Pavlova Sprengja með sítrónu rjómaostafyllingu og berjablöndu

Við Sigrún erum mikið fyrir eftirrétti, það er bara svo ljúft að enda góða máltíð með einhverju sætu og góðu sem gleður. Pavlova er einn af þessum eftirréttum sem ég hef verið pínu hræddur við að gera en elska að borða. Þessi marens lítur alltaf út fyrir að vera svo hættulegur og flókinn en svo kemur á daginn að svo er ekki. Sigrún henti í þessa um daginn og nú er ekki aftur snúið, þetta er nefnilega ekki eins flókið og það hljómar. Bara alls ekki!

Okkur finnst þessi koma vel út á eftirréttaborðinu, pínu öðruvísi og smá ögrandi, eins og sprengja af hamingju sem bíður þess að valda ursla. Æ ok ég er hættur núna, vindum okkur í þetta.

Það eru til margar uppskriftir auðvitað og vonlaust að ætla að smakka sig áfram til að finna þá bestu. Við tókum uppskriftina að marensnum frá Lindu Ben og erum fullkomlega sátt við útkomuna. Fyllingin er uppúr höfðinu á Sigrúnu minni og þvílíkt sælgæti sem hún er.

Það sem þarf í eina bombu

Marensinn

  • 8 eggjahvítur
  • Salt á hnífsoddi
  • 500g sykur
  • 1 msk. maísmjöl
  • 2 tsk. edik

Sítrónufylling

  • 250ml rjómi, þeyttur
  • 1 krukka eða 326g lemon curd t.d. frá Stonewall, eða enn betra heimalagað ef þið nennið
  • 150g rjómaostur við stofuhita
  • 4-5 msk. flórsykur

Aðferðin

Marensinn

Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum (8 egg), saltið hvíturnar og stífþeytið í hrærivél. Bætið sykrinum (500g) smám saman saman við á meðan þið eruð að þeyta. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar sléttar og śtífar þá bætið þið 1 msk maísmjöli og 2 tsk ediki saman við og hrærið aðeins áfram.

Hitið ofninn í 180 gráður. Teiknið hring á bökunarpappír, t.d. með disk sem er ca 22 cm í þvermál. Hellið marensmassanum á pappírinn og mótið að vild. Hafið samt kantana háa og miðjuna flatari svo fyllingin komist þar fyrir. Það er gaman að móta þetta dálítið eins og sekk eða eins og lokuð rós. Lækkið svo hitann i 120 gráður og skellið marensnum inn og baki í 1 klukkutíma og 15 mínútúr. Látið svo marensinn kólna.

Fyllingin

Þeytið 250ml rjóma og leggið til hliðar. Þeytið svo saman 150g rjómaost og 4-5 msk flórsykur. Bætið svo lemon curd saman við og þeytið áfram þar til hefur blandast vel saman. Ef þið getið þá er geggjað að gera lemon curd sjálf, það verður töluvert betra. Blandið svo þeytta rjómanum saman við.

Loks er það bara að steja fyllinguna ofan í marensinn og svo fersk ber yfir. Svo má leika sér með þetta, t.d. Núna eru Páskar þá er hægt að mylja lítil páskaegg yfir líka.