Blog

Villigæsapaté með vinagrette, og klettasalati, fullkomið með Skyrjarmi bláberjabjór frá Borg.

Skyrjarmur er nýjasti jólabjórinn frá Borg Brugghús  en um er að ræða stórkostlegan bláberja súrbjór bruggaður með skyri og óvenjulega mikið af bláberjum.  Bjórinn er gríðarlega drekkanlegur, mildur og ljúfur með ögn súran blæ sem þó er óverulegur því bláberjasætan kemur vel á móti og skapar frábært jafnvægi.  Bláberin eru allsráðandi í þessum bjór og því fannst okkur rétt að prófa að para hann við einhverja villibráðina sem við erum vön að gæða okkur á yfir jólin.

Við prófuðum tvo rétti sem báðir steinlágu, villigæsapaté með klettasalati og bláberjavinagrette  eða hindberjavinagrette sem er jafn gott.  Þessi pörun kom virkilega vel út.  Patéið nýtur sín með klettasalatinu og sætsúru vinagrette-inu en svo kemur bláberja hamingjan frá bjórnum og bindur allt þetta í eina ljúfa heild sem skolast svo niður í mallakút.  Hvorugt tekur völdin, hvorki bjórinn né gæsin en einmitt þannig á þetta að vera.  Frábært.  Það er jafnvel hægt að sleppa vinagrette en þá er gott að fá sér sopa á meðan maður er með gæsina í munni.

IMG_7700.JPG
Hinn rétturinn er af sama toga en þó allt öðruvísi, heitreykt heiðagæs með vinagrette og klettasalati ofan á snittubrauð.  Hér er kjötið dálítið þurrt á tungu en með öööörlitlu af vinagrette kemur smá kontrast við villibragðið og mýkir kjötið sem fær að njóta sín í munni.  Bjórinn kemur svo á eftir og hreinsar góm og tungu með unaðslegum bláberjakeim, létt súrt og sætt sem tengir svakalega skemmtilega við villibragðið í gæsinni.  Ég veit ekki hvor rétturinn er betri þannig að við munum hafa þá báða með Skyrjarmi í jólaboðum þetta árið.

5 bestu jólabjórar ársins (2018) að okkar mati!

Nú erum við búin að liggja dálítið yfir jólabjórum 2018 og komin að niðurstöðu. Þetta var ekki auðvelt en þegar allt er tekið saman, þá er útkoman þessi. Hér tökum við allt saman í einn pott, erlenda, íslenska, létta og þungaviktabjóra í sömu yfirferð. Við trúum ekki á að velja bestu bjóra í hverjum flokki fyrir sig en það er bara þannig hjá okkur. Hér eru yfir allt fimm bestur bjórar sem fást í vínbúðunum þetta árið að okkar mati og nokkur orð um afhverju okkur finnst það. Það skal tekið fram að við tökum ekki með frábæra bjóra eins og Ákaflega Gaman Þá frá RVK Brewing Company sem er alveg stórbrotinn double IPA með eins miklum humlum og hægt er að koma í einn bjór held ég svei mér þá, þessi fæst aðeins á krana í bruggstofu RVK Brewing og á völdum börum borgarinnar. Svo eru það bjórarnir frá frá KEX Brewing sem eru þrír að þessu sinni en allir bara fáanlegir á börum borgarinnar og eru þeir því ekki með í þessu mati.

Loks má geta þess að við smökkuðum ekki alla 60 jólabjóra sem í boði eru því mikið af þessu höfum við smakkað áður í gegnum tíðina, og annað bara höfðaði alls ekki til okkar.

ATH hér erum við að velja jólabjór og því tökum sérstaklega eftir því ef bjórinn færir okkur eitthvað jólalegt á tungu eða parast vel með jólamat og hefur það jákvæð áhrif á dómana. Tekið skal fram að þetta er ekki blindsmakk!

En ok fimm bestu jólabjórar sem í boði eru þetta árið koma hér:

 1. Skyrjarmur (4.3%) frá Borg. Ég vissi að þessi myndi verða flottur þegar ég smakkaði hann á gertankinum hjá þeim félögum í Borg á sínum tíma en ég bjóst ekki við að hann kæmi svona svakalega vel út. Þetta er einstaklega ljúffengur bjór, mildur og þægilegur með alveg hreint glás af bláberjum, hann er nánast þykkur eins og skyr. Þó hann sé súrbjór þá er hann í svo hárfínu jafnvægi að hann verður í raun ekki súr því berjasætan kemur á móti og mildar allt saman. Það er þannig súrsætur keimur sem gælir við bragðlaukana og já bláberin eru ekkert að fela sig. Skyrjarmur er líka fullkominn í útliti fyrir jólabjór, dimmrauður eins og blóð úr fallinni rjúpu! Þessi er stórkostlegur og parast í raun asnalega vel við villigæsapaté með klettasalati og bláberja eða hindberjavinagrette. Þvílíkt jólakombo.
  .
 2. Ginger Brett IPA (6.9%) frá Mikkeller. Þessi var hér í fyrra og árið þar á undan einnig. Hann hefur verið ofarlega á lista hjá okkur síðustu ár enda frábær jólabjór. Engifer er jú jólakrydd ekki satt og það er nóg af því í þessum. Reyndar meira engiferrót frekar en kryddið. Í grunninn er um að ræða IPA þannig að það er líf og fjör í bjórnum með notalega beiskju sem rétt aðeins tekur í og svo er ákveðin beiskja frá engiferrótinni sem tengist ofsalega vel við hið svokallað „funk“ frá villigerinu brettanomyces. Þessu bragði er ekki hægt að lýsa en menn reyna að líkja við háaloft, moldargólf, leður, fúkka ofl. Hvað sem því líður, þessi blanda með engifer og humlunum er mögnuð. Frábær einn og sér en gerir líka ofsalega skemmtilega hluti með mat hvers konar. T.d. gröfnu lambi með graflaxsósu og klettasallati.
  .
 3. Leppur (6.5%) frá Brothers Brewery. Þessi kom okkur mjög á óvart en hann er alveg magnaður frá strákunum í Vestmannaeyjum. Hér erum við með svo kallaðan mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Bjórinn er dálítið á sætu nótunum en humlar koma þó dálítið inn á móti og tóna niður sykursæluna, en jólin eiga eignlega að vera dálítið sæt ekki satt? Þetta er frábær jóladrykkur sem er flottur sem bara desert einn og sér eftir jólasteikina eða sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot á ísinn. Fæ vatn í munn við tilhugsunina.
  .
 4. Giljagaur (10%) frá Borg. Nú skulum við fá það á hreint, Giljagaur er alltaf á listanum okkar, nema það komi fram 5 nýjir alveg geggjaðir jólabjórar sem lenda ofar. Þessi bjór er bara ómissandi hluti af jólunum okkar B&M. Við erum að tala um 10% kraftmikinn bjór af gerðinni byggvín eða barleywine sem er bjórstíll með mikinn þrótt og háar áfengisprósentur. Oft með ávaxtanótum eða sætu frá vínandanum og korninu en hann getur einnig verið ansi beiskur og beittur. Stíllinn er dálítið þykkur, þéttur og yfirleitt með notalegum áfengishita. Giljagaur er að okkar mati dálítið sætbeiskur með ögn ávaxtakeim sem minnir á mandarínur eða appelsínubörk og það er mikill þróttur í honum. Með tímanum missir hann beitta bitið og verður mýkri en flóknari. Við skulum svo hafa annað á hreinu, Borg bruggar alltaf sama Giljagaurinn og ætti munur milli ára að vera óverulegur jafnvel þótt menn telji sig líka misvel við hann milli ára. Mögulega er það bara stemning smakkarans sem er mismunandi á milli ára og svo má ekki gleyma bragðlaukum sem stöðugt eru að þroskast og breytast, ég skal ekki segja? Þessi er magnaður með tvíreyktu lambi og með því. Tékkið á þessu!
  .
 5. Jólakisi (7%) frá Malbygg. Malbygg er hér með fyrsta jólabjórinn sinn í vínbúðir sem er af gerðinni India Pale Ale sem í raun mætti flokka sem New England IPA eða NEIPA. Bjórinn hefur samt ekkert jólalegt uppá að bjóða, nema þá ef menn tengja við furunálarnar sem oft má finna af humlunum sérsaklega simcoe. Merkimiðinn er jólalegur og nafnið, hins vegar er þessi bjór bara svo ofsalega góður ef maður þolir beiskju og safaríka tóna frá humlunum að það er ekki hægt annað en að hafa hann á lista. Citra, simcoe og mosaic tröllríða bragðlaukunum á góðan máta samt. Humlahausar, þið eigið eftir að elska þennan.

Ef við værum með 6 sæti þá er Eitthvað Fallegt (5%) fyrsti jólabjórinn frá RVK Brewing næstur inn. Þessi bjór er ofsalega skemmtilegur og sérstaklega jólalegur. Hér má eiginlega segja að menn séu búnir að koma jólum í flösku en bjórinn er bruggaður með heilu jólatré ásamt mandarínum, negulnöglum, loftkökum, vanilluhringjum og machintos sælgæti úr heilli dós, vondu og góðu molarnir allt saman í einn pott. Já þessi bjór fær sko jólaprik frá okkur. Við köllum stílinn bakkelsis IPA eða pastry IPA Valli og Siggi kalla hann season IPA sem sagt ekki session IPA. Í bragði má finna greninálar, hvort sem það er frá trénu eða simcoe humlunum er ekki gott að segja, það er alla vega notaleg beiskja í honum og svo kemur mandarínukeimurinn vel í gegn, sérstaklega í nefi. Í eftirbragði er svo þægilegur kryddkeimur sem líkast til er frá negulnöglunum en þetta er látlaust sem betur fer því negull getur algjörlega rústað góðum bjór. Fyrir okkur gengur þetta upp og við erum ægilega ánægð með hann hér á B&M. Mér skilst að lítið sé til af honum þannig að það er um að gera að næla sér í flöskur.

Jólabjórinn 2018, hvað mun fara í bjórkælinn okkar?

Þá er bjórskápurinn á nano kominn í smá jólabúning en það vantar auðvitað allan jólabjórinn. Giljagaur og Hurðaskellir 2017 eru reyndar að koma sér fyrir þarna auðvitað en annað þarf að fara kaupa inn. Sala jólabjórs hefst núna á morgun 15.nóv og það er sko um nóg að velja, reyndar eiginlega of mikið en um 60 tegundir hafa boðað komu sína þessi jólin. Nú hefur Bjór & Matur ekki lagt í það að fara að smakka þetta allt fyrir útgáfudag því við bara nennum því ekki, megnið af þessu er einfaldlega lítt spennandi fyrir fólk sem gerir kröfur, smekkur manna er svo auðvitað mismunandi sem betur fer.

Hér ætla ég að renna yfir það sem mun fara í minn bjórskáp yfir hátíðarnar, margt hef ég smakkað í gegnum tíðina og lært að forðast en mikið á þessum lista mínum, sérstaklega íslenski bjórinn, eru samt spádómar og spennandi verður að sjá hvort bjórinn standist kröfur eftir að hann er kominn í hús.

Það má byrja á því að taka fram að ekki allt sem er á listanum í Vínbúðinni (sjá hér) mun komast til byggða en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Menn ná ekki að koma bjórnum í umbúðir eða hann einfaldlega er ekki tilbúinn fyrir jólin eða útkoman var ekki það sem ætlast var til.

Það sem fer í skápinn minn verður eftirfarandi:

Borg jólabjórinn. Góðkunningjar frá Borg eru alltaf á sínum stað, auk Giljagaurs og Hurðaskellis frá því í fyrra mun ég næla mér í Giljagaur (barley wine) og Hurðaskellir 2018 ( rúgvínstunnuþroskaður imperial porter) og passa að taka inn nóg til að geyma fram til næstu jóla. Ég hef smakkað þá báða þetta árið og var ég sérstaklega ánægður með Giljagaur, Hurðaskellir var flottur líka á krana alla vega. Ég smakkaði líka Skyrjarm sem er nýjasti jólabjórinn þeirra og er bláberja súrbjór og auðvitað með skyri. Þó ég smakkaði hann bara af gertanki ekki full kláraðan þá lofaði hann mjög góðu. Askasleikir er svo kominn í dósir og með breyttu geri. Flottur session bjór sem gengur vel með flestum jólamat. Ætli maður hafi ekki nokkrar dósir fyrir gesti og gangandi.

Ölgerðin. Fyrst við erum að tala um Borg þá má skoða bjórinn frá Ölgerðinni en það er einn bjór frá þeim sem vert er að skoða, Boli Doppel Bock en þessi bjór er furðulega ljúfur og algjörlega stórkostleg pörun við flest sem við borðum um jólin. Allt annað frá þeim mun ég láta vera. Bara ekki minn tebolli.

RVK Brewing Company. Hér erum við nokkuð örugg með góðan jólabjór. Co & Co er á listanum en hann mun ekki koma í Vínbúðina ef ég skildi þá félaga Valla og Sigga rétt. Hann er bara ekki tilbúinn í það ævintýri. Hins vegar ætla þeir að koma öðrum jólabjór í sölu, Eitthvað Fallegt heitir hann, sá er kominn á kút hjá þeim á bruggstofuna en kemur í næstu viku í Vínbúðina. Þessi er mjög skemmtilegur, bakkelsis IPA vil ég kalla hann, en þeir hentu í hann heilu jólatré, machintosh dollu og mandarínum með negulnöglum svo eitthvað sé nefnt. Já hljómar undarlega en hann bragðaðist virkilega vel, reyndar var hann ekki tilbúinn þegar ég smakkaði hann um daginn. Þessi mun rata rakleiðis í minn bjórkæli þegar hann dettur í sölu.

Malbygg. Malbygg hefur sannarlega sannað sig frá opnun fyrr á þessu ári með sérdeilis ljúffengum bjórum af ýmsum toga. Fyrsti jólabjórinn þeirra Jólakisi (7% DDH IPA) er kannski ekkert sérstaklega jólalegur bjór en hann er sannarlega ljúffengur og umbúðirnar eru skemmtilegar og jólalegar. Jólakisi mun klárlega taka nokkuð pláss í bjórkælinum yfir hátíðarnar. Malbygg er svo reyndar með annan jólabjór þetta árið sem er sérlagaður fyrir Skúla Craftbar og fæst þar á krana. Sá heitir Djús Kristur og er súrbjór með mango og vanillu sem vert er að kanna.

KEX Brewing. Það voru 3 jólabjórar boðaðir þetta árið en því miður koma þeir ekki í búðir. Tæknilegir örðugleikar. Hins vegar munu þeir fara á dælur á helstu bari borgarinnar í litlu upplagi þó. Conceptið er skemmtilegt, eins konar „malt og appelsín“ pæling, en auðvitað ekki malt og appelsín heldur Forbidden Christmas Fruit sem er af gerðinni gose (4% súrbjór) með helling af mandarínum og ögn vanillu og svo Afi María sem er mjólkur porter. Hugmyndin er að blanda þessu saman og mynda þannig alveg nýjan bjór og í raun bjórstíl ef út í það er farið. Spennandi. Svo verða þeir með KEX Mas sem er jólaútgáfa af Thunder IPA. Því miður verður ekkert af þessu í bjórkælinum mínum þetta árið þar sem ekkert er til á dósum eða gleri.

Brothers Brewing í Eyjum. Ég er dálítið spenntur fyrir Lepp sem ku vera ljúffengur. Lýsingin er góð í það minnsta, kaffi rjóma stout. Ég náði ekki að smakka þennan í fyrra en þá kom hann einungis á dælu. Nú er hann endurbættur og í flöskum. Þegar þetta er ritað er ég ekki búinn að smakka en ég ætla að lauma eins og 2 – 3 flöskum í kælinn.

Steðji. Steðji brugghús hefur ekki tekist að fanga mig til þessa. Þeir gerðu þó einn jólabjór hér um árið sem var nokkuð skemmtilegur. Jólasteðji eða álíka, með lakkrís. Ef hann er í sölu í ár er vert að prófa hann. Steðji fær hins vegar ekki inngöngu í skápinn minn þetta árið.

Annað á lista Vínbúðarinnar vekur ekki áhuga minn, ég mun samt klárlega smakka eitt og annað.

Svo er það erlendi bjórinn. Þar er eru nokkrir stórkostlegir sem munu fara í skápinn.

Mikkeller Hoppy Luvin er geggjaður IPA sem ég tek alltaf inn, sama má segja um BrewDog Hoppy Christmas en báðir þessir eru beiskir og hressandi IPA bjórar. Svo er Mikkeller Brett IPA með þeim betri og mjög næs matarbjór með funky brettkeim ofan á milda en hressandi beiskju. To Öl Snowball er alltaf með þeim betri, en hér er frábær saison á ferð en saison er bjórstíll sem nánast passar með öllu. To Öl er einnig með annan bjór þetta árið sem menn verða að prófa, Santa Gose Fuck it All sem er súrbjór af bestu sort. Vá hvað þetta verður gaman!

Sturlaður morgunverðar stout frá RVK Brewing Company með „poached“ eggi í morgunmat!

RVK Brewing Company er eitt af okkar nýju brugghúsum hér á Íslandi og þeir virðast komnir til að vera.  Það er allt á fullu hjá þeim í alls konar og spennandi tímar framundan.  B&M leit við hjá þeim um helgina í spjall og smakk.  Þeir Siggi og Valli voru hressir þegar ég bankaði á gluggann og ekki vantaði gestrisnina.  Þeir voru að stússast eitthvað í jólabjórnum þegar ég kom og ég fékk að smakka jafnvel þó hann sé ekki tilbúinn eins og sakir standa.   Um er að ræða jóla IPA með alls konar kræsingum og mætti kannski flokka sem pastry IPA miðað við innihald en hann er þó alls ekki sætur á tungu eins og bakkelsis bjór jafnan er.  Það er kannski af því að Valli tróð heilu jólatré með seríum og öllu í suðuna, reyndar tók hann seríuna af rétt áður en það hljómar ekki eins skemmtilega.  Svo er hellingur af humlum í þessu auðvitað sem gefur beiskjuna á móti sætunni.  Auk jólatrés settu þeir mandarínur með negulnöglum í, gömlu góðu loftkökurnar sem sumum finnst ómissandi á jólunum og svo heila dós af Mackintosh’s með góðu molunum og þeim vondu,  sem sagt innihaldið án umbúða.  Útkoman er þessi skemmtilegi og mildi IPA þar sem finna má ögn sætu í bakgrunni og eitthvað lúmst krydd sem hlýtur að vera negulinn en svo eru furunálar líklega bæði frá trénu en líka humlunum.  Hlakka til að smakka þegar hann verður tilbúinn, lofar mjög góðu og mun jafnvel, en ég veit það þó ekki, koma í flöskur í vínbúðina?

Valli lofaði mér svo að smakka alveg svakalega flotta humlabombu, double IPA með alveg hreint haug af Idaho 7 humlum, þessi var eiginlega alveg tilbúinn, kolsýrður og kaldur og í raun bara að detta í sölu hjá þeim.  Svakalega ljúfur.   Það eru fleiri flottir á krana hjá þeim sem vert er að nefna, Le Bon Grisette er frábær létt frískandi saison með Kalamansi & Guava sem kom verulega á óvart og svo er ketilsýrður súrbjór, Verum bara vinir með ástaraldin sem er alveg svakalega ljúffengur, mæli með þeim báðum.

20181102_152023-01.jpeg
Að lokum vil ég nefna Morning Glory af því að ég var að fjalla um bakkelsis bjór (Pastry beer) hér um daginn en þessi er ansi flippaður.  Við erum að tala um kjarngóðan amerískan morgunverð í glasi, hann hefur allt sem Mikkeller Beer Geek Breakfast hafði ekki enda er það bara venjulegur stout að mínu mati, alveg fínn samt.  Bjórinn er um 8% imperial stout bruggaður með höfrum og lactósa sem er þá staðgengill mjólkur og svo kassavís af Cocopuffs, amerískar pönnukökur og ristað bacon og svo er líka hellingur af hlynsýrópi til að toppa þetta allt saman.  Þetta er heldur betur rugluð innihaldslýsing en það góða er að hann gengur alveg upp, alla vega fyrir þá sem á annað borð hafa gaman af bakkelsis stout.   Það er rist og ögn reykur frá baconinu og ristaða maltinu, lactosinn og hafrar gefa fyllingu og mýkt, nánast mjólkurkennd áferð og svo finnur maður sýrópið skemmtilega í gegn.  Þetta er þannig ögn sætur stout en þó með þessa léttu rist og reyk.   Ég sagði við Valla að það eina sem vantaði í þennan bjór væri Lýsi og egg!  Það kom einhver prakkarasvipur yfir hann þegar ég sagði þetta, hver veit hvað gerist næst?  Þetta er alla vega skemmtilegt og menn geta prófað þetta bara núna í þessari viku en nánari yfirlýsing mun koma á síðu þeirra hjá RVK Brewing á næstunni.

Þennan bjór væri ég til í að fá í umbúðir til að taka með heim því ég hef verið að leika mér með poached egg undanfarið, ég veit ekki hvað það kallast á íslensku, en þessi morgunverðarbjór myndi parast vel með eggjunum…eða alla vega að nafninu til.

Ég er kominn hálfa leið með að ná tækninni og ákvað því að lauma smá uppskrift með hér.

IMG_7688Poached egg með ferskum létt ristuðum aspas, hráskinku og parmesan

Það sem þarf:

 • Ferskur aspas, eitt búnt ca
 • Parmesan ostur eða álíka
 • Egg miðað við hve svangur þú ert
 • Sítróna 1 stk
 • Hráskinka 1 pakki
 • Epla edik eða annað ljóst edik 2 mtsk
 • Olífuolía 3 mtsk
 • Hvítlaukur, 3 geirar

Aðferðin:

Það er smá kúnst að gera eggin fullkomin, þau þurfa svo sem ekki að líta þannig út, aðallega að þau bragðist vel en það er bara svo flott þegar maður nær þeim hnöttóttum og laus við tægjur.

Fyllið meðalstóran pott með vatni þannig að dýpi sé um ca 6 cm eða svo.  Náðið upp suðunni og lækkið svo hitann þannig að búblurnar hverfa og það nánast bærist ekki vatnið.

Egginn brjótið þið í litlar þröngar skálar eða bolla, eitt í hvert ílát.  Setjið svo 2 mtsk edik í pottinn og hrærið. Þetta hjálpar til við að halda eggjunum saman á hnattlaga formi.  Það virðist einnig mikilvægt að nota fersk egg en þau virðast halda betur þessari fallegu lögun sem við erum að leita eftir.  Notið skeið til að skapa sterka iðu (vortex) og látið svo eitt egg renna niður í miðjan vortexinn.   Látið svo liggja í þessu í 3 mín eða svo.  Fer dálítið eftir hversu linsoðin eggin eiga að vera.

Lyftið svo varlega egginu upp með götóttri skeið og látið renna vel af, það má þerra með pappír.   Svona gerið þið við hvert egg, fer auðvitað eftir fyrir hve marga er eldað.   Ef þið eruð með mörg egg  eða þið þurfið að græja eitt og annað má geyma eggin í ísbaði þar til klárt til að bera fram.  Annars halda eggjarauðurnar áfram að eldast.

Næst er það matarolía á pönnu, ca 3-4 mtsk.  Pressið svo 3 hvítlauksgeira og setjið á pönnuna, kreistið sítrónusafa úr heilli sítrónu yfir og rífið svo börkinn ofan í pönnuna.  Náið upp hita og bætið svo aspasinum útí og látið malla í 7-8 mín á meðan þið veltið stöngunum um með töng.  Aspasinn á að verða mjúkur en ekki detta í sundur.

Raðið svo aspas á diska, setjið sneið af hráskinku yfir og svo eitt egg ofan á þetta.  Nú eru eggin líklega köld ef þið hafið verið með þau í ísbaðinu.  Gott er að hita eggin upp aftur  fyrir framreiðslu með því að lauma þeim í skál með soðnu vatni í 30 sek.   Rífið svo parmesan ost yfir og njótið.  Þetta er bara geggjað og sætur , létt reyktur imperial stout með kórónar allt.  Ég reyndar bauð uppá þetta sem kvöldverð þannig að það er ekkert mál.  Þarf ekkert að vera morgunmatur.

Haustrunk nýr gose bjór frá Borg í samstarfi við Wacken!

Ekki má rugla Gosa, litlu hraðlygnu strengjabrúðunni með langa nefið, við gose sem er sérkennilegur og forn bjórstíll sem hefur síðustu ár verið að fá mikla athygli í bjórheiminum.  Kaninn er sérstaklega hrifinn af þessum bjórstíl og við erum farin að sjá hann í mun meira mæli hér heima líka undanfarið.  Gose á rætur sínar að rekja til Þýskalands fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Hann dregur nafn sitt af ánni Gose sem rennur í gegnum miðaldarbæinn Goslar þaðan sem bjórinn er talinn hafa komið. Gose er súr hveitibjór bruggaður með ögn söltu vatni úr ánni (sem reyndar er meiri lækur) Gose á sínum tíma en í dag bæta men auðvitað salti í bjórinn. Gose er svo jafnan kryddaður með kóríander og mildum humlum. Bjórstíllinn, sem var vinsælasti bjór í Leipzig og nágrenni í kringum 1900, dó næstum því út á stríðsárunum en í kringum árið 2000 var honum sem betur fer komið til bjargar og stíllinn endurlífgaður.

biere-illustration-01-gose
Gose er forn þýskur súrbjór frá Goslar

Haustrunk Nr.C17 sem líklega má bera fram “hásdrúnk” á germönsku er nýr collab bjór frá Borg brugghús og þýska brugghúsinu Wacken Brauerei og er einmitt af gerðinni gose.  Hér hafa menn svo poppað bjórinn aðeins upp með apríkósum, hafþyrnum og vanillu sennilega til að gera hann meira íslendingavænni?  Það er svo skemmtileg staðreynd að Helge frá Wacken mætti á klakann með vatn úr Gose sem sett var í suðuna, svona meira til að tengja bjórinn við lækinn á táknrænan máta.

En þessi herlegheit er nú komin í sölu, ég hef ekki smakkað hann ennþá en klassískt er gose súr á tungu, vel kolsýrður, léttur og mildur með öööörlítilli seltu sem svo sem finnst ekki mikið.  Haustrunk er svo með áhugaverðum ávöxtum sem munu líka setja sinn svip á þetta allt.   Hlakka til að prófa!

Skýjabjór og bakkelsis stout, hvað finnst þér?

Það má með sanni segja að skýja æðið eða „the haze craze“ sem hefur verið að tröllríða öllu erlendis hafi heldur betur náð til landsins og þarf ekki að líta lengra aftur en til síðustu útgáfu frá Borg Brugghúss, safasprengjunnar Húgó India Pale Lager sem er skínandi dæmi um þennan nýlega viðurkennda bjórstíl (NEIPA) jafnvel þó Borgar menn kalli Húgó lager.  Það er hins vegar líka annað æði í gangi sem hefur farið aðeins minna fyrir hér heima en sætir álíka gagnrýni og skýja æðið en spekúlantar sumir hverjir vilja nefnilega meina að báðir þessir bjórstílar séu mikil afbökun og jafnvel móðgun við bjórheiminn og rótgrónar brugghefðir.  Fyrir mér er þetta bara væl í fólki sem er ekki opið fyrir nýjungum og fast í fortíðinni.  Að sjálfsögðu er framþróun í þessu eins og öllu öðru og hún er svo sannarlega af hinu góða, án hennar værum við t.d. föst með humlalausan, karakterlausan, dýsætan klístraðan fornbjór, ljósi lagerinn hefði t.d. aldrei litið dagsins ljós eins og í raun allir aðrir bjórstílar.  En nóg um það, fyrir okkur hér á Bjór & Matur þá er framþróun í bjórgerð bara fagnaðarerendi.  En hitt æðið sem ég ætlaði að tala um er svo kallaður bakkelsis bjór eða pastry beer.  Oftast er um að ræða stout eða imperial stout þó svo að aðrir grunnstílar komi vel til greina.

Bakkelsis bjór er svo sem ekki til sem viðurkenndur stíll og ekki er til nein ein rétt túlkun á hvað flokkast sem bakkelsis bjór.  Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort í meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa.  Aðrir tala um bakkelsis bjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.  Það sem fer fyrir brjóstið á mönnum eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykkir sé ekki hægt að flokka sem bjór.  Hvenær hættir bjór að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

Omnipollo í Svíþjóð er líklega það brugghús sem gerir hvað mest af þessu en þeir hafa þótt heldur lauslátir og djarfir í bjórgerð en eru þó feyki vinsælir.  Þeir virðast bara ekki þreytast á því að prófa sig áfram með þykkar og ljúffengar gúmmilaðibombur.  Einn af okkar uppáhalds bjórum er einmitt Noa Pecan Mudcake Stout þar sem þeir eru að túlka ákveðna tegund bakkelsis sem er í uppáhaldi hjá þeim.  Þessi bjór er svakalegur, þróttmikill og mjúkur en ofsalega sætur en fyrir mér gengur það upp hér. Annar frá þeim er svo Hypnopompa sem er imperial stout bruggaður með haug af sykurpúðum og Tahiti vanillustöngum á stærð við kúbanska vindla.  Útkoman er mögnuð.

Menn eru aðeins farnir að leika sér hér heima með þetta sem er mikið fagnaðarerendi.  Co og Co frá RVK Brewing er gott dæmi um bakkellsis bjór sem er bruggaður einmitt með bakkelsi en þeir nota snúða frá Brauð & Co í lögunina og útkoman er mjög skemmtileg.  Það er um að gera að prófa þennan en hann fæst á krana í bruggstofu þeirra um þessar mundir.  KEX Brewing er líka í þessum rituðu orðum að gefa út bakkelsis bjór á dós sem þeir kalla einfaldlega Skúffukaka og er svakalega ljúffengur imperial stout með skúffuköku kleinuhringjum frá DEIG Workshop.  Skúffukaka er reyndar þegar kominn á krana hér og þar í höfuðborginni ss KEX,  Mikkeller & Friends ofl stöðum.  Ég smakkaði svo um daginn bjór uppí Borg sem þeir eru að leika sér með og má líklega lítið fjalla um en það var amk frábær bakkelsis stout með vínarbrauði.  Ég vona svo sannarlega að þeir ákveði að gera eitthvað meira úr þeim pælingum því þetta var sannarlega ljúffengt.

Loks bruggaði Malbygg kókosbollu imperial stout hér fyrir einhverjum mánuðum síðan. Mig minnir að ég hafi smakkað hann á sínum tíma en hann er ekki tilbúinn, honum er nefnilega ætlað að liggja á ýmsum eikartunnum í einhverja mánuði til viðbótar áður en við fáum að bragða á honum.   Svo eru án efa einhverjir fleiri að gera eitthvað í þessum dúr sem ég veit bara ekki af.

En þetta er skemmtilegt, pastry bjór er amk valmöguleiki fyrir fólk sem vill salgæti á fljótandi formi og er ekki fast í fortíðinni.  Þegar þetta er ritað er ég staddur í Boston og er einmitt að fara rölta á Trillium en þeir eru að setja í sölu bakkelsis bjór sem þeir kalla Adjunction Junction og er imperial stout bruggaður með hnetum, kókoshnetu, kaffi og vanillu.  Þeir tala um að hann minni á smákökur með karamellubitum eða kökudeig.  Það verður eitthvað!

Húgó IPL Októberfest bjór frá Borg 2018 er algjörlega magnaður!

Það er að koma október og það þýðir oktoberfest með bjór, pylsum og læti ekki satt? Reyndar er hin upprunanlega oktoberfest byrjuð en hún byrjar ár hvert síðustu vikuna í September í Munchen Þýskalandi.  Í ár hófst veislan reyndar bara í dag þann 22.9.18 og ef þið hafið ekki þegar prófað þessa veislu í Munchen þá eigið þið mikið eftir.  Sturlun í allri merkingu þessa orðs.

En hér heima erum við með októberstemningu í smættaðri mynd víðs vegar um land, skólar, fyrirtæki og vinahópar halda uppá þessi tímamót um allt land í ýmsum stærðum og myndum.  Hér á landi miðum við við október fyrir þessi veisluhöld enda hljómar það bara rökrétt ekki satt?  En það er drukkinn bjór á októberfest og mikið af honum.  Í upprunalandinu Þýskalandi er þessi bjór alltaf lager og frekar á léttari nótunum en þó oft dálítið maltaður líka, stíllinn er stundum kallaður Marzen en ekki má kalla bjór alvöru oktoberfest bier nema hann sé bruggaður í Munchen í tengslum við þessa hátíð.

Hér heima eru brugghúsin sum hver farin að framleiða sérstakan bjór fyrir október „októberfestbjór“ eins og þeir kalla hann og við munum sjá þessa bjóra detta í vínbúðir núna einn af öðrum.  Borg Brugghús hefur verið að gera þetta síðustu árin og er alltaf um lager að ræða en yfirleitt er eitthvað skemmtilegt tvist á þeim en þó alltaf einhver tengsl við Þýskaland.   Hver man ekki eftir baltic porternum Grétu eða reykbjórnum Hans t.d?  Allir oktoberfest bjórar frá Borg eru með fjólubláum miða og í ár er það engin undantekning.  Húgó er nr 58 í röð Borg bjóra og kemur hann í verslanir í næstu viku, hann er reyndar þegar kominn á krana á Skál, Session Craft bar ofl stöðum og er um að gera að prófa hann ferskan því í ár þarf að drekka hann eins ferskan og hægt er, hann er bara bestur þannig.  Við erum að tala um stórkostlega 7.2% humla ávaxtabombu í anda New England IPA bjóra.  Þetta er þó lager fyrir þær sakir að hann er gerjaður með lagergeri en hann minnir í raun ekkert á lager, ekki í þeim skilningi sem flestir tengja við.  Ef ég væri að blindsmakka þennan bjór myndi ég gíska á NEIPA af bestu sort enda er hann þurrhumlaður í hengla með citra og mosaic humlum sem gefa þessa stórbrotnu ávaxtatóna og nett humlabit og svo er í honum lactosi sem skapar ákveðna mýkt og fyllingu. Borg kallar þennan bjór reyndar India Pale Lager til að tengja við humlana og beiskjuna. Magnaður bjór vægast sagt.

20180922_133754-01.jpeg

Tengingin við Þýskaland er kannski hér mest fólgin í nafngiftinni því stíllinn er fyrir mér alla vega eins amerískur og hann gerist!  Sem er frábært.  En nafnið er vísun til fatahönnuðsins Hugo Boss sem allir ættu að þekkja.  Hugo Boss stofnaði fyrirtækið í Þýskalandi árið 1924 og einbeitti sér upphaflega að því að hanna og framleiða einkennisbúninga fyrir þýska herinn.  Eftir síðari heimsstyrjöld hins vegar snéri fyrirtækið sér alfarið að því að hanna jakkaföt fyrir karlmenn.  Þar hafið þið það.

Bjórinn er væntanlegur eftir helgina í vínbúðir, vá hvað ég mun hamstra þetta!

BrewDog Reykjavík opnar á Föstudaginn

BrewDog opnar loksins dyr sínar í Reykjavík núna á föstudaginn 21.9.18.  Þetta hefur verið löng en falleg fæðing en ég hef verið svo lánsamur að fá að vera fluga á vegg síðustu misserin og fylgst með gangi mála.   Það hefur verið virkilega gaman að sjá þennan bar taka á sig mynd smátt og smátt í þessari nýbyggingu sem nú er risin við Frakkastíg.  Útkoman er þessi stórglæsilegi bar eða gastro pub, sem fólk getur skoðað og bragðað á frá og með föstudeginum kemur.  Hér má lesa nánar umfjöllun okkar um BrewDog fyrr á árinu fyrir þá sem ekki þekkja til.

20180919_200651-01.jpeg

Barinn er settur upp og innréttaður í anda BrewDog víðs vegar um heim en þó er alltaf eitthvað „local“ handbragð á hverjum bar sem gerir hvern bar sérstakan. Við erum hér með 20 bjórdælur sem færa manni bjór af dælukerfi sem líklega er með styttstu bjórlínum á landinu.  Kútarnir standa nefnilega í kæliherbergi beint aftan við dælurnar og línurnar eru aðeins um 1 meter að lengd en þannig má takmarka afföll og auka gæðin.  Kæliherbergi þýðir að ekki þarf sér kælikerfi til að kæla bjórinn og bjórinn er því geymdur við bestu aðstæður. Það er líka helvíti flott að geta séð inn í kælinn í gegnum glerhurðina við endann.
Stefnan er að hafa 12  krana með BrewDog bjór og þar af 5 „headliners“ eða fastan bjór sem maður gengur að vísum og svo er rest roterandi.  Afgangurinn er svo gestabjór af ýmsum toga, eina reglan er að gestabjór þarf að vera handverks bjór (craft) og auðvitað góður.  Í kvöld voru gestabjórarnir fjölbreyttir frá Malbygg, RVK Brewing, Borg Brugghús, Jóni Ríka ofl.

Headliners þessa stundina eru skemmtilegir karlar á borð við Jet Black Heart, Dead Pony Club, Indie Pale Ale og 5AM Saint sem er rauðöl af bestu sort sem mjög góður bjór til matarpörunnar hvers konar og ekki má svo gleyma flaggskipinu Punk IPA sem alltaf í boði, bjórinn sem kom BrewDog á kortið!

Það er ekki hægt að skilja við þessa yfirferð án þess að nefna nitro kranann en það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag.  Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra.  Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið.  Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn, það er svo sem ekki í boði þessa stundina samt.  Ég er ekki hrifinn af stout bjór yfir höfuð en þegar maður smakkar þannig bjór af nitro krananum þá er útkoman stórkostleg.  Við mælum því með því að fólk prófi Jet Black Heart nitro, t.d. með sturlaða djúpsteikta mars eftirréttinum sem er í raun full máltíð útaf fyrir sig.

20180919_190937-01.jpeg
BrewDog er bjórbar en það er alltaf einhver matur í boði en gæðin eru afar mismunandi eftir stöðunum.  BrewDog Reykjavík er hins vegar með mikla áherslu á mat af ýmsum toga.  Þegar ég ræddi við Þossa (karlinn í brúnni) á dögunum þá er áherslan ca 50% matur og 50% bjór enda eru miklir framamenn í veitingageiranum á bak við BrewDog í Reykjavík, menn sem kunna svo sannarlega að framreiða mat.  Matseðillinn er stórkostlegur, vægast sagt, þarna er bara eitthvað fyrir alla.  Í kvöld prófuðum við þrjá rétti en munum taka þetta allt betur út þegar þetta er komið í gang allt saman.

Það er óhætt að mæla með rifna andalærinu sem parast einkar vel með Elvis Juice sem er ljúfur vínberja IPA sem skapar skemmtilegt léttvægi á móti jarðbundu andalærinu, virkilega flott.  Svo prófuðum við kjúklinga vöfluréttinn með eggi og spicy majo.  Ofsalega skemmtilegur réttur á sætu nótunum en þó með nettum hita.  Hér kemur 5am Saint mjög vel út en áberandi maltkarakterinn í bjórnum tengir vel við sætuna í þessum rétti en humlabeiskjan tónar þetta þó niður og skapar gott jafnvægi.  Við enduðum svo kvöldið með konungi imperial stout bjóra, Tokyo sem er rétt rúmlega 16% imperial stout af allra allra bestu sort.  Þetta er þrusu bjór með mikinn hita og karakter en heilmikla sætu líka.  Við hefðum getað klárað þetta með bjórnum einum saman enda stendur hann fyllilega fyrir sínu sem flottur eftirréttur út af fyrir sig en við ákváðum að láta vaða í Mars  Bar Wellington sem er mars súkkulaði stykki sem er bakað í smjördeigi með Jet Black Heart karamellu, haframulningi og Madagascar vanillu rjómaís.  Þetta er sturlað combo og alls ekki fyrir viðkvæmar sálir með mikla líkamsvitund.  Maður þarf ekki að broða í viku eftir þetta monster.  Fínt til að deila 🙂

Já þessi general prufa fór vel af stað, smá byrjunar hnökrar en þó ekkert til að tala um.  Þetta verður virkilega flott í framtíðinni.  Bjór & Matur mun klárlega koma hér við reglulega á næstu misserum og leika sér með paranir ofl.  Til lukku Reykjavík með þennan nýja sælureit.

Susucaru, flippað náttúruvín beint frá hlíðum Etnu á Sikiley!

Náttúruvín eru nýjasta æðið hér heima, ég kýs að kalla þau craft vín eða handverks vín til að reyna að aðskilja þau frá hefðbundum vínum.  Bæði er vandað og gott en náttúruvínin eru bara svo flippuð og geðveik og allt annað en maður á að venjast.  Bjór & Matur hefur verið að skoða þetta fyrirbæri undanfarið og við erum bara rétt að byrja.

Við höfum verið að smakka vínin á Micro Roast Vínbar en þar er myndarlegt úrval náttúruvína, það voru nokkur sem stóðu uppúr fyrir okkur, Susucaro frá Frank Cornelissen er eitt þeirra en þetta er gríðarlega skemmtilegt rósavín með einstakan karakter.  Það þýðir ekkert að reyna að lýsa víninu hér svo vel sé, maður verður bara að smakka.  Það er þó hægt að segja að það er létt og þægilegt, dálítið berjað en svo er skemmtilegur öskukeimur í bakgrunni.  Jább það er ekki að undra því vínið kemur frá vínvið sem ræktaður er í um 600-1000 m hæð í hlíðum Etnu á Sikiley líkt og öll hin Frank Cornelissen vínin.  Vínið er gert úr blöndu af þrúgum,  Malvasia, Moscadella, Cattaratto og Nerello Mascalese.  Ég viðurkenni að ég þekki þessar þrúgur ekki neitt, nema Malvasia en það skiptir engu máli, útkoman er geggjuð.  Susucaru er eins og allt sem kemur frá Frank Cornelissen eins náttúrulegt og það gerist en þess má geta að hann gerir líka ólifuolíur af bestu sort.

20180815_191902-01.jpeg

Ár hvert gerir Frank 25.000 flöskur af þessu víni og því er ekki hlaupið að því að komast yfir flösku.  Um þessar mundir er þó hægt að finna slatta á Micro Roast og ég sá líka að The Coocoo´s Nest voru að leika sér með matarpörun og Susucaru.  Það er kannski líka hægt að sérpanta frá innflytjanda Berjamó via ÁTVR?

Susucaru er fyrsta vínið sem við smökkum frá Frank Cornelissen en það verður klárlega ekki það síðasta.  Edda hjá Berjamó lumaði því að mér að það væri von á fleiri vínum frá þeim á næstu misserum og þá held ég fast í vonina að MunJebel skjóti upp kollinum en miðað við það sem við höfum lesið um vínið þá verður það einhver rosaleg upplifun.   Sjáum  hvað setur!

Reykjavík Brewing Co komið vel af stað.

Nú er RVK Brewing Co komið vel af stað en þeir opnuðu brugghús og bruggstofuna sína bara núna í Júlí 2018.   Í bruggstofunni er 8 kranar eins og sakir standa og þar flæðir mjög skemmtilegt en umfram allt neytendavænt öl af ýmsum stærðum og gerðum.  Hvort sem það er saison, IPA, súröl eða stout þá erum við ekki að  tala um neina öfgar.  Hér geta í raun allir komið og smakkað án þess að verða fyrir skakkaföllum.  Presónulega þá mættu RVK Brewing samt koma með eitthvað líka sem hristir vel upp í manni en hér er það jú bara bjórnördinn í mér sem talar!

Ég er að koma hér í fyrsta sinn eftir formlega opnun en ég er svo sem búinn að reka inn nefið hér annað slagið á meðan þeir Siggi og co voru að koma þessu á laggir en það er gaman að sjá hvernig þetta kemur út svona tilbúið allt saman.  Notaleg stemning, ljúf tónlist, bjart og hreint andrúmsloft og bara þægilegt að vera.  Siggi sem er einn af eigendum og mikill bjórperri virðist alltaf vera á staðnum og það er um að gera að hnippa í hann og fá hann á flug.  Hann elskar að tala um bjórinn og allt ferlið.  Það er svo líka hægt að kaupa „the beer tour“ og fá hann til að kafa enn dýpra í þetta allt saman með smakki og tilheyrandi.   Ef þú ert hins vegar ekki til í að hugsa allt of mikið þá er bara að tilla sér í góðu horni, hlusta á góða tónlist og njóta ölsins. Ég mæli með NO 7 sem er þeirra nýjasti, session IPA þurrhumlaður með Idaho 7.  Mjög næst IPA, léttur fruity og með hæfilegri móðu sem er einmitt dálítið inn þessa stundina.  Þessi ku líka vera einn af fyrstu bjórum Valla bruggmeistara sem er bara ný dottinn inn um dyrnar hjá RVK bewing, en við þekkjum þennan strák frá Borg Bruggús auðvitað.  Nánar um þetta síðar.

Vinsælasti bjórinn þeirra um þessar myndir er líklega bakkelsisbjórinn Co & Co sem er 10.1% imperial stout sem er bruggaður ma með snúðum frá Brauð & Co.  Þessi er mjög ljúffengur.  Bakkelsis bjór eða pastry beer er fyrirbæri sem er að verað dálítið vinsælt í henni Veröld í dag, það verður að prófa þennan.  Ég myndi svo ekki fara héðan nema að smakka Sperrilegg sem er bara einfeldlega frábær reyktur gose sem er skemmtilegur þýskur bjórstíll sem næstum náði því að deyja út hér fyrir fáeinum árum.  Þessi er með þægilega þægilegum reyk í bakgrunni sem maður finnur varla fyrir en veit samt af, aðeins selta og svo léttur súr keimur.  Hljómar undalega en bragðast frábærlega.

20180909_181008.jpg

Svo er vert að fylgjast með á fésbókarsíðunni þeirra því þeir eru farnir að hóa í matarvagna þegar vel liggur á eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum.  Hvað er betra en góður skyndibiti og bjór?  Kannski skyndibiti og tveir bjórar?

Já þetta virðist allt fara vel af stað hjá þeim en við munum fylgjast vel með hvað þeir færa okkur á næstu misserum og höldum dálítið í vonina að þeir komi líka með eitthvað ögrandi og magnað fyrir okkur hin sem þurfum miklar bombur svo sem triple IPA, funky brett eða rótsterka tunnukarla til að koma okkur til.  Reyndar fékk ég smá sneak peak í það sem er að gerjast hjá þeim og það lofar sannarlega góðu.  Þetta verður eitthvað!