
RÉTTUR: Ostabakki með völdum ostum (Gouda, Grámygluostur, Hvítmygluostur og Geita Rauðkítti) og meðlæti (hnetur, perur, ætiþyrstlar, hunang, gráfíkjusulta og súrsuð rauðlaukssulta.
PÖRUN: Belgískur/Hollenskur Tripel eða Trappist, bestur með bragðmiklum Gouda en flottur með hinum líka, Imperial Stout eða belgískur Kriek geggjaður með grámygluostinum og belgískur Saison kom einnig vel út með öllum ostunum.
DÆMI: La Trappe Tripel, Oud Beersel Kriek, Garún frá Borg og Saison svo sem Snorri, Skaði eða álíka.
Það kannast flestir við ljúfu stundirnar með góðum vinum yfir ostabakkanum, það getur verið dásamlegt trít fyrir bragðlaukana ef rétt er að öllu staðið. Klassíkt er að opna góða rauðvín til að gæða sér á með ostunum , þetta er eitthvað sem maður bara lærir að sé rétt…..eða hvað? Það er nefnilega mikill misskilningur að rauðvín sé góð pörun við osta, í raun er það afleit hugmynd í ljósi þess að ostarnir fara einfaldlega illa með flest rauðvín, þeir draga m.a. úr áhrifum tanníns í rauðvíninu auk þess fer saltið ekki vel með eikarkeiminn, ávextina og sýruna í víninu. Með öðrum orðum þá er maður að skemma gott rauðvín. Flest rauðvín eru líka bragðmikil og yfirgnæfa auðveldlega bragðið af mörgum ostum. Það er vissulega hægt að finna ágætis rauðvíns-ostapörun en ef maður vill endilega vera í léttvíni þá væri það frekar hvítvín og ostar. Nóg um það, við ætlum að tala um bjór.
Að margra mati er bjór það besta með ostum, mun betra en rauðvín alla vega. Bjór og ostar eiga einfaldlega ýmislegt sameiginlegt, þeir eru af sama sauðarhúsinu ef svo má segja. Hvortveggja er viðkvæm vara þar sem gerjun og þroski er lykil þáttur í framleiðslunni. Bjór og ostar geta verið skemmtilegir ferskir og ungir en þurfa oft að fá að þroskast í róleheitum til að fá meiri dýpt og karakter. Maður gæti einnig talað um skyldleika en bjór er gerður úr korni og jurtum (humlum) og ostar úr mjólk sem vissulega kemur frá grasbítandi kúm. Þannig má segja að jörðin tengi bæði osta og bjór saman. Það mætti einnig benda á að við erum flest vön að maula á kexi eða snittubrauði með ostunum ekki satt? Bjór er í raun sami hluturinn, þ.e.a.s. fljótandi brauð/kex gerður úr korni, geri og vatni. Það er því ekkert skrítið að bjór passi svona vel við.
„Bjór er mun betri ostapörun en rauðvín“
Þegar maður ætlar að prófa osta og bjór saman er best að byrja á að velja sér ostinn. Spjallaðu við einhvern sem kann sitt fag, t.d. afgreiðslufólkið í ostabúðunum, en ekki hvað? Ég hef t.d. góða reynslu af Búrinu úti á Granda. Fáðu að vita eiginleika og bragð og hvaðan osturinn kemur. Oft getur þetta gefið vísbendingar um hvernig bjór væri sniðugur með. Ég held að best sé að velja ekki of marga osta til að byrja með því það flækir málin, það er nefnilega svo að oftast eru fleiri en ein tegund af bjór sem passar með sama ostinum en það er virkilega skemmtilegt að sjá hvernig osturinn breytist með mismunandi bjór. Byrjaðu á t.d tveim ostum. Svo er það meðlætið, maður laumar gjarnar sultu, hunangi, vínberjum og öðru góðgæti með á bakkann, allt til að auka auðvitað bragðupplifunina. Þetta hefur vissulega áhrif á hvaða bjór gengur með. Prófaðu fyrst ostinn „allsberan“ og finndu góðan bjór með og upplifðu áhrifin. Bættu svo maukinu við eða hunangi t.d. og sjáðu hvað gerist, kannski er annar bjór allt í einu orðinn skemmtilegri með. Þetta er allt hluti af skemmtuninni, að koma bragðlaukunum stöðugt á óvart.

Við Sigrún ákváðum núna um helgina að gera vel við okkur og prófa 4 mismunandi osta með nokkrum vel völdum bjórum og til að gera þetta enn skemmtilegra hóuðum við í góða vinkonu okkar Lovísu sem reyndar vann á sínum tíma í ostabúð og er dálítið kresin á ostana. Það er alltaf skemmtilegra að vera fleiri saman að spá í hlutunum. Við fórum einu sinn sem oftar í Búrið og völdum þar flottan Gouda ost, Oowe Jongens sem er ljómandi ostur, bragðmikill en mjúkur, svo var það geita rauðkítti Landana Rosso frá Hollandi og gamli góði Gullosturinn (Hagkaup) og svo fer ég ekki í ostabúð nema að taka einn blámygluost. Að þessu sinni var það Fourme D’Ambert frá Frakklandi. Þessi ljúflingur er bragðmikill með kremaða áferð og svo er dálítill sveppatónn í bakgrunni, algjört salgæti. Með þessu vorum við svo með bragðmylda pylsu, heslihnetur, perur, hunang, hina dásamlegu gráfíkjusultu og svo súrsaða rauðlaukssultu sem er algjört salgæti.
Bjórana valdi ég að þessu sinni dálítið handahófskennt því ég vildi prófa eitthvað nýtt, ég tók þó með nokkra klassíska sem ég vissi að smellpassa með ákveðnum ostum á bakkanum. La Trappe er Hollenskt Trappist klaustur sem gerir ofsalega flottan bjór. Þeir eru með nokkrar tegundir. Ég valdi Tripelinn (8%) sem er dálítið þróttmikill en þó dálítið mjúkur með ljúfa sæta ávaxtatóna og notalega kryddtóna, blond (6.5%) hefði líka alveg gengið hugsa ég. Það góða við La Trappe er að bjórinn er á fínu verði hér heima í Vínbúðinni, við höfum nefnilega aðgang að tveim öðrum Trappist brugghúsum hér heima, Chimay og Westmalle sem væru stórgott val með ostunum einnig. Trappist klaustrin gera flest sína eigin osta auk bjórsins og því er maður nokkuð öruggur um góða pörun með svona bjór. Við prófuðum La Trappe með öllum ostunum og fór hann vel með þá alla en kom best út með Oowe Jongens Gouda ostinum en Gullosturinn var líka flottur með. Sætu ávaxtatónarnir í bjórnum tónuðu vel með seltunni og mýktinni í Gouda ostinum og kolsýran heldur skemmtilega utan um rjómakennda áferðina og fituna í báðum þessum ostum og hreinsar hana af pallettunni. Ég prófaði einnig þýskan hveitibjór með öllum ostunum en hann var ekkert að gera, ostarnir drápu hann bara niður sem dæmi um slæma pörun, við viljum jú ekki skemma bjórinn. Porter var líka reyndur en kom ekki vel út með þessum ostum, hann tók pylsuna vissulega í flottan dans en það er önnur saga.

Ég valdi svo Garúnu frá Borg með blámygluostinum. Garún er flottur 11.5% Imperial Stout en sá stíll getur verið frábær með blámygluostum. Bjórinn er mjúkur en stór með sætu og rist og svo kaffitóna með. Slíkur bjór gengur samt ekki með öllum ostum, aðeins þeir öflugustu þola svona bjór eins og t.d. blámyglan. Bjórinn stelur engu frá ostinum og öfugt heldur magna ostur og bjór bragðtóna hvers annars. Þeir tvinnast einhvern veginn saman í gómnum í flotta heild, frábært. Svo var ofsalega gaman þegar við prófuðum súrbjórinn með sama osti, Oud Beersel Kriek sem er belgískur kirsuberjabjór af bestu sort. Bjórinn er í grunninn súrbjór eða Lambic sem svo hefur þroskast á eikartunnum með ferskum kirsuberjum og verður þannig kirsuberjabjór með ríkulegum kirsuberjakeim. Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr og svo er heilmikið gos í honum. Ofsalega flottur einn og sér æðislega skemmtilegur með bragðmiklum blámygluostinum. Þetta kombo kom skemmtilega á óvart og voru stúlkurnar báðar sammála að þetta væri skemmtilegasta blanda kvöldsins. Osturinn fær að njóta sín í fyrstu og þekur góm og boga og svo kemur bjórsopinn með ferskan kirsuberjablæ og sýru sem sker fituna og hreinsar góminn. Svo er þetta sveita, leður funk alltaf aðeins í bakgrunninum. Þannig byrjar maður með ost og endar með skemmtilegt súrt, ferskt twist. Dásamlegt.
Já þetta var bara byrjunin, svo var auðvitað enn skemmtilegra þegar við prófuðum allt meðlætið með. Mismunandi bjórar gerðu mismunandi hluti fyrir bakkann, ostabakkinn lifnaði bókstaflega við. Ég vil svo benda á í lokin að belgískur Saison er góð pæling með ostabakka og meðlætinu. Saisoninn er dálítið jarðbundinn og oft nokkuð kryddaður með áberandi gertónum. Ég prófaði minn eigin nano Saison sem kryddaður er með rósapipar ofl. Þessi bjór var ofsalega flottur með t.d. Gouda ostinum og geitaostinum en gekk vel með hinum ostunum einnig. Við getum vel mælt með að menn prófi þennan stíl með.
Ein athugasemd við “Bjór og Ostar”