleikja á lummum, geggjað.

Ég ákvað að prófa þetta í kvöld því mig vantaði í raun eitthvað nasl með freyðivíninu sem við opnuðum til að fagna lokum framkvæmda í eldhúsinu.  Þó svo að rétturinn sé innblásinn af Fjallkonunni þá er hann nokkuð frábrugðinn en kom alveg svakalega vel út, ég er jafnvel pínu stoltur svei mér þá!

Það sem þið þurfið fyrir ca 4 (ath þetta er forréttur eða smáréttur):

 • Reykt bleikja, eitt flak
 • klettasalat
 • piparrótarsósa, heimagert eða bara úr búð.
 • kavíar
 • ca 2 límónur, rifinn börkur
 • amerískar pönnukökur (heimagerðar eða tilbúið mix úr búð)
 • gott þurrt freyðivín, Cava eða Champagne t.d.

20191106_190939.jpg

Aðferð:

Byrjið á að gera deigið fyrir lummurnar, eða notið bara tilbúið mix úr búðinni og blandið.  Steikið litlar pönnukökur á pönnu í olíu en gott er að láta reglulega smjörklípu á pönnuna til að fá meiri gljáa á pönnsurnar og bragð.

Græjið piparrótarsósuna, það eru til ótal uppskriftir á netinu. Það er gott að hafa hana dálítið spicy en má þó ekki vera of kraftmikil fyrir bleikjuna.

Lofið pönnsunum að kólna, smyrjið svo piparrótarsósunni á þær, svo setjið þið slatta af klettasalati ofaná, skerið bleikjuna í þunna strimla og raðið ofaná.  Því næst setjið þig smá kavíar ofan á bleikjuna og endið á að rífa börk af límónu yfir.  Ég kreisti líka ögn límónusafa yfir fiskinn til að fá meiri sýru (smekksatriði).

Njótið:

Berið þetta svo fram með límónubátum ef menn vilja meiri sýru.  Parið svo við gott þurrt cava, champagne að annað freyðivín sem þið þekkið og njótið í botn.  Þetta er ljómandi góð samsetning.

20191106_193443-01.jpeg

Stökkt Sloppy Joe smælki innblásið af BrewDog Reykjavík

Það er orðið dálítið síðan ég setti inn uppskrift hér síðast, ég hef bara ekki haft tíma en ég hef verið dálítið á ferðinni bæði til að drekka í mig náttúru og menningu en einnig skoða matarkúltúrinn hér og þar.  Mig langar að deila þessari einföldu uppskrift með ykkur því þetta er bara svo ofsalega gott.  Við getum sagt að þetta sé dálítið innblásið af Sloppy Joe kartöfluréttinum á BrewDog Reykjavík og kartöfluuppskrift frá nágranna okkar henni Björk.  Upphaflega fengum við kartöfluhugmyndina sem meðlæti frá Björk, alveg geggjað með öllu sem kallar á kartöflur.  Mig langaði að taka þetta skrefi lengra og uppfæra yfir í sjálfstæðan rétt.  Kannski ekki alveg sá hollasti í heimi en ó svo gott.

Þessi réttur kallar á bjór, það er bara ekkert annað í boði.  Við erum að tala um IPA, eða flottan Pale Ale en brakandi pilsener gengur líka.  Í kvöld vorum við með frábæran skýjaðan New England Pale Ale frá Malbygg sem Kisi heitir.  Reyndar verður maður að passa sig á brunanum í þessum rétt, ef hann er of mikill þá fer hann ekki vel með bjórinn.  En að pöruninni á eftir.

Það sem þú þarf í þetta (ca fyrir 6)

 • ca 700g Smælki
 • Hveiti, slatta í poka
 • salt og pipar
 • parmesan ost rifinn yfir
 • nautahakk 1 kg
 • 1 krukka af uppáhalds pastasósunni ykkar, eða gera sjálf frá grunni
 • smjör, helling, líklegast ein 100g, sneitt niður
 • dash af worcestershire sósu
 • dash af fiski sósu
 • ferskur rauður chilipipar, skorinn í litla hringi
 • vorlaukur skorinn í litla hringi
 • Sriracha sósa
 • Stonewall Kitchen Roasted Garlic Aiole eða eitthvað heimalagað gúmmelaði

Aðferðin.

Byrjið á smælkinu, það þarf mestan tíma.  Setjið það í pott og sjóðið þar til orðið soðið.  Kælið þá niður með köldu vatni.  Brjótið eða rífið hverja kartöflu til helminga.  Setjið slatta af hveiti í poka, salt og pipar, slatta líka.  Færið svo smælkið í pokann og hristið saman. Raðið svo kartöflunum í eldfast mót, sneiðið vel af smjöri yfir.  Inní ofn við 140 gráður (blástur), eftir klst þá veltið þið aðeins smælkinu og bætið smjöri ofan á og hækkið svo ofninn í 200 eða 220 gráður í ca 30 mín, aðal atriðið er að þetta verði stökkt.  Takið svo út og rífið parmesan ost yfir og lofið að bráðna inn í kartöflurnar.

Á meðan smælkið er inní ofninum þá hitið þið olíu á pönnu, setjið nautahakkið á pönnuna.  Steikið aðeins og bætið svo dash af Worcestershire sósu út á kjötið, þetta eru ca 2 msk eða svo.  Slettið líka fiski sósu yfir, ekki meira en svona 2 tsk.   Vel af pipar og salti og steikið þar til orðið stökkt og steikt í gegn.  Bætið svo pastasósu út á pönnuna og látið malla áfram.

Skerið niður vorlauk og chili, einn vorlaukur og einn chili ætti að vera nóg.  ‘Eg held að kóríander fari í þetta næst hjá mér, það væri fullkomið.

Þegar smælkið er klárt setjið þið nautahakkið á stóran disk eða skammtið á hvern disk fyrir sig, raðið stökka brakandi smælkinu ofan á.  Rífið meira parmesan ost yfir og svo setjið þið vorlauk og chili hringina yfir allt og kóríander ef þið eruð með það.

Setjið svo Aiole í sprautuflösku og sprautið fallegar línur yfir þetta allt, það má fara vel af þessu á þetta.  Gerið það sama við Sriracha sósuna, hún kemur reyndar í sprautuflösku.  Njótið.

20191022_195344.jpg

Pörunin.

Þetta er svakalega flottur réttur og bara alls ekkert voðalega hollur en það er stundum allt í lagi.  Smælkið verður stökkt og eins og karmeliserað í smjörinu.  Sósurnar lífga svo vel upp á réttinn og ásamt ferska chilinu skapa dálítinn bruna og hita.  Fitan, seltan og bruninn í þessum rétta hrópá á bjór, einhvern sem hefur kitlandi gos og dálítið bit svo sem beittur IPA eða humlaður og brakandi tékkneskur pilsner.  Humlarnir hér brjóta upp fituna og þurrka skánina af gómbogum, og preppa fyrir næsta bita. Kolsýran og maltað kornið í ölinu dempa svo chili brunann en ristin í bjórnum gefa létta karamellutóna sem tengja sérlega vel við karamelluáferðina á smælkinu.

Þetta er bara frábær og skemmtielgur réttur þar sem kartöflur eru í aðal hlutverki og velkomin tilbreyting frá frönskunum.

Svakaleg hvítsúkkulaði kókos brownie með ítölskum marens og ástaraldin

Ég viðurkenni það að við á B&M erum mjög hrifin af sætum eftirréttum, það er bara eitthvað svo fullnægjandi við að enda góða máltíð á ljúfum og sætum nótum. Við höfum prófað ýmsa eftirrétti á veitingastöðum borgarinnar og það er einn sem stendur uppúr. Hvítsúkkulaði ostakakan á KOL er einfaldlega hrikalega góð. Við höfum meira að segja stundum farið út að borða á einu veitingastað en endað kvöldið með eftirrétt á Kol. Það má!

Við frúin höfum undanfarið verið að reyna að gera þennan rétt heima í eldhúsinu, vonarljósið kveiknaði fyrst fyrir nokkru síðan þegar Elísabet mágkona Sigrúnar bauð okkur í hvíta brownie með ristuðum kókosflögum. Þetta minnti nokkuð á réttin á Kol og gaf okkur hugmyndir til að þróa þetta áfram. Við bættum aðeins í kökuna, hvítu súkkulaði t.d. og svo höfum við þróað mascarpone krem ofan á með kókos og sítrónu. Svo þegar við bættum fersku ástaraldin og ítalska marensnum við var þetta eiginlega komið. Ástaraldin ísinn (gelato) fær maður svo t.d. hjá Valdísi eða einhverri af betri ísbúðum borgarinnar. Þetta er einfalt og skemmtilegt að gera. Endilega að prófa, best er að gera kökuhlutann sólarhring áður en borið fram.

ÞAÐ SEM ÞARF (það mætti í raun gera helmingi minni uppskrift)

Þetta er líklega nóg í efitrrétti fyrir 10 manns eða meira.

150 g ósaltað smjör
100 g hvítt súkkulaði
2 egg
2,5 dl hrásykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt
1 sítróna
1,5 dl hveiti

4 eggjahvítur
½ tsk cream of tartar
200 g sykur

Kókosflögur, ristað á pönnu
3-4 ástaraldin
ástaraldinn sorbet/ítalskur ís (má sleppa en er geggjað með)

1 stk mascarpone ostur
2 tsk sítrónusafi
1 tsk kókosekstrakt

1 msk flórsykur

4-5msk rjómi

AÐFERÐIN

Kökubotninn

Best að byrja á kökunni, helst deginum áður en veislan fer fram því þá nær kakan að þéttast og verður meira djúsí. Látið smjörið (150g) og hvítt súkkulaði (100g) í skál og bræðið á vægum hita yfir vatnsbaði. Hrærið vel saman. Ef þetta virðist skilja sig þá er það alveg ok. Þetta fer allt saman þegar rest er bætt við. Látið þetta svo kólna aðeins.
Setjið svo 2 egg, 2,5 dl hrásykur og vanilludropa í skál og þeytið saman. Bætið svo ½ tsk salt, safa úr 1 sítrónu saman og hrærið áfram. Bætið svo 1.5 dl hveiti saman við og hrærið vel. Þegar þetta er allt komið saman er loks súkkulaðismjörblöndunni bætt útí og allt hrært saman. Svo er þetta sett í form, gott er að hafa smjörpappír í forminu og pennsla með olíu.

Bakið svo við 150 gráður í ofni í um 40 – 45 mín. Látið svo kólna og setjið inn í ísskáp til næsta dags.

Kremið

Heill mascarpone ostur, við ca stofuhita sett í skál. Bætið ½ – heilli tsk kókosextract saman við. Ég vil hafa smá kókosbragð af þessu og notaði heila tsk. 2 msk flórsykur, má vera 3 msk og loks 2 tsk sítrónusafi (má auka eftir smekk). Hrærið þessu saman með þeytara eða í hrærivél. Bætið svo dass af rjóma saman við og hrærið áfram. Hvað er dass? Ég hellti tvisvar úr rjómanum, líklega um 4 msk?

Passið að þeyta ekki of mikið þannig að rjóminn skilji sig og verði að smjöri.

Smyrjið þessu svo á kökuna og látið standa í kæli þar til tilbúið til framreiðslu.

Marensinn

Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens. Ég nennti ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.

Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og aðeins stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.

20190828_212038-01669838994.jpeg

FRAMREIÐSLAN

Skerið kökuna í bita, ca 3 x 10 cm kubba og setjið á diska. Létt ristið kókosflögur á pönnu og setjið til hliðar. Setjið marensinn strax í sprautupoka, varlega þó. Hafið hringlaga stút á og sprautið svo á diskinn fallegan marenstopp. Flamberið svo með brennara þannig að það komi aðeins litur á þetta.

Skerið ástaraldinn í tvennt og skóflið úr hálfum slíkum innvolsið og látið leka yfir kökuna og diskinn. Loks sáldrið þið kókosflögunum yfir þetta og berið fram.

Það er frábært en ekki ómissandi að hafa með þessu ástaraldin sorbet eða ítalskan ís (gelato). Ég hef prófað að kaupa ástaraldin ís hjá Valdísi en hann er frábær með þessu, ferskur og kaldur. Æi hann er eiginlega ómissandi með, amk ef þetta á að verða eins og á Kol. Ef þið hafið ísinn með þá bætið því honum síðast á diskinn, myndið kúlu eða ef þið getið svona möndlulagaða ískúlu og setjið á hvern disk og berið fram. Þetta er svakaleg hamingjubomba.

Með þessu eru nokkrir möguleikar, kampavín gengur alltaf með hvítu súkkulaði og ástaraldin. Frábært combo en ef maður er í bjór þá held ég að súrbjór væri snilld, ég er að hugsa Peche n Brett frá Logsdon en sá bjór er algjörlega magnaður súrbjór með ferskjum og ætti að fást enn í Vínbíðinni. Þetta verður líklega prófað á næstu dögum!

Eldbakaðar og eða grillaðar flatbökur, hvernig gerir maður?

Öll þekkjum við eldbökuðu flatbökurnar sem margir pizzastaðir bjóða uppá í dag. Það er stór munur á pizzum bökuðum í viðarofni vs hefðbundum ofnum. Eldbakaðar pizzur verða stökkari og fá á sig ögn viðarkeim með dálitlum karamelliseringu og rist í botninn. En spurningin er, er hægt að gera svona pizzur heima í eldhúsinu? Það er svo sannarlega hægt, best er auðvitað ef þú átt eldofn en það eiga fæstir, næst best er að nota sérstakan pizzastein á grillið en með slíkum stein næst mjög góður árangur og við komumst ansi nálægt áferð og gæðum eldbakaðra flatbaka.

FB_IMG_1564491248086.jpg
Útieldhúsið á frönsku rivierunni, með viðarofni öðru meginn og grilli hinumeginn!

Nú er sumar og fólk á flakki erlendis og margir að gista í húsum á Ítalíu, Frakklandi og víðar. Mörg þessara húsa eru einmitt með hlaðna eldofna sem tilvalið er að leika sér með. Ég kynntist þessu sjálfur fyrir þrem árum þegar við fjölskyldan vorum í húsi á frönsku rivierunni og það var sko gaman að prófa sig áfram í 30 stiga hita með rauðvínsglas á kantinum og elda pizzur ofan í mannskapinn. Það gekk nefnilega ekki eins og í sögu, það er nefnilega dálítið kúnst í þessu, sama með pizzasteinana. Ég er oft spurður af vinum mínum hvernig best sé að gera þetta, menn eru líka að spyrja sé ég á fésbókarsíðum ss matartips.

Nú hef ég verið að dunda mér í þessu í mörg ár, fyrst með steina og svo núna undanfarið í eldofnum þegar ég kemst í þá. Þetta er farið að virka vel hjá mér og datt mér því í hug að deila með ykkur hvernig mér finnst best að gera þetta. Ég lauma svo með áleggi sem er að vekja mikla lukku undanfarið í matarveislum hjá okkur Sigrúnu. Læknirinn í Eldhúsinu kvaðst t.d. sjaldan hafa smakkað eins góðar pizzur!

IMG_20190621_203616_978.jpg

Grillað á pizzasteini.
Ef við tökum steingrillaðar pizzur fyrst þá er mikilvægt að vera með almennilegan stein, ég átti stein í fyrstu sem brotnaði í tvennt í fyrstu grillun, ég skipti honum og það sama gerðist við næsta stein. Ég fór þá í Weberstein sem hefur enn ekki brotnað. Maður verður þó að passa sig að henda ekki köldum steini á funheitt grillið því þá er hætta á að hann springi. Sem sagt hafið steininn á grillinu þegar þið hitið grillið upp. Helst öðru meginn á grillinu þannig að það skapist svona flæði frá hinum enda grillsins sem hitar áleggið ofanfrá. Þannig líkjum við dálítið eftir aðstæðunum í eldofninum.

Útbúið deigið eftir því sem ykkur finnst best, það eru til endalaust margar uppskriftir en ég er farinn að stytta mér leið í þessu og kaupi oftast bara tilbúið deig en þá alls ekki þessar ferköntuðu í Bónus. Það bragðast bara eins og kex og er ógeðslegt. Ég kaupi deigið hjá Brikk í Hafnarfirði en það er súrdeig, ég hef líka góða reynslu af súrdeiginu frá Frú Laugu en svo er Shake & Pizza deigið í Krónunni mjög fínt líka. Ég á enn eftir að prófa deigið frá Brauð og Co.

Fletjið út deigið án þess að nota keflið, maður pressar t.d. allt loft úr deiginu ef maður er að hamast á því með kökukefli og skemmir þannig áferðina. Ef deigið er gott er þetta ekkert mál, fínt er að byrja að fletja deigið út með höndunum á bretti, smá hveiti undir eða nota maísmjölið eða raspið sem oft fylgir á deiginu. Mynda lítinn disk, eins stóran og hægt er og svo finnst mér ágætt að setja deigið á krepptan hnefa og láta það leka niður utan um hnefann. Takið svo í endana eins og utan um stýri og látið hanga meðan þið færið ykkur eftir „stýrinu“ þannig að deigið teygist út. Þegar þetta er orðið hæfilega stórt, ca 12 tommur set ég deigið á smjörpappír og álegg yfir.

Hér verður að passa sig því það eru algeng mistök að menn setja of mikið á pizzurnar en þá verða þær of blautar og ná ekki að fá stökka áferð í botninn og oft kemur gat í deigið. Setjið því bara smá sósu yfir og rifinn ost og hafið allt álegg minimalt, sérstaklega ef það eru ostar eins og rjómaostur, gráðostur og slíkt.

Grillið þarf að vera orðið funheitt, í kringum 300 gráðurnar er gott. Setjið pizzuna á steininn og hafið smjörpappír undir í fyrstu. Lokið og látið áleggið bráðna. Fylgist með að botninn brenni ekki. Þegar áleggið er nánast tilbúið er fínt að taka pappírinn undan svo það komi fram almennileg eldun á botninn. Hann á að verða aðeins brenndur á köflum, „leopard spots“ (sjá mynd) en þá er botninn klár.

20190725_142924.jpg

Eldað í viðarofni.
Þið undirbúið deigið eins og að ofan, ekki kökukefli, nota lítið álegg, ekki hlaða of mikið því þá rifnar botninn og festist. Hér er mikilvægt að byrja tímanlega að undirbúa ofninn, hlaðið bálköst í miðjum ofninum og náði upp góðu báli. Þegar það hefur logað glatt í smá stund er bálkestinum ýtt til hliðar í annan enda ofnsins. Oftast eru til þess gerð áhöld með ofninum. Notið svo stálkúst eða sambærilegt til að sópa eldunarsvæðið og fjarlægja mestu öskuna. Bætið reglulega eldivið á eldinn til að halda uppi hitanum. Þegar ég gerði þetta fyrst í Frakklandi fyrir 3 árum klikkaði ég á því að halda eldinum við og tapaði hitanum niður en þá fer deigið að festast við undirlagið.

Þegar ofninn er orðinn funheitur, oft sést það í loftinu en það hvítnar, þá setjið þið pizzurnar inn með löngum spaða, það er möst, annars brennið þið bara ykkur sjálf. Ég hef smjörpappír undir bara alveg rétt í byrjun eða þar til botninn byrjar að þéttast aðeins. Þá er gott að taka hann undan og láta pizzuna eldast áfram. Ekki hafa pizzuna of nálægt eldinum, hún bakast vel þó hún sé töluvert frá eldinum. Það er minni spaði sem maður notar til að snúa pizzunum, sem sagt þannig að sama hlið snúi ekki allan tíman að eldinum. Fylgist svo með undir botninum, þegar hann er byrjaður að brenna aðeins er pizzan tilbúin.

20190725_144345.jpg

Til minnist
Sem sagt, fyrir báðar aðferðir þarf að passa að,

 1. nota ekki kefli til að fletja út deigið
 2. hafa ekki of mikið álegg á pizzunum, þá kemur gat og hún verður ekki stökk
 3. passa að ofn/grill séu funheit, halda uppi hitanum.
 4. nota smjörpappír í byrjun en taka hann svo frá þegar botninn er aðeins farinn að eldast.
 5. Fylgist með botninum, hann er aðal málið, áleggið brennur ekki. Hlébarðablettir eru góðs viti

Ein sem steinliggur, ostaveisla með léttu tvisti

Ég hef undanfarið verið hrifinn af grilluðum papríkum, þessum löngu mjóu því þær eru sætari en þessar klassísku sem við þekkjum. Að setja þetta svo ofan á pizzu er geggjað.

Það sem þarf í þessa er góður pizzubotn, t.d. súrdeigsbotninn frá Brikk. Þeir eru bara með deig til sölu skilst mér á miðvikudögum til föstudags. Góð salsasósa, fínt að gera sjálfur en ég notaði síðast sósuna frá Shake & Pizza sem er mjög fín. Rifinn blandaður ostur, gráðostur, rjómaostur, pepperoniostur eða piparostur og svo ananas rjómaostur sem fæst í Krónunni. Þessi ostur er frábær, sætur og dálítið væminn en alveg opnar upp allt með hinum ostunum. Svo er það rauðlaukur og paprika (langar mjóar, fást í Bónus).

FB_IMG_1564762180877-01.jpeg

Aðferð, hitið grillið og setjið papriku og rauðlauk á það. Muna að setja pizzasteininn strax inn. Fletjið út deigið eins og hér að ofan er lýst. Setjið sósu á, bara rétt að dekka botninn, meira að segja ekki alveg, 2 matskeiðar eru nóg t.d. Rifinn ost yfir, ekki of mikið. Svo dreifið þið rjómaostinum í bitum hér og þar yfir, sama með ananas rjómaostinn. Skerið svo piparost í sneiðar með ostaskera og dreifið yfir. Gráðosturinn er svo bara mulinn yfir alla pizzuna. Ef ykkur finnst of lítið álegg, þá er það líklega fínt þannig.

Þegar paprika og laukur eru orðinn vel grilluð takið þið þetta út og rífið niður og dreifið á pizzuna. Svo er bara inn í eldofninn með þetta eða á grillið. Þetta er svakalega ljúft svona. Best finnst mér svo að drekka ískaldan ljósan lager/pilsner bjór með svona pizzum. Reyndar prófuðum við núna útí Toskana að para pizzurnar með létt freyðandi köldu rauðvíni, Corte d’Aibo Barbera Frizzante sem kom gríðarlega vel út. Eiginlega furðulega vel!

Njótið!

Drottning allra steika, Bistecca alla Fiorentina eða Flórens steik.

Við frúin heimsóttum Ítalíu á dögunum bæði til að skoða matarkúltúrinn en einnig til að njóta sólar og hita með fjölskyldunni. Ítalir kunna svo sannarlega að búa til mat enda hráefnið sem menn hafa úr að moða svo dásamlegt. Þar sem við vorum í sveitum Toskana héraðs uxu t.d. ólifutré, sítrónutré og perutré um allt og bæði timian, rósmarín og salvía spruttu villt inn á milli runna. Þetta er svo magnað. Matur út um allt! Allir þekkja klassíska ítalska rétti svo sem pastaréttina, pizzurnar og ítalska ísinn, gelato en það er svo sannarlega meira í ítalskri matargerð en það. Caprese salatið er t.d.í miku uppáhaldi hjá okkur Sigrúnu en að fá það hér í Flórens vs heima er bara svart og hvítt. Hér kristallast það hvað hráefni skiptir miklu máli, tómatarnir eru safaríkir og mjúkir, mozarella osturinn er ekki eins og heima heldur gerður úr eðal vísundamjólk og er svo mjúkur og dásamlegur og bara allt önnur vara. Ég þarf ekki að nefna parmegano ostinn sem er allt annað en það sem maður fær heima. Svo eru olíurnar eitthvað svo bragðmiklar og ríkar. En ég ætlaði ekki að tala um þetta allt hér núna heldur kjöt.

Nautakjöt er hráefni sem Ítalir kunna vel við og þeir vita nákvæmlega hvernig á að fara með það svo vel sé, amk hér í Toskana héraði því héðan er komin steik allra steika eða drotning steika eins og heimamenn kalla þennan ákveðna kjötskurð. Við erum að tala um Flórens steik, Bistecca alla Fiorentina eða einfaldlega La Bistecca. Þessi réttur er kominn frá Flórens eins og nafnið gefur til kynna og á sér heilmikla sögu að baki.

Hér eru menn ekkert að grínast með steikina, þetta er alvöru mál. Ef þú pantar þér þessa steik og reynir að fá hana „well done“ eða með sósu er þér líklega vísað á dyr, kjötið á helst að vera „rare“ en „medium rare“ sleppur alveg og auðvitað engar sósur því kjötið er svo bragðgott og magnað að jafnvel mjög góð sósa skemmir þá upplifun.

Flórens steik er í raun sama og porterhouse steik sem er stærri útgáfan af T-bone steikinni sem við könnumst flest við, porterhouse er tekinn aðeins aftar á Nautinu en T-bone steikin. Öðru meginn við beinið er lundin og hinu meginn er það sem menn kalla filet. Ég veit ekki hvað sá hluti kallast á okkar tungu. Til þess að vera alvöru Bistecca alla Fiorentina að mati Flórensbúa þarf kjötið að koma frá hinni fornu nautgripategund Chianina sem er þekkt fyrir ótrúlega bragðmikið kjöt. Kjötið þarf að koma frá „scottona“ sem er ung kvíga sem ekki hefur orðið kálfafull og það þarf að hafa hangið í minnsta kosti tvær vikur. Steikin á svo að vera þykk, mjög þykk, við erum að tala um amk 2-3 fingur á þykkt. Auðvitað nota menn um heim allan annað kjöt en frá Chianina tegundinni en það er bara ekki alvöru Flórens steik að mati heimamanna.

Sökum þess hve kjötið sjálft er bragðmikið og meirt er frekar einfallt að elda það, maður kryddar bara með salti og pipar, reyndar alveg helling af því á allar hliðar og svo er steikin grilluð ca 5 mín á hvorri hlið. Þetta er massíf steik sem hentar fyrir amk tvo, jafnvel þrjá fullorðna.

20190721_202626.jpg

Okkur Sigrúnu hefur dreymt í dálítinn tíma um að smakka alvöru Flórens steik eða alveg síðan við sáum umfjöllun um færasta slátrara Ítala Dario Cecchini og hvernig hann fullkomnar þessa steik. Dario rekur lítinn stað skammt utan við Flórens, L’officina della Bistecca og mælum við sterklega með að menn prófi þessa steik þar ef menn hafa tök á því. Ferðafélagar okkar vildu ekki koma með okkur til Dario að þessu sinni og mun það því bíða betri tíma. Við vorum hins vegar í Flórens og gripum tækifærið að prófa þar La Bistecca. Við fórum á stað sem gestagjafi okkar mælti með, reyndar ekki sérstaklega fyrir La Bistecca. Steikin var svo sannarlega ljúf og kjötið bragðmikið. Maður þurfti enga sósu en það var mjög gott að rífa smá parmegiano ost yfir. Með svona royal mat er svo ekki hægt að drekka mjólk eða vatn, maður fer í alvöru rauðvín í raun bara af virðingu við kjötið. Við vorum stödd í Flórens Toskana og því fórum við í það besta frá héraðinu, Brunello di Montalcino vín. Þessi máltíð var mögnuð og verður ekki af því skafið. Það er hins vegar svo, og nú veit ég bara ekki hvort þessi Flórens steik sem við smökkuðum var eins og hún gerist best (það eru margir veitingastaðir í Flórens og alls ekki allir kunna að mastera La Bistecca), en við elduðum þessa steik sjálf í tvígang heima og ég verð að viðurkenna að það var mun betra. Reyndar fengum við ekki alvöru Flórens steik frá slátraranum því það var í raun ekki kjöt beggja vegan við beinið en slátrarinn vildi meina að þetta væri það besta í „húsinu“.

Það eru ákv reglur um hvernig á að elda La Bistecca, það á að vera funheitt kolagrill, kjötið er svo grillað á hvorri hlið í ca 5-7 mín þannig að það verði stökkt og karamelliserað að utan en safaríkt og mjúkt að innan. Markmiðið er rare í miðjunni og nánast brunnið að utan. Það á að sjá vel á kjötinnu förin eftir grillgrindina og það má bara snúa kjötinu einu sinni. Það á svo að salta kjötið eftir eldunina og svo láta standa á volgum stað í amk 15 mín, þannig að safinn úr kjötinu nái að dreifast um stykkið.

20190726_203827.jpg

Við gerðum þetta á eftirfarandi máta, eða í raun mágur minn Kjartan, við skulum ekkert vera að taka það af honum. Steikurnar voru þykkar, tveir fingur á breidd og afar meirar og djúsí. Salt og pipar og svo var kjötið var grillað á heitu Weber gasgrilli í ca 4 – 5 mín á hvorri hlið eða þar til kjarnhiti hafði náð 55 gráðum. Hér var búið að salta áður en kjötið var grillað en hefðum samkvæmt átti að gera það eftir á. Svo var kjötið látið standa í um 15 mín áður en það var borið fram með léttu meðlæti. Við vorum hér með grillað grænmeti, kúrbít, langar paprikur og sveppi og fersk salat með.

Þetta er í raun eins enfallt og það gerist og bragðast svo dásamlega. Hér heima á klakanum getum við í raun skv skilgreiningunni ekki eldað okkur alvöru Bistecca alla Fiorentina en við komumst ansi nálægt því ef við getum náð okkur í porterhouse steik í kjötbúðinni, passa að sneiðarnar séu fitusprengdar og nógu þykkar og þá er þetta komið. Funheitt gas eða kolagrill og svo létt meðlæti. Þetta er svo gott.

20190726_205613-01.jpeg

Systir hjá Dill Restaurant

Hér á síðunni tökum við stundum fyrir staði sem okkur finnast sérstaklega markverðir fyrir þær sakir að þar er hægt að fá framúrskarandi bjór og/eða náttúrúvín ásamt góðum mat. Þetta eru staðir sem okkur finnst frábært að koma á og við getum dekrað við öll skilningarvitin. Listinn okkar hér á B&M er ekki langur enda erum við bara mjög vandlát í þessum efnum.
Systir hjá Dill Restaurant er nýr staður hér í borg og okkur finnst hann eiga heima á listanum. Systir er þar sem gamli ónefndi pizzastaðurinn var við Hverfisgötu 12, fyrir ofan Dill Restaurant og fyrir neðan Mikkeller & Friends Reykjavík. Þið þekki flest staðinn, lítill en mjög heimilislegur og notalegur með geggjuðum pizzum. Nú er þessi staður allur en í staðinn er búið að lyfta staðnum aðeins upp og gera hann meira gourmet með tengingu við Dill. Hanastél og eðal vín virðast í forgrunni og svo er hægt að fá allan bjórinn sem í boði er að ofan frá Mikkeller & Friends og taka með niður sem fordrykk eða til að para með matnum að vild. Maturinn er settur saman og eldaður í Dill eldhúsinu á neðri hæðinni, Dill er auðvitað kapituli útaf fyrir sig en við ætlum ekki fjalla um hann frekar hér að þessu sinni en það verður samt sagt hér að hann verðskuldar svo sannarlega Michelin stjörnuna sína aftur.

Við Sigrún kíktum við á Systir fyrir nokkrum vikum í einn drykk eftir góða kvöldstund í bænum og vorum mjög ánægð. Kampavínsglasið var ofsalega gott og á frábæru verði, 2000kr og vel í látið. Hanastélin litu líka ofsalega vel út og greinilegt að það var fagmaður að verki á barnum. Matseðillinn lofaði góðu og við ákváðum því að koma aftur og skoða þetta betur sem við svo gerðum núna um helgina.

Matseðillinn á Systir er lítill en virðist vel skipulagður og úthugsaður. Þarna er eitthvað fyrir alla! Mér skilst líka að seðillinn taki breytingum annað slagið. Réttirnir eru skapaðir af kokkunum á Dill og eldaður þar í eldhúsinu undir vökulum augum Gunnars Karls matreiðslumeistara sem er kominn aftur heim eftir sigurför í New York borg þar sem hann ásamt teyminu á Agern lönduðu einni verðskuldaðri Michelin stjörnu hér um árið. Gunni er álíka hógvær og hann er snjall í eldhúsinu en ég leyfi mér að fullyrða hér að hann er dásamlegur kokkur og líklega einn af okkar bestu. Ég viðurkenni að ég hef smá „foodcrush“ á honum eftir að hafa upplifað matinn hans bæði á Dill og Agern í New York og svo núna á Systir.

20190717_194843.jpg

Það er fullkomið að byrja kvöldið á einum fordrykk, t.d. spennandi hanastél af barnum eða trítla upp á Mikkeller & Friends sem er einn af bestu bjórstöðum borgarinnar og næla sér ljúfan 9% Nelson Sauvin Brut Mango Passion súrbjór t.d. á meðan matseðillin er skoðaður. Þegar maður er á nýjum stað og þekkir ekki réttina er sniðugt að fara í smakkseðlana (tasting menu) ef slíkt er í boði því þá fær maður nasaþefinn af því sem menn eru að gera í eldhúsinu. Ekki er svo verra að taka vínpörunina (eða bjórpörun ef það er í boði) með ef maður treystir því að menn kunni sitt fag í þeim efnum. Það er nefnilega afar ánægjulegt að upplifa vandaða vín eða bjórpörun og fá þannig dálítið aðra og betri upplifun af réttunum.

Hafandi farið í gegnum bjórpörunina á Agern þegar Gunni réði þar ríkjum þá vissi ég að við værum í góðum málum hér. Við Sigrún fórum því í vínpörunina og sáum sko ekki eftir því. Hver réttur var bæði fallegur og vandaður og dálítið sérstakur. Þetta voru litlir en hæfilegir réttir, sem sagt minni útgáfur af réttunum ef þeir væru pantaðir stakir.

Við fórum samt frá borði nákvæmlega eins og maður vill fara frá svona borði, mettur en alls ekkert að springa. Maður vill svo ekkert fara frá svona borðum ef út í það er farið. Við eigum mjög erfitt með að tala hér um uppáhalds rétti eftir þetta kvöld en ef ég mætti bara panta einn rétt myndi ég taka gröfnu bleikjuna með fennel majo og engifer, þetta var svakalegt, reyndar myndi ég eiga erfitt með að panta ekki grísasíðuna sem var svo fáránlega mjúk og ljúf en þó stökk og mikil og í fullkomnu jafnvægi. Sigrún myndi panta sér þorskinn á kálbeði og helling af smjöri. Vínin með voru alveg „spot on“ og það leyndi sér ekki að þessar paranir voru alveg úthugsaðar. Við fengum freyðandi náttúruvín með fyrstu tveim réttunum og með þeim þriðja kom dásamlegt hvítvín. Nú er ég lítið fyrir hvítvín nema þau séu eitthvað spes og spennandi en ég get sagt ykkur að þetta vín, Isolano by Valdibella, var svakalegt og myndi ég kaupa það aftur og aftur og aftur ef ég gæti. Rauðvínið í lokin, Agape var líka frá Valdibella og álíka magnað og hvíta vínið en þetta vín steinlá með grísasíðunni, þvílík hamingja í munni. Við fengum svo ábót á það vín í lokin.

Þjónustan var vinaleg og heimilisleg en það er auðvelt að gleyma sér og gera meiri kröfur þegar maður er byrjaður að borða því maturinn er eitthvað sem maður gæti hafa fengið á Michelin stað. Systir er hins vegar ekki glerfínn Michelin staður, enda er það ekki meiningin, og því má ekki dæma hann sem slíkan þegar t.d. hnífapör gleymast með matnum, eða einn drykkurinn kom ekki á borðið. Í heildina var þetta stórkostlegt kvöld hjá okkur með nóg af spennandi verkefnum fyrir bragðlaukana. Við munum svo sannarlega koma þarna aftur bæði í ljúfan kvöldverð eða bara til að tilla okkur við barinn í smáréttina og drykki.

Takk fyrir okkur Systir!

Hey Kanína IPL frábært collab frá Borg og Lamplighter í Boston..komdí partí!

Skömmu eftir Hina íslensku bjórhátíð 2019 fengum við Íslendingar að njóta samverkefnis þeirra Borg manna og Lamplighter í Boston.  Hey Kanína hét sá bjór og kom hann út sem C bjór eða bjór úr svo kallaðri collab seriu Borg Brugghúss. Þó það hafi ekki verið T bjór eða tilraunabjór þá var útgáfan amk í T línu stíl.  Þ.e.a.s tilraunaverkefni sem koma einungis á kúta í takmörkuðu upplagi og þeir berast á útvalda bari sama dag og þeim er tappað á kúta.  Hugmyndin er væntanlega sú að prófa sig áfram, þreifa á markaðinum og þá jafnvel þróa í framhaldinu bjór sem gæti komið á flöskur eða dósir.  Til þessa hefur enginn T bjór komið í vínbúðir svo ég best veit.  Hey Kanína er nú kominn aftur og í þetta skiptið á dásamlega fallegar dósir og mun berast í vínbúðir vonandi núna á morgun.   Þeir sem ekki þekkja til þá er Lamplighter með betri brugghúsum í Boston um þessar mundir.  Þeir eru staðsettir í Cambridge í Boston í rólegu lágreistu studentahverfi og er afar ljúft að vera þarna og sötra öl og fylgjast með verðandi stórmennum vinna heima vinnu sína yfir kollu.  Bjórinn er afar fjölbreyttur, þeir brugga alls konar, ekki bara hazy new england bjór þrátt fyrir staðsetninguna og það sem einkennir allan bjórinn þeirra er að hann er sérlega vandaður.  Tyler vinur minn og yfir bruggmeistari  hjá Lamplighter leggur nefnilega mikla alúð í bjórinn og er mikið í mun að gera bjórstílum hátt undir höfði og vanda til verks. Það er ofsalega gaman að spjalla við hann því eins fróðan mann um brugg, ger, bjórgerð og bjórstíla er erfitt að finna. Nánar um Lamplighter hér og fyrra collab þeirra með Borg Brugghús.

20190606_213602-012021750225.jpeg

Hey Kanína er ekki páskabjór þrátt fyrir afar páskalegt yfirbragð, um er að ræða lager með skemmtilegri fléttu því hann er óvenju þurrhumlaður og djúsí.  Þetta er eiginlega einhvers konar samflétta lagers og new england pale ale.  Hann nær nefnilega ekki að vera nægilega beiskur til að líkja honum við IPAIPL eða india pale lager kalla þeir þennan stíl (sem ekki er til formlega) og held ég að þeir hitti alveg naglan á höfuðið þar.
Fyrir mig er þetta kærkominn bjór því ekki bara er hann dásamlega ljúfur heldur er ég persónulega pínu að fá leið á þessum skýjuðu NEIPA bjórum, ekki misskilja mig, þeir eru dásamlegir oftast en ég er aðeins farinn að þreifa aftur fyrir mér í lager fjölskyldunni.  Ljúfur vel gerður lager er bara svo góður.   Hey Kanína tengir þessa tvo heima saman, hann er skýjaður eins og NEIPA, angar af djúsí humlum en einnig má finna lager heytugguna í nefi sem er dálítið skemmtilegt.  Humlarnir, citra, el dorado, idaho 7 og simcoe sem maður tengir oftast við IPA eða NEIPA koma vel út og gefa safaríka ávaxtatóna en svo kemur þessi lager bragur í gegn, heytuggan sem ég kannast svo við frá hinum gyllta lager, og breytir dálítið heildarmyndinni, mögulega er það lager ger sem gerir þetta?  Fylling er góð enda er í þessum bjór hveitimalt og maltaðir hafrar og slatti af lactosa en allt þetta er afar klassískt í NEIPA bjór.  Eftirbragð er ljúft, mjúkt í byrjun með ávaxtablæ en svo tekur einhver lagertónn yfir.  Þessi bjór er í raun það sem hann gefur sig út fyrir að vera, lager og öl.
Merkimiðinn eða í raun dósin sjálf, það er enginn merkimiði, er fáránlega falleg með hoppandi kanínum með hendur fyrir höfuð.  Kanínurnar eru tenging við einn frægasta bjór Lamplighter, Rabbit Rabbit sem jafnframt er einn besti NEIPA bjór á markaði í dag.

Látið ykkur hlakka til að njóta langrar Hvítasunnuhelgar með þessu góðgæti!

Mathöllin Höfða, kostir og gallar!

Nú eru komnar þrjár „mathallir“ á höfuðborgarsvæðið þegar þetta er ritað (maí 2019), sú nýjasta er í Höfða.  Vissulega erum við hér komin heldur langt frá miðbænum en ætlunin er líklega að höfða til vinnandi fólks á virkum dögum en nóg er af fyrirtækjum á svæðinu með svanga starfsmenn í hádeginu og svo eru íbúðarhverfi allt í kring.  Það er líka bar á staðnum sem rekinn er af Beljanda og virðist stefnan að hafa barstemningu þarna um helgar.

Við hjá B&M erum mjög hrifin af þessari hugmyndafræði, Mathöllin á Hlemmi hefur t.d. alveg slegið í gegn hjá okkur og er klárlega sú besta af þeim þremur sem nú eru starfandi  í borginni en sú þriðja er á Granda.  Við munum líklega fjalla nánar um Hlemm síðar.

Það er dálítið vandamál með mathöllina á Höfða að það er ansi erfitt að fá bílastæði þarna á háannatímum en flestir koma jú á bíl þar sem þetta er ekki beint miðsvæðis.  Hitt sem truflar okkur hér á B&M talsvert er drykkja úrvalið en hjá okkur gengur þetta dálítið út á að para mat og drykk, oftast bjór en ekki síst freyðivín.  Freyðivín er nefnilega sá drykkur sem nánast gengur með öllum mat, við höfum amk enn ekki lent á lélegri pörun í þeim efnum en það er bara ekki hægt að fá freyðivín í mathöllinni.  Hipstur er sýnist okkur eini staðurinn sem býður uppá búblur en það er bara prosecco í heilum flöskum, ekki glasavís.  Mögulega er þetta bara eitthvað sem menn hafa ekki spáð í og munu bæta úr.  Gott cava er t.d. alveg magnað með flestu sem er í boði í mathöllinni og ég tala nú ekki um kampavín ef maður vill gera ekstra vel við sig.  Það skal þó  tekið fram að Hipstur hefur þegar brugðist við og er að skoða þetta eitthvað þannig að hver veit hvað gerist á næstunni?

20190504_133430-0137425015.jpeg
Rækjubrauðið er svakalegt á Hipstur, brakandi pilsner með eins og Brio er frábært combo

En fyrst ég er kominn inn á Hipstur þá skulum við klára þá umræðu en að okkar mati er þetta sá staður í Mathöllinni sem vert er að eltast við.  Þeir eru með frábæra og dálítið öðruvísi rétti, t.d. brauðrétti, rækjubrauð með helling af sallati, dill, hvítlauk, kóríander ofl góðgæti ásamt haug af stórum safaríkum rækjum, svo er það sveppabrauðið þar sem sveppir og hvítlaukur eru í aðlhlutverki en líka alls konar grænt með ss radísur (sem eru reyndar rauðar) og grænkál.  Allt þetta liggur svo á tveim sneiðum af ristuðu súrdeigsbrauði sem er löðrandi í ljúffengri sósu.  Þetta er í raun réttur fyrir tvo hvor um sig, þú getur tekið svona brauð einn en þá ertu líka alveg farinn.
Súpan hjá þeim er frábær líka, þykk og bragðmikil fiskisúpa og svo eru þeir með breytilegan rétt dagsins sem virðist alltaf vera sjávarfang í grunninn. B&M hefur ekki náð að smakka meira af matseðlinum en við erum að vinna í því, það jú svo stutt síðan þetta opnaði.
Með þessu er hægt að fá bjór, reyndar bara Carlsberg en það má grípa bjór á öðrum stöðum eins og t.d. Brio af krana bara á næsta stað sem er 2 m frá.  Góður pilsner er frábær með þessu hjá þeim því kolsýran og létt humalbeiskjan klippir vel í gegnum djúsí sósurnar og hreinsar vel palletuna og opnar allt upp.  Hinn fullkoni bjór með Hipstur matseðlinum væri hins vegar saison því slíkur bjór er frábær með svepparéttum og sjávarfangi.  Það eru létt krydd í saison frá gerinu og ögn sýra líka sem er svo góð með fiskréttum. Humlar og beiskja er afar látlaus og svo er einhvern veginn alltaf þessi jörð í saison sem tengir svo afskaplega vel við jarðartóna í sveppum, radísum og öðru rótargrænmeti.  Saison og súpur, sér í lagi fiskisúpur eru eins og sniðið fyrir hvort annað, algjörlega fullkomið.
Það er því miður ekki hægt að fá neinn saison á neinum stað í Mathöllinni, það væri helst að semja við Beljanda að hafa einn saison frá einhverjum á krana.  Ja eða bara Leif frá Borg í gleri, það væri bara vel þegið!
Eins og fyrr segir eru þeir svo að skoða búblumálin á Hipstur en maturinn þeirra hrópar á þurrt cava eða kampavínProsecco er nefnilega oftast helst til sætt fyrir okkar smekk þó það sé þó til mjög gott.  Vandinn er að þeir selja bara prosecco í heilum flöskum eins og staðan er í dag.  Sjáum hvað setur.

 

20190503_183828-31008776083.jpeg
Sveppabrauðið á Hipstur með krydduðum saison, fullkomið!

Þetta er í raun stóra vandamálið með Mathöllina á Höfða, það er ekki hægt að fá neinar góðar búblur á neinum stað sem er stórfurðulegt.  Vonum að menn muni átta sig og laga þetta.  Hitt sem okkur finnst vanta eru náttúrúvínin en það er líklega vegna þess að við elskum þessi vín og erum vön að komast í góð náttúrúvín á Skál í Mathöllinni á Hlemmi.  Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að allt sé frábært en það væri alla vega stór plús að geta komist í náttúrúvín á Höfða.

 

Mig langar líka að nefna hér til sögunnar annan stað sem við elskum hér á B&M en það er The Gastro Truck sem selur einfaldlega bestu kjúklingaborgarana í bænum.  Heimalagaða sósan þeirra er frábær með stökkum djúpsteikta kjúklingnum og svo er ljómandi ferskt og frískandi heimalagað hrásallat á kantinum.  Við kynntumst The Gastro Truck fyrst þegar hann var á flakki um borgina og maður þurfti að fletta upp hvar hann væri hverju sinni því það var vel þess virði að aka langar vegalengdir í hádeginu til að næla sér í borgara.  Svo tóku þeir sér bólfestu  í Mathöllinni á Granda og nú einnig í Höfða sem einfaldar allt saman.  Það góða við það að hafa food truck í mathöll er að þá er hægt að para bjór með borgaranum.  Fyrir þá sem vilja það og eru ekki á bíl auðvitað!

Tengd mynd
Mynd fengin af netinu

 

 

Breyttu miðbænum í stóra mathöll eina kvöldstund

Það er dálítið fast í okkur að þegar við gerum okkur glaðan dag og förum út að borða að þá þurfum við að verja öllu kvöldinu á einum og sama staðnum. Við veljum okkur veitingastað sem okkur líst vel á og erum þar þangað til við höfum borgað reikninginn og höldum heim á leið. Oft er það samt þannig að við erum ekkert endilega ánægð með alla réttina sem við fáum, forrétturinn er kannski fínn, aðalrétturinn geggjaður en eftirrétturinn bara lala. Oft er maturinn frábær en drykkirnir ekkert spennandi eða öfugt. Við Sigrún höfum stundum talað um hvað væri sniðugt að prófa það besta á mismunandi stöðum, t.d. taka eftiréttinn á öðrum stað en aðalréttinn, og jafnvel milli drykk á enn öðrum stað!

Um daginn ákváðum við að prófa þetta. Við fengum óvænt pössun fyrir börnin og ákváðum að nýta tækifærið og gera vel við okkur. Auðvitað allt of seint að panta borð á laugardagskvöldi á veitingastað. Við tókum því prufukeyrslu á þennan títt nefnda draum okkar.

RVKMEAT
Reykjavík Meat í forrétt

Við byrjuðum á Reykjavík Meat í forrétt og drykk, þessi staður er bara frábær, við höfum borðað á honum áður og var allt gott sem við fengum okkur og þjónustan vinaleg og spot on. Verðlag er líka mjög gott þarna og kokdillarnir veglegir og hrikalega góðir, t.d. er besti Espresso Martini í bænum þarna og Pornstar Martini er líklega það besta sem við höfum fengið í kokdillum í langan tíma. Það sem dró okkur á Meat þetta kvöld var allt þetta og svo frábært verð á kampavínsglasinu en þarna fær maður glasið af Moet á 1800 kr sem er afar sanngjarnt verð fyrir góðar búblur. Við fengum okkur svo nauta carpaccio með þessu en það er alveg fáránlega gott á Meat. Annað sem ég verð að taka fram er klósettið á Reykjavík Meat en við höfum bara aldrei komið inn á eins huggulegt klósett á neinum veitingastað, ofsalega nett, já ég veit, áhugavert, það er svo hreint og snyrtileg að maður gæti vel borðað forréttinn þarna svei mér þá! Þó svo að við hefðum vel getað borðað þarna allt kvöldið þá fengum við jú bara borð af því að við lofuðum að vera bara í forrétt, auk þess langaði okkur að prufa hugmyndina okkar!

Public
Aðalréttur eða réttir á Public House

Eftir forrétt og drykk röltum við því á Public House í frábæru veðri. Við komumst að því hversu gott það er að rölta svona um bæinn milli rétta, þannig skapast meira pláss og maður verður allur einhvern veginn léttari á því. Það var líka ofsalega góð stemning í miðborginni þetta kvöld. Það er allt gott á Public en „so not pizza“ er þess virði að nefna sérstaklega en hún er líklega frá öðrum hnetti, við pöntum okkur alltaf þennan rétt þegar við kíkjum á Public og grísa soðbrauðið er í miklu uppáhaldi hjá mér líka. Við fengum okkur 3 litla rétti saman og drykk með. Á þessum stað er sniðugt að prófa marga rétti og deila en það er eiginlega hugmyndafræði staðarins en auðvitað má maður panta sér margar so not pizza t.d. ef maður vill, ég geri það mögulega næst. Svo var kominn tími á meira rölt og millidrykk svona til að láta aðeins sjatna enda of snemmt að henda sér í eftirréttinn.

Við litum við á Mikkeller & Friends Reykjavík en þar er alltaf eitthvað gott að fá á krana. Ég fékk mér hrikalega flottan súrbjór frá De Garde en frúin bætti á sig kampavíni af bestu sort. Við tilltum okkur niður á Systir Restaurant sem er glænýr staður en matseðillinn þarna er virkilega spennandi og munum við klárlega taka tékk á honum á næstunni. Notaleg stemning, gott spjall og ljúfir drykkir.

20190427_210619-0159554541.jpeg
Sjúkur eftirréttur á KOL Restaurant

Við vorum löngu búin að ákveða eftirréttinn, við höfum meira að segja stundum velt því fyrir okkur að fara bara beint í eftirréttinn þarna og svo heim. Jább, ég er að tala um hvítu súkkulaði ostakökuna með ástaraldin kókos sorbet og ítölsku marens (meringue) á Kol Restaurant. Þessi réttur er svo ótrúlegur, bragðlaukarnir eiga ekki séns, þeir steinliggja í sjokki, hér gengur allt upp, áferðin, bæði mjúkt, stökkt, kalt og djúsí og svo er bragðið magnað, hvítt súkkulaði með fersku ástaraldin mauki og svo kókos flögum með léttri rist, og þetta marens, Guð minn góður! Það er eiginlega óvirðing við réttinn að reyna að lýsa honum, maður verður að smakka. Við fengum strax pláss við barinn sem var bara það sem okkur langaði, gaman að sitja þarna í miðjum hamagangnum og fylgjast með barþjónunum hrista og blanda alls konar drykki. Maturinn kom svo þarna fram beint úr eldhúsinu þannig að við sátum þarna umlukin alls konar angan af hinum og þessum réttinum. Reyndar buðu þeir okkur líka borð ef við vildum en þetta var bara fullkomið svona.

Já þetta var alveg magnað kvöld, það besta frá 4 stöðum borgarinnar, notaleg stemning, gott rölt og frábær félagsskapur. Maður kom einhvern veginn svo léttur og notalegur út úr þessu kvöldi, ekki pakksaddur eins og svo oft. Við vorum þó ekki alveg tilbúin í heimferð þarna eftir Kol og röltum því aftur á Reykjavík Meat í loka drykk. Þar var okkur boðið í huggulegt horn og fengum stórbrotið rauðvín Hess Collection 19 Block Mountain Cuvée sem því miður verður ekki fáanlegt lengi því vínviðurinn brann víst allur í brununum miklu í Kaliforníu hérna um árið. Þetta var alveg stórkostlegt vín, venjulega selt í flöskuvís en þar sem þeir voru að lofa þjónunum að smakka máttum við kaupa glös fyrir okkur.

Já við mælum svo sannarlega með þessu, við breyttum í raun miðbænum í eina stóra mathöll og völdum það besta frá þeim bestu.

Espresso Martini, þetta er bara ó svo gott!

Ok þessi síða fjallar um mat, bjór og freyðivín ég veit, en stundum slæðist eitthvað annað hér inn, ef það er þess virði.  Espresso Martini er svo ljómandi góður kokdillir þegar hann er gerður rétt en getur verið frekar óskemmtilegur ef hann er það ekki.  Ég fékk þennan drykk fyrst á síðasta ári hjá vinkonu okkar Hörpu og féll alveg fyrir honum.  Já ég veit, er orðinn þetta stálpaður og er fyrst núna að uppgötva Espresso Martini, ég hef vissulega smakkað þetta áður en það hefur bara ekkert gert fyrir mig.  Harpa opnaði hins vegar augu mín með frábærri útgáfu og ég hef verið að smakka þetta á börum borgarinnar og reynt nokkrar uppskriftir síðan.  Ég hef komist að því að Espresso Martini er ekki bara Espresso Martini.  T.d. er hann geggjaður á Reykjavík Meat svo dæmi séu nefnd.  En ahverju er ég að þvaðra þetta hér, jú ég þykist hafa dottið niður á ansi góða uppskrift og ég ætla að láta hana flakka hér.

Það sem þarf (fyrir einn):

 • Ísmolar
 • koktail hristari
 • 50ml Vodka
 • 25ml espresso
 • 35ml Kahlúa
 • fíngert sigti
 • martini glas

Aðferðin

Byrjið að hella uppá kaffið og látið kólna.  Fyllið martini glas af ísmolum.   Hálffyllið svo hristarann með ísmolum líka.  Hellið svo vodka, Kahlúa og kaffi í hristarann og hristið eins og enginn sé morgundagurinn.  Hellið ísmolunum úr glasinu og hellið svo blöndunni í glasið í gegnum sigti.  Það þarf líka að halda aftur af ísmolunum í hristaranum, í mínum er innbyggt gróft sigti.   Það á að myndast þykk mjúk, bage lituð froða ofan á kaffibrúnum vökvanum.  Skreytið svo með kaffibaunum og berið fram.