Blog

Juvé & Camps, frábært val þegar mikið stendur til

Búblur eru dásamlegar þegar vel er valið, já það eru sko til mismunandi búblur og sumt er algjörlega ódrekkandi.  Við höfum aðeins farið yfir fræðin hér og svo er hér hægt að finna upplýsingar um sætuskalann en við viljum helst eins þurrt freyðivín og hægt er, Brut Nature t.d.

Þegar við veljum freyðivín þá förum við oftast í hið spánska cava sem er gert á sama hátt og hið franska champagne eða með metode traditionale. Cava er hér heima amk oftast á nokkuð viðráðanlegu verði miðað við champagne og er ofsalega gott.  Við höfum í gegnum tíðina verið mikið í Freixenet og Codorniu cava sem eru dálítið risarnir í bransanum en þeir gera líka mikið af stórkostlegu cava.   Núna síðustu misseri hefur hins vegar Juvé & Camps verið það cava sem við sækjum í þegar við viljum gera vel við okkur í búblum.  Hér heima fæst eitt þekktasta vínið þeirra, hið stórkostlega Brut Nature Reserva 2014 gert úr blöndu af þrúgum ,55% Xarel·lo, 35% Macabeo og 10% Parellada. Þetta vín hæfir vel sem fordrykkur en gengur mjög vel með ýmsum réttum svo sem sjávarfangi.  Laxa carpaccio með sítrónu og parmegano osti er eins og sniðið fyrir þetta cava og svo ég tali nú ekki um ljúffenga franska lemon tart með ísköldu cava.

Juvé & Camps er fjölskyldu rekin víngerð í San Sadurní d’Anoia sem er lítið cava þorp í Penedés í Spáni.  Þetta er svona 40 mín akstur frá Barcelona.  Virkilega skemmtilegt að koma þarna og skoða þessar cava ekrur en bróður parturinn af allri cava framleiðslu Spánar/heimsins fer þarna fram.  Nafnið er komið frá stofnendunum Joan Juvé Baqués og konu hans Teresu Camps Farré sem stofnuðu Juvé & Camps árið 1921.

Njótið!

Búblu kúrinn, er það eitthvað?

Það er eins og allir séu á einhverjum matarkúrum, LKL, Keto, safa kúrinn og hvað þetta heitir allt.  Við Sigrún vorum að spá í að búa til nýjan og skemmtilegri kúr, Cava kúrinn þar sem maður má ekki borða neitt nema geitaost og drekka cava og reyndar stundum vatn með.   Reyndar er þetta bara spaug hins vegar er það rétt að ef menn eru að passa línurnar og vilja áfengi þá er það freyðivínið sem er málið, reyndar er það meira að segja leyfilegt á keto kúrnum.  Maður verður hins vegar að passa að freyðivínið sé þurrt, ekki sætt.  Hér er lítil tafla til að auðvelda valið, ef maður er í Brut eða Brut Nature þá er maðu nokkuð öruggur, svo er freyðivínið líka best þurrt og ósætt.

FreyðivínSætuskali

Micro Roast – Vínbar, þar sem náttúruvínin búa og svo allt hitt!

Það er ekki víst að allir viti það en það er kominn lítill sælureitur í henni Reykjavík.  Þ.e.a.s. ef þú ert fyrir það að senda bragðlaukana þína í langþráð og fullkomlega verðskuldað dekur.  Við eru erum að tala um Micro Roast – Vínbar í Mathöllinni á Granda.  Sælureitur segi ég af því að ég gæti eytt öllum mínum stundum hér…eða næstum því, þessi litli staður er nefnilega eins og sérhannaður fyrir einmitt mig og sennilega marga aðra ef út í það er farið!

Þessi litla perla býður nefnilega uppá þrjár af fimm lífsins nautnum, handverks bjór (craft beer) af bestu sort frá íslenskum ör-brugghúsum, geggjað „craft“ kaffi og vín eins og þig hefur aldrei einu sinni dreymt um, náttúruvín og Burgundy af bestu sort.  Og haltu þér….öll vínin er hægt að kaupa í glasavís og þá meina ég öll vínin, allt frá hinu geggjaða Camille Giroud Charmes Chambertin 2015 niður í notalegt og nett Louis Michel Petit Chablis 2016.  Já, þeir eru með sérstaka græju sem pumpar upp vínið í gegnum korktappann án þess að hafa nokkur áhrif á gæði vínsins og þannig endast flöskurnar óáreittar í dágóðan tíma.  Það er engin þörf á að opna flöskurnar.

20180815_202730.jpgNáttúrúvínin eru dálítið að skjóta upp kollinum hér heima um þessar mundir og ég hef aðeins fjallað um þau hér.  Við erum að tala um dásamleg lifandi vín allt frá freyðandi rauðvínum í gruggug funky hvítvín eða sturluð bleik rósavín sem skilur mann eftir agndofa.  Ef maður ætti að bera saman náttúruvín og hefðbundin vín þá er munurinn dálítið eins og nýkreistur appelsínusafi með öllu hratinu og án viðbætts sykur vs tandurhreinan sykraðan safa úr fernunni án aldinkjöts, sem getur sannarlega verið góður líka en þetta er samt tvennt ólíkt.  Micro Roast – Vínbar er líklega sá staður sem býður eitt mesta úrval náttúruvína hér í borg um þessar mundir en ekki er hægt að kaupa þessi vín í Vínbúðunum sem stendur nema kannski að sérpanta þau eftir einhverjum krókaleiðum.  Við ákváðum því að kíkja á Micro Roast og smakka náttúruvínin þeirra enda er Bjór & Matur mikið áhugafólk um þessi mögnuðu vín sem eiga svo margt sameiginlegt með elstu bjórstílum veraldar.

Burgundy vínin

Það voru þeir Halldór og Arnar sem tóku á móti okkur á þessum huggulega miðvikudags eftirmiðdegi, báðir miklir vínkarlar og fagmenn.  Halldór sem er framkvæmdastjóri staðarins, kaffinörd og mikill Burgundy unnandi, fræddi okkur um hugmyndafræði Micro Roast – vínbar á meðan Arnar (vínbóndinn.is) ferjaði í okkur náttúruvín af ýmsum litum og gerðum.  Náttúruvínin hjá þeim eru ýmist frá Ítalíu eða Frakklandi  um þessar mundir en svo eru þeir auk þess með myndarlegan lista af rauðu og hvítu frá Burgundy héraði í Frakklandi og búblur frá Champagne.  Það var virkilega gaman að heyra Halldór tala um vínin og vínbændurnar sem hann hefur hitt í eigin persónu marga hverja.  Ástarsamband hans við Burgundy var augljóst.  Við fengum að smakka tvö óaðfinnanleg Burgundy vín hjá honum og ég verð að viðurkenna að þessi samskipti okkar hafa kveikt aðeins í okkur, við munum klárlega skoða hin Burgundy vínin hjá þeim við tækifæri og ekki væri verra að hafa Halldór með í því.


Kaffi, bjór og vín.

Halldór sagði okkur að Micro Roast væri óháður vínbar sem sérhæfir sig í Burgundy vínum, náttúruvínum og íslenskum handverks bjór.  Já það er nefnilega einnig flott úrval bjórs á 5 dælum staðarins, allt bara frá litlu íslensku örbrugghúsunum okkar sem eru að gera það gott um þessar mundir, s.s. Malbygg, KEX Brewing og Ölvisholt Brugghús svo eitthvað sé nefnt.  Það er auðvitað breytilegt hvað er undir hverju sinni og því vert að fylgjast með. Stóru brugghúsin eiga ekki pláss þarna, sorry!  Kaffið er einnig í brennidepli hjá þeim á Micro Roast sem er eins og nafnið gefur til kynna eins konar ör-kaffibrennsla ef svo má segja , undir hatti Te og Kaffi , en hér fá kaffigúrúarnir hjá Te og Kaffi tækifæri til að leika sér með mismunandi ristun og hinar ýmsu kaffibaunir frá hinum ýmsu kaffibændum.  Allt 100% arabica auðvitað.  Þetta er þannig eins konar craft kaffi, tilraunir sem enda svo á kvörnunum á Mircro Roast – vínbar og sem gestir geta prófað að sjálf sögðu.  Kaffilistinn er stöðugt að breytast líkt og allir listar staðarins ef út í það er farið.  Það koma nefnilega stöðugt inn ný vín og önnur detta út.   Kaffið er framreitt á ýmsu formi, þú færð þannig klassíska espresso drykki úr vélinni þeirra eða uppáhellt á gamla mátann með hinum ýmsu græjum.  Þetta er bara geggjað.

20180818_113248.jpg

Hér getur maður sem sagt komið til að fá sér frábærann kaffibolla í munninn sinn, ekki verra ef Egill er á staðnum til að kokka einhvern töfradrykkinn, eða prófað sig áfram í vínum og bjór með góðum vinum ef á að gera vel við sig. Crue-ið á staðnum er til taks til að leiðbeina en það er mikilvægt þegar maður er að forvitnast um nýja drykki á hvaða formi sem er.   Svo eru það náttúruvínin sem var svo sem megin ástæða heimsóknar okkar þennan  miðvikudag. Hér færðu sko náttúrúvín!

Náttúrúvínin

20180815_185059.jpgVið fengum að smakka ein 7 náttúruvín, öll svo mismunandi og öll svo góð.  Þau gætu hafa verið fleiri, ég bara man það ekki.  Arnar byrjaði að færa okkur vín úr léttari endanum eins og lög gera ráð fyrir, við fengum fyrst notalegt og létt ítalskt prosecco frizzante (hálffreyðandi) náttúruvín sem var kannski heldur sætt fyrir okkar smekk en eitthvað sem ég held að flestir geti drukkið…crowd pleaser eins og ég kalla það stundum.  Svo kom skemmtilegt hvítvín, létt og laglegt með ögn karakter, líka gott en nokkuð „save“ en svo byrjaði ballið.  Arnar færði okkur hverja bragðsprengjuna á fætur annari með fróðleiksmolum um hvert vín sem okkur var fært með mikilli innlifun.  Það er nefnilega eitt að drekka gott vín en allt annað að drekka sama vín og vita eitthvað um bakgrunninn, svitann og tárin og svo ég tali nú ekki um ástina og alúðina sem fór í það að færa manni akkúrat þetta vín.  Ómetanlegt.   Maður myndi kjósa að hafa alltaf svona vínkarl með sér þegar maður ætlar að gera vel við sig en það er víst ekki hægt, það er þó hægt að notast við vinalegt starfsfólkið á Micro Roast sem er viljugt til að gefa ráð um kaffi, bjór og vín, já og Arnar „Vínbóndi“ er meira að segja stundum á staðnum.

Það skal tekið fram hér að við erum ekki að tala um klassísk eikuð rauðvín eða berjuð og clean hvítvín heldur spriklandi, lifandi og nokkuð ögrandi vín sem kalla á virðingu og opinn hug.  Ef þú ert að leitast eftir mjúku þéttu Barolo eða hressandi og svalandi, kristal tært Chardonnay þá ertu á villugötum, bíddu með náttúruvínin um stund.  Vínin sem stóðu uppúr hjá okkur þetta kvöld voru bæði orange vínin sem þeir bjóða uppá, Sébastian Riffault Auksinis Sancerre 2013 og Cantina Giardino Paski 2015, klikkuð vín með gruggi og lífi.  Orange hefur ekkert með appelsínur að gera, bara liturinn minnir á ávöxtinn en hér fær vínið að liggja á vínberjahýðinu sem ekki er vaninn í hvítvínsgerð.  Vínið fær þannig meira bragð og fyllingu frá hýðinu og svo litast það aðeins og verður meira gyllt.  Þessi vín voru svakaleg, dálítið krydduð og funky eins og lambic eða gueuze bjórheimsins.  Hið freyðandi rauðvín, Zanotto Col Fondo Rosso Frizzante kom svakelga á óvart og verður klárlega á okkar borðum um ókomin kvöld, þvílík dásemd, létt freyðandi og klikkað rauðvín og loks var það Susucaru frá hinum snargeggjaða Belga Frank Cornelissen en hann ræktar þrúgur sínar í hlíðum Etnu á Sikiley sem er eins og flestir vita virkt eldfjall.  Já vínin hans Franks eru dálítið sturluð og langt út fyrir öll box en ganga svo sannarlega upp.  Ég held svei mér þá að ég hafi ekki smakkað betra rósavín á minni lífsleið.  Frank Cornelissen vínin eru álíka fágæt og þau eru góð og allir eru að eltast við þau.  Það eru því dálítil forrétindi að komast í sopa frá þessum gaur.  Susucaru er einfaldlega geggjað vín sem ég held bara að þú verðir að prófa…strax því þetta er að klárast.

20180815_190459.jpg

Já það voru svo sem fleiri vín góð en það er ekki hægt að fjalla um þetta allt….þetta er þegar orðið allt of langt.

Boðskapurinn er einfaldlega þessi, tékkaðu á þessu bara, prófaðu glas af hinu og þessu víninu eða bara sjúkt kaffi, svo er alltaf bjórinn ef allt annað er of mikið.  Prófaðu á eigin tungu um hvað þetta náttúruæði snýst…þetta er bara rétt að byrja hérna á klakanum.

Grillaðar Tígrisrækjur í chilli – hvítlauks marineringu með ísköldu Prosecco!

Ég er aðeins byrjaður að fikta í Prosecco en eins og komið hefur hér fram áður eru búblur í miklu uppáhaldi hjá okkur á B&M líka.  Prosecco hefur hins vegar ekki verið mikið í glösum okkar í gegnum tíðina því við höfum til þessa valið helst gott þurrt cava eða champagne í okkar glös.   Við erum hins vegar þessi misserin að skoða meira hið ítalska prosecco því þau eru til virkilega góð þarna úti og alveg á pari við gott cava ef þannig ber undir. Vinsældir prosecco vína eru miklar um þessar mundir og ekki bara á Ítalíu.

Á dögunum tókum við með okkur í kot Albino Armani Rosé Extra Dry sem er virkilega vandað prosecco frá Veneto héraði á Ítalíu þaðan sem prosecco er í raun ættað.  Vínið er „spumante“ sem þýðir að það er vel freyðandi ólíkt „frizzante“ sem er hálffreyðandi ef svo má segja.  Það er gert úr blöndu af vínþrúgum, Pinot Nero og Chardonnay og er fallega bleikt á litinn og stórglæsilegt í glasi.  Rósa freyðivínin (bleiku vínin) eru að verða dálítið vinsæl um þessar mundir en til eru bleik champagne, cava og prosecco ásamt öðrum stílum.  Orðið „extra dry“ sem sjá má á sumum prosecco vínum gefur til kynna sætuna í víninu.  Það er oft talað um 5 flokka í prosecco og þá er það þurrasta (minnst sæta) kallað brut, svo extra dry, sec, demi sec og doux sem er lang sætast.  Smekkur manna er misjafn auðvitað en við hér erum lítt hrifinn af sætari endanum og leitum alltaf af helst brut en extra dry er líka fínt.

Albino Armani Rosé er mjög þægilegt freyðivín, sætu er stillt í hóf en hún er þó þarna, búblurnar þéttar og miklar og mikill léttleiki yfir öllu.  Við ákváðum að prófa þetta vín með geggjuðum grilluðum tígrisrækjum sem við smökkuðum fyrst hjá góðum vinum okkar Magga og Hafdísi hér um árið.  Grillaðar Tígrisrækjur í chilli hvítlauks marineringu.

Innkaupalistinn

  • Stórar rækjur, á stærð við þumlung ss tígrisrækjur í Costco (helst frosnar hráar með halanum á), ca 1 kg
  • Hvítlaukur
  • Ferskur chilli rauður (3 stk)
  • Sítróna 1 stk
  • Ólífuolía
  • salt
  • klettasallat
  • Majones
  • Sýrður rjómi

20180731_192041-01.jpeg

Aðferð

Fyrir marineringuna: Heill hvítlaukur, 3-4 ferskir chilli, rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu og ólifuolía, 2 dl.  Setjið hvítlauk og chilli í matvinnsluvél og saxið í smátt, bætið við rifnum sítrónuberki og olíu og blandið vel.

Þerrið rækjurnar og setjið í fat og hellið merineringu yfir og látið kúra á meðan þið græjið grillið.  Þegar grillið er orðið heitt þá grillið þið rækjurnar í ca 1.5 mín á hvorri hlið.  Saltið þær svo létt.

Fyrir hvítlauks sósuna: Hrærið saman majonesi og sýrðum rjóma, bætið pressuðum hvítlauk ca 2 rif saman við og svo sítrónusafa eftir smekk.

Dreifið síðan kelttasallati á stórt fat, setjið rækjurnar yfir og kreistið aðeins sítrónu yfir.  Berið svo fram með hvítlaukssósunni.

Þetta kemur virkilega vel út með þessu flotta prosecco sem er þurrt en hefur þó ögn sætu sem vinnur skemmtilega á móti chilli-inu í marineringunni.  Kolsýran í víninu léttir svo á öllu og skapar þannig meira pláss fyrir rækjurnar.  Hér er drykkurinn ekki að taka neitt frá frekar viðkvæmum rétti.  Stórkostlegt!

20180801_172910-02.jpeg

Við prófuðum annað prosecco frá sama framleiðanda.  Albino Armani Prosecco.  Þetta vín er elegant í glasi, föl ljóst að lit með fallegum búblum.  Það er nokkur sæta í því sem er of mikið fyrir rækjurnar og fyrir okkar smekk eitt og sér.  Hins vegar snarvirkar þetta í hinn vinsæla drykk Aperol Spritz.  Sætan kemur hér vel út á móti þurra Aperolinu og skapar flott jafnvægi.  Það eru til nokkrar útgáfur af þessum kokdilli og aftur er það smekksatriði í hvaða hlutföllum maður blandar.   Eftirfarandi er að virka vel fyrir okkur, drykkyrinn er dálítið þurr en ekkert um of.

Aperol Spritz: Setjið mulinn ís í glas, slatta, hálffylla glasið.  Svo eru það 2 hlutar Aperol, 3 hlutar Albino Armani Prosecco og 1 hluti sódavatn.  Hér á bæ sleppum við reyndar sódavatninu og notum bara meira prosecco.  Svo tvær hálfar appelsínusneiðar til að glæsa þetta aðeins upp.   Þetta er geggjað svona.  Stillið svo af beiskjuna bara með Aperol.

Náttúruvín, villibjór vínheimsins?

Náttúruvín er orð sem maður er farinn að heyra meira og meira hér heima um þessar mundir.  Barir keppast við að auglýsa „nýjustu náttúruvínin“ sín og sumir staðir gefa sig út fyrir að vera sérhæfir í náttúruvínum.  Fólk er líka farið að tala um hve náttúruvínin eru miklu betri en „ónáttúruvínin“ eða hvað á maður að kalla þau?

Hvað er þá náttúruvín? Það er ágætt að rugla þeim ekki saman við lífrænt ræktuðu vínin því lífrænt ræktuð vín eru ekkert endilega náttúruvín, hins vegar eru náttúruvín alltaf lífrænt ræktuð.  Það er svo sem ekki til nein lögskráð skilgreining en ef maður á að útskýra á sem einfaldasta máta eru náttúruvín vín sem eru gerð án þess að bæta nokkru við í framleiðsluferlinu eða taka eitthvað út.  Sem sagt, engin aukaefni, engin eiturefni við ræktun, ekki er notast við einangraða gerstofna við gerjun heldur það ger sem er að finna á vínberjunum (villiger) sjálfum, vínin eru ekki síuð og ef þau freyða þá er það kolsýra frá gerinu sem kolsýrir vínið í flöskunni, ekki viðbætt kolsýra.  Náttúruvín í sinni hreinustu mynd eru ekki heldur með viðbættu súlfati.  Loks má benda á að allt ferlið er meira svona gamaldags ef svo má segja, ekki er um að ræða fleiri hektara af vínvið og þrúgurnar eru handplokkaðar.  Vínin eru oft bara framleidd í litlu upplagi og því getur verið erfitt að nálgast þau.

Menn segja að bragðupplifunin sé allt önnur ef borið er saman hefðbundið vín og náttúruvín, dálítið eins og súrdeigsbrauð vs venjulegt heimilisbrauð, eða kreistur ávaxtasafi vs ávaxtaþykkni.  Fyrir mér má líkja þessu við handverksbjór (craft beer) vs fjöldaframleiddan lager bjór.    Talandi um bjór þá vakti þessi náttúruvíns umræða áhuga minn einmitt vegna þess hve mikið náttúruvín minna mig á hinn villigerjaða belgíska lambic bjór eða gueuze.  Villigerjaður bjór er látinn gerjast af örverum þeim sem finnast í andrúmsloftinu og lenda í bjórnum, engum sykri er bætt við í ferlinu, bjórinn er ósíaður og það er gerið sem sér um að kolsýra bjórinn í seinni gerjun á flöskum eða tunnum.

Bragð og áferð minna einnig um margt á bjórinn, náttúruvín eru jafnan dálítið meira „funky“ og á súrari nótum og meira gerbragð er af þeim en hefðbundnu vínum. Reyndar geta þau svo sannarlega verið sæt og mild ef út í það er farið og erfitt er að finna muninn á náttúru og hefðbundu.  Þar sem náttúruvín eru ekki síuð geta þau oft verið ansi skýjuð en það gerir þetta allt bara meira „rustic“ og spennandi.  Þetta gæti verið lýsing á súrum funky lambic svei mér þá.   Það er ljóst að náttúruvín geta verið allt frá mild og þægileg og minna í raun ekkert á annað en hefðbundin vín og svo upp í funky og flókin með skemmtilegum karakter.  Það er um að gera að biðja um eitthvað funky eða spes því þá færðu það sem við erum að tala um hér og heillumst svo mikið af.

Fyrir okkur hér á B&M er þessi mikli áhugi landans á náttúruvínum bara rökrétt þróun í landi þar sem mikil vakning hefur verið fyrir handverksbjór síðustu ár. Kröfur um gæði eru bara meiri og svo ég tali nú ekki um hreinlæti og náttúru. Nú er smekkur manna samt misjafn en ég hvet fólk til að prófa sig áfram og smakka og fara í þetta með það hugarfar að bragðlaukarnir eru að fara upplifa eitthvað alveg nýtt.

Session Craft Bar, stál og stíll og geggjaður craft bjór

Það er kominn nýr bjórbar á besta stað í henni Reykjavík, Session Craft Bar við Bankastræti 14 (fyrir ofan Subway).  Það eru þeir Maggi, Ási og Villi sem koma að þessu að mestu leiti og reka staðinn.  Allt eru þetta miklir fagmenn og áhugamenn í handverksbjór en þessir guttar hafa m.a. fært okkur ölið á einum besta bjórstað borgarinnar Mikkeller & Friends Reykjavík og ættu að kunna handtökin, svo eru þeir líka sjálfir að brugga bjór (Maggi og Villi) undir merkjum mono. Brewing Project sem sumir kannast við frá Bjórhátíð á Kex 2018.  Magnús Már Kristinsson þekki ég nokkuð til og veit því að Session bar er í góðum höndum.  Það kæmi okkur því ekkert á óvart hér hjá B&M ef þessi nýji bar myndi tilla sér í efstu sæti yfir bestu bjórstaði landsins á næstu misserum ef vel er haldið að spöðunum.

En hvað gerir annars bjórbar að góðum bjórbar eða „besta“ bjórbar borgarinnar kann einhver að spyrja?  Að okkar mati er svarið alls ekki einfalt, það þarf nefnilega að taka margar breytur með í reikninginn en efst á blaði er eftirfarandi,  þekking starfsfólks á því sem þeir eru með í höndunum, þjónusta og viðmót og geta til að ráðleggja forvitnum nýgræðingum, gæði bjórsins er auðvitað algjörlega efst á blaði og úrval skiptir auðvitað miklu, það er ekki nóg að vera með 30 dælur af bjór sem allur er eins eða svipaður t.d. loks er umhverfi og stemning líka mikilvægur þáttur.  Nú er Session Craft Bar bara rétt að stíga sín fyrstu skref og kannski of snemmt og ósanngjarnt að dæma strax en þetta byrjar samt vel hjá þeim strákum.

20180727_164729-01.jpeg

Ég valdi reyndar versta dag sumarsins til að kíkjá á Session, einn af 4 sólardögum sumarsins og því ekki beint inniveður en maður lætur sig hafa sig út í eitt og annað fyrir góðan bjór ekki satt?  Barinn er rúmgóður, bjartur með stórum og flottum gluggum sem snúa að Laugavegi sem iðar allur af lífi í sumarsólinni. Staðurinn er allur hinn glæsilegasti, stílhreinn og gljáfagður, stál og stemning.  Sumir myndu kannski segja kuldalegur, en ég kann vel við þetta svona.  Reyndar stendur til að „hugga“ þetta dálítið upp með myndlist og gróðri sem er hið besta mál.  Andrúmsloft hreint og ekki óþolandi hávaði og músík, ég var reyndar að heimsækja staðinn á föstudegi á rólegum tíma í kringum 17:00 en ég er nokkuð viss um að troðinn staður komi samt vel út hvað þetta varðar en það á svo sem eftir að skoða það.  Á svona stað þarf nefnilega að vera hægt að spjalla saman í rólegheitum, t.d. um bjórinn og allar hinar dásemdar víddir hans, en ekki öskra yfir borð.  Maður fer annað til að dansa og öskra. Það eru 16 dælur í húsinu, 12 fyrir bjór þegar ég kom í heimsókn og tvær fyrir tilbúina kokdilla frá Mikropolis (BRUS í Kaupmannahöfn). Í dag var þetta ca 90% bjór frá nýjum íslenskum örbrugghúsum á krana, Malbygg, RVK Brewing og Ölverk svo eitthvað sé nefnt, rest erlendur bjór.  Það er svo sem engin stefna komin í þetta enn sem komið er skilst mér, þ.e.a.s hvort planið sé þessi 90% íslenskt og tveir kranar fyrir kokdilla, líklega eru það bara straumar og vindar sem munu ráða för Á næstunni en svona var þetta alla vega í dag.  Ég veit svo að þeir luma á Alefarm kútum sem þeir munu vonandi tengja innan tíðar. Veisla sko, ekki missa af því!

Flösku/dósa úrval var lítið en þetta er allt á byrjunarreit svo sem.  Reyndar var ég svo heppinn að þegar ég leit við var Maggi einmitt að kæla nokkrar Alefarm dósir , Surfaced og Folding Water, báðir geggjaðir NEIPA karlar sem munu rjúka út þegar þeir fara í sölu, „Come and getit“.  Svo er hægt að fá Pilsener Urquell og….wait for it….Coors Light dósir, ja hérna hér.  Já, hér er bara eitthvað fyrir alla svei mér þá, fólk sem vill alvöru bjór og svo hina sem vilja ekki alvöru bjór!  Í þessu samgengi verð ég svo að benda á að gamli góði Löwenbrau er hér á krana ef menn vilja smá nostalgíu….líklega eini barinn á landinu með þennan á krana?  Já það er undarlega gaman að þessu.

20180727_170430-01.jpegKlósettin eru snyrtileg og einföld, og fyrir okkur standandi pissandi er bara ein stálrenna sem maður skilar af sér í , ekkert vesen og svo HILLA til að tilla bjórnum sínum á.  Það er nefnilega mikilvægara en margan grunar að geta tekið ölið með sér á klósettið og lagt það frá sér meðan maður athafnar sig.  Maður vill EKKI skilja drykkinn sinn eftir óvarinn frammi í sal, þetta segi ég sem læknir með óþægilega mikla reynslu af afleiðingum þessa.  Þó svo að- Session Craft Bar sé líklega með öruggari stöðum hvað þetta varðar þá er góð vísa bara ekki of oft kveðin.  Alla vega, hér er kominn flottur bar á frábærum stað í borginni sem mun án efa færa okkur það besta sem er að finna á bjórsviði okkar Íslendinga í framtíðinni.  Fylgist með þessum ef þið hafið áhuga á góðu öli!

Bjór í Barcelona, staðan í dag!

Ég lenti óvænt í sólarhrings stoppi í Barcelona á dögunum á leið minni frá Róm vegna flugvandamála og svo kom ég aftur nokkrum vikum síðar (þegar þetta er skrifa).  Ég notaði tækifærið og skoðaði bjórsenuna í borginni sem er á góðu flugi og hefur verið síðustu ár.  Nú er ég hér í 5. sinn og það er bara alltaf eitthvað nýtt að bætast við.  Ég hef áður einhvers staðar skrifað um bjór í Barcelona og um Edge Brewing sem var valið besta nýja brugghús heims á Ratbeer árið 2014 en það hefur ýmislegt breyst síðan þá.  Ég ætla ekki að fara í einhverjar langlokur hér að þessu sinni…eða það er amk planið.

20160725_172701.jpgSíðast var ég í borginni 2016 og heimsótti ma. Edge Brewing sælla minninga en á þeim tíma var Mikkeller Barcelona bara að opna og BrewDog nýlega komnir.  Þetta eru svo sem góðkunningjar bjórunnenda og þarf ekki að fara frekar í þá sálma hér.  Þess má þó geta að maturinn á Mikkeller var virkilega flottur klassískur barmatur, ég borðaði þarna nokkrum sinnum.  Það góða við þetta er að BrewDog og Mikkeller eru bara rétt hjá hvor öðrum og það sem meira er, BierCab er þarna líka rétt hjá bara.  BierCab hefur lengi vel verið titlaður besti craft bar borgarinnar en þar eru að finna 30 krana með alls konar góðgæti frá öllum heiminum.  Þeir eru líka með stóran og áhugaverðan matseðil.  Samfast við BierCab er svo mjög flott bjórbúð með góðu úrvali af flöskubjór frá flottustu brugghúsum veraldar, líklega með betri bjórbúðum í Barcelona. Í þessari ferð fann ég þarna t.d. Yellow Belly frá Omnipollo sem ég hef leitað að í nokkur ár.

Ofan á þetta allt bætist svo við Garage Beer Company sem opnaði dyr sínar skammt frá BrewDog og Mikkeller fyrir einum þrem árum síðan.  Já ég bara vissi ekki af þeim þegar ég var þarna að þvælast 2016 fjandinn hafi það 🙂  Í dag eru þessir gaurar á hraðri uppleið í bjórveröldinni og gera með betri bjórum Spánar.  Sumir kannast kannski við þá af Bjórfestinni á Kex á síðasta ári?  Þeir gera bara magnaðan bjór og ekkert múður.  Við Sigrún fengum okkur aðeins í gogg þarna, flottan burger og svo geggjaðan bjór, hazy NEIPA auðvitað og nokkra mismunandi.   Ég mæli með Soup sem er þeirra best seller um þessar mundir.  Barinn er flottur en allt mjög hrátt og einfalt.  Ekkert glis og glimmer.  Þjónustan var frekar hæg reyndar, það tók ansi mörg andartök að panta bjór, reyndar var verið að þjálfa starfsmann þarna og svo má ekki gera lítið úr því að ég var ansi tæpur á tíma, átti vél heim til Íslands 5 tímum síðar.  En þrátt fyrir allt þá setjum við þennan stað efst á lista yfir staði til að heimsækja ef bjór er það sem menn vilja í Barcelona.

20180601_185946-02.jpeg

Við römbuðum reyndar einnig inn á tvo aðra ansi magnaða staði, þetta eru systurstaðir reknir af dönskum bjóráhugamönnum.   Danir og bjór virðast vera allstaðar svei mér þá.  Annars vegar er það Kælderkold og hins vegar Ölgod.  Kælderkold hefur verið hér í borg síðustu 4 árin, ég vissi bara ekki af honum fyrr en ég rambaði óvart inn á hann í gotneska hverfinu skammt frá Römblunni.  10 kranar með bjór frá öllum heimsins hornum þmt local svo sem The Garage Brewing, Soma ofl.  Virkilega ljúft að rekast á þetta, staðurinn er samt pínu lítill en maður getur tekið með sér dósir to go.  Ölgod er hins vegar töluvert stærri og ekki svo langt frá.  Staðurinn opnaði 2016 og er með 30 dælur og myndarlegan matseðil.  Þetta er fullkominn staður til að tilla sér á, eftir dag á ströndinni eða í „mollinu“, og fá sér í gogg.

En svona til að taka þetta saman í stuttu máli þá eru meðmæli Bjór & Matur þessi:

Best er að koma sér á Placa de Catalunya sem er mjög miðsvæðis miðað við þetta allt.  Það er auðvelt að komast þangað.  T.d. fer flugrútan beint þangað.  Svo er tiltölulega stutt að rölta í bjórinn (sjá kort).

Ölgod. Algjört möst ef þú ert að þvælast í miðbænum, á La Rambla (sem mér finnst persónulega hræðilegur staður), Gotneska hverfinu eða á ströndinni t.d. þá er stutt að fara á Ölgod.  Kælderkold ef þú ert aðframkominn og nærð ekki á Ölgod.

 

Freyðivín og allt það. Ertu með réttu búblurnar í glasi?

Ég vil ekki gefa mig út fyrir að vera einhver freyðivíns sérfræðingur (er það til?) hins vegar hef ég mikinn áhuga á góðum drykkjum og kemur bjórinn líkast til í fyrsta sæti hjá mér en í öðru sæti eru nefnilega hin freyðandi vín.   Ég hef því aðeins verið að fikta í þessu í gegnum tíðina en oft finn ég hjá mér meiri löngun í gott freyðivín en bjór.  Okkur hér á Bjór & Matur, sem við munum kannski breyta í Bjór, Búbblur & Matur fannst kominn tími til að fjalla aðeins um þennan merka drykk hér.   Nú segi ég hér „þennan drykk“ eins og um einn drykk sé að ræða, það er alls ekki svo, freyðivín er samheiti yfir vín sem freyða en mismunurinn er mikill, eins og ég segi alltaf með bjórinn, freyðivín er ekki bara freyðivín.  Fróðleikur er alltaf skemmtilegur en það breytir jú ekki því hvað okkur finnst gott eða hvað?  Stundum getur reyndar góð saga á bak við drykkinn gert hann meira spennandi og maður upplifir hann á annan hátt.  Fróðleikur getur hins vegar kannski verið leiðbeinandi þegar maður prófar sig áfram í óþekktu felti?  Hér að neðan eru nokkur orð um þekktustu freyðivín veraldar!

Champagne frá Frakklandi
Ég held að allir þekki Kampavínið, Champagne, en það er líklega frægast allra freyðivína.  Sumir kalla allt freyðivín Kampavín sem er einfaldlega kolrangt og dálítið móðgandi við Champagne vínin.  Alvöru Champagne kemur frá Champagne héraði í Frakklandi og er eina vínið sem má bera þetta nafn.  Champagne er gert úr Pinot Noir, Pinot Meunier eða Chardonnay þrúgum, oftast blöndu þessara þriggja þrúga.  Notast er við svokallaða „méthod champenoise“ aðferð sem þýðir að freyðivínið er látið gerjast aftur á flöskum. Eftir fyrstu gerjun er víníð sett á flöskur, menn bæta svo meira geri og sykri í flöskurnar og loka með tappa.  Svo er vínið látið dúsa á flöskum á meðan gerið borðar sykurinn og býr til kolsýru.  Þetta er aðferð sem við þekkjum vel úr bjórheiminum sérstaklega hinum belgíska.  Við þetta verður bjórinn gruggugur því gerið fjölgar sér og er á sveimi í bjórnum eða í þessu tilviki víninu.  Ósíaður bjór þykir merkilegur og meira „náttúrulegur“ en sá síaði og kolsýrði.   Kampavínið á hins vegar alls ekki að vera gruggugt, hér kemur flókni parturinn.  Flöskunum er reglulega snúið og hallað eftir kúnstarinnar reglum þannig að gerbotnfallið sem kallast „lees“ safnast fyrir í flöskuhálsinum.  Eftir nokkra mánuði eða jafnvel einhver ár eru flöskurnar opnar og gerið fjarlægt og í staðinn bætt útí vínlausn og smá sykri til að fylla upp flöskuhálsinn.  Loks er flöskunum lokað með korktappa og vírneti eins og við þekkjum öll.  Þessi tími á flöskunum og gerinu mótar vínið og gerir það flókið og skemmtilegt á bragðið og auðvitað tekur víðið í sig allar dásamlegu búblurnar.  Einhvers staðar las ég að þessi aðferð hafi verið fundin upp af munki nokkrum að nafni Dom Perignon.  Einhver kannast nú við þetta nafn en færri hafa kannski smakkað Dom Perignon kampavín því það kostar dálítið, reyndar með þeim dýrari þarna úti.  Aðferð þessi er líka kölluð méthode classique, Méthode Traditionnelle eða metodo classico. Þess má geta að Frakkar gera alls konar freyðivín utan Champagne héraðs, amk 23 önnur héruð framleiða freyðandi vín með méthod champenoise en auðvitað má ekki kalla þau Champagne, gott dæmi er Crémant vínin sem eru gerð í nokkrum héruðum í Frakklandi.

Prosecco frá Ítalíu
Prosecco
er líka mjög þekkt freyðivín, sérstaklega hér heima en til er ansi gott úrval hér í vínbúðum landsins.  Ég verð að viðurkenna að ég hef í gegnum tíðina verið lítið spenntur fyrir Prosecco, ég hef alltaf talið það svona þriðja flokks freyðivín en svo er samt ekki. Ég hef bara ekki enn lent á góðu Prosecco en ég stefni á að bæta úr því.  Prosecco er freyðivín sem ættað er frá Veneto héraði á Ítalíu og er jafnan töluvert ódýrara hér en Champagne.  Það þarf samt að passa sig dálítið, bara af því að það stendur Champagne á flöskunni þýðir ekki að það sé mun betra freyðivín, oft getur verið betra að næla sér í vandaða Prosecco flösku eða Cava en ódýrt Champagne.  Smekksatriði auðvitað en gott að hafa bak við eyrað.  Prosecco er gert úr blöndu af ýmsum hvítvínsþrúgum en Glera þrúgan er alltaf notuð við gerð þess.  Það mikilvægasta í þessu er kannski það að Prosecco er ekki gert með sömu aðferð og Champagne, sem sagt  méthod champenoise, heldur er vínið látið ganga í gegnum seinni gerjun undir þrýstingi í stórum stáltönkum, aðferð sem kallast „Charmat eða Martinotti aðferð“ sem er ódýrari og fjótari leið til að kolsýra freyðivínið.   Á þennan hátt verður Prosecco léttara og með minni keim frá gerinu en Champagne.   Prosecco er oft líka meira á sætari nótunum en Champagne eða Cava.

Franciacorta hið ítalska kampavín.
Það vita það kannski ekki margir en Ítalir gera annað freyðivín eftir sömu aðferð og Champagne, það má auðvitað ekki kalla það méthod champenoise en méthode classique eða Traditionelle gengur smbr hér að ofan.  Vínið kallast Franciacorta og er töluvert yngra fyrirbæri en Prosecco eða ca 50 ára gamalt.  Franciacorta er nefnt eftir héraðinu sem það kemur frá en það er gert með nákvæmlega sömu aðferð og sömu þrúgum og hið franska Champagne en auðvitað ekki alveg sama loftslag og því verður vínið ekki eins.  Úrvalið hér heima er sára lítið, ég sá þó eina flösku um daginn í vínbúðinni en ég á alveg eftir að skoða hana betur.

IMG_7576

Cava frá Spáni.
Hér komum við að „go to“ freyðivíni okkar á B&M, gott Cava er bara dásamlegt.  Cava er líkt og hið franska Franciacorta framleitt á sama hátt og Champagne, þ.e.a.s. seinni gerjun fer fram í flöskunum og getur tekið einhver ár að þroskast.  Þrúgurnar eru hins vegar allt aðrar svo sem Macabeu, Parellada, og Xarello þrúgur sem maður hefur svo sem lítið heyrt um en stundum er Cava gert úr Chardonnay eða Pinot þrúgunum líkt og Champagne.  Spánverjar hafa vélvætt ferlið meira en Frakkarnir, þ.e.a.s á meðan Champagne flöskunum er snúið og tillt með handafli þá sjá vélar oftast um það ferli í Cava gerð.  Reyndar gera menn líka Cava með gömlu aðferðinni svona spari.  Yfir 95% af allri Cava framleiðslu Spánverja kemur frá Penedés svæðinu í Katalóníu og eru Codorniu og Freixenet stærstu framleiðendurnir en þessir framleiðendur ástamt mörgum öðrum minni má finna í einu og sama þorpinu, Sant Sadurní d’Anoia og er afar gaman að koma þarna og fá að skoða framleiðsluna og smakka.  Bjór & Matur hefur heimsótt Freixenet í þrígang og er alltaf jafn fróðlegt að skemmtilegt að koma þarna.  Þorpið er í ca 40 mín akstur frá Barcelona ef ég man rétt!

Sætt eða þurrt?
Öll þessi freyðivín eru mismunandi hvað varðar sætu.  Þannig eru til dísæt champagne, procecco og cava vín og svo allur skalin upp í draugþurr freyðivín með nánast engum kaloríum ef menn eru að spá í það.   Sætan kemur að mestu frá sætu vínlausninni sem bætt er í flöskurnar eftir að gertappanum hefur verið fargað.  Persónulega finnst mér það eina sem kemur til greina þurr og nánast ósæt freyðivín.  Í veröld Champagne er gott að leita eftir Brut Nature eða Extra Brut á flöskunni en það eru þurrustu vínin, Brut sleppur líka en allt annað fer að vera nokkuð sætt.  Demi – Sec og Doux eru sætust.  Cava er merkt aðeins öðruvísi en svipað, hér er Brut Nature með minnsta sykurinn eða um 3g/L, svo kemur Extra Brut, Brut, Extra Seco, Seco (17-32g/L af sykri), Semi Seco og loks Dulce sem inniheldur um 50 + g/L af sykri.  Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga þegar maður stendur frammi fyrir öllu úrvalinu.  Auðvitað er hér smekkur manna misjafn.

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Reykjavík Brewing bruggstofa opnar innan skamms!

Það hefur ekki farið framhjá neinum að bjórmenningin hér heima er á blússandi siglingu um þessar mundir, ný brugghús spretta upp um allt land, sérhæfðum bjórbörum með tugi bjórkrana fjölgar ört og bjórframboðið hefur aldrei verið betra.  Það er bara dásamlegt að vera bjórnörd á Íslandi í dag. Tap-room er hugtak sem við munum sjá meira í umræðinni á næstunni því það er einfaldlega bara rökrétt næsta skref í þessari þróun.   En hvað er þá „tap-room“ annars?  Bein þýðing væri krana herbergi eða krana rými, eða dælu rými sem ekki hljómar alveg nógu sannfærandi að okkar mati, sumir tala um bruggstofu eins og þeir hjá RVK Brewing t.d. og við hér höfum notast við bjórstofu.

Það er svo sem ekkert rétt í þessu, ég held að orðið sé bara ekki til á íslensku sem er svo sem ekki skrítið.   Pöbbar og barir eru í sjálfu sér bjórstofur eða krana rými þannig séð því þar má vissulega finna bæði bjór og bjórdælur.  Bruggstofa er kannski betra orð því þar er komin tengingin við brugghús en það er dálítið lykilatriði hér. Tap room er í okkar huga svæði, herbergi eða rými, ekki allt of stórt, sem tengt er við brugghús, í sama húsnæði.  Þetta er staður þar sem maður getur fengið bjór viðkomandi brugghúss beint af krana eins ferskan og unt er.  Sem sagt maður nýtur bjórsins sem bruggaður er á staðnum.  Yfirbyggingin er oftast frekar látlaus og við erum ekkert endilega að tala um mat, kannski smá snarl eða snakk.  Sem sagt hugtakið nær ekki yfir bari og veitingastaði.  Helsti kosturinn við bruggstofur er að þar fær maður bjórinn eins ferskan og hægt er sem er oft mjög mikilvægt en fer vissulega eftir stíl en svo er úrvalið oftast mun meira á bruggstofunni því sjaldnast er öll framleiðsla brugghúsa sett á flöskur eða dósir.  T.d. fer flest frá íslenskum brugghúsum bara á kúta.

Brewpub eða bruggbar er svo annað, kannski aðeins flóknara að aðgreina og jafnvel ekkert víst að menn vilji greina þarna á milli.  Bruggbar er staður sem bruggar bjór og býður svo uppá bjórinn á staðnum en hér erum við komin með „bar“ eða „pub“ aftan við og við erum að tala um stærra rými.  Á bruggbar fær maður svo oftast bjór frá öðrum framleiðendum og annað áfengi og jafnvel er eldhús tengt við.  Bryggjan brugghús er dæmi um bruggbar eða réttara bruggveitingahús því staðurinn er mjög stór og er í raun full búinn veitingastaður sem bruggar sinn eigin bjór.  Bryggjan er klárlega ekki bruggstofa.  Önnur dæmi um bruggbari mv okkar skilgreiningu er Bjórsetur Íslands á Hólum, Ölverk í Hveragerði, Jón Ríki á Höfn, Brothers Brewing í Eyjum sem reyndar er alveg á mörkunum að vera bruggstofa frekar en hitt.  Svo er það Beljandi á Breiðdalsvík og svo var Austri að opna bruggbar fyrir austan. Smiðjan Brugghús er svo enn eitt brugghúsið sem nýlega opnaði dyr sínar en þeir eru einnig með brewpub og munu bjóða upp á bjór og veitingar skilst mér. Loks má benda á að Gæðingur hyggst opna bruggbar í Kópavogi á árinu sem verður að teljast afar spennandi.

Eins og staða er í dag er líklega aðeins ein bruggstofa á landinu skv okkar skilgreiningu (leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér), Ölvisholt Brugghús sem nú er rekin af Steina fyrrum Mikkeller & Friends Reykjavík.  Bjór & Matur mun líta við þangað á næstunni og taka pleisið út.  Reykjavík Brewing Company eru svo að opna bara á næstu andartökum en þeir verða með alvöru bruggstofu sem mun taka um 20 manns í sæti, reyndar má skilgreina Segul 67 á Siglufirði sem bruggstofa, annars veit ég ekki um fleiri bruggstofur, eða jú við erum að gleyma minnstu bruggstofu landsins, nano tap room sem er litla bruggstofan í bílskúrnum mínum, þar eru tvær dælur og 4 stólar 😊

Að okkar mati hér á Bjór & Matur vantar svo sárlega bruggstofur á eftirfarandi stöðum, Borg og Malbygg.  Við vonum að því verði kippt í liðinn sem fyrst!  Það má alveg vona!

Það er svo sem ekki aðal atriðið hvort um ræðir bruggbar eða bruggstofu svo lengi sem bjórinn er góður.  Hins vegar finnst mér persónulega hugmyndin bruggstofa frábær og er ég mun hrifnari af því en að fara á bar.   Það er bara einhvern veginn persónulegra og meira alvöru finnst mér.  Uppáhalds tap roomin sem ég hef komið í til þessa eru Monkish Brewing í LA, Pure Project í San Diego, Alesmith í San Diego, Trillium Boston, Modern Times í San Diego og að ógleymdu Cigar City í Tampa.

Bruggstofan RVK Brewing Company.

En nóg komið af upptalningum og skilgreiningum.  Á dögunum renndi ég við hjá Sigga og co í RVK Brewing Company í Skipholtinu.  Um brugghúsið má lesa hér.  Eins og áður hefur komið fram eru þeir með bruggstofu á staðnum (skipholti 31) þar sem fólk getur mætt og tillt sér og smakkað bjórinn þeirra beint af gerkútunum, eða svona nánast, bjórinn er alla vega eins ferskur og hann gerist.  Eins og staðan er í dag eru 8 dælur sem von bráðar munu geyma 8 ferska bjóra frá brugghúsinu en formleg opnun er bara rétt handan við hornið.  Bruggstofan er einföld og stílhrein, ekkert glamor og glys, bara einfaldar innréttingar, bar í einu horninu og svo heill glerveggur sem snýr inn að brugghúsinu sjálfu þar sem maður getur séð bjórinn verða til fyrir framan nefið á sér.  Eins og bruggstofum sæmir þá eru ekki miklar veitingar í boði en þó verður líklega hægt að grípa í snakk og annað léttmeti.

20180618_132801.jpgÞegar ég rak inn nefið sat Siggi og var að horfa á HM á sjónvarpsskjá sem stóð á miðju gólfinu. Borð og stólar voru ekki komnir en þeir eru víst í smíðum. Það er víst ekki planið að vera með sjónvarpsskjá þarna enda ekki um háværan íþróttabar að ræða.  Hins vegar sagði Siggi mér að þeir verða með græjur þar sem hægt er að bjóða plötusnúðum að þeyta skífur þegar svo ber undir.

Það voru 5 bjórar á dælunum þegar ég kíkti við, tilraunir flest allt.  Ég smakkaði þá auðvitað alla, allt frá Bjór 101 sem er afar þægilegur og látlaus 4.8% pale ale sem mun sennilegast verða húsbjórinn þeirra eða amk einn af þeim,  að Co og Co sem er 10.1% „bakkelsis“ imperial stout með snúðum frá Brauð og co.  Já og auðvitað smakkaði ég  líka Debut IPA sem er kominn á nokkra bari borgarinnar nú þegar.  Hér er um að ræða nokkuð heiðarlegan 6.2% west coast IPA sem vel er hægt að mæla með.  Já það verður spennandi að fylgjast með RVK Brewing í framtíðinni, fylgist með á fésinu þeirra en opnun mun líklegast verða tilkynnt von bráðar.