Bleiki Fíllinn, sögulegt samstarf

img_5691

Bjór þessi markar tvímælalaust tímamót í bjórveröld okkar hér heima að mínu mati því hér eru komnir saman tveir toppar í handverks bjór á Íslandi, Borg og Gæðingur sem aldrei hafa unnu saman áður.  Já við erum að tala um samstarfsbjór eða „collab“ sem er löngu orðið tímabært hjá þessum öðlingum.  Nafnið er dálítið flippað, miðinn er vægast sagt skemmtilega skreyttur af Hugleiki Dagssyni sem reyndar sér um miðaskreytingarnar hjá Gæðingi alla jafna og bjórinn sjálfur er gríðarlega fallegt sjónarspil.  Stíllinn er í grunninn IPA en hann hefur verið peppaður upp í áramótabúning með framandi furðukryddum, rauðrófusafa og djúsí tropical humlum ásamt belgísku geri.
Í nefi er haugur af suðrænum ávöxtum, belgískt ger og aðeins humlar eða eitthvað sem gæti verið rauðrófusafinn.  Í munni er þægileg beiskja en alls ekkert sem rífur of mikið í.  Miklir ávextir og krydd og svo eins og ögn pipar í restina.  Sætan er stoppuð dálítið af með þurrum humlunum og líklega kemur rauðrófusafinn aðeins með þarna líka sem jafnan er aðeins beiskur og þurr og „earthy“ ef svo má segja.  Virkilega tilkomumikill í glasi svona dásamlega bleikur og mattur  og sómir hann sér vel á borðum um áramótin þar sem allt snýst jú um ljós og skæra liti ekki satt?

img_5713Svo er spurningin, hvaða matur passar við þennan flippaða bjór?  Bleiki fíllinn er vissulega stórskemmtilegur einn og sér sem fordrykkur, liturinn gerir það að verkum að bjórinn getur vel „púllað“ elegant freyðivínsglas fyrir matinn en ég veit þó ekki með miðnæturbjórinn, hann þarf alltaf að vera meira pótent í áfengi að mínu mati.   En vilji maður máta þennan við mat þá eru líklega margir möguleikar því hann er sætur með ávaxtablæ sem hægt er að leika sér með, svo er hann hæfilega beiskur og getur þannig „klippt“ í sundur feitar sósur og meðlæti, rauðrófurnar koma svo vel út í bakgrunni þegar bjórinn nær aðeins að volgna og þær koma vel út með ýmsum réttum ekki satt og loks er aðeins pipar í honum og svo belgíski kryddblærinn.  En bjórinn er það nýr að maður hefur bara ekki náð að prófa hann með nokkrum rétti og því eru hér bara getgátur á ferð.
Við Sigrún ætlum hins vegar að prófa hann með kalkúninum okkar (segir maður það?). En það er nokkuð látlaust kjöt en fyllingin og sósan spilar oftast höfuðrulluna.  Fyllingin er t.d. með svínahakki, brauðkubbum, sellerí, eplabitum og jafnvel beikoni en vissulega getur hún verið margs konar.  Ég held að ávextirnir komi vel út með fyllingunni, létti aðeins á þungu svínahakkinu og beikoninu og tvinnist saman við eplin.  Beiskjan opnar svo og léttir á fitunni í svínahakkinu og sósunni með.  Svo held ég að tönuberjasultan sem við slettum oft með þessu öllu til að rífa upp stemninguna komi rosalega vel út með þessum ávaxtabjór.  En það er bara um að gera að prófa ekki satt?  Eitt er víst að það verður alltaf gaman og gleðilegt nýtt ár!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s