Blog

Geggjaður Ribeye Sælkeraborgari, með pækluðum rauðlauk, púrtvíns sveppum, chipotle mayo ofl.

Ég er fyrir löngu kominn með leið á heimagerðum hamborgara, hann verður alltaf einhvern veginn einsm, sama heimabragðið.  Líklega er maður bara alltaf með sama eða svipað álegg. Ég hef reyndar stundum dottið niður á eitthvað alveg spes og ljúffengt en gleymi alltaf hvað ég gerði.  Í kvöld var svona dagur sem enginn nennti að elda neitt sérstakt og við vorum alls ekki í stuði fyrir eitthvað heimsent.  Það varð úr að gera hamborgara og ég verð að segja að útkoman var frábær.  Hrikalega var þetta gott.

Við fórum í krónuna og hentum alls konar í körfuna og ég ætla að reyna hér að muna hvað það var.  Við ákváðum að kaupa ribeye steikarborgara sem fæst í Krónunni, við höfum gert hamborgara með þessu kjöti áður og vorum mjög ánægð.  Kvöldið áður vorum við með kjöt og ostaveislu og áttum því alls konar osta til að moða úr. Við ákváðum að prófa Guinnes cheddar og Castello Havarti Jalapeno en báðir þessir ostar eru ægilega góðir, fást í ostaborðinu í Hagkaup.  Guinnes osturinn inniheldur Guinnes bjór og maður finnur það vel í gegn, hrikalega gott, svo er Havarti osturinn dálítið spicy og rífur ögn í en í senn mjúkur og fullur.

Auk þessara osta vorum við með eftirfarandi álegg:

 • sneiddan Avocado
 • sneidd gúrka (gæti verið frábært að pækla hana)
 • kettasalat
 • heimagert chipotle mayo (sjá að neðan)
 • BBQ sósa Hamborgarafabrikkunnar, bragðbætt með reyktu paprikudufti og Sriracha sósu
 • rauð paprika,sneidd niður
 • tómatur stór og safaríkur, sneiddur niður
 • pæklaður hálfur rauðlaukur (sjá að neðan)
 • smjörsteiktir sveppir með smá púrtvíni
 • pönnuristuð chorizopylsa
 • salt og pipar
 • smá sykur
 • rauðvínsedik
 • hamborgarabrauð Fabrikkunnar

Aðferðin

Þetta er svo sem sára sára einfalt.  Best að byrja á að pækla rauðlaukinn svo hann nái nú að verða pæklaður.  Skerið hálfan rauðlauk í eins þunnar sneiðar og þið getið án þess að skera ykkur.  Leggið í litla skál sem hægt er að loka.  ‘Eg mældi þetta svo sem ekki en ég sauð um 1 dl af vatni og 2 tsk sykur til að leysa upp sykurinn.  Svo hellti ég 2 dl af rauðvínsediki yfir laukinn og loks sykurvatninu.  Bætti nokkrum rauðum piparkornum saman við og lét svo standa þar til hamborgarinn var tilbúinn.

Svo er það Chipotle mayo, 4-5 msk majones, ca 2 tsk sriracha (fer eftir hversu sterkt þetta á að vera) og um 1 tsk reykt paprikuduft.  Hrært saman og sett í sprautuflösku.

BBQ sósan frá Hamborgarafabrikkunni er ofsalega góð en mig langaði í aðeins reyktari og meira spicy útgáfu og bætti því sriraca og reyktri papriku við. Ofsalega gott.

Svo er það bara að sneiða niður grænmetið, skola klettasalatið og gera allt klárt.

Sveppirnir eru steiktir í smjöri, miklu af smjöri.  Kryddað með Estragon, salt og rauðum pipar.  Ég notaði líka smá hvítlaukssalt og örlítið af reyktri papriku.  Í lokin bætti ég smá púrtvín á pönnuna og kláraði steikinguna.  Þetta gefur ofsalega ljúfan keim í sveppina.

Chorizo pylsa er góð fersk en mig langaði að fá stökka áferð og bragðmeiri.  Ég prófaði því að steikja sneiðarnar á pönnu þar til þær urðu stökkar. Ofsalega gott með.

Loks er að steikja hamborgarana, salt og pipar og leggja svo ostinn yfir þegar búið er að snúa kjötinnu einu sinni.

Pennslið svo neðri hluta af brauðinu með BBQ sósunni, raðið svo álegginu bara á, t.d. chorizo pylsu, papriku og tómat, svo kjötið, klettasalat og avocado, piklaði rauðlaukurinn og sveppirnir efst.  Sprautið svo fallega slatta af chipotle mayo yfir og lokið með efra brauðinu.

Berið fram með bökuðum frönskum t.d.  Geggjað gott.

wp-1580068082326.jpg

Ég átti svo til Þorrabjór frá Gæðingi en þessi bjór er að koma mér virkilega skemmtilega á óvart.  Um er að ræða 5% brown ale á bourbon eik.  Ofsalega þægilegur bjór, mjúkur með léttri karamellurist og svo notalegum eikar bourbon keim.  Frábær matarbjór og alveg smellpasaði með þessum hamborgara.  Maltið í bjórnum tengir svakalega vel við t.d. BBQ sósuna og brauðið, einnig fínt mótspil við sterku kryddunum í ostinum og chipotle mayo ofl.  Mér fannst líka þessi bourbon keimur koma vel út með kjötinu og púrtvínssveppunum.

Þetta er bjór sem ég mun kaupa núna yfir Þorra, vel gert Gæðingur!

 

Parmesan kjúklingur, eða Chicken Parmesan, mögulega það besta í kjúkling?

Ég veit ekki afhverju ég hef ekki hent þessari uppskrift hér inn fyrr því ég gríp alltaf annað slagið í hana þegar ég er alveg lost með hvað á að vera í matinn, og ég er alltaf jafn upprifinn.  Þvílík veilsa sem þessi einfaldi kjúklingaréttur er.   Reyndar veit ég að hluti ástæðunnar er að mér hefur enn ekki tekist að taka mynd sem undirstrikar þann elegans sem bragðlaukarnir fá að njóta.  Þið verðið bara að afsaka það.  Gordon Ramsay kallar þetta chicken parmesan en rétturinn er líka kallaður chicken Milanese ég kalla hann bara parmesan kjúlla.

Alla vega, þessi réttur er sára einfaldur en ef þið bjóðið einhverjum í þetta munuð þið skora hátt.

Það sem þið þurfið (fyrir 4 svanga)

 • 4 kjúklingabringur
 • 2 poka af mozarella osti, skorinn í sneiðar
 • nokkur basil lauf
 • 3 egg
 • Panko rasp, ca 100-110g
 • hveiti, nokkra deselitra til að velta bringunum uppúr
 • 4 msk af rifnum parmesan osti
 • 2 hnefafyllir af spagetti, eða bara eins og þið viljið
 • 1/2 tsk reykt papríkuduft
 • salt og pipar

fyrir marinara sósu

 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 1 lítil dós tómat purée
 • 1 msk þurrkuð basilika
 • 2 pressuð hvítlauksrif
 • 1 msk timian krydd
 • salt og pipar eftir smekk
 • 1/4 tsk chiliduft
 • 2-3 skalottlaukar smátt skornir
 • 1/2 dl rjómi

 

Aðferðin

Brjótið 3 egg í fat og pískið saman, hellið hveiti í annað fat og í það þriðja um 100g Panko rasp, 1/2 tsk reykt papríkuduft, salt og pipar og rífið svo um 4 msk af parmesan osti og blandið vel.

Gerið marinara sósu klára.  Hitið olíu á pönnu og skerið 2-3 skallotlauka í smátt og bætið útá pönnuna, pressið hvítlauksrifin 2 yfir og bætið basiliku og timian kryddunum samanvið. Mýkið þetta saman. Því næst bætið þið 2 dósum af hökkuðum tómötum og einni lítilli dós af tómat púrée útá pönnuna og hrærið saman og látið malla.  Chiliduft, salt og pipar eftir smekk.  Gott er að sletta smá rjóma útá til að gera þetta meira djúsí.  Látið svo malla bara á lagúm hita

Takið hverja bringuna og skerið eftir endilöngu til helminga þvert yfir nánast alla leið þannig að þið getið opnað hana eins og bók.  Leggið svo bringurnar á smjörpappír og leggið svo aðra örk af pappír yfir og lemjið með kökukefli þar til bringan er orðin um 5 mm þykk.  Nú hefur bringuopnan aukið flatarmál sitt verulega ekki satt?  Þá eruð þið að gera þetta rétt.  Mynd að ofan er ein bringa, opnuð eins og bók!

Takið svo hverja bringu og veltið uppúr hveitinu, dustið svo af og drekkið í eggjunum, látið renna af og veltið svo upp úr raspinu vel og vandlega.  Raspið á að hylja alla bringuna.  Bankið svo ofan á bringurnar þannig að raspið pressist inn og festist.

Olía á pönnu, ca 2 msk, vel heit en ekki blússandi.  Steikið svo hverja bringu á hvorri hlið þar til raspið er orðið gullin brúnt.  Gott er að handa smá smjöri á pönnuna til að gera áferðina fallega.

Raðið svo bringunum í eldfast mót eða fat.   Setjið ca 2-3 msk marinara sósu í rönd fyrir miðju og raðið sneiddum mozarella osti yfir.  Hendið þessu inn í ofn við 180gráður þar til ostur er bráðnaður og kljúklingurinn eldaður í gegn.  Þetta er ekki langur tími, ég man ekkert hvað ég gerði, líkl um 10 mín max.

Þegar bringurnar eru komnar í ofn er fínt að setja vatn í pott, salta aðeins og láta suðu koma upp.  Setjið svo spegetti í vatnið og sjóðið þar til það er orðið al dente!

Berið loks fram með nokkrum basil laufum og njótið.

Með þessu væri kröftugt hvítvín gott eða ískaldur saison bjór t.d.

 

Heimagerðar taco hveitikökur (tortilla) – svona á að gera þetta!

Það hafa líklega flestir gert taco veislu einhvern tíman á lífsleiðinni, sumir oftar en einu sinni jafnvel.  Á þessum bæ elskum við taco, það er bara svo dásamlegt og skemmtilegt að prófa alls konar álegg á tortillu kökurnar og sjá hvernig það kemur út.   Möguleikarnir eru endalausir.  Það hefur hins vegar alltaf truflað mig hve hveitikökurnar sem við fáum hér úr búð eru stórar og þykkar ég vil nefnilega hafa þær þunnar og ekki stærri en undirskál.

Ég hef lengi ætlað mér að prófa að gera tortillurnar sjálfur en hef bara ekki laggt í það.  Um daginn ákvað ég hins vegar að slá til, ég fékk mér totillapressu sem er alls ekki nauðsynlegt tæki en auðveldar hins vegar vinnuna töluvert.   Svo hef ég verið að prófa mig áfram undanfarna daga með alls konar aðferðir og hlutföll.  Fjölskyldumeðlimir eru sumir farnir að kvarta, „það er bara alltaf taco í matinn“ heyrðist t.d. frá unglingnum um daginn t.d.  Ég hélt í alvöru að það væri ekki hægt að fá nóg af taco?

wp-1579452430748.jpg

Gott og vel, ég vil meina að nú hafi mér tekist að fullkomna þetta og ætla ég að henda hér fram minni niðurstöðu, þ.e.a.s. hvernig maður gerir fullkomnar, þunnar litlar heimagerðar hveitikökur.

Það sem þarf í ca 20 til 30 taco kökur (fer eftir stærð)

 • hveiti, 370 g
 • salt, 1 tsk
 • lyftiduft, 1 tsk
 • grænmetisolía, 80ml
 • heitt vatn, 240 ml

Aðferðin

Þetta er mun einfaldara en maður heldur, maður þarf samt að prófa sig dálítið áfram.  Setjið allt í skál og blandið saman í hrærivél.  Notið svo hnoðarann á hrærivélinni og náið deiginu saman.  Deigið á að vera aðeins klístrað þannig að það festist aðeins við fingurnar.   Færið deigið á borð, það má vera smá hveiti á borðinu en passa að verði alls ekki of þurrt.  Hnoðið vel saman, alveg góðar 10 mín, bætið smá hveiti eftir þörfum en þetta á að vera alveg á mörkunum á að vera of klístrað.  Þetta er eitthvað sem þið finnið út úr, það verður auðvitað að vera hægt að meðhöndla og vinna með deigið.

Leggið svo í skál og rakt viskustykki yfir og látið standa í amk klst.

Hitið svo pönnu, helst pottajárnpönnu þannig að hún verði alveg blússandi heit.  Deilið deiginu niður í litlar kúlur, við erum að tala um minni en borðtenniskúlur.  Setjið svo tvær litlar bökunarpappírs arkir í taco pressu og deigkúluna á milli.  Pressið svo þannig að þið fáið litla flata köku.   Þetta er of þykkt svona, þannig að þið þurfið að fletja hverja köku enn meira út með kefli, þetta á að vera næfurþunnt, nánast á að sjást í gegn.

Setjið svo kökuna varlega á pönnuna, ef pannan er stór er hægt að gera tvær jafnvel fleiri í einu, enga olíu, ekki pennsla kökurnar með olíu eða setja olíu á pönnuna.  Kökurnar fara bara beint á og þetta á ekki að taka nema nokkrar sekúndur.  Það byrja að myndast litlar bólur í deigið en þá er tímabært að snúa kökunum.  Það ætti þá að vera komnir fallegir brúnir blettir hér og þar á kökurnar.  Svo bara nokkrar sekúndur á hinni hliðinni.

Takið svo kökuna/r af og setjið í álpappír og viskastykki utanum og lokið kökuna inni.  Þetta er mikilvægt, hér fulleldast kakan og heldur mýkt sinni. Svo er bara að endurtaka þetta og bæta kökum í álpappírinn jafn óðum og loka til að halda gufu og hita inni.

wp-1579453902290.jpg

Svo er bara að láta sér detta eitthvað geggjað í hug ofan á þetta, hér er dæmi,rifinn grís og risarækjur t.d. Svo vorum við læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr að elda saman í gær, nánar um þá veislu á næstu dögum hér.  En við vorum með djúpsteiktan skötusel ásamt öðru.  Svo pæklaðan rauðlauk, mango chili salsa og kóríander krem og reyndar helling af öðru góðgæti.  Skötuselurinn á mangosalsa paraðist fullkomlega við Sæmund sem er mangobjór frá Borg Bruggús.

 

Pönnusteiktur hörpudiskur á blómkálsmauki með chorizo kurli, skallotlauk og kóríander majónesi

Nú þegar humar er orðinn skammarlega dýr, við erum að tala um 16000 kr kg t.d. í Fiskikonginum (sem mögulega er með þeim dýrari reyndar) þá þarf að leita að öðrum hráefnum.  Það er í raun ekki réttlætanlegt borga þetta fyrr humar.  Hörpudiskur er góður kostur, þetta er eðal hráefni og um 4 sinnum ódýrari en humar.

Nú höfum við eldað hörpudisk einu sinni áður og það lukkaðist svakalega vel,sjá hér.  Við áttum til stóran flottan hörpudisk og Sigrún mín ákvað að koma mér á óvart í kvöld með frábæru kjúklinga tacho.  Í forrétt vildi hún hafa hörpudisk sem við áttum til í frysti.  Það var vel til fundið því við áttum flösku af Dom Perignon kampavíni sem við höfum bara ekki tímt að opna.  Planið var að opna flöskuna á brúðkaupsafmæli okkar fyrir áramótin en sökum veikinda slóum við því á frest.  Nú voru allir orðnir frískir og stemning góð og því slóum við til.  Hvað er svo betra með kampavíni en royal prótein eins og hörpudiskur?

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og enduðum á þessari, innblásið af Evu Laufey Kjaran. pönnusteiktur hörpudiskur á blómkálspúré með bökuðu chorizo kurli, smjörsteiktum skarlottlauk toppað með heimalöguðu kóríander majonesi.

Þetta var stórbrotið, vægast sagt.

wp-1578764913960.jpg

Það sem þarf í forrétt fyrir 4

 • Stóran flottan hörpudisk, 12 stk.
 • Hvítlauksgeirar, 2 stk smátt skorið
 • Skallotslaukur, smátt skorin, 2 stk
 • Smjör 2 msk ca
 • Olía til steikingar
 • salt eftir smekk
 • salt og pipar á hörpudiskinn
 • Sneidd chorizo pylsa, um 1/2 dl , ofnbakað og skorið í kurl

fyrir kóríander mayo

 • Ferksur kóríander, amk eitt búnt
 • Þurrkað kóríander krydd, 1 tsk
 • Létt majones, 1-2 dl
 • 1 msk léttmjólk
 • hvítlauksgeiri, hálfur (má sleppa)
 • Safi úr tæpum hálfum lime.

fyrir blómkálsmaukið

 • blómkálshaus, 1/2 stk
 • rjómi, 2-3 msk
 • smjör, 4 msk
 • hvítlaukur, 1/2 geiri
 • salt

bjórinn

 • Hér vorum við með kampavín af bestu sort sem algjörlega smell passar við hörpuna.  Hins vegar má vel nota bjór en þá þarf hann að vera mildur og ljúfur.  Ekki beiskir humlar eða brennt malt.  Ég sé fyrir mér belgískan blond eða mildan wild ale með smá sýru og funki.  Muna að við getum líka tengt við allt meðlætið, ekki bara hörpuna sjálfa.  Saison er líkl. frábær líka.  Margir möguleikar.

 

Aðferðin

Við fórum dálítið eftir uppskrift frá Evu Laufey en samt ekki alveg, þetta varð svo dálítið slump hjá okkur en kom svakalega vel út, í raun framar vonum.  Svo er ég mikill majones fíkill, ég elska að gera spicy majo, t.d. sriracha majo,  jalapeno majo, chipotle majo, wasabi majo ofl ofl.  Við hjónin elskum líka kóríander og því datt mér í hug að prófa að gera kóríander majones eða sósu kannski réttara sagt.   Kóríander majoið kom geggjað vel út og passaði mjög vel ofan á hörpidiskinn.

Blámkálsmaukið

Allt í lagi, byrjum á að sjóða blómkálið, ca 1/2 höfuð í létt söltu vatni.  Þegar það orðið mjúkt er það maukað í blender eða álíka, með smjöri um 2-4 msk, og rjóma, ca 2 msk.  Hér þarf dálítið að prófa sig áfram.  Byrjið á minna og sjáið bara hvernig áferðin verður.  Saltið til líka eftir smekk.  Útkoman á að vera silkimjúkt puré, ekki nein korn, ekki of þunnt, það þarf að vera hægt að sprauta þessu út með sprautuflösku.  Þetta er ótrúlega gott. Það má lauma hálfum hvítlauskgeira með til að krydda aðeins ef maður vill.

Meðlætið, chorizo pylsan og laukur

Við fengum bréf af sneiðum en það má auðvitað vera heil pylsa sem maður sker niður sjálfur.  Við settum sneiðar á smjörpappír og svo í ofn og bökuðum þar til orðið stökkt.  Þá er þetta skorið í smátt kurl sem fer svo ofan á hörpuna í lokin.

Skerið 2-3 skallotlauka og 2 hvítlauksgeira í smátt og mýkið á heitri poönnu í 2 msk smjöri og olíu.  Leggið svo til hliðar

wp-1578766004871.jpg

Kóríander majones

Þetta lukkaðist svo vel að ég mun klárlega gera þetta aftur og aftur, t.d. með öllu tachoinu sem ég er að fara gera á næstu mánuðum!   Ég notaði helling af kóríander, amk heilt búnt, lauf og stilkar.  Setjið þetta í blender, t.d. nutri bullet eða enn betra ef þið eruð með töfrasprota.  Svo er það létt majones, um 2 dl, hálfur hvítlauksgeiri og smá mjólk, ég notaði um 1 msk í raun bara til að gera þetta aðeins þynnra því það getur verið erfitt að mauka þetta saman ef of þykkt.  Til að skapa ögn sýru notaði ég safa úr tæplega hálfri límónu og loks til að fá enn meira kóríander bragð setti ég þurrkað kóríander um 1 tsk.  Maukið þessu öllu saman þar til þið endið með fallega pastelgræna sósu.  Smakkið til, það á að vera kóríander bragð, ef ekki nóg þá bætið þið bara við meira kóríander,.

Hörpuskelin

Það er ágætt að byrja að þerra hörpudiskinn í upphafi, leggið á eldhúsbréf og leggið eldhúsbréf yfir.  Skiptið annað slagið á þessu, það er mikilvægt að hafa þetta þurrt fyrir steikinguna.   Þið endið á að steikja hörpudiskinn þegar allt annað er klárt.

Stráið sjávarsalti og pipar yfir hörpudiskinn öðru meginn, hitið pönnu vel, olía á pönnu og raðið svo hörpudiski eins og klukku á pönnuna með kryddhliðina niður.  Þannig byrjið þið að setja einn kl 12, næsti kl 1 og svo hringinn. Salt og pipar yfir hörpudiskinn, steikið í 2 mín max og snúið í sömu röð og þið röðuðuð á pönnuna.  Steikið áfram í 1 – 1,5 mín.  Takið af pönnu frá kl 12 og réttsælis og látið standa á eldhúsbréfi þar til þið framreiðið.

Sprautið blómkálsmaukinu á fallegan disk, þrjár skellur, raðið svo 1 hörpudisk á ofan á hverja skellu, stráið chorizo kurli yfir, eins lauksmjörinu og efst kóríander majó.  Njótið!

Heimagert maís tacho á tvo vegu með hárrétta bjórnum

Það er ósjaldan sem hugur okkar Sigrúnar leitar til suðrænna slóða á þessum tíma árs.  Jólin búin og við tekur kaldur leiðinlegur og dimmur janúar, febrúar tekur svo við ekkert skárri eða hvað, vissulega eru Surtsdagar í lok janúar og bjórfest í febrúar ákv ljós í myrkrinu en stundum er það bara ekki nóg.  Þegar þetta er skrifað er veður vont og allt flug til og frá landinu fallið niður, við komumst bara ekkert þó við vildum.  Þá er um að gera að finna aðrar leiðir, þess vegna datt okkur í hug að skapa bara suðræna stemningu hér heima, mexíkósk veisla!!! Já okkur hefur lengi langað að prófa að gera heimagert maís tortilla / tacho og nú létum við bara vaða.   Ég fór út í morgun og fékk mér  langþráða tortilla pressu (í Kokka) og fann  svo fyrir rest maís hveiti (masa harina) í asísku búðinni í Skeifunni og því hafði ég enga afsökun fyrir að hella mér ekki út í þetta.

Þ: 19 CM - Black #1

Mér hefur alltaf þótt þessar tortilla kökur sem maður fær tilbúnar í búð frekar óspennandi, allt of stórar og allt of þykkar.  Ég vil hafa tortillu kökurnar litar og nettar, ca eins og desert diskur að stærð.  Það er svo ekkert hlaupið að því að finna maís tortillur hér í búð.   Ég veit ekki afhverju maður er ekki löngu búinn að prófa að gera þetta sjálfur, þetta er ótrúlega einfalt.  Ég held að mesta vinnan hafi farið í það að finna maís hveitið og svo uppskrift.  En ef maður fer bara beint í asísku búðina þá er eftirleikurinn auðveldur.

En ok, nóg af rausi.  Svona gerði ég þetta.  Ég byrjaði á að leita að uppskriftum á netinu og fann nokkrar, þær eru allar svipaðar.  Innihaldið er í raun bara masa harina (hveitið), smá salt og svo vatn.  Hlutföllin eru ekki alveg klár því það er dálítið misjafnt hve mikið vatn maður þarf, maður þarf dálítið að prófa sig áfram með það.  Það er samt ekkert mál því ef deigið endar allt of þurrt þá bætir maður við ögn vatni, ef það er hins vegar allt of klístrað þá bætir maður við hveiti.   Maður á að enda með klump sem er í raun eins og leir, hangir vel saman en er ekki klístraður.

Það sem þarf (10-12 tortilla kökur – fer eftir stærð):

 • Maís Hveiti (t.d. úr Asísku búðinni Skeifunni) 250g
 • Heitt vatn, ég endaði með ca 340ml
 • smá salt til að bragðbæta
 • ólifuolíu til að pennsla kökurnar með fyrir steikingu

Svo er það áleggið / fyllingin eða meðlætið…? Hvað kallar maður þetta annars?  Topping!  Alla vega það sem þú vilt setja ofan á tortillurnar.   Það er auðvitað frjálst og möguleikarnir endalausir.

wp-1578439710565.jpg

Að þessu sinni langaði mig í naut en líka eitthvað sjávarfang.  Ég gerði því tvenns konar tacho rétti.  Ég hef skrifað hér um ungnauta tacho áður en endurtek það hér aftur og svo var ég með steikta risarækju með avocadosalsa og kóríandersósu, uppskrift sem ég fann á Gulur Rauður Grænn & Salt.

Það sem þarf í þetta:

Ungnauta tacho

 • ungnautalaund ( ca 300-350 g)
 • kikkoman soyasósa, 1 dl
 • safi úr 1,5 límónum
 • ferskur kóríander, 1 lúka, gróft skorið
 • ólífuolía, 1 dl
 • púðursykur 2-3 mtsk
 • grænn ferskur chili, skorinn í litlar sneiðar
 • rauðlaukur, hálfur, skorinn í fínar ræmur
 • sykur, 1/2 – 1 tsk
 • salt, 1/2 tsk

Mangosalsa

 • mango, hálfur ávöxtur skorinn í litla kubba
 • kirsuberjatómatar, lúkufylli skorið í litla kubba
 • graslaukur, eftir hentugleika, smátt skorið
 • kóríander, skorið gróft.  Ca lúkufylli
 • grænn ferskur chili, skorinn smátt

Risarækju tacho

 • frosnar risarækjur, 400g
 • ólífuolía, 3 msk
 • hvítlauksrif, 2 stk pressuð
 • cumin, 1 tsk
 • chilipipar, 1 tsk
 • hvítlauksduft, 1/2 tsk
 • sjávarsalt, 1/2 tsk

Avocadosalsa

 • avocado, 3 stk, skorið í kubba
 • gular baunir, 3 msk eða svo eftir smekk bara
 • kirsuberjatómatar, ca lúkufylli, skornir í kubba
 • Grænn chili ávöxtur, skorinn smátt, með fræjum
 • safi úr hálfri límónu
 • kóríander, ferskur, lúkufylli skorið gróft.
 • salt og pipar

Kóríandersósa (aðeins breitt útgáfa)

 • Sýrður rjómi, 10%, ein dós
 • safi úr límónu, ca 1-2 msk
 • hvítlauksgeiri, 1 stk pressaður
 • kóríander, ferskur.  Hér myndi ég nota rúmlega tvær lúkufyllir eða meira,
 • kóríanderkrydd, eftir smekk, smakkið þetta bara til

wp-1578439929791.jpg

Aðferð

Rækjurnar

Líklega er bara best að undirbúa allt meðlæti fyrst.  T.d. marinera rækjurnar og kjötið.  Látið rækjurnar þiðna, afhýðið ef þær eru í skelinni.  Setjið svo ólífuolíu (3 msk) í skál, bætið rest útí, cumin (1 tsk), chilipipar (1 tsk), hvítlauksduft (1/2 tsk), tveir pressaðir hvítlauksgeirar og hálf tsk sjávarsalt.  Hrærið vel, smakkið til og bætið við eftir smekk salti, chili eða hvítlauk.   Hellið þessu yfir rækjurnar og látið standa eins lengi og hægt er.  Fínt að velta rækjunum annað slagið upp, sem sagt moka þeim neðstu efst þannig að allar fái að liggja í þessum legi sem safnast saman á botninn.

Ungnautalund

Kjötið er hægt að gera á tvenna vegu, ég held að betra sé að steikja kjötið fyrst og svo skera það þunnt og marinera.  Sem sagt, steikja létt á heitri pönnu, ca 3-4 mín á hvorri hlið og látið standa aðeins.  Við erum að miða við medium rare.  Skerið svo í eins þunnar sneiðar og þið getið og látið liggja í marineringunni.  Hún er einföld, setjið kikkoman soyasósu  (1 dl), safa úr 1,5 límónum, ólífuolíu (1dl), 2-3 mtsk púðursykur, niðurskorinn grænn eða rauður (fallegri) chili pipar og helling af gróft skornum kóríander í skál og hrærið vel, hellið svo yfir nautakjötið og látið standa. 

Hin leiðin er að skera hrátt kjötið í þunnar sneiðar og láta liggja í marineringunni og svo bara steikja örstutt áður en borið er fram.

wp-1578429808328.jpg

Tvenns konar salsa

Þetta er bara einfallt, skerið allt niður sem fer í mangosalasa og avocadosalsa og setjið í tvær skálar.  Mangosalsa er með nautinu, avocadosalsa með rækjunum.   Takið svo rauðlauk og skerið í tvent.  Skerið svo einn helminginn í þunnar sneiðar. Leggið sneiðarnar í litla skál og kreistið límónusafa yfir.  Svo smá salt (1/2 tsk) og 1/2 til 1 tsk sykur.  Látið liggja þar til allt er klárt.

Kóríandersósa

Við breyttum uppskriftinni aðeins, okkur fannst í raun lítið kóríander bragð af þessu, þannig að við notuðum mun meira kóríander og líka kóríanderkrydd.  Líklega enduðum við með 2-3 lúkufyllir af ferskum kóríander og ca 1 tsk kóríanderkrydd.  Við bættum líka 1 pressuðum hvítlauksgeira við og svo er safi úr límónu, ca 2 mtsk og ein dós af sýrðum rjóma.  Allt sett í nutri bullet eða svipað og maukað í drasl.

Framreiðslan

Þið gætuð græjað tortilla deigið einhvers staðar þarna inn á milli, það þarf að standa í 15 mín.  Sem sagt setjið 250g maís hveiti í skál, smá salt, um 1-2 tsk og svo hellið þið heitu vatni saman við þar til þið náið þessu saman í kúlu sem líkist helst dótaleir.  Ef of þurrt þá bætið þið vatni við, ef of klístrað þá þarf meira hveiti.  Ég endaði með um 340ml af vatni.  Myndið kúlu og setjið matarfilmu yfir og látið standa í um 15 mín.  Ég veit ekkert afhverju.   Loks myndið þið litlar kúlur, mér fannst hæfilegt að miða við eins og lítil egg.
Setjið bökunarpappír milli deigs og pressu og pressið eins og vindurinn.  Kökurnar ættu að enda á stærð við kökudisk eða aðeins minna.

Pennslið aðeins með ólífuolíu og steikið í um 3 mín á hvorri hlið eða þar til þetta er farið að líta almennilega út, brúnir blettir hér og þar.

wp-1578440340567.jpg

Fyrir rækjutacho setjið þið avocadosalsa á kökurnar, leggið tvær rækjur ofan á það og loks kóríandersósuna yfir.

Fyrir nautatacho er það mangosalsa, leggið 3-4 ræmur af kjöti ofaná, smá rauðlauk og njótið.

Pörunin

Þetta tacho er heldur bragðmikið, bæði nautið og rækjan eru dálítið spicy og það sama má segja um mangosalsaið.  Kóríandersósan er heins vegar létt og „köld“ með léttri sýru sem kemur vel á móti brunanum og svo er safaríkt mangoið og mjúkt feita avocadoið að gera skemmtilega hluti og jafna þetta allt út.  Bjórinn með þessu má vera bragiðmikill því hann þarf að þola þetta allt og ekki verra ef hann tengir við það hráefni og bragð sem við erum með.  Bjórinn gæti líka verið eitthvað sem myndar andstæður við hráefnin.
Það væri reynar frekar klassískt en dálítið leiðinlegt að velja einhvern mexíkanskan létt lager á borð við Corona með límónu í.  Ég er ekki að segja að það kæmi illa út, mig langaði bara að gera eitthvað meira spennandi.

Í kvöld valdi ég Úlfey frá Borg Brugghús en þetta er afskaplega ljúffengur 7,5% New England IPA og er um þessar mundir í sérlegu uppáhaldi hjá mér þegar kemur að íslenskum bjór.  Bjórinn er í senn beittur en líka safaríkur og mjúkur eins og öflugur ávaxtasafi með keim af suðrænum ávöxtum.  Ávaxtabragðið í bjórnum kemur ofsalega vel út með þessu tachoi, mangoið og jafnvel avocado tengja mjög vel við bjórinn hvað þetta varðar.  Þó svo að um New England bjór sé að ræða býr hann yfir smá beiskju en beiskjan togar dálítið í chili keiminn í matnum og magnar dálítið upp.  Bæði þessi tacho eru mikið kóríander baseraðir en mér hefur alltaf þótt IPA eiga sérlega vel við kóríander, ég veit ekki hvað það er en það smellpassar.   Loks er það karamellumaltið í bjórnum en sætan þar tengir vel við bæði maís tortillurnar og maísinn í avocadosalsainu.

Þessi pörun kom betur út en ég hafði reiknað með og hvet ég ykkur til að prófa.  Vá!

wp-1578440698892.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Ljómandi pönnusteikt hörpuskel með beikonkurli og vorlauk á sellerírótar pureé!

Ég hef aldrei eldað hörpuskel en hef alltaf langað að prófa enda er þetta eitt besta prótein sem maður fær og ofsalega ljúffengt ef gert er rétt.  Ég leitaði víða að uppskrift, mig langaði að gera eitthvað með ekki of miklum sósum eða kryddum sem stela þrumunni frá viðkvæmri hörpuskelinni.  Þessi hljómaði vel og því lét ég á reyna.

Þetta sellerí pureé er alveg geggjað, ég mun svo sannarlega nota það með öðru próteini, t.d. Wellington steikinni á aðfangadag.

Það sem þarf (forréttur fyrir 6)

 • 1 kg stór hörpuskel (ferskt eða frosið)
 • salt og pipar eftir smekk
 • steikingarolía
 • hálft bréf af þykku beikoni, skorið mjög fínt
 • eitt búnt af vorlauk, skorið fínt
 • nokkur kóríander blöð til skrauts
 • æt smáblóm ef menn vilja skreyta (fæst í Krónunni)

fyrir sellerírótar pureé

 • 1,5 bolli sellerírót sem búið er að skræla og skera niður í litla kubba
 • 1/4 L rjómi
 • 1/4 bolli mjólk
 • 1/2 mtsk smjör
 • 1 hvítlauksgeiri fínt skorinn
 • 1 tsk salt
 • 1/4-1/2 tsk pipar

fyrir pækluðu eplin (þetta er upp úr mér bara)

 • hálft grænt epli, skorið í þunnar sneiðar
 • hvítvínsedik , ca 5-6 mtsk eða nóg til að hylja alveg eplin
 • 1 tsk piparkorn
 • 1/2 tsk anis krydd
 • 1 msk sykur
 • 1 tsk kóríander fræ (má sleppa)
 • ögn fínt skorinn rauður chili

Aðferð

Byrjið á pækluðu eplunum.  Skerið grænt epli í örþunnar sneiðar.  Setjið hvítvínsedik, ca 5-6 msk eða nóg til að hylja eplin í lítinn pott, ásamt sykri, pipar, anis kryddi, kóríanderfræum og chili.  Sjóðið létt þar til sykurinn er uppleystur.  Setjið eplasneiðarnar í box og hellið edikinu úr pottinum yfir.  Leggið til hliðar.

Svo er það sellerírótin, skerið hvítlauksgeira í smátt og mýkið í smjöri í stórum potti, Skrælið sellerírótina, 1/4 úr haus er líkl. nóg.  Skerið svo í litla kubba, sem fylla 1.5 bolla og bætið í pottinn ásamt 1/4 L rjóma (1 peli), og 1/4 bolla mjólk.   Saltið og piprið og látið svo malla undir loki í 15 mín.  Passa að sjóði ekki uppúr eða brenni við.

Þegar sellerírótarkubbarnir eru orðnir mjúkir lofið þið þessu að kólna aðeins og svo færið þið allt innihald pottsins yfir í matvinnsluvél og maukið þar til þið eruð komin með silkimjúkt mauk án korna.  Passið að gera þetta ekki í lokaðri vél eins og nutribullet eða álíka ef of heitt því þá er mikil hætta á sprengingu.

Setjið svo maukið í sprautuflöskur og setjið til hliðar.

Hendið beikon inn í ofn og eldið þar til orðið stökkt.  Skerið svo í örlilta kubba eða kurl og leggið til hliðar.  Skerið vorlauk fínt og leggið líka til hliðar.

Nú er allt klárt fyrir hörpuskelina.  Leggið bitana á eldhúsbréf og þerrið vel að ofan líka.  Þeir eiga að vera eins þurrir og þið getið áður en þið steikið þá.  Saltið og pipri svo aðra hliðina, hitið olíu á pönnu þannig að hún sé vel heit.  Raðið svo bitunum með kryddhliðina niður í hring á pönnuna. Fínt að byrja efst og fara svo eins og klukka allan hringinn.  Þá munið þið hvaða biti fór fyrst á pönnuna.

Steikið í um 2 mín, alls ekki lengur, snúið svo bitunum og steikið í 1- 2 mín í viðbót.  Þetta á að vera gyllt og fallegt.  Kryddið líka þessa hlið með salti og pipar.  Raðið svo á disk með eldhúsbréfi til að stöðva eldunina og þerra olíuna af.

Til að bera þetta fram.  Sprautið sellerímaukinu á disk, 3-4 stóra dropa, leggið svo einn hörpudisk á hvern dropa og stráðið beikon kurlinu og vorlauk yfir hvern bita.  Loks skerið þið pækluðu eplin í hæfilega sneiðar og leggið yfir hvern bita.  Síðast leggið þið kóríanderblað efst.

wp-1577047102877.jpg

Pörunin

Ég var ekki með bjór þetta köld, ég átti hann bara ekki til.  Hins vegar er ósætt hvítvín eða jafnvel þurrt freyðivín fullkomið með.  Við vorum með ljómandi LaCheteau Sancerre með sem kom afskaplega vel út. Ef ég ætlaði í bjórinn myndi það líklega vera þægilegur súrbjór eða wilda ale.  Prófa það næst.  Hvað sem maður velur verður að passa að drykkur sé ekki of öflugur og steli öllu frá hörpuskelinni, ég myndi líka heldur vija súrt þurrt frekar en eitthvað of sætt með.

Njótið!

Hin árlega lagköku og bjórkeppni Nollanna 2019

„hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan“

Bjór er hægt að para við nánast hvaða rétt sem er og er þá jólalagkaka, randalína, vínarkaka eða hvaða nöfnum hún nefnist, engin undantekning, aðal málið er bara að fá hugmyndina.
…..Þessi hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan þar sem nokkrir góðir nágrannar í Norðlingaholti voru saman komnir yfir öli heima hjá Bjór & Matur. Einhverjir byrjuðu að monta sig af lagkökum sínum, menn töldu auðvitað sína köku bestu lagkökuna og gerðu mikið úr eigin hæfileikum í bakstri og það lá því beinast við að sannreyna það fyrir næstu jól sem eru einmitt þessi jól 2019.
…..Það voru þó einhverjir sem ekki voru eins roggnir enda er kökubakstur er alls ekki allra.  Því kom upp sú hugmynd að tefla líka fram bjór með kökunum, einhvern magnaðan sem líka parast vel við þá köku sem menn reiddu fram.

Í upphafi var þetta að mestu leiti í gríni gert en þegar líða fór á árið fóru menn að huga að þessum viðburði og að endingu ákveðið að gera þetta að veruleika enda voru menn farnir að draga heim í bú alls konar furðulega og spennandi bjóra á ferðalögum sínum um heiminn, eitthvað sem gæti gengið með lagköku.

Til að gera mjög langa loku frekar stutta þá varð úr að núna þann 19.12.19 mættu 12 sigursælar sálir með kökuna og bjór í fyrstu lagköku bjórkeppni sögunnar.  Menn voru ekkert að grínast með þetta, menn mættu með ýmist ævafornar uppskriftir sem gengið hafa milli kynslóða í fjölskyldunum eða glænýjar og spennandi tilraunir með ný hráefni.
…..Það voru jafnvel tár á hvörmum þegar sumar kökurnar voru kynntar til leiks með hugljúfum sögum um hvernig uppskriftin kom til.  Auðvitað veit maður ekkert hvort sögurnar voru sannar eða ekki en það var algjört aukaatriði.

„kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka..“

Reglurnar voru einfaldar að þessu sinni enda í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin og líklega fyrsta sinn í veröldinni líka ef út í það er farið?  Regluverkið mun fínpússast á komandi árum enda var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði í kringum jólin því allir voru á eitt sáttir, þetta var ofsalega skemmtilegt.
…..Ein af reglunum er að kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka en auðvitað getur það komið niður á dómum ef menn fara of frjálst með túlkun sína á lagköku.  Í raun veit enginn skilgreininguna á lagköku en ákveðnar hugmyndir voru vissulega uppi.
…..Kakan má heldur ekki vera bökuð af neinum nema þeim sem taka þátt í keppninni.  Bjórinn er alveg frjáls, menn þurfa bara að reyna að finna bjór sem gleður, er spennandi og spes en samt gengur með þeirri köku sem menn tefla fram.  Menn geta ekki dæmt sína köku eða sinn bjór.

wp-1576926060062.jpg

Dæmt er á eftirfarandi hátt, stig eru gefin fyrir bragð kökunnar og útlit.  Bjórinn er dæmdur eftir bragði en líka hversu framandi og spennandi hann er.  Bjór sem t.d. er vondur getur fengið fullt af stigum fyrir exotic flokkinn t.d. ef hann er bruggaður á botni eldfjalls á Galapagos eyjum eða hann er bruggaður einu sinni á ári af nunnum og seldur í litlu fjallaþorpi í Nepal einn dag á ári eða eitthvað álíka. Loks voru gefin mikilvæg stig fyrir bestu pörunina líka.

„maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi“

Það kom á óvart hve fjölbreytnin var mikil, maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi.  Formið var svipað í flestum tilvikum og var rétthyrningurinn vinsælastur enda það sem menn hafa kannski oftast séð og tengt við lagköku.
…..Lögin voru mismörg, sá sem var með flest lög var með 7 lög en flestir voru með 5 lög.  Ein kakan var með blandaðri berjasultu á milli, önnur var gerð úr guinnes bjór, enn önnur var með saltkaramellu smjörkremi á milli og svona mætti lengi telja.  Sumar kökurnar voru ljósar og aðrar dökkar eins og nóttin.

Útliðið telur og því er vissara að vanda til verksins, sumir pössuðu sig á að hafa öll lögin jafn þykk og öll horn rétt og yfirborð með réttum vatnshalla á meðan aðrir földu óvönduð vinnubrögð með glæsilegum skreytingum.  Sumir nenntu ekkert að spá í þessu og treystu á bragð og bjórinn með.

Keppnin fór þannig fram að menn byrjuðu á að kynna til leiks bjór og köku.  Hér gefst mönnum tækifæri á að segja frá því hvaðan uppskriftin er komin og hvaða humyndir voru á bak við val á hráefnum ofl.  Það var hér sem sumir kusu að reyna að skora stig með hjartnæmum frásögnum um tilurð uppskrifta.
…..Bjórinn er ekki minna mikilvægur enda höfðu menn haft ár til að grúska í þessu og næla sér í eitthvað spennandi.  Menn fengu hér tækifæri á að segja frá hvernig þeir náðu í bjórinn og hvað er merkilegt við hann.  Eins afhverju þessi bjór var valinn með þeirri köku sem þeir reiddu fram.   Þetta kom skemmtilega út og var ákveðið að á næsta ári væru gefin auka stig fyrir framsetningu.

„Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer“

Hvernig er annars best að para lagköku og bjór saman?  Er vænlegast að treysta á andstæður, súrt á móti söltu, sætt á móti beiskju og svo frameftir götum eða kemur best út að leika sér með samstæður, tengja eiginleika í bjór við hráefni í kökunni?  Það er erfitt að svara þessu og þess vegna er svo gaman að prófa sig áfram og sjá árangurinn.
….. Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer er oftast áberandi, sumir setja sýróp í deigið líka sem gefur ákv sætu, kremlögin geta svo verið margslungin og mismunandi.  Maður getur líka séð fyrir sér að vera með bjór sem minnir á það sem maður drekkur með kökum, kaffi t.d. eða ísköld mjólk jafnvel.  Hér sé ég strax fyrir mér milk stout t.d.!

wp-1576925281192.jpgVið Sigrún vorum t.d. með hlynsíróp í deiginu okkar og höfðum svo saltkaramellu smjörkrem á milli.  Við ákváðum að prófa geggjaðan bjór með, bæði af því að hann er svakalega góður og gæti halað inn stigum bara á bragðinu, eins er hann nokkuð exotic því hann er sjaldan bruggaður og erfitt að fá hann þegar hann kemur út einu sinni ári í mesta lagi.  Við erum að tala um Maplesaurus Rex sem er 14% massífur imperial stout með hlynsírópi og vanillu.   Bruggaður af Pure Project í San Diego og fæst í raun bara þar á bæ þegar hann kemur út.
….. Bjórinn er 14% en það kemur ekki fram í bragði, hann er mjúkur og þéttur með notalegum keim af hlynsírópi og svo vanillu í restina.  Mjög mild kaffirist af maltinu.  Þetta kom vel út með randalínunni okkar, sírópið tengdist við sírópið í kökunni og dró það meira fram, mýktin í bjórnum pakkaði inn kökubitanum og gerði hann meira djúsí.  Vanillan bættist við kökuna á skemmtilegan máta, en sætan í bjórnum var mögulega aðeins of mikil því kakan var líka dálítið sæt.  Þetta varð því dálítið þungt.  Saltkaramellan í kreminu naut sín vel með vanillunni og svo tengdi karamelluseraða maltið vel við kremið.

wp-1576926491009.jpg

 Eitt parið var með blandað sultulag á sinni randalínu og svo ávaxta gose með frá Dogfish Head.  Super Eight Super Gose heitir bjórinn en hann er pakkaður af alls konar berjum og ávöxtum, og er dálítið súr á tungu en þó má greina ögn saltkeim í bakgrunni.  Bjórinn einn og sér svona la la að mínu mati, en pörunin var virkilega flott, sýran og berin léttu vel á öllu og tónuðu sætuna í kökunni niður.  Sultan tengdist líka við berin og varð þannig meira áberandi.   Hér er gott dæmi um andstæður, sýran og léttleikinn í bjórnum koma til móts við þunga sætu kökuna og gerir allt svo létt og skemmtilegt.

„Sterkasti bjór veraldar?“

Fleiri bjórar þetta kvöld voru Sam Adams Utopias, 29% barley wine sem er með sterkari bjórum veraldar og kemur út einu sinni á ári ca og er aldrei eins.  Hér er mörgum lögunum af bjórnum sem legið hafa mislengi á mismunandi eikartunnum blandað saman í þennan eina bjór.  Flaskan kostar augun úr en við förum svo sem ekki út í verðið en ég gert sagt að flaskan er undir 50.000 kr.
….. Hér var það augljóslega exotic dómurinn sem menn voru að sækjast eftir en einnig kom hann mjög vel út með randalínunni.  Hér er það eins og gott koníak með eftirréttinum.  Þessi bjór er magnaður og það skrítna er, 29% koma ekki fram í bragði sem spritt eða bruni.

wp-1576925700004.jpg

Fleiri skemmtilegir bjórar voru á borðum, t.d. hinn glæsilegi Duchesse de Bourgogne frá Brouwerij Verhaeghe sem er frábært flæmst rauðöl og fæst neira að segja hér í Vínbúðum landsins, Svo var það áramótabjórinn frá Reykjavík Brewing, Kosmós 2020 sem er virkilega snoturt  sterkt belgískt öl með stokkrós og súraldin.   Þessi bjór kom með þeirri lagkögu sem vann keppnina í ár fyrir bestu kökuna en útlitið átti þar stóran þátt.  Pörunin kom líka nokkuð vel út með kökunni, dálítið súr, ávaxtaríkur og þægilegur á móti dökkri guinnes lagkökunni.

Já þessi keppni heppnaðist svona líka vel og verður klárlega endurtekin að ári.  Menn eru þegar farnir að huga að því sem betur mætti fara næst og nú er svo heilt ár til að finna þennan eina sanna bjór með kökunni.  Undirritaður ætlar að reyna að fá eitthvað af okkar frábæru brugghúsum til að brugga lagkökubjór fyrir næstu keppni.  Ég er þó ekkert allt of viss um að það takist en samt skemmtileg pæling.    En til lukku Kjartan og Beta, þið unnuð núna, við tókum annað sætið en þetta verður öruggur sigur á næsta ári.

wp-1576925995394.jpg

Jólabjórhugleiðingar 2019

Ég hef oft verið tímanlegri í jólaskrifum en nú eru jólin bara rétt handan við hornið, ég hef greinilega verið og upptekinn af lífinu.  Jólabjórinn er farinn að flæða og sumt reyndar búið nú þegar í vínbúðunum sem mér finnst alltaf jafn sorglegt., t.d. Jólakisi frá Malbygg.  Jólabjórinn kemur svo snemma í verslanir og oft í svo litlu magni að hann klárast fyrir Desember mánuð.  Ég tók samt eftir því að margir lásu frá mér vangavelturnar um jólabjórinn frá 2018 núna fyrir þessi jól enda er mikið af því sama ár eftir ár í boði.  Ég er því kannski meira að skrifa þessar pælingar mínar núna fyrir næsta ár, 2020?

Í gegnum tíðina hef ég reynt að smakka allt sem í boði er hver jól en síðustu 2-3 ár hefur verið svo mikið í boði að ég hef bara ekki boðið lifrinni né buddunni uppá að smakka það allt. Enda er maður eiginlega hættur að vera spenntur fyrir jólabjór, þetta er meira eða minna frekar óspennandi hér heima því miður.  Það er þó eitthvað sem vert er að taka eftir. Reynslan hefur svo sem kennt mér ýmislegt og ég er farinn að vita hvað ber að forðast, hvað er forvitilegt og hvað er gott fyrirfram.  En það verður aldrei of oft sagt, smekkur manna er misjafn, sem betur fer og ætla ég því ekki að reyna að segja ykkur hvað ykkur finnst gott!

En hvað er jólabjór?  Ég hef oft velt þessu fyrir mér og varpað fram spurningunni og í raun ekki komist að einni ákv niðurstöðu, eitt er þó víst að jólabjór er ekki til sem skilgreindur bjórstíll heldur er þetta bara bjór sem menn framleiða sérstaklega fyrir hátíðarnar, ja eða fyrir Nóvember mánuð í sumum tilvikum (Jólakisi).   Jólabjór getur því verið alla vega og í raun getur enginn sagt til um hvernig hann á að vera eða bragðast.  Við hér á Bjór & Matur höfum hins vegar ákveðnar skoðanir á þessu málefni sem mig langar að fara aðeins yfir.

Jólabjórinn fyrir okkur á að vera dálítið sérstakur, ekki bara sami IPA bjórinn eða lagerinn með nýjum miða og nafni eins og oft er.  Ef við tökum þetta saman hér í nokkra flokka gæti þetta verið einhvern veginn svona:

 1. 20191201_164529-01.jpegJÓLALEGUR! Jólabjór getur verið bjór sem er sérlega „jólalegur“, þ.e. tengir mann einhvern veginn við jólin. Það er auðvitað persónubundið hvernig menn upplifa jól og jólalegt en fyrir okkur eru það jólakryddin eins og negull, kanill og stjörnuanis, og svo auðvitað minnir greni mikið á jólin líka. Reyktur keimur, mandarínur, súkkulaði er líka eitthvað sem vert er að nefna í þessu samhengi.  Ristaðar möndlur, hnetur og jafnvel kókos eins og í margfrægum Macintosh mola sem alltaf er hluti af jólum.  Eitthvað Fallegt frá RVK Brewing Co. er dæmi um svona jólalegan jólabjór enda bruggaður með greni, mandarínum og Macintosh svo eitthvað sé nefnt og það kemur meira að segja fram í bragði.  Við erum afar hrifinn af þessum bjór hér en þessi bjór er jólalegasti jólabjórinn í ár hvað þetta varðar.
  .
  Giljagaur (10%) frá Borg Brugghús er annað dæmi, hér eru engum sérstökum jólakryddum bætt í bjórinn heldur gefur gerið og humlar af sér bragð sem minna okkur á jólin.  Í nefi er eins og randabrjóstsykur og á tungu er notaleg sæta sem minnir á mandarínur og svo gefa humlarnir ákveðinn furunálakeim.  Giljagaur er einn af okkar uppáhalds jólabjórum síðustu ár.
  Loks vil ég nefna einn að jólabjórunum frá Steðja, ég er í raun lítið fyrir Steðja öllu jafna en þessi finnst mér skemmtilegur og minnir mig á lakkrístoppana sem Sigrún gerir fyrir jólin, Lakkrís Porter Almáttugur Jólaöl sem er 6% porter bragðbættur með lakkrís.

  IMG_20191117_221217_531.jpg

 2. SÉRSTAKUR! Jólabjór getur líka verið bjór sem aldrei er bruggaður á öðrum árstíma, eitthvað alveg sérstak og eftirsóknarvert frá viðkomandi brugghúsi sem aðeins fæst í kringum hátíðarnar. Það má líta á það sem eins og jólagjöf frá brugghúsinu til neytandans ár hvert. Í þessu tilviki þarf bjórinn ekki að vera sérstaklega „jólalegur“ en hann þarf þó að vera eitthvað spes, eitthvað sem maður fær ekki hjá öðrum brugghúsum á öðrum árstímum.  Hér heima veit ég ekki um neitt sérstakt dæmi, nema kannski Jólakisa frá Malbygg en það er bara af því að ég elska þennan bjór.  Hann er ekkert jólalegur en hann er bara svo hrikalega góður, humlaður í drasl með citra, mosaic ofl sem gerir hann djúsí eins og ávaxtasafa.  Að mínu mati það besta sem komið hefur frá Malbygg í flokki pale ale eða IPA.  Ég lít á þetta sem gjöf Malbyggs til okkar sem elska  New England IPA.  Í fyrra kláraðist hann það fljótt að ég náði bara einni dós, í ár var ég undirbúinn og náði í slatta en ekki nóg, enda hvenær er nóg komið af góðum bjór?
  .
  IMG_20191121_222329_158.jpg
  .
 3. VERMANDI! Vetur er yfirleitt kaldur árstími, amk okkar meginn á hnettinum, snjór og kósíheit helst. Á svona tímum vill maður ekki einhvern léttan lagerbjór, session IPA eða mildan blond, við viljum eitthvað öflugt og notalegt til að hita okkur upp með.  Jólabjór getur verið fyrir okkur bjór sem virkilega rífur í og bræðir allan snjó af líkama og sál svo sem barley wine, tripel, imperial stout, strong ale og hvað þetta heitir allt saman.
  .Myndaniðurstaða fyrir hibernation aleEinn af mínum uppáhalds jólabjór er t.d. Hibernation Ale frá Great Devide Brewing CO í Denver.  Þessi bjór er af gerðinni English Old Ale sem er stíll sem ég fæ afar sjaldan, hann er tæp 9% og með jólalegri merkimiðum sem fyrirfinnst.  Þetta er bjór sem maður opnar og nýtur í einrúmi eða með elskunni sinni helst á gæruskinni fyrir framan arineldinn (ATH fæst ekki hér heima).  Giljagaur kemur vel til greina í þessum flokki líka, hann er þó ekkert allt of þungur í munni en prósenturnar hefur hann og hann gefur af sér yl!  Gouden Carolus Christmas er belgískt sterköl (10,5%) sem er sannarelga vermandi og skemmtilegur.  Þetta er ekta kósíbjór sem gefur hita en er í senn nokkuð sætur, það er mild beiskja og svo stjörnuanis og ristað malt og jafnvel karamellu epli?  Þessi fíni jólabjór sómir sér í raun líka í flokki Jólalegur!
  .
  20191130_184740-01.jpeg
 4. MATARBJÓR! Jólin snúast um mat að miklu leiti, jólakræsingar af ýmsum toga, oft erum við með á borðum eitthvað sem við aldrei borðum nema í kringum jólin, hangikjöt t.d. rjúpur,kalkún, alls konar paté ofl. Jólabjór getur vel verið bjór sem er einkar vel til þess fallinn að drekka með þessum jólamat okkar, fullkominn matarbjór sem dregur fram eiginleika í matnum eða bætir við! Skemmtilegt dæmi er Skyrjarmur frá Borg en hér erum við með bláberja súrbjór sem kemur mjög vel út með villibráðinni og reykta kjötinu og kalkúnn steinliggur líka með þessum skemmtilega bjór.  Annar skemmtilegur matarbjór er nýji bjórinn frá RVK Brewing þetta árið, Eftir Sex en um er að ræða villigerjaðan amber sem í raun er í fínu jafnvægi og því ekkert sérlega súr því sætur er hann á móti og svo þetta skemmtilega villibragð eða „funk“ eins og það er kallað.  Þetta er léttur bjór sem kemur vel út með flestu sem við höfum á borðun um jólin.
  .
  Bock er svo bjórstíll sem er frábær með mat, það er mikil karamella og rist í honum og nokkur sæta á móti.  Bock er hins vegar ekki sérstaklega jóla, hann er algengur allt árið um kring og er mikið notaður sem páskabjór líka.
  .
  Ég vil líka nefna hér til sögunnar Lepp frá The Brothers  Brewery í Vestmannaeyjum  en hann er mjög skemmtilegur, svo kallaður mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Þessi er t.d. flottur sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum eftir matinn og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot út á ísinn.

20191205_193017-01.jpeg

Reykt bleikja á amerískum minipönnsum með klettasalati, piparrótarsósu, kavíar og rifnum límónuberki

Það er alltaf ljúft að eiga notalega stund með góðum félaga á flottum veitingastað og láta nostra við sig og bragðlauka.  Stundum upplifir maður eitthvað alveg nýtt og spennandi sem gefur manni hugmyndir og innblástur.   Við Sigrún prófuðum Fjallkonuna um daginn og fengum meðal annars frábæran smárétt, léttgrafin bleikja á lummum með ýmsu öðru gúmmilaði.  Mér fannst þetta frábært combo, bleikja á lummum, geggjað.

Ég ákvað að prófa þetta í kvöld því mig vantaði í raun eitthvað nasl með freyðivíninu sem við opnuðum til að fagna lokum framkvæmda í eldhúsinu.  Þó svo að rétturinn sé innblásinn af Fjallkonunni þá er hann nokkuð frábrugðinn en kom alveg svakalega vel út, ég er jafnvel pínu stoltur svei mér þá!

Það sem þið þurfið fyrir ca 4 (ath þetta er forréttur eða smáréttur):

 • Reykt bleikja, eitt flak
 • klettasalat
 • piparrótarsósa, heimagert eða bara úr búð.
 • kavíar
 • ca 2 límónur, rifinn börkur
 • amerískar pönnukökur (heimagerðar eða tilbúið mix úr búð)
 • gott þurrt freyðivín, Cava eða Champagne t.d.

20191106_190939.jpg

Aðferð:

Byrjið á að gera deigið fyrir lummurnar, eða notið bara tilbúið mix úr búðinni og blandið.  Steikið litlar pönnukökur á pönnu í olíu en gott er að láta reglulega smjörklípu á pönnuna til að fá meiri gljáa á pönnsurnar og bragð.

Græjið piparrótarsósuna, það eru til ótal uppskriftir á netinu. Það er gott að hafa hana dálítið spicy en má þó ekki vera of kraftmikil fyrir bleikjuna.

Lofið pönnsunum að kólna, smyrjið svo piparrótarsósunni á þær, svo setjið þið slatta af klettasalati ofaná, skerið bleikjuna í þunna strimla og raðið ofaná.  Því næst setjið þig smá kavíar ofan á bleikjuna og endið á að rífa börk af límónu yfir.  Ég kreisti líka ögn límónusafa yfir fiskinn til að fá meiri sýru (smekksatriði).

Njótið:

Berið þetta svo fram með límónubátum ef menn vilja meiri sýru.  Parið svo við gott þurrt cava, champagne að annað freyðivín sem þið þekkið og njótið í botn.  Þetta er ljómandi góð samsetning.

20191106_193443-01.jpeg

Stökkt Sloppy Joe smælki innblásið af BrewDog Reykjavík

Það er orðið dálítið síðan ég setti inn uppskrift hér síðast, ég hef bara ekki haft tíma en ég hef verið dálítið á ferðinni bæði til að drekka í mig náttúru og menningu en einnig skoða matarkúltúrinn hér og þar.  Mig langar að deila þessari einföldu uppskrift með ykkur því þetta er bara svo ofsalega gott.  Við getum sagt að þetta sé dálítið innblásið af Sloppy Joe kartöfluréttinum á BrewDog Reykjavík og kartöfluuppskrift frá nágranna okkar henni Björk.  Upphaflega fengum við kartöfluhugmyndina sem meðlæti frá Björk, alveg geggjað með öllu sem kallar á kartöflur.  Mig langaði að taka þetta skrefi lengra og uppfæra yfir í sjálfstæðan rétt.  Kannski ekki alveg sá hollasti í heimi en ó svo gott.

Þessi réttur kallar á bjór, það er bara ekkert annað í boði.  Við erum að tala um IPA, eða flottan Pale Ale en brakandi pilsener gengur líka.  Í kvöld vorum við með frábæran skýjaðan New England Pale Ale frá Malbygg sem Kisi heitir.  Reyndar verður maður að passa sig á brunanum í þessum rétt, ef hann er of mikill þá fer hann ekki vel með bjórinn.  En að pöruninni á eftir.

Það sem þú þarf í þetta (ca fyrir 6)

 • ca 700g Smælki
 • Hveiti, slatta í poka
 • salt og pipar
 • parmesan ost rifinn yfir
 • nautahakk 1 kg
 • 1 krukka af uppáhalds pastasósunni ykkar, eða gera sjálf frá grunni
 • smjör, helling, líklegast ein 100g, sneitt niður
 • dash af worcestershire sósu
 • dash af fiski sósu
 • ferskur rauður chilipipar, skorinn í litla hringi
 • vorlaukur skorinn í litla hringi
 • Sriracha sósa
 • Stonewall Kitchen Roasted Garlic Aiole eða eitthvað heimalagað gúmmelaði

Aðferðin.

Byrjið á smælkinu, það þarf mestan tíma.  Setjið það í pott og sjóðið þar til orðið soðið.  Kælið þá niður með köldu vatni.  Brjótið eða rífið hverja kartöflu til helminga.  Setjið slatta af hveiti í poka, salt og pipar, slatta líka.  Færið svo smælkið í pokann og hristið saman. Raðið svo kartöflunum í eldfast mót, sneiðið vel af smjöri yfir.  Inní ofn við 140 gráður (blástur), eftir klst þá veltið þið aðeins smælkinu og bætið smjöri ofan á og hækkið svo ofninn í 200 eða 220 gráður í ca 30 mín, aðal atriðið er að þetta verði stökkt.  Takið svo út og rífið parmesan ost yfir og lofið að bráðna inn í kartöflurnar.

Á meðan smælkið er inní ofninum þá hitið þið olíu á pönnu, setjið nautahakkið á pönnuna.  Steikið aðeins og bætið svo dash af Worcestershire sósu út á kjötið, þetta eru ca 2 msk eða svo.  Slettið líka fiski sósu yfir, ekki meira en svona 2 tsk.   Vel af pipar og salti og steikið þar til orðið stökkt og steikt í gegn.  Bætið svo pastasósu út á pönnuna og látið malla áfram.

Skerið niður vorlauk og chili, einn vorlaukur og einn chili ætti að vera nóg.  ‘Eg held að kóríander fari í þetta næst hjá mér, það væri fullkomið.

Þegar smælkið er klárt setjið þið nautahakkið á stóran disk eða skammtið á hvern disk fyrir sig, raðið stökka brakandi smælkinu ofan á.  Rífið meira parmesan ost yfir og svo setjið þið vorlauk og chili hringina yfir allt og kóríander ef þið eruð með það.

Setjið svo Aiole í sprautuflösku og sprautið fallegar línur yfir þetta allt, það má fara vel af þessu á þetta.  Gerið það sama við Sriracha sósuna, hún kemur reyndar í sprautuflösku.  Njótið.

20191022_195344.jpg

Pörunin.

Þetta er svakalega flottur réttur og bara alls ekkert voðalega hollur en það er stundum allt í lagi.  Smælkið verður stökkt og eins og karmeliserað í smjörinu.  Sósurnar lífga svo vel upp á réttinn og ásamt ferska chilinu skapa dálítinn bruna og hita.  Fitan, seltan og bruninn í þessum rétta hrópá á bjór, einhvern sem hefur kitlandi gos og dálítið bit svo sem beittur IPA eða humlaður og brakandi tékkneskur pilsner.  Humlarnir hér brjóta upp fituna og þurrka skánina af gómbogum, og preppa fyrir næsta bita. Kolsýran og maltað kornið í ölinu dempa svo chili brunann en ristin í bjórnum gefa létta karamellutóna sem tengja sérlega vel við karamelluáferðina á smælkinu.

Þetta er bara frábær og skemmtielgur réttur þar sem kartöflur eru í aðal hlutverki og velkomin tilbreyting frá frönskunum.