Suðrænn og freyðandi eftirréttur

Við Sigrún elskum góða eftirrétti, eitthvað létt og ljúft til að enda fullkomna máltíð. Það er allt of oft þannig að þegar maður fer út að borða að þá eru eftirréttirnir ekkert sérstaklega eftirminnilegir. Við erum því oftast hætt að panta þá bara. En nóg um það. Hún Sigrún mín henti í þennan um daginn þegar okkur var boðið í mat til vina okkar Snædísar og Ragnars Freys (Læknirinn í Eldhúsinu). Þetta var svo ljúft að Ragnar vildi fá að hafa réttinn í nýju bókinni sem hann er að vinna að um þessar mundir.

En vindum okkur í þetta. Það sem þarf fyrir ca 4

  • 1 flaska freyðivín, ekki þurrt. Prosecco myndi ganga hér.
  • 1 askja hindber
  • 1 askja blæjuber
  • 200 g rjómaostur við stofuhita
  • 80 g flórsykur
  • 3 kúfaðar mtsk lemon curd (heimalagað ef þið getið)
  • börkur af sítrónu, rifinn eftir smekk
  • hvítt súkkulaði eða saltkaramellusúkkulaði til að rífa yfir
  • 1 peli af rjóma

Aðferðin

Athugið, þessi uppskrift er að þróast mjög hratt. Sigrún gerði þetta upphaflega bara eftir höfðinu, svo gerði ég réttinn heima hjá Ragnari þegar hann var að taka upp fyrir bókina þar sem Sigrún komst ekki. Þá breyttist uppskriftin aðeins og svo hef ég aðeins endurstillt hana hér þegar ég skrái hana niður. En það er í lagi, þetta eru engin geimvísindi. Hér er það smekkur manna sem ræður, smakkið þetta bara dálítið til. Það má líka leika sér með berin, t.d. hafa brómber líka eða bláber. Ég held líka að væri gott að skafa úr ástaraldinn efst sem skaut. En alla vega.

Takið berin og skolið varlega, skerið blæjuberin í tvent og fjarlægið vængina. Blandið berjunum saman í fallegt glas á fæti. Hálffyllið glasið eða rúmlega það, hellið freyðivíni yfir þannig að það nánast hylur berin en samt ekki alveg. Látið standa í kæli á meðan haldið er áfram.

Setjið ca 200 g af rjómaosti, um 80 g flórsykur og 2-3 kúfaðar lemon curd í skál. Ath heimalagað lemon curd er margfalt betra en tekur smá tíma. Hrærið saman og smakkið til. Hér má alveg vera dálítið sítrónubragð. Þeytið þetta svo saman í hrærivél. Rífið sítrónubörk, passið að fara ekki mikið í hvíta lagið. Blandið saman við og smakkið til. Stillið sítrónuna eftir smekk. Þegar þetta er komið vel saman þá bætið þið pela af rjóma og þeytið áfram þar til þetta er orðið mjúkt og notalegt og farið að stífna smá. Ekki samt þeyta allt of lengi.

Takið fram berjaskálarnar, hellið rjómablöndunni yfir, skreytið efst með blæjuberjum og hindberjum og svo eitt blæjuber með vængjunum. Saxið svo hvítt súkkulaði og dreyfið yfir. Berið strax fram.

Hellið góðu freyðivíni í glas og berið fram með réttinum, hér má vera þurrt cava eða kampavín en ég held að aðeins sætara eins og sec komi líka vel út hér. Sleppið samt prosecco, það er ekkert sérstakt að okkar mati, en það er jú bara við. Þessi réttur er afskaplega ljúfur og frískandi. Gengur líka bara sem stakur „fordrykku“ á pallinum í sólinni!