RÉTTUR: Piparkökur, best djúsí heimabakaðar piparkökur. Blámygluostur, vel valinn t.d. úr Búrinu hennar Eirnýjar.
BJÓR MEÐ: Imperial Stout eins og t.d. Garún frá Borg , hann er geggjaður með, eins og sérbruggaður fyrir þetta combo.
Hafið þið smakkað piparkökur með gráðosti? Þetta hljómar kannski ekki mjög vel en þegar þið smakkið það þá opnast ykkur alveg nýr heimur, þetta er bara algjör snilld saman. Ég veit ekkert hvað Eirný í Búrinu myndi segja við þessu, mögulega að hér værum við að skemma góðan blámygluost en mér er í raun alveg sama, við erum í raun að laga sæmilegar piparkökur og ef það er gott þá er það bara gott og stundum verður maður bara að synda á móti straumnum ekki satt? Við Eirný eigum annars vel saman, bæði dálítið klikkuð í því sem við erum að gera, bjór vs ostar. En hvað er svona gott? Sætan og kryddið í piparkökunum blandast hér mjög skemmtilega vel við seltuna og þróttinn í blámygluostinum og skapar dálítið jólalega ostastemningu….hvað sem það svo þýðir?
Ég og Sigrún grípum stundum í þetta í jólamánuðinum þegar okkur langar í smá jólalegt nart en viljum lyfta piparkökunum aðeins upp á æðra plan. Svo er það rúsínan í pylsuendanum, já það er vel þekkt að blámygluostur á vel við sætan þróttmikinn imperial stout og þar sem við eigum alltaf til Garúnu frá Borg í ískápnum ákváðum við að prófa þetta saman. Viti menn, þetta er svo borðleggjandi að maður setur hljóðan, getur það verið að Garún hafi verið brugguð einmitt með þetta combo í huga? Ég skal ekki segja en þetta er svo gott saman að það nær engri átt. Vissulega er hægt að notast við hvaða imperial stout sem er en hér tölum við um það sem er alltaf til á heimilinu og er alveg rakin pörun.
2 athugasemdir við “Piparkökur með gráðosti og Garúnu”