Hátíðar Humarsúpa

Við erum alltaf í vandræðum með hvað við viljum hafa í matinn á jóladag. Það er einhvern veginn allt orðið þreytt og maður er eiginlega að springa. Þetta árið ákváðum við að gera humarsúpu og gera hana frá grunni. Við höfum ekki gert það sjálf áður en útkoman var hrikalega góð. Svo góð reyndar að nú er komin ný hefð hér á bæ, jóladags humarsúpan.

Við vorum mest megnis með lítinn humar í súpuna ásamt nokkrum stórum hölum ofan á. Við vorum sammála um að næst myndum við sleppa litu körlunum og nota bara stóran humar og þá hafa minna af honum. Það er miklu betra!

Það sem þarf (fyrir 4-5):

  • Humar í skel, stór, því stærri því betra. Slepptu litla súpu humarnum. Magn fer eftir smekk bara, 700 g er fínt t.d
  • Smjör, 50g
  • Ólifuolía
  • Rauð paprika, 1 stk skorin smátt
  • Gulur laukur, 1 stk, skorinn smátt
  • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
  • Gulrætur, 2-3 stk skornar í litlar sneiðar
  • Hvítlaukur, 2-3 geirar
  • Tómat purré, 2 mtsk
  • Cayenne pipar, 1 tsk
  • Hvítvín 0,5 dl
  • Kókósmjólk, þykka gumsið efst/rjóminn, ca hálf dós.
  • Rjómi, 500 ml + þeyttur rjómi, 1 peli
  • Philadelfia rjómaostur, 200 g
  • Humarsoð (sjá að neðan)

Fyrir soðið:

  • Humarskeljar af 700g humar
  • Smjör, 50g
  • Ólifuolíu
  • Gulur laukur, 1 stk skorið gróft
  • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
  • Gulrætur, 4 litlar skornar í litla bita
  • Hvítlauksgeirar, 3-4 skornir smátt
  • Fennel fræ, 2 tsk
  • Cayenne pipar, 1 tsk
  • Vatn, 2L
  • Hvítvín, 1,5-2 dl
  • Humarkraftur, 4 mtsk
  • Salt og pipar

Aðferðin

Svona gerðum við þetta. Byrjuðum á að afþýða humar yfir nótt. Skelflettum og hreinsuðum garnir úr. Svo er það smjör (50g) í stóran pott, ólifuolía og humarskeljarnar (af ca 700g humarhölum), 2 tsk fennelfræ og 1 tsk Cayenne pipar. Við brúnuðum skeljarnar í smá stund svona. Bættum svo útí skornum lauk (1 stk), blaðlauk skorinn í sneiðar (1 stk), smátt skornum gulrótum (4 stk) og hvítlauksgeirunum (3-4 stk).

Létum þetta mýkjast á rúmlega meðalhita. Svo bættum við ca 2 dl hvítvíni samanvið og fljótandi humarkrafti (4 mtsk) og létum aðeins sjóða niður. Lyktin á þessu stigi lofar svo sannarlega góðu. Loks bættum við 2 L vatni samanvið og náðum upp suðunni. Við létum þetta svo malla í líklega 3 tíma á lágum hita undir loki. Það má vel láta þetta malla lengur svo sem, þá verður soðið bara sterkara. Við sigtuðum svo soðið frá grænmetinu og lögðum til hliðar. Smakkið soðið til með salti og pipar.

Þá er það súpan sjálf. Þetta er mikið til sama innihald og í soðinu. Skárum niður 1 rauða papriku, 1 gulan lauk, 1 blaðlauk og ca 3 gulrætur. Mýktum þetta í potti í olíu og 50g smjöri ásamt Cayenne pipar (1 tsk). Bættum svo um hálfum dl hvítvíni samanvið. Þegar þetta er orðið mjúkt þá bættum við tómatpúrruni (2 mtsk) saman við og blönduðum vel. Settum þetta svo í blandara sem þolir hita (t.d. Vitamix) ásamt ca dl af soðinu og hvítlauksgeirum og maukuðum þetta vel þar til engar agnir voru sjáanlegar.

Settum svo maukið aftur í pottinn, bættum saman við soðinu og rjómaostinum (200 g) og hrærðum vel saman og náðum upp suðu. Bragðbætt með salti og pipar og jafnvel humarkrafti ef ykkur finnst vanta bragð. Þetta var mjög bragðmikið hjá okkur á þessu stigi. Þegar þetta var búið að malla dálítið bættum við 500 ml rjóma og svo kókosmjólk eftir smekk. Við notuðum í raun kókosrjómann sem er efst í dósinni og smökkuðum til. Þetta var ca hálf dós.

Svo er það humarinn (skelflettur). Ég steikti hann uppúr slatta af smjöri, pressuðum hvítlauk (3 geirar) og smá þurrkaðri steinselju (átti ekki til ferska). Mjög basic, bara passa að steikja þá frekar of lítið en hitt, súpan klárar svo verkið. Ef þið eruð með litla súpu humarhala þá skolið þið þá bara, þerrið og bætið þeim útí súpuna um leið og hún er borin fram. Þeir sjóða strax þar. Stóru humarhalana settum við ofan á súpuna þegar súpan var komin í skálarnar ásamt þeyttum rjóma.

Pörunin

Það þarf ekkert að para neitt við þetta en það er skemmtilegra, það var hátíð í bæ hjá okkur og við áttum flotta flösku af Dom Perignon kampavíni sem paraðist stórkostlega við súpuna. Gott hvítvín, þurr saison eða belgiskur tripel myndu eiga svakalega vel við líka.

Sigrún gerir ofsalega góðar brauðbollur og við ákváðum að hafa þær með súpunni, nýbakaðar og lungnamjúkar með smjöri. Frábær veilsa. Njótið.

Njótið

Geggjuð frönsk sítrónu terta (lemon tart) með spriklandi kampavíni

Sigrún kynnti mér fyrir þessu fyrirbæri fyrir mörgum mörgum árum þegar við vorum eiginlega krakkar að skoða París. Hún pantaði sér lemon tart á litlu kaffihúsi skammt frá Eiffelturninum og auðvitað glas af kampavíni með. Þetta var geggjað!
Eftir þetta reyndum við að líkja eftir þessu hér heima enda á þeim tíma ekki hægt að fá neitt svipað hér á kaffihúsum. Stutta sagan er að þetta tókst bara engan vegin enda færni í eldhúsinu ekki uppá marga fiska þá.

Nú höfum við hins vegar náð meiri leikni í eldhúsinu. Ég ákvað fyrir líklega tveim árum að prófa aftur að endurlifa þessa hamingju og gerði sítrónu marens tertu að hætti Nigella Lawson. Ég setti þessa færslu inn hér undir „gómsæt sítrónu marengs terta..“. Þessi terta kom mjög vel út og gladdi konu mína mikið á þeim tíma. Þetta er líka mjög gott en samt ekki þessi Parísar upplifun. Við vorum svo sem sátt þar til við prófuðum lemon tart frá Gulla Arnar. Þessi gaur kann sitt fag, lemon tartið hans sendi okkur beint til Parísar og þá var ekki aftur snúið. Ég ákvað að reyna aftur, fór á netið og googlaði. Það er haugur af uppskriftum til, ég skil í raun ekki afhverju ég reyndi þetta ekki fyrr. Ég raðaði saman nokkrum sem ég fann og þetta er útkoman, alveg geggjað og alveg á pari við það sem við fengum í París. Veii!

Það sem þarf í þetta:

fyrir bökuna

  • 175 g hveiti
  • 25 g möndlu mjöl
  • 75 g flórsykur
  • smá salt
  • 90 g smjör
  • 35 g egg

fyrir lemon curd

  • 250 g smjör
  • 500 g sykur
  • 300 g sítrónusafi úr ca 8 sítrónum
  • 4 egg
  • rifinn sítrónubörkur úr tveim sítrónu

fyrir marensinn

  • ½ tsk „cream of tartar“
  • 200 g sykur
  • eggjahvítur úr 4 eggjum

Aðferðin

Bakan

wp-1597667547222.jpg

Byrjið á bökunni, það má gera hana daginn áður, líklega betra. Ég fann þessa uppskrift hér og fylgdi henni bara alveg. Kom mjög vel út.

Setjið þurrefnin í hræirvélaskál, 175 g hveiti, 25 g möndlumjöl, 75 g flórsykur og salt. Blandið saman. Skerið svo smjörið (90 g) í litla kubba og bætið út í og hrærið vel þar til deigið er orðið eins og blautur sandur.

Pískið egg saman í skál, vigtið 35 g og hellið varlega saman við deigið á meðan þið hrærið. Hættið að hræra þegar deigið hefur sameinast, ekki hræra áfram.

pakkið deiginu inn í matarfilmu, fletjið það út og myndið ferning. Kælið í 2-3 tíma þar til kalt í gegn.

Stráið hveit á borð og keflið. Strjúkið hveiti líka á deigið. Mýkið deigið með því að þrýsta á það með keflinu hér og þar. Forðist mikla snertingu með höndum, það gerir deigið klístrað. Þegar deig er farið að mýkjast er hægt að fletja út með keflinu. Gerið eins þunnt og þið viljið. Ég var með 28 cm form en það má vera hvernig stærð sem er. Fyrir þessa stærð er ágætt að fletja deigið út á smjörpappír. Þá er auðveldara að koma deiginu yfir í formið.

Hvolfið svo deiginu yfir formið og pressið því niður í öll horn. Fletjið svo út deigið í formið og jafnið. Gerið göt með gafli í botninn hér og þar til að forðast loftbólur. Skerið svo deigið af köntunum. Kælið svo aftur í ca klst. Bakið svo í ofni, 160 gráður í 15-20 mín þar til bakan er orðin gullin og falleg.

fyllingin, lemon curd

Ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu, þessi gaur hér var eitthvað svo einlægur og skemmtilegur og fransk – enskan hans alveg dásamleg. Ég sé ekki eftir að hafa prófað þessa því útkoman var stórkostleg.

Setjið smjörið (250 g) í pott, stillið á lægsta hita og látið bráðna í rólegheitum meðan annað er græjað. Kreistið 7 til 8 sítrónur eða þar til þið eruð komin með 300 g vökva. Rífið börk af einni sítrónu ofan í og blandið saman.

Þegar smjörið er bráðnað kannið hitan, smjörið á bara að vera ögn volgt. Bætið sykrinum útí (500 g) og hrærið saman. Takið svo af hellunni og hrærið áfram. Bætið einu eggi samanvið á meðan hrært er stöðugt. Passa að hræra hratt og strax því botninn á pottinum er heitari en blandan sjálf. Því næst er næsta eggi bætt við á sama hátt og svo koll af kolli.

Færið pottinn aftur á helluna og hækkið hitann. Bætið svo sítrónublöndunni saman við og hrærið vel. Náið upp suðu, þetta þarf að vera kröftug suða en látið bara sjóða í nokkrar sek. Takið af hellunni, hrærið áfram um stund og látið svo kólna.

Þegar lemon curd er farið að stífna aðeins er henni hellt yfir bökuna. Látið svo standa í kæli í 3-4 klst. Þetta er ríflegt í þetta mót. Afganginn setjið þið bara í krukku og notið síðar!

wp-1597621543049.jpg

Marensinn

Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens en hann er mjög flottur á svona tertur. Ég nennti samt ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.

Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200 g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.

Dreifið svo marens yfi lemon curd lagið og skreytið að vild. Mér finnst koma vel út að gera svona toppa með sprautupoka og svo flambera með brennara. Það mætti meira segja brenna þetta meira næst sé ég.

Pörunin

Þetta er einfalt, hér er það kampavínið sem ræður ríkjum í pöruninni, þurrt gott kampavín. Gula ekkjan kom svakalega vel út, ísköld og ferskt með ögn sítrus tón og milda sætu tóna sem koma vel saman við sítrónukeiminn í tertunni. Sætan í marensnum dempast skemmtilega með þurru víninu og kolsýran hjálpar við að losa skánir af gómbogum. Í bjórveröldinni væru það einhverjir súrbjórar eða wild ale, jafnvel með ávöxtum eins og mango eða ástaraldin. Ekki þó of sætir bjórar. Mig langar t.d. að prófa Teig eða Holt frá RVK Brewing með þessu ef ég næ tökum á flösku.

Njótið vel og sendið mér endilega myndir ef þið nennið!

Freyðivín og allt það. Ertu með réttu búblurnar í glasi?

Ég vil ekki gefa mig út fyrir að vera einhver freyðivíns sérfræðingur (er það til?) hins vegar hef ég mikinn áhuga á góðum drykkjum og kemur bjórinn líkast til í fyrsta sæti hjá mér en í öðru sæti eru nefnilega hin freyðandi vín.   Ég hef aðeins verið að fikta í þessu í gegnum tíðina en oft finn ég hjá mér meiri löngun í gott freyðivín en bjór.  Okkur hér á Bjór & Matur, sem við munum kannski breyta í Bjór, Búbblur & Maturm, fannst kominn tími til að fjalla aðeins um þennan merka drykk hér.   Nú segi ég „þennan drykk“ eins og um einn drykk sé að ræða, það er alls ekki svo, freyðivín er samheiti yfir vín sem freyða en munurinn getur verið mikill eftir tegundum, eins og ég segi alltaf með bjórinn, bjór er ekki bara bjór þá er freyðivín ekki bara freyðivín.  Fróðleikur er alltaf skemmtilegur en það breytir þó ekki því hvað okkur finnst gott og hvað ekki.  Stundum getur reyndar góð saga á bak við drykkinn sem maður er með gert hann meira spennandi og maður upplifir hann á annan hátt og jafnvel betri.  Fróðleikur getur líka verið leiðbeinandi þegar maður prófar sig áfram í óþekktu felti?  Hér að neðan eru nokkur orð um þekktustu freyðivín veraldar en þetta er langt frá því að vera tæmandi!

Champagne frá Frakklandi
Ég held að allir þekki kampavínið, Champagne, en það er líklega frægast allra freyðivína.  Sumir kalla allt freyðivín kampavín sem er einfaldlega kolrangt, alvöru Champagne kemur frá Champagne héraði í Frakklandi og er eina vínið sem má bera þetta nafn.  Champagne er gert úr Pinot Noir, Pinot Meunier eða Chardonnay þrúgum, oftast blöndu þessara þriggja þrúga.  Vínið er gert með svo kallaðri „méthod champenoise“ aðferð sem þýðir að freyðivínið er látið gerjast á flöskum eftir frumgerjun.  Vínið er sett á flöskur og svo bæta menn meira geri og sykri í flöskurnar til að ná upp meiri gerjun og loka svo með tappa.  Svo er vínið látið dúsa á flöskum á meðan gerið borðar sykurinn og býr til kolsýru og vínanda.  Þetta er aðferð sem við þekkjum vel úr bjórheiminum sérstaklega hinum belgíska.  Við þetta verður bjórinn gruggugur því gerið fjölgar sér og er á sveimi í bjórnum eða í þessu tilviki víninu.  Ósíaður bjór þykir oft merkilegur og meira „náttúrulegur“ en sá síaði tæri sem hefur verið kolsýrður á kútum.   Kampavínið á hins vegar alls ekki að vera gruggugt, hér kemur flókni parturinn, að ná víninu kristaltæru á flöskunum.  Flöskunum er reglulega snúið og hallað eftir kúnstarinnar reglum þannig að gerbotnfallið sem kallast „lees“ safnast fyrir í flöskuhálsinum.  Eftir nokkra mánuði eða jafnvel einhver ár eru flöskurnar opnar og gerið fjarlægt og í staðinn bætt út í vínlausn og smá sykri til að fylla upp flöskuhálsinn.  Loks er flöskunum lokað með korktappa og vírneti eins og við þekkjum öll.  Þessi tími á flöskunum og gerinu mótar vínið og gerir það flókið og skemmtilegt á bragðið og auðvitað tekur vínið í sig allar dásamlegu búblurnar.  Einhvers staðar las ég að þessi aðferð hafi verið fundin upp af munki nokkrum að nafni Dom Perignon.  Einhver kannast nú við þetta nafn en færri hafa kannski smakkað Dom Perignon kampavín því það kostar dálítið, reyndar með þeim dýrari þarna úti.  Þessi aðferð er líka kölluð méthode classique, méthode traditionnelle eða metodo classico. Þess má geta að Frakkar gera alls konar freyðivín utan Champagne héraðs, amk 23 önnur héruð framleiða freyðandi vín með sömu aðverð, méthod champenoise, en auðvitað má ekki kalla þau Champagne, gott dæmi er crémant vínin sem eru gerð í nokkrum héruðum í Frakklandi.

Prosecco frá Ítalíu
Prosecco
er líka mjög þekkt freyðivín, sérstaklega hér heima en til er ansi gott úrval hér í vínbúðum landsins.  Ég verð að viðurkenna að ég hef í gegnum tíðina verið lítið spenntur fyrir prosecco, ég hef alltaf talið það þriðja flokks freyðivín en það er víst ekki svo. Ég hef bara ekki enn lent á góðu prosecco þegar þetta er skrifað en ég stefni á að bæta úr því.  Prosecco er freyðivín sem ættað er frá Veneto héraði á Ítalíu og er jafnan töluvert ódýrara en Champagne.  Það þarf samt að passa sig dálítið, bara af því að það stendur Champagne á flöskunni þýðir ekki að það sé mun betra freyðivín, oft getur verið betra að næla sér í vandaða prosecco flösku eða cava en lélegt Champagne.  Smekksatriði auðvitað en gott að hafa bak við eyrað.  Prosecco er gert úr blöndu af ýmsum hvítvínsþrúgum en Glera þrúgan er alltaf notuð við gerð þess.  Það mikilvægasta í þessu er kannski það að prosecco er ekki gert með sömu aðferð og Champagne, sem sagt  méthod champenoise, heldur er vínið látið ganga í gegnum seinni gerjun undir þrýstingi í stórum stáltönkum, aðferð sem kallast „charmat eða Martinotti aðferð“ sem er ódýrari og fjótari leið til að kolsýra freyðivínið.  Þetta er dálítið eins með bjórinn, t.d. ljósi kristal tæri lagerinn sem er kolsýrður fyrir átöppun á meðan belgíska Trappist ölið er látið gerjast náttúrulega á flöskum.  Hér er þá Trappist kampavínið og ljósi lagerinn prosecco.  Með þessari aðferð verður prosecco léttara og með minni keim frá gerinu saman borið við Champagne.   Prosecco er oftast meira á sætari nótunum, mér hefur einfaldlega reynst erfitt að finna eitthvað sem er þurrt og gott hér heima amk.

Franciacorta hið ítalska kampavín.
Það vita það kannski ekki margir en Ítalir gera annað freyðivín eftir sömu aðferð og Champagne, það má auðvitað ekki kalla það méthod champenoise en méthode classique eða traditionelle gengur smbr hér að ofan.  Vínið kallast franciacorta og er töluvert yngra fyrirbæri en prosecco eða ca 50 ára gamalt.  Franciacorta er nefnt eftir héraðinu sem það kemur frá en það er gert með nákvæmlega sömu aðferð og sömu þrúgum og hið franska Champagne en auðvitað ekki alveg sama loftslag og því verður vínið ekki eins.  Úrvalið hér heima er sára lítið, ég sá þó eina flösku um daginn í vínbúðinni en ég á alveg eftir að skoða hana betur.

IMG_7576

Cava frá Spáni.
Hér komum við að „go to“ freyðivíni okkar á B&M, gott cava er bara dásamlegt.  Cava er líkt og hið franska franciacorta framleitt á sama hátt og Champagne, þ.e.a.s. seinni gerjun fer fram í flöskunum og getur tekið einhver ár að þroskast.  Þrúgurnar eru hins vegar allt aðrar svo sem Macabeu, Parellada, og Xarello þrúgur sem maður hefur svo sem lítið heyrt um en stundum er cava gert úr Chardonnay eða Pinot þrúgunum líkt og Champagne.  Spánverjar hafa vélvætt ferlið meira en Frakkarnir, þ.e.a.s á meðan Champagne flöskunum er snúið og tillt með handafli þá sjá vélar oftast um það ferli við cava gerð.  Reyndar gera menn líka cava með gömlu aðferðinni svona spari.  Yfir 95% af allri cava framleiðslu Spánverja kemur frá Penedés svæðinu í Katalóníu og eru Codorniu og Freixenet stærstu framleiðendurnir en þessir framleiðendur ástamt mörgum öðrum minni má finna í einu og sama þorpinu, Sant Sadurní d’Anoia og er afar gaman að koma þarna og fá að skoða framleiðsluna og smakka.  Bjór & Matur hefur heimsótt Freixenet í þrígang og Codorniu einu sinni og er alltaf jafn fróðlegt að skemmtilegt að koma þarna.  Þorpið er í ca 40 mín akstur frá Barcelona !

Corpinnat frá Spáni.
Án þess að fara ofan í saumana á þessu hér og nú þá vildi ég bara nefna corpinnat til sögunnar en um þessar mundir eru cava framleiðendur að klofna í annars vegar cava framleiðendur undir Cava DO og svo corpinnat en amk 9 cava framleiðendur hafa sagt skilið við Cava DO.  Corpinnat menn vilja meina að of mikil vídd sé í cava vínunum, allt frá lélegurm fjöldaframleiddum vínum yfir í vönduð handgerð eðal vín.  Vandinn sé að þeir sem leggja svita og tár í að framleiða vönduðu eðal vínin eru að keppa við risana eins og Freixenet og Codorniu sem geta selt sín vín á mun lægra verði.  Corpinnat framleiðendur vilja aðgreina vandaða freyðivínið frá þessum vínum þannig að fólk veit að það er að kaupa fínt vín.  Það er það sem vantar í cava heiminum, stigun eins og Cuvée eða Reserva.  En ég á reyndar eftir að skoða þetta nánar, það verður gaman að prófa corpinnat vínin en þau meiga ekki nota orðið cava á merkimiðanum.

Sætt eða þurrt?
Öll þessi freyðivín eru mismunandi hvað varðar sætu.  Þannig eru til dísæt champagne, procecco og cava vín og svo allur skalin upp í draugþurr freyðivín með nánast engum kaloríum ef menn eru að spá í það.   Sætan kemur að mestu frá sætu vínlausninni sem bætt er í flöskurnar eftir að gertappanum hefur verið fargað.  Persónulega finnst mér það eina sem kemur til greina þurr og nánast ósæt freyðivín.  Í veröld Champagne er gott að leita eftir Brut Nature eða Extra Brut á flöskunni en það eru þurrustu vínin, Brut sleppur líka en allt annað fer að vera nokkuð sætt.  Demi – Sec og Doux eru sætust.  Cava er merkt aðeins öðruvísi en svipað, hér er Brut Nature með minnsta sykurinn eða um 3g/L, svo kemur Extra Brut, Brut, Extra Seco, Seco (17-32g/L af sykri), Semi Seco og loks Dulce sem inniheldur um 50 + g/L af sykri.  Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga þegar maður stendur frammi fyrir öllu úrvalinu.  Auðvitað er hér smekkur manna misjafn.