Ég kíkti loksins á Dokkuna á Ísafirði en Dokkan er fyrsta verstfirska brugghúsið, stofnað í oktober 2017. Þetta er svo sem ekki beint í alfaraleið fyrir mig þannig að ég hef hingað til ekki átt leið hjá. Ég kom til Ísafjarðar í fyrsta sinn um helgina, ofsalega skemmtilegur snotur bær. Ég var nefnilega kominn í skuld við vini okkar Björgvin og Satu sem hafa búið á Ísafirði í nokkur ár og verið að bíða eftir innliti frá okkur Sigrúnu. Alla vega, Dokkan, ég er svo sem ekki að smakka bjórinn þeirra í fyrsta sinn enda fást dósir frá þeim í Vínbúðinni í RVK en það bara eitthvað annað þegar maður er kominn á staðinn þar sem bjórinn er skapaður, og fá hann svo af krana í notalegri bruggstofu (taproom). Bjór á heimavelli er alltaf bestur, það segi ég alla vega.
Dokkan er skynsamlega staðsett við höfnina þar sem stóru farþegaskipin leggja að og því tryggður ákveðinn straumur viðskiptavina ekki bara um helgar heldur virkum dögum líka. Þetta er huggulegur staður sem serverar bæði mat og bjór af 12 krönum. Það er líka myndarlegur dósakælir upp við einn vegginn. Svo eru stórar glerrúður sem gefa gestum innsýn inn í sjálft brugghúsið þar sem galdrarnir gerast.
Ég smakkaði nýjan bjór frá þeim, Skutull IPA sem er ofsalega skemmtilegur single hop Galaxy IPA. Galaxy eru spennandi humlar sem hefur verið erfitt að fá á heimsvísu en þeir gefa bjórnum sérstakt bragð. Ég rabbaði stuttlega við Hákon sem er einn af eigendum Dokkunnar og spurði um Skutul í dós til að taka með heim. Hann átti það ekki til enda var hann bara að fara skella honum á dósir sama kvöld. Hins vega bauð hann mér að renna við morguninn eftir áður en við rúlluðum heim á leið. Ég þáði það boð og fékk með mér tvær kippur af bjórnum. Við erum að tala um það ferskasta sem hægt er að fá, ekki sólarhrings gamall IPA á dós er bara geggjaður. Miðinn var ekki klár en það er bara allt í lagi.
Ég mæli með að kíkja við á Dokkuna ef menn eru á ferð um Vestfirði, ég held að þetta sé eina handverksbrugghúsið á Vestfjörðum nema Galdri reyndar á Hólmavík. En það er í lagi því menn geta bara byrgt sig upp af dósum fyrir ferðalagið.
Tene er orðinn einn af þessum stöðum sem við Íslendingar sækjum mikið allt árið um kring enda þægilegt og einfalt að eyða fríinu sínu hér. Loftslag er þægilegt, alltaf sama veðrið nánast, ekki of kalt og ekki of heitt. Moskítóflugurnar í algeru lágmarki og viti menn matarmenning á góðu plani ef maður veit hvar á að leita. Ég hef aldrei verið Tene maður, hef í gegnum tíðina fundist þessi áfangastaður óspennandi og hallærislegur og bara á lágu plani. Það er ekkert spennandi hér að skoða. Engin forn saga eða menning, engin spennandi þorp eða bæir eða falleg náttúruundur (að mínu mati, svo ég særi ekki neinn) en það er það sem ég sækist í þegar ég ferðast, oftast. Það er þó svo sannarlega hægt að segja að Tenerife sé fullkominn fyrir að gera ekki neitt, slappa af, sleikja sól og gera vel við sig í mat og drykk. Já það er nefnilega þetta síðasta sem fær mig til að endurskoða álit mitt á Tene.
Nú er ég hér í 3. sinn á 8 árum og nú ákváðum við Sigrún mín að kafa dálítið í matarkúltúrinn hér, lesa okkur til og safna að okkur meðmælum fólks sem við treystum ágætlega í mat. Þannig að ef þetta kemur vel út og við erum sátt þá er Tene kannski orðinn hinn fullkomni áfangastaður þegar maður vill bara vinda ofan af sér og hlaða batteríið án þess að hafa móral yfir því að vera ekki að skoða og skoða og drekka í sig sögu og menningu?
Hér að neðan tek ég saman það sem okkur fannst vert að skoða í mat og drykk í 10 daga ferð okkar.
15.8.2024 – UPPFÆRT. Mig langar til uppfæra smá þennan annars ágæta pistil minn. Svona af því að ég er nú hér aftur á Tene. Til að byrja með þá stend ég áfram fast við mitt, eða það held alla vega, varðandi meðmæli mín til þessa, flest allt þ.e.a.s. Ég er svo sem búinn að fara oft á Welcome Indía og The Ginger Pig, báðir þessir staðir eru enn á sama stað í hjarta mínu og áður (sjá að neðan). Svo er gaman að segja frá því að Winebar no55 er að ganga vel, en þau opnuðu hann bara hér í Október 2023, þannig að hann hefur ekki einu sinni verið til í ár (sjá nánar neðar) . Við spjölluðum við Roxanne núna og hún var ofsalega ánægð með gang mála. Þakkaði okkur fyrir að hafa dreift boðskapnum en það hafa greinilega margir lesið pistilinn minn og kíkt við á Winbar 55 ef marka má ánægjuvog Roxanne. Takk fyrir það kæru vinir. Þau hjón hafa svo verið að uppfæra standardinn á staðnum, nú er hægt að fá ýmislegt gúmmulaði að borða líka, nautakjöt og alls konar. Endilega prófið heimagerða tiramisu-ið þeirra, mjög ljúffengt.
Svo er það Rosso Sul Mare , ég var svakalega ánægður síðast með hann, frábær staður ekki síst fyrir útsýnið. Ég varð samt smá svekktur að þessu sinni, ég held að það sé bara best að lesa það undir færslunni fyrir Rosso Sul Mare hér að neðan.
Nýjir staðir á lista hér eru svo Limoncello og Kensei og má lesa um þá hér að neðan.
La Vieja í Caleta
Fyrsta kvöldið okkar á Tene þá hittum við góða vini sem bókuðu þetta borð fyrir okkur. Þau höfðu borðað hér nokkrum sinnum og fannst “óhætt” að hitta okkur hér eins og þau orðuðu það. Þetta var home run, mjög glæsilegur sjávarréttastaður sem stendur hér við litla vík í La Caleta sem er lítið eins konar þorp eða hverfi við ströndina. Þetta er eins og eitthvað allt annað en Tenerife, minnir mig helst á lítið sjávarþorp á Krít. Útsýnið frá veitingastaðnum var algerlega geggjað, sérstaklega ef maður passar að vera á staðnum við sólsetur. Maturinn var líka frábær og þjónusta góð. Sumt sjávarfangið var meira að segja lifandi og beið þess að vera valið til átu. Ég fékk mér skötuselinn sem var mjög góður en látlaus og smakkaði svo sandhverfuna hjá nafna mínum Ragnari Frey (Læknirinn í Eldhúsinu), virkilega gott. Humar linguine rétturinn var hins vegar alveg geggjaður, mögulega það besta þetta kvöldið. Já ef maður er fyrir sjávarfang þá er þetta staðurinn.
Ef þú ert eins og dóttir mín sem gat bara ekki hugsað sér að borða humarinn eða krabba eftir að hafa séð þá rölta um í fiskabúrinu við innganginn þá getur þú bara valið allt hitt sem “sem er dautt” en var veitt sama dag samt. T.d. túnfisksteikin, ummmm með hvítlauksolíu og smá salti, geggjuð!
The Ginger Pig
Þegar við vorum hér síðast duttum við inn á lítinn breskan sportbar sem hét Thirsty Turtle. Við vorum ekki að búast við miklu en þetta var undir lok covid bylgju tvö minnir mig og bara 50% af börum og veitingahúsum opinir. Við enduðum á að koma þarna ítrekað því maturinn var frábær og kokteilarnir geggjaðir. Ég smakkaði t.d. Amaretto Sour þarna í fyrsta sinn.
Alla vega, þessi staður er farinn en um 10m ofar i götunni er kominn annar staður, sömu eigendur skilst mér, The Ginger Pig. Þetta er frábær staður, ögn stærri en skjaldbakan, við erum að tala um grillað og brasað enskt/amerískt fusion (eða það finnst mér amk) og já kokteilarnir eru á sínum stað. Músík er hávær en truflaði mig ekki, þetta passaði bara vel við stemninguna og það er vel hægt að tala saman þarna. Matseðillinn er skemmtilega villtur og mikið að gerast á honum og fær munnvatn til að flæða.
Mælum með The Piggy Platter fyrir tvo en hér færð þú blöndu af þvi helsta sem er í boði af kjöti. Reyndar var ostakjötlokan (philly cheese steak) algerlega frábær. Hér er mín útgáfa af þessari steik. Það kom okkur á óvart hvað allt kjötið á plattanum var gott, nautarifaugað (ribeye) var frábært og rifni grísinn (pulled pork) með því betra sem ég hef smakkað í þeim flokki. Já óhætt að segja að þessi staður hafi hitt í mark. Við erum að tala um “mega pint” ef þú pantar rauðvín eða hvítt sko! Svo er líka hægt að fá hér frábæran morgun brunch!
Bianco á amerísku ströndinni
Þessi er á amerísku ströndinni, ítalskur dálítið fine dining en ekkert samt of hátíðlegur. Hér er fín stemning, mikið að gerast, fólk fer greinilega mikið hingað á afmælisdaginn sinn því það voru blöðrur hér og þar og stjörnuljós með klöppum og fagnaðarlátum, Dóttir mín var reyndar ein af þessum., 9 ára dama takk fyrir.
Það er músík, soft techno eða house sem plötusnúðurinn á staðnum töfraði fram. Maturinn, klassískt ítalskt, allt geggjað sem við smökkuðum. Ég smakkaði arancini bollurnar hjá nafna mínum í Eldhúsinu, svakalega gott, nauta carpaccioið klikkar heldur aldrei, nema stundum, en ekki í kvöld. Svo vorum við frúin með grillaðar kóngarækjur með ætiþirstlum í mjög bragðmikilli spicy sósu. Þetta dansaði mjög vel saman og paraðist vel við þétt smá sætt rauðvínið sem þjónninn okkar mælti með.
Dóttir mín fékk svo afmælis eftirrétt í boði hússins, furðu góður ítalskur súkkulaðiís. En hún var alsæl. Við fengum okkur öll svo limoncello í eftirrétt til að tempra af meltinguna. Reyndar fékk einn í hópnum sér espresso martini og sá var svo sannarlega ekki af verri endanum. Loks komu þeir með auka limoncello fyrir okkur Ragnar og hvöttu okkur til að mæla með staðnum en þá var ég svo sem búinn að henda inn á instagrammið :). Ja ég held ég gæti vel mælt með þessum stað. Kæmi kárlega aftur. Ein athugasemd reyndar, limoncello er aldrei borið fram ískalt hér á Tene, ekki á einum einasta stað sem við heimsóttum, skrítið því það er svo miklu miklu betra þannig.
Rosso Sul Mare í Caleta
Þessi staður er algjört möst ef maður hefur ánægju af fullkomnum ítölskum mat og óaðfinnanlegu útsýni yfir hafið. Ég held að þessi staður standi uppúr hjá okkur í þessari yfirferð okkar. Mikilvægt að panta borð fyrirfram, flott að óska eftir borði við gluggann eða veröndina eftir því hvað maður kallar þetta og passa að bóka ekki borð of seint. Í október/nóvember er kl 18:00 heppilegur tími því þá er maður þarna í ljósaskiptunum þegar hafið og himininn breytist í bleikt og svo rautt áður en myrkur skellur á. Dásamlegt sjónarspil.
Svo er bara svo róandi að horfa á öldurnar og heyra sjávarniðinn á meðan maður sötrar góðan drykk eða borðar eitthvað gott. Við erum að tala um dálítið elegant stað en samt enginn rembingur eða snobb. Þú getur alveg mætt bara í stullum og bol. Verðlag í hærri kantinum en þú ert hér að borga fyrir staðsetningu og gæðin.
Við smökkuðum nokkra rétti, allt frábært. Tuna tartar með lárperumauki sem var ljómandi gott þó svo að dóttir okkar tilkynnti okkur að okkar heimalagaða tuna tartar væri enn betra. Svo var það nauta carpaccio sem klikkar bara ekki, einn í hópnum fékk sér gráðosta gnocchi sem var með því betra sem maður hefur smakkað í þeim geira, svo ríkulegt bragð af ostinum og gnocchi koddarnir svo lungna mjúkir og dásamlegir. Svo var það white duck ragu með pappardelle pasta, þvílíkt ljúfmeti, ég hafði ekki smakkað þennan frábæra rétt áður. Loks fékk ég mér nauta filet með foi gras og púrtvíns demiglace. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi, besta nautasteik sem ég hef fengið sem ég man eftir. Vá!!!
Uppfærsla 16.8.2024 – Við vorum ofsalega spennt að koma aftur hingað á þennan frábæra stað. Maturinn frábær og útsýnið geggjað, eða það héldum við. Varðandi útsýnið er líklega ekki við staðinn að sakast, frekar náttúruna og snúning jarðar. En alla vega það er ágætt að hafa það í huga að alla vega í ágúst þá er sólsetrið bara ekkert sérstakt. Sólin sest allt annars staðar en í Október t.d. Enginn rauður fallegur himinn t.d. Þjónustan var svo eitthvað skrítin, okkur leið eins og það væri svo mikið að gera að það væri í raun ekki tími fyrir okkur, enginn spurði okkur hvernig maturinn væri, við vorum að mestu látin afskiptalaus og erfitt að ná athygli þjónanna. Svo var það maturinn, dóttir mín fékk reyndar geggjað risotto, Boletus with mushrooms and parmesan cream, fullkomin eldun og bragðgott, við fengum líka frábært vitello tonnato í forrétt en nautasteikin okkar (Sirloin steik með foie gras í púrtvínssósu) var bara alls ekki góð. Hjá mér var hún fín hvað varðar áferð og eldun en vantaði þennan kraft og bragð sem ég fékk síðast. Hjá konunni voru mikið af sinum og tægjum og óskemmtilegt að borða hana.
Ég held svei mér þá að ég sé ekki eins spenntur að koma aftur. Væri gaman samt að fá ábendingar frá ykkur ef þið prófið staðinn.
Welcome India
Hér höfum við borðað áður og vorum gríðarlega ánægð með matinn og við höfum mælt með þessum stað við marga og allir þeir sem hafa prófað eru á sama máli. Við erum að tala um ekta indverskan mat í frekar látlausri yfirbyggingu, við erum að tala um plaststóla og hallærislega dúka og skreytingar og það er blikkandi marglit jólasería í blómabeðinu fyrir utan, en þjónustan er vinaleg, afgreiðsla hröð og eins og ég sagði maturinn óaðfinnanlegur og verðlagi er stillt í hóf. Ekkert bullshit, þú ert kominn hingað til að borða góðan mat og það er nákvæmlega það sem þú færð, ekkert meira eða minna.
Já hér er svo sannarlega öruggt að maður eigi skemmtilega stund með vinum og vandamönnum, Ég notaði tækifærið og dró Darra minn á staðinn því hann elskar indverskt. Sjáið bara hversu sáttir við erum með þetta 🙂
Hér erum við að borða alvöru indverskan mat sem er langt frá því í gæðum sem við eigum að venjast heima á Islandi. Það er í raun ekki hægt að bera saman matinn hér á Welcome við matinn á stóru indversku stöðunum heima. Þetta er svo miklu mun betra og margfalt ódýrara. Hér ætla ég samt að undanskilja Funky Bhangra í Pósthúsinu Mathöll því þar fær maður sannarlega góðan indverskan mat.
Við pöntuðum marga rétti á Welcome India, allt algerlega magnað, öll þessi krydd og þessar bragðflækjur sem ómögulegt er að reyna að lýsa hér. Kókos naanbrauðið algerlega úr þessum heimi og svo Bombay Aloo kartöflurnar ótrúlegar. Við reyndum að fá upplýsingar um kryddin í sósunum en fengum ekkert að vita, fjölskylduleyndarmál auðvitað!
Já ég held að ég gæti borðað hér öll kvöld vikunnar án þess að fá leið á því.
Habibi Los Christianos
Það voru margir sem mæltu með þessum stað og því ákváðum við að skoða hann. Líbanskur staður hljómar of vel. Í stuttu máli hins vegar þá var ég ekki sérstaklega upprifinn. Kannski vorum við óheppin þetta kvöld eða ég illa fyrir kallaður en mér fannst þetta ekki eitthvað sem ég myndi eltast sérstaklega við.
Umhverfið er flott og spennandi, maður upplifir alveg þessa Vestur Asísku stemningu og því var ég mjög spenntur að smakka. Mér fannst matseðillinn dálítið flókinn en það er svo sem ekkert sem dregur staðinn niður, hann er líka flókinn á Welcome India t.d. Þjónustan var hins vegar frekar óspennandi, stúlkan sem reyndi að afgreiða okkur var pirruð og óþolinmóð og það reyndist ótrúlega mikið flækjustig að ákvarða hve mörg vínglös átti að koma með á borð.
Maturinn sem við pöntuðum var alveg góður, og spennandi bragðflækjur en bragðið var bara ekki mikið. Ég get bara ekki komist hjá því að bera saman við Welcome India þar sem bragðið er svo ríkt og magnað og öll krydd vel merkjanleg.
Svo var þarna þetta kvöld magadansmær sem dúkkaði upp annað slagið og dansaði á milli borða. Ég veit ekki hvort það er þannig öll kvöld en einhvern veginn fannst manni þetta óþægilegt. Fáklædd ung kona að dilla sér…æ ég veit ekki með það.
Winebar nr55, lítið sætt ævintýri
Ég má til með að nefna þennan litla skemmtilega vínbar. Jafnvel þótt ég hafi ekki náð að borða þarna þá tek ég hann með hér í upptalningunni af því að ég heillaðist dálítið af sögunni.
Staðurinn er pínulítill, eiginlega bara hola í vegg. Eigendurnir eru þau Roxanne frá Danmörku og Leandro frá Ítalíu. Já ég verð að viðurkenna að ég fékk pínu útrás að spjalla við Roxanne á dönsku en það var mjög erfitt að ræða við Leandro hins vegar því hann er ekki sá færasti í enskunni, og hann viðurkennir það alveg. Ég skildi bara svona 55% af því sem hann sagði en það var allt í lagi, handahreyfingar og íslítalska virkaði alveg og hann kann vel á vínin sem þau bjóða uppá en þau hjónin flytja inn mörg af vínunum sjálf. Bæði ítölsk og spænsk rauðvín og þó þau séu með franciacorta á boðstólum þá eru þau líka mjög stolt af prosecco víninu sem þau eru með. Við Leandro áttum gott spjall um prosecco en það er freyðivín sem ég forðast eins og heitan eldinn enda hef ég ekki til þessa fundið prosecco sem hægt er að drekka.
Leandro var sannfærður um að ég myndi elska þetta ákveðna prosecco og ég viðurkenni það að eftir að hafa hlustað á hann tala af mikilli innlifun um þennan vínbónda og framleiðsluna þá var ég orðinn smá spenntur. Ég náði þó aldrei að koma aftur í 3. Sinn til að klára þessa pælingu en ég á það bara inni. Öll rauðvínin sem þau hjónin mæltu með fyrir okkur voru alveg spot on, mjög flott vín og auðvitað hægt að taka með heim á hótel ef maður vill.
En ævintýrið, ja Roxanne tjáði mér að hún hafi fyrir einhverjum mánuðum (eða árum) verið hér í fríi á Tenerife og líkað það svo vel að hún framlengdi ferðinni og ákvað svo að setjast hér að. Hún flaug heim til Danmerkur, pakkaði öllu sínu saman og seldi íbúðina og flutti svo hingað á Tene. Hún hitti svo ítalska sjarminn, Leandro hér á ströndinni og þau enduðu svo saman. Ákváðu að opna þennan vínbar hér sem varð loks að veruleika fyrir 4 vikum síðan. Já, skemmtilegt.
Endilega skoðið þennan stað ef ykkur vantar gott vín í kropp og eitthvað nasl. Ég get vel mælt með Fontezoppa Pepato sem er mjúkt og létt með ögn piparkeim, svo er það Torre Orti Valpolicella Ripasso sem er þétt og braðmikið vín með skemmtilegan karakter.
Char í La Caleta
Já svo er það Char. Þessi er líklega sá fínasti og dýrasti sem við fórum á í ferðinni. Gríðarlega vinsæll greinilega því við reyndum tvisvar að droppa inn en það var ekki séns. Svo náðum við að panta borð og á meðan við vorum þarna var alltaf einhver að kanna hvort væri laust. Á siðunni þeirra er dress code þannig að ég mætti í skyrtu, vesti og síðum buxum en ég var algerlega að örmagnast úr hita. Náði samt að klæða mig úr einhverju. Tók svo eftir að fólk var bara í stullum og bol þarna inni ekkert mál. En það er gaman að vera fínn.
Þetta er lítill staður, opið eldhús sem mér finnst alltaf jákvætt, ekkert að fela. Lyktin dásamleg, grillað kjöt og alls konar. Í glerskáp við eldhúsið má sjá svakalega flottar hangandi steikur, fitusprengdar og safaríkar. Ég veit reyndar ekki hvort þetta sé bara mont eða hvort maður geti valið steikina sína þarna? Þjónustan óaðfinnanleg, á Michelin leveli finnst mér. Maturinn passaði líka við allt þetta. Ég sá á matseðlinum minn uppáhalds rétt, ef hægt er að segja það en ég hef bara smakkað einu sinni áður, kongakrabba (king crab). Ég lét það samt ekki eftir mér að þessu sinni því þetta er eitt af þessum allra dýrustu hráefnum, einnig er hægt að fá wagyu hamborgara og reyndar alls konar wagyu steikur ef maður vill klára yfirdráttinn fljótt og rugglega.
Ég elska þegar maður fær svona óvænt smakk frá kokkinum í byrjun, eitthvað skrítið og spennandi en gott. Viti menn, við fengum einmitt svoleiðis, þeytta eggjarauðu með einhvers konar lauksmjöri. Mjög skemmtilegt. Kemur manni einhvern veginn í gírinn.
Við Sigrún dæmum dálítið staðina eftir hvort og þá hvernig brauð er boðið uppá í upphafi. Það segir okkur kannski meira við hverju við eigum að búast með rest. Við köllum þetta brauðtestið, ef brauðið er vont eða bara svona la la þá er yfirleitt restin af matseðlinum í þeim dúr. Char stóðst svo sannarlega brauðtestið, brauðið var nýbakað, lungnamjúkt að innan en stökkt að utan og svo kom með þessu tvenns konar smjör, eitt gert úr fiturönd af wagyu kjöti en það var geggjað. Hitt var eitthvað reykt og brúnað smjör, svakalegt. Svo kom geggjuð ólífuolía með, salt og heimalagað vinaigrette.
Það sem við borðuðum var algerlega frábært, nauta carpaccioið, galaciancarpaccio goya gjörsamlega bráðnaði í munni. Svo prófuðum við grillaða eggaldinið með reyktum osti, tahini myntu sósu og ferskum límónusafa. Geggjað. Í aðalrétt vorum við öll þrjú frekar samstíga, ég fékk mér grillað Angus filet 250g á meðan Sigrún og dóttir mín fengu sér sama nema 180g. Steikur. Svo völdum við sósu og meðlæti sem var geggjað.
Þessi staður fær okkar bestu meðmæli en maður verður samt að vera búin undir það að eyða smá pening þarna.
Kensei ágúst 2024
Kensei er svo annar staður sem ég verð að fjalla um líka. Þessi staður er bara á öðru leveli. Við vissum reyndar ekki fyrr en eftir á að hann fékk Michelin stjörnu árið 2022 og 2023 sýnist mér svei mér þá. Kensei er japanskur staður í mjög háum gæðaflokki, verðlag ber þess líka merki en stundum má gera vel við sig ekki satt? Þú kemur hingað ef þú vilt vera 110% viss um að ganga sáttur frá borði, allt tip topp. Þjónarnir hlaupa um og passa upp á að það séu engar mylgsnur á borðinu milli rétta og veski og aðrir fylgihlutir fá sér trítment. Í mat ert þú hér að njóta listaverka sem örva öll skilningarvitin, sjón, lykt og bragð. Algerlega geggjað, ég á í raun bara ekki orð kannski af því að við vissum ekkert hvað við værum að fara útí þegar við bókunum borð.
Maturinn algerlega sturlaður og svo óskaplega fallegur og ljúffengur, ég verð að mæla með scallops and Japanese mushrooms on fire, þetta er líklega besti og kraftmesti hörpudiskur sem ég hef smakkað til þessa með brenndu smjöri og yusu púrru. Algerlega ruglað. Æ það var bara allt gott í rauninni og svo fallega borið fram.
Svo eru það eftirréttirnir, maður lifandi, venjulega erum við ekkert spennt fyrir eftirréttum því flest veitingahús sem við höfum prófað klúðra eftirréttum. Við ákváðum samt að prófa, pöntuðum 3 mismunandi og ég skal segja ykkur, þessir réttir voru mögulega að toppa alla hina réttina. Alger fullkomnun í framreiðslu og bragði. Fullkominn endir. Ef þessi staður fær ekki Michelin stjörnu aftur í ár mun ég hringja í Frakkana og skammast. Að lokum verð ég að nefna sommelier-inn okkar Jose, en hann algerlega las okkur eins og ævisögu, fann nákvæmlega það sem okkur vantaði í vínum, hvítt eða rautt, ekkert ves. Mér þykir ofsalega vænt um þennan mann!
Zoco Arabic new concept – ágúst 2024
Ég sé ekki eftir því að hafa ákveðið að skoða Los Christianos og borða þar. Bærinn er svo sem allt í lagi, ekkert sértakelga næs eða eitthvað sem maður myndi vilja eltast við en Zoco er hins vegar vel þess virði að skoða. Við tókum leigubíl frá hótelinu okkar á adeje og kostaði það um 11 evrur. Röltum svo um aðeins í bænum og fundum svo Zoco sem er verðlaunaður modern líbanskur staður. Þetta er notalegur snyrtilegur staður, þjónusta frábær og maturinn algerlega geggjaður. Allt “wibe-ið” minnir um margt á michelin! Maður fær t.d. litlar sítrónu handþurrkur fyrir matinn og svo heita þvottapoka innsiglaða í poka eftir mat. Mikið af réttunum gerir ráð fyrir að maður noti hendurnar til að matast þannig að það er gert ráð fyrir smá subbuskap. Við fengum svo lítinn smakk rétt fyrir matinn, blómkáls mús með smá geitaosti og kóríander. Mjög gott.
Réttirnir allir alveg geggjaðir. Við byrjuðum á 4 mismunandi hummus með mismunandi brauði. Þetta var algerlega geggjað og setur hummus á nýjan stall fyrir mér. Svakalegt. Sérstaklega rauða hummusið, muhammara with sweet earth of walnuts, maður lifandi.
Lamba TajineLamba skanki
Kjúklingavængirnir voru mjög góðir, með mismunandi majonesi og svo fékk sonurinn grilluð kjúklingaspjót sem komu fram hangandi á gálga logandi í eldi. Mjög gott stöff. Ég fékk mér algerlega magnaðan hægeldaðan lambaskanka og konan fór í langeldað lamba tajine. Ég myndi fá mér aftur lambaskankann næst og reyndar hummus plattan líka. Við innsigluðum þetta svo með áhugaverðum eftirrétt sem kom skemmtilega á óvart.
Hingað munum við koma aftur.
Limoncello – ágúst 2024
Limoncello er ítalskur staður við ströndina sem mig langar að kynna til leiks. Hann var nefnilega lokaður síðast þegar við vorum hér í Október. Þessi staður lætur ofsalega lítið fyrir sér fara, lítur bara út eins og hver annar túristagildru staðurinn sem nóg er af hér á Tene. Reyndar eru ekki myndir af öllum réttunum fyrir framan staðinn, þannig að það er ákveðin vísbending um að maturinn sé góður. Ekki láta útlitið blekkja því maturinn er góður og mjög hagstætt verðlag. Þjónustan líka til fyrirmyndar. Við fórum nokkrum sinnum hér í hádeginu og einu sinni að kvöldi. Alltaf sátt. Tiramisu-ið frábært og svo fær maður limoncello on the house þegar maður gerir upp. Alveg eins og flottir ítalskir staðir gera gjarnan.
Dóttir mín 10 ára elskar Virgin Mohito en hér vill hún meina að hann sé sá besti á Tene. Bara svo það sé fært til bókar.
La Caleta
Fyrir mér hefur Tenerife alltaf verið menningarsnautt gervisamfélag sem smíðað er fyrir túrismann. Maður sér bara hótel, bari, veitingahús, endalausar búðir sem selja bara sund varning og annað drasl. Allt sem maður kaupir hér er eiginlega bara einnota. Svo rambaði ég inn í Caleta. Hér er allt önnur stemning, virkilega huggulegt svæði í kringum litla vík sem er umlukin sætum veitingahúsum. Mér fannst ég vera kominn á Krít þegar við röltum þarna um fyrst. Þrír af ofantöldum veitingastöðum eru í La Caleta.
Við vorum fyrstu vikuna á íbúðarhóteli á Adeje, vel staðsett þannig, við vorum bara 3 mín að rölta niður á strönd og í lætin, alla pöbbana og lágkúrulegu veitingastaðina þar sem matseðillinn er blásinn upp með myndum af öllum réttunum og það er fólk fyrir utan að reyna veiða mann inn. Seinni hluta ferðar bókuðum við hótel eiginlega við La Caleta sem var frábært, mun rólegra umhverfi og einhvern veginn meira ekta. Ég mun klárlega vera á svipuðum slóðum í næstu ferð enda frábært að geta bara rölt á Rosso Sul Mare t.d. eða Char. Svo eru án efa fleiri flottir staðir þarna sem á eftir að uppgötva.
Örstutt stopp á framandi slóðum. Ég hef aldrei komið til Póllands, ekki einu sinni þegar við Sigrún túruðum um Evrópu á Interraili fyrir all nokkrum árum síðan, veit reyndar ekki afhverju við stoppuðum ekki í Póllandi? En núna vorum við að bæta fyrir það, við skruppum til Gdansk í Póllandi, þriggja nátta stopp. Á svona stuttum tíma nær maður vissulega ekki að upplifa allt sem er í boði eða kynnast borginni almennilega, maður er heldur ekki endilega að reyna það. Fyrir okkur átti þessi ferð að vera afslöppunarferð og þvi ekkert stress. En alla vega, hér eru nokkur orð um mína fyrstu upplifun í þessari borg!
Nokkur góð ferðaráð
Hótelgistingin er mikilvægari en maður heldur. Við gistum á frábærum stað, sem er mikilvægt þegar stoppið er stutt, sem sagt að velja hótel sem er vel staðsett miðað við þínar þarfir hverju sinni svo þú komist leiðar þinnar fótgangandi en ert ekki að eyða tíma á hverjum degi í að komast í það sem þú vilt sjá og upplifa. Við vorum á Hilton í gamla bænum, frábært hótel alveg við ánna í hjarta gamla miðbæjarins eða í raun við upphaf gamla miðbæjarins ef svo má að orði komast. Við völdum hótelið vegna þess að við vildum vera í gamla bænum því við ætluðum ekkert að fara í miklar skoðunarferðir en vildum skoða svona það helsta samt og oftast er “gamli bærinn” í borgum Evrópu snotur og huggulegur og vert að skoða. Við völdum þetta hótel reyndar líka því þar er heilsulind sem bíður uppá gufu, sundlaug, rooftop sólbaðsaðstöðu og nudd. Við Sigrún erum líka mikið fyrir rooftop bari og á þessu hóteli er einmitt einn slíkur sem okkur fannst ofsalega fínn. Flottir kokteilar, frábært útsýni yfir gamla bæinn og góð stemning en þegar við vorum þarna var plötusnúður sem hélt uppi stemningunni. Þjónustan mætti hins vegar vera örlítið betri, dálítið hæg fannst okkur en ok maður leggur sumt á sig!
Rooftop barinn á Hotel Hilton
Venjulega er ég búinn að plana mikið fyrir svona borgarferðir, eins og hvað á að skoða, helstu pöbba og veitingastaði og alltaf er ég búinn að bóka nokkra veitingastaði fyrirfram en ekki að þessu sinni, þessi ferð var bara svona skyndi ákvörðun hjá okkur. Ég hef nefnilega lært það af biturri reynslu, þó það hljómi rómantískt, að það getur bara verið frekar súrt að ætla sér bara svona að rölta um og ramba inn á frábæran veitingastað, einhvern falinn fjársjóð í einhverju snotru húsasundi (það er bara í bíómyndum). Það sem gerist iðulega er að þú ert að rölta um, orðinn svangur eða vantar góðan drykk í kropp, hitinn er að drepa þig, þú ert allur þvalur og óþægilegur og þú ferð að leita í dálítilli örvæntingu erftir stað til að svala öllum þörfum þínum á, eitthvað skjól en þú lendir á stað sem reynist svo vera bara svona la la eða jafnvel slæmur. Svo eftir matinn þinn eða drykkinn þá nokkrum skrefum lengra gengur þú fram á ofsalega kósí og flottan stað sem þú hefðir miklu frekar vilja tilla þér á. Þannig var það hjá okkur alla vega hér áður fyrr, áður en við fórum að plana smá fyrir ferðalög okkar. Lífið er of stutt fyrir slæma matarupplifun! Vertu búinn að skoða og plana, og jafnvel bóka borð á nokkrum stöðum fyrirfram. Það er alltaf hægt að afbóka bara ef stemningin er ekki þannig að það henti þér þegar þú ert kominn á áfangastað. Ekki misskilja, þetta á ekki að vera niðurnegld dagskrá sem ekki má víkja út frá, meira svona beinagrind sem má styðjast við ef maður vill. Planið á ekki að valda streitu. Ég gerði þetta ekki í þessari ferð, braut mína eigin reglu, við lentum í veseni fyrsta daginn, römbuðum inn á stað sem lofaði góðu, fullt af fólki á staðnum, flott útsýni yfir litla sæta göngugötu en svo fengum við versta…LANGVERSTA foccacia sem ég hef bara smakkað. Myndi líkja því við strokleður, seigt, gúmmíkennt og bara vont. Bjórinn var fínn og einhver kæfa sem við pöntuðum var í lagi. En upplifunin bara alls ekkert góð. Ykkur til varnar heitir þessi staður Machina eða eitthvað í þeim dúr.
Vert að skoða í mat og drykk
Anda dumplings á Geneza
En maður lætur ekki deigan síga heldur leggst bara í smá vísindi eða les smá pistil á Bjór og Matur ;). Við lentum ekki í neinum vandræðum eftir þetta og get ég svo sannarlega mælt með nokkrum stöðum í mat og drykk, sem ég geri hér að neðan. Við vorum ekkert sérstaklega að eltast við pólska matargerð í þessari ferð, sem einkennist dálítið af kjöti, ljúffengum pylsum og eins konar dumplings svo eitthvað sé nefnt.. Svo eru þeir mikið fyrir að súrsa grænmeti á borð við kál og gúrkur. En eins og ég segi þá ætla ég sannarleg ekki að þykjast vita eitthvað um pólskan matarkúltúr, ég skoða það bara síðar. Við smökkuðum reyndar oft alls konar dumplings rétti, allt bara frábært. Ítalskir veitingastaðir eru frekar áberandi allt um kring sem er bara hið besta mál enda elskum við Sigrún ítalska matargerð.
Það eru margir veitingastaðir meðfram Motlawa ánni í gamla bænum
Það eru t.d. nokkrir meðfram Motlawa ánni svo sem Sempre, Geneza, Viceversa ofl. Við náðum ekki að prófa Sempre sem reyndar lofar góðu ef marka má dóma á netinu, hann var reyndar líka á öðrum stöðum í borgninni og líka í Sopot strandbænum sem ég kem aðeins inná neðar. Geneza og Viceversa fengu hins vegar að elda ofan í okkur. Það er í raun af nóg af taka þarna, ef maður vill snæða við árbakkann, verðlag nokkuð mismunandi auðvitað en ég held að almennt sé lækki verðlag þegar fjær dregur ánni. Viceversa er frekar vænn við budduna, þjónustan vinaleg og maturinn mjög góður, ekki fine dining samt en bara fínn. Reyndar fannst okkur nauta carpaccio-ið sem við fengum okkur í forrétt pínu skrítið en líklega einhver túlkun á réttnum sem við eigum ekki að venjast. Aðalréttirnir voru hins vegar frábærir, óaðfinnanlegt gorgonzola gnocchi og grísa saltimbocca skolað niður með þéttu Primitivo rauðvíni.
Frábært pólskt orange vín á Geneza
Nokkru ofar meðfram ánni sömu meginn er svo Geneza, annar ítalskur staður með mjög flottan mat. Ég held ég myndi frekar mæla með þessum ef valið væri milli þessara tveggja. Kannski er það bara af því að þar fengum við frábært pólskt orange vín sem við fundum ekki annars staðar. Hér er tilvalið að tilla sér og kæla sig niður í steikjandi sólinni með köldum drykk og skoða mannfólkið sem líður hjá. Það var hér sem við settumst niður fyrsta daginn eftir skelfilega foccacia málið og vorum við því dálítið svöng.
Við pöntuðum arancini til að deila. Ég hef borðað arancini marg oft en þessi réttur var líklega sá fallegasti til þessa. 3 fullkomnar stökkar kúlur í basil olíu og með berjasultu, framsetning sem ég er ekki vanur. Glasið af orange víninu kostaði dálítið, eða 48 zloty eða rétt undir 1500kr. Við enduðum líka ferðalag okkar með hádegisverði á Geneza og vorum ofsalega sátt. Ég mæli með bökuðu fíkjunum fylltum með rjómageitaosti og hunangi, svakalegt og öskrandi góð pörun við orange vínið. Ég pantaði líka gnocci sem var ofsalega gott með bragðflækjum sem við höfðum aldrei smakkað áður, sætt, súrt og rjómakennt allt í senn. Hér fengum við okkur líka dumplings fyllt með langelduðu rifnu andakjöti, svakalega gott en svona dumplings er klassíker í pólskri matarmenningu.
Það voru tveir staður sem stóðu uppúr fannst okkur. Fyrst má nefna True sem er frábær “fine dining” staður í frönskum stíl sem ég mæli svo sannarlega með. Þetta kostar alveg smá en þú ert að fá flotta þjónustu og geggjaðan mat, vel þess virði. Óaðfinnanlegur matur og meira að segja espressoið í lokin var fullkomið. Við pöntuðum í forrétt villtar grillaðar argentískar risarækjur í hvítvíni með kókosmjólk, chili og skarlottulauk og svo grillaðan hörpudisk í beurre blanc sósu. Þetta var algerlega geggjað, rækjurnar brögðuðust nánast eins og humar og sósan sem kom með þeim var eins og beint af himnum ofan, ég hefði getað sett þetta á flösku og drukkið í stórum stíl. Sósan kom fullkomlega á móti sterku chiliinu á rækjunum. Aldrei nokkurn tíman hef ég skammað eins góðar rækjur. Harpan kom í beurre blanc sósu með að ég held basil olíu og svo næfurþunnum eplaskífum, salvíu og létt steiktum mandarínu bátum. Blanda sem algerlega gekk upp. Þetta pöruðum við svo með góðu kampavíni en hefðum getað farið í eikað eða smjörað hvítvín á borð við Chardonnay eða Chablis. Í aðalrétt var það svo “beef tenderloin” með demi glace, grænum sykurbaunum í dásamlegri brúnni smjörsósu og svo smjörsteiktir chantarell sveppir í demi glace og dill soðsósu. Maður velur allar sósur og meðlæti sér eftir eigin höfði. Ég vil þakka Hugrúnu okkar fyrir þessa frábæru ándingu.
Bestu pizzur sem ég hef smakkað á Ostro
Hinn staðurinn er líka við ánna, en bara hinumeginn alveg við litlu hreyfanlegu göngubrúnna. Ostro heitir hann, hann er ítalskur og valinn nr eitt af ítölskum stöðum á svæðinu ef maður treystir internetinu. Ostro er mun ódýrari staður enda sérhæfir hann sig í eldbökuðum flatbökum þannig að ef þú ert pizza aðdáandi þá skaltu ekki missa af þessum stað. Reyndar þó þú borðir ekki einu sinni pizzu þá muntu elska þessar, það getur bara ekki annað verið. Með bestu pizzum sem ég hef smakkað. Við erum að tala um fullkomlega bakaðar súrdeigs pizzur, maður gæti í raun sleppt öllu áleggi og borðað botninn einan og sér en ekki gera það samt, álegið er svo geggjað líka. Pizza nr 11 var stórkostleg, bianco með ítölsku salami, þunnum peruskífum, gorgonzola, mozzarella og valhnetum. Hin pizzan var nr 5 minnir mig,bragðmikil gorgonzola pizza sem sveik ekki. Á matseðlinum er vert að taka eftir vínpöruninni sem þeir mæla með fyrir neðan hverja pizzu, hvort sem er hvítt eða rautt. Skemmtilegt.
Það er ekki hægt að bóka borð hér, maður þarf bara að næta og líklega að standa í smá röð við árbakkann (ekki bak við hús þar sem líka er aðkoma að staðnum) en röðin gengur hratt fyrir sig og verðlaunin eru ríkuleg.
Við tókum svo eftir öðrum stað þarna við ánna sem vakti áhuga okkar aðallega vegna þessa að fyrir utan var alltaf löng biðröð af fólki sem freistuðu þessa að fá borð síðar um kvöldið en það þarf að bóka borð þarna með löngum fyrirvara. Staðurinn heitir Cheleb in Wino, hjómar eins og Seleb í glasi en þýðir held ég brauð og vín. Ég veit ekkert hvort þetta er góður staður eða þess virði að hanga í röð fyrir en hann sker sig alla vega mjög úr þarna við árbakkann með þessa röð fyrir framan og svo er allt húsið upplýst í fjólubláum lit og mikil stemning. Lofar góðu en ómögulegt að segja nema prófa sjálfur.
Bjór í Gdansk
Ég get svo ekki fjallað um veitingastaði hér án þess að nefna Piwnica Rajcó sem er brugghús eða bruggbar staðsettur beint fyrir aftan Neptúnus styttuna sem er eitt helsta tákn Gdansk. Piwnica er bruggbar sem þýðir að þeir brugga allan bjórinn sinn á staðnum og þeir eru líka með mat. Ég smakkaði allan bjórinn frá þeim, 6 tegundir í 4 heimsóknum, allt virkilega vandað og gott. Það er frábært að sitja úti við stóra torgið og sötra bjórinn og leggjast í mannlífsrannsóknir, bara vera og slaka!
Ef hitinn er að drepa þig úti eru stórir gangar og salir neðanjarðar og bar auðvitað líka. Þú getur hér virt fyrir þér brugghúsið og flottu gerjunar og þroskunartankana sem standa í röðum bak við glervegg í öðrum endanum. Þú getur drukkið bjórinn með nokkrum aðferðum, pantaðu staka bjóra í krús 0,3L , 0,5 eða 1L eða ef þú ert sjálfstæður getur þú keypt kort og dælt þínum bjór sjálfur að eigin vali. Svo er líka hægt að fá bjórturn, ef þú ert í góðum félagsskap og smekkur ykkar er eins. Turninn er þá fullur af bjór sem kemur á borð til þín. Það er svo krani neðst og þú dælir sjálfur beint í glösin ykkar. Loks er hægt að fá smakkbakka sem alltaf er góð hugmynd ef maður veit ekkert hvað maður vill.
Maturinn ku líka vara mjög góður, ég get ekki tjáð mig mikið um hann en ég fékk mér bara einn smárétt þarna, anda dumplings sem voru fáránlega góðir.
8% Baltic Porter á Piwnica
Ég ætla ekki að reyna að ráðskast með þig mikið en gerðu það fyrir mig að smakka Baltic Porterinn þeirra, hann er frábær 8% baltic porter sem er stíll sem fundinn var upp á þessum slóðum. Kannski ekki bestur í hitanum en fullkominn að kvöldi dags. Svo er Amberinn þeirra skemmtilegur, fullkominn matarbjór ef þú vilt fara í matseðilinn líka. Það eru fleiri bjórstaðir í Gdansk, meira að segja slatti af craft börum en ég skoðaði þá ekki í þessari ferð, þetta var bara ekki þannig ferð. Svo er annar bruggbar í gamla bænum, Brovarnia sem státar af besta bjór Póllands að þeirra eigin sögn. Þessi staður er auglýstur bak og fyrir t.d. á flugvellinum og víðar. Staðurinn sem er staðsettur á neðri hæð Hótel Gdansk kemur líka upp ofarlega þegar maður leitar á netinu eftir bestu veitingastöðum borgarinnar. Við borðuðum ekki þarna en ég greip einn IPA sem var stórkostlegur. Ég sé að það er vel hægt að fara hingað í sérstaka bjórferð, set það á to do lista hjá mér.
Gdansk, gamli bærinn
Varðandi borgina sjálfa þá get ég bara tjáð mig um gamla miðbæinn, fyrir okkur í þessari ferð var hann bara alveg nóg. Þetta er ægilega fallegur bær, hreinlegur, enginn hundakúkur á götum, ekki sorp eða klóaklykt sem gýs upp, ekkert cannabis ský sem maður gengur inní eins og víða er orðið í öðrum borgum, engir betlarar eða slíkt. Maður upplifir öryggi og fólk hér almennt vinalegt. Ég heyrði enga amerísku, enga íslensku og varla skandinavísku ef út í það er farið, hér virðast flestir vera frá slavneskum þjóðum sem er frábært. Ég nenni ekki að hitta nágranna minn á ferðalögum mínum erlendis, nema jú ef það eru Maggi og Björk, Hreimur eða Darri og frú auðvitað…já ok líka þið hin ef þið eruð að lesa, æi þið fattið hvað ég meina? Það er miður ágúst og bærinn dálítið pakkaður af fólki, sérstaklega meðfram ánni og á stærstu verslunargötunum. Líklega væri betra að vera hér í júní eða september? Byggingarstíll er ægifagur, ég veit ekki enn á hvað hann minnir en það er eins og blanda af Prag, Stokkhólmi með smá Köben og dash af Brussel. Ofsalega skemmtilegt.
Verðlag, já við spáum í það alltaf, ég varð pínu fyrir vonbrigðum, ég var að búast við mun lægra verði en mögulega hef ég verið að flækjast inn á dýrari staði bæjarins, ég veit ekki en alla vega, sums staðar var rauðvínsglasið eða hvítvínið á svipuðu verði og heima, kampavín var dýrt eins og reyndar víðast hvar í heiminum en bjórglasið var samt alltaf töluvert lægra en heima og kokteilar rokkuðu frá um 800kr og upp í kannski 2000 kr eftir því hvar þú varst staddur. Verðlag meðfram ánni virðist nokkuð hærra en þegar fjær dregur ánni en það er svo sem vel þekkt í öðrum borgum.
Sopot strandbærinn
Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en má samt til með að nefna Sopot sem er lítill strandbær skammt frá Gdansk. Það tekur um 20 mín með Uber eða Taxa að fara frá gamla bænum t.d. Ég mæli með að fara dálítið snemma dags og eyða heilum degi og kvöldstund í þessum bæ. Stefnið á WhiteMarlin sem liggur alveg við ströndina og röltið svo þaðan um svæðið. Það er lítill miðbæjarkjarni þarna með aragrúa af veitingastöðum og svo er mikið að gerast í kringum hótelin sem liggja við ströndina. Þetta er mjög huggulegt svæði. Það er notalegt að tilla sér á einhvern strandbarinn og fá sér drykk eða bara skella sér á ströndina og baða sig í Eystrasaltinu. Þarna er líka gríðarlega löng timburbryggja, sú stærsta í Evrópu takk fyrir. Þú borgar 10 Zloty fyrir að rölta út á hana, mjög skemmtilegt rölt. Á enda bryggjunnar er veitingastaður ef maður er svangur.
Lengsta trébryggja í Evrópu er í Sopot
Við skoðuðum því miður ekki mikið af Sopot, komum heldur seint þangað en þetta lofaði allt góðu. Ég get þó mælt með strandbarnum á White Marlin, við snæddum reyndar kvöldverð þar líka en það voru engir flugeldar, maturinn var fínn en þjónusta mjög mjög hæg sem kannski er alveg í lagi því staðsetningin er geggjuð. Alveg við ströndina og hægt að sitja líka beint á sandinum við borð undir sólhlíf. Gdansk verður sannarlega heimsótt aftur og Sopot er líka komið á to do listann hjá mér.
Ég var að upplifa Krít í fyrsta skipti í sumar og mun án efa koma aftur, þetta er dásamlegur sælureitur fyrir fólk sem elskar góðan mat, drykk, safaríkar baðstrendur og spennandi menningu. Já og vinalegt fólk. Ekki skemmir fyrir að það er auðvelt að komast hingað frá Íslandi þar sem Icelandair flýgur núna beint til Chania frá Keflavík. Ég ætla ekki að þykjast geta listað hér upp allt það besta við Krít eða hvaða veitingastaði ber að eltast við eða forðast. Ég ætla heldur ekki að þykjast vera sérfróður í grískri matargerð, ekki enn sem komið er alla vega. Mig langaði bara að punkta niður svona það helsta sem okkur fannst standa uppúr í 14 daga ferð okkar til eyjarinnar miðað við staðsetninguna þar sem við gistum og svæðið þar í kring. Mögulega gagnast það einhverjum sem er á höttunum eftir ævintýri fyrir öll skilningarvitin.
Til að byrja með þá erum við farin að ferðast í júní til útlanda frekar en í júlí eða ágúst. Júní er frábær tími til að ferðast á því ferðamannastraumurinn og örtröðin virðist ekki byrja fyrr en í júlí. Hitinn á suðlægari slóðum er líka viðráðanlegri þannig að ég mæli með þessum tíma, nema auðvitað ef fólk vill meiri hita og læti?
GISTINGIN
Litlar búðir og kaffihús í gamla bænum í Chania
Líklega eru flestir sem koma til Krítar að gista í eða við Chania sem er önnur stærsta borg eyjarinnar á eftir höfuðstaðnum Heraklion sem liggur austar á eyjunni. Það búa um 60.000 íbúar í Chania af um 640.000 á eyjunni allri. Þetta er fallegur bær, sérstaklega gamli bærinn og gamla höfnin sem er vel varðveitt í sinni upphaflegu mynd í feneyskum byggingarsíl. Við erum að tala um litlar verslunargötur þar sem þú finnur litlar búðir, kaffihús, bari, spennandi skyndibitastaði og iðandi mannlíf. Það er gaman að rölta þarna um og villast í litlu þröngu götunum eða tilla sér niður á einhvern af veitingastöðunum við gömlu höfnina og panta sér smá snarl á borð við Dakos eða Saganagi ost skolað niður með ísköldum kranabjór og horfa á mannlífið líða hjá eða bara njóta útsýnisins yfir höfnina. Það er líka gaman að rölta út að vitanum sem stendur í mynni hafnarinnar en þaðan er flott útsýni yfir höfnina og gamla bæinn.
Gamli bærinn og höfnin í Chania
Á kvöldin breytist stemningin algerlega, litlu þröngu göturnar breytast í kósí veitingastaði þar sem fólk situr úti í rökkrinu við borð með daufri birtu frá kerti eða lukt. Mjög kósí stemning. Barirnir lifna líka við með hlátrasköllum og gleði og litlu búðirnar eru margar opnar áfram fram á kvöld.
Dularfull stemning í Chania að kvöldi
Ég get ímyndað mér samt að í júlí og ágúst sé erfitt að fóta sig í mannmergðinni hér og er gott að hafa það í huga þegar fríið er skipulagt. Unglingurinn sem var með í för var mjög sáttur vip Chania því þar er að finna eina Starbucks staðinn á eyjunni skv honum þ.e.a.s en það er auðvitað ekkert sem maður er venjulega að eltast við eða hvað?
Spilia Village hótelgarðurinn
Við gistum ekki í Chania heldur í pínu litlu þorpi sem heitir Spilia og er um 30 km vestan við Chania. Þetta þorp er krúttlegt, rólegt klassískt grískt þorp og nánanast engir ferðamenn nema á eina hótelinu í þorpinu, Spilia Village sem ég mæli svo sannarlega með. Við vorum í húsi tengt hótelinu með sundlaug útaf fyrir okkur. Það voru engir gestir í nálægum húsum og því afar rólegt og þægilegt hjá okkur. En okkur var þó tjáð að það væri mun meira líf í júlí og ágúst hér, allt uppbókað. Starfsfólkið hér allt mjög vinalegt og þægilegt og vill allt fyrir mann gera.
Plateia Cafe Meze
Það eru tveir veitingastaðir í þorpinu, báðir í 1 mín göngufæri frá okkur. Við urðum fyrir vonbrigðum með annan þeirra og fórum ekki aftur á hann en hinn Plateia Cafe Meze er frábær og fórum við oft á hann og aldrei nein vonbrigði. Ég held að við höfum prófað allt á matseðlinum þegar upp var staðið eða svona 95%. Frábær matur og verðlag gott. Hér fengum við mikið af klassískum grískum réttum og á föstudögum er lifandi tónlist og jafnvel dans. Staðurinn er fjölskyldurekinn og kemur mikið af hráefninu í réttina frá fjölskyldunni sjálfri sem er með hænur og kindur og ræktar ýmsar kryddjurtir og ávexti. Allar ólífurnar og ólíurnar koma líka frá þeirra eigin uppskeru. Mjög skemmtilegt, svona beint frá bónda. Reyndar er það þannig að flestir sem hér búa eru með einskonar sjálfsþurftarbúskap, rækta appelsínur, sítrónur, krydd ofl og halda hænur og bíflugur jafnvel og fá þannig egg, hunang og kjöt. Virkilega rómantískt allt saman. Fólk forðast að fara í matvörubúðir hér því verðlag þar er fáránlega hátt og alveg á pari við það sem við upplifum heima á Íslandi.
Þó svo að þorpið sé krúttlegt og veitingastaðurinn frábær þá mæli ég með að vera á bíl hér ef maður vill skoða eitthvað en það er líka hægt að leigja hjól á hótelinu en það er auðvitað takmarkað sem maður kemst á þeim. Ég held að næst myndum við vilja blanda dálítið saman, vera t.d. viku í Chania og svo seinni vikuna í litlu þorpi á borð við Spilia og vera þá með bíl.
UMFERÐARMENNINGIN
Það er ósköp þægilegt að vera á bíl hér en bílamenningin er dálítið spes samt og er eins og menn fari ekki eftir vegmerkingum. Gatnamót eru oft mjög skrítin í þorpunum og þar eru þröngar götur sem getur verið snúið að aka eftir. Svo eru auðvitað engin bílastæði eða nánast engin þannig að maður þarf oft að leggja dálítið frá áfangastað sínum og ganga rest. Það eru einhvers konar hraðbrautir hér en ég átta mig ekki á hámarkshraða þar. 90km/klst er það hæsta sem ég hef séð merkt. Mig langaði samt að nefna aksturslagið á þessum hraðbrautum, fyrst taldi ég mig vera að keyra fyrir aftan manneskju með heilablóðfall eða undir áhrifum vímuefna. Svo sá ég fleiri og fleiri svona ökumenn og áttaði mig á að það væri ég sem væri úr skjön við hina. Vegirnir eru þannig að það er ein akrein í hvora átt aðskildar með ýmist brotnum eða óbrotnum línum og það eru óbrotnar línur yst en svo kemur mjög breiður vegkantur. Bílarnir virðast rása á veginum, eru ýmist hálfir útaf eða alveg út á vegkantinum. Umferð á móti er varasöm því maður mætir oft bíl sem er hálfur inn á þinni akrein þrátt fyrir tvöfaldar óbrotnar línur. Stundum eru þrír bílar hlið við hlið á þessum vegum sem nota bene eru bara með einni akgrein í hvora átt. Svo virðist sem Grikkir noti vegkantinn fyrir hægari umferð og það virðist þannig vera hefð fyrir því að þú færir þig yfir á vegkantinn, já yfir óbrotnu línuna, til að hleypa hraðari umferð framhjá. Einnig gott að vera ekkert of nálægt miðlínunni því eins og ég sagði, stundum koma bílar á móti hálfir inni á þínum vegarhelming.
GRÍSK MATARGERÐ
Hér erum við komin inn á það sem er best við Krít að okkar mati, maturinn, já ok strendurnar eru líka svakalegar reyndar, sjá neðar. Við vorum með miklar áætlanir um að elda mikið sjálf enda með heilt hús undir okkur en sú hugmynd er eiginlega ekki góð. Til að byrja með eru mjög takmörkuð eldhúsáhöld í eldhúsinu, þú ert aldrei að vinna með þín áhöld alla vega, verðlag í matvöruverslununum var mjög hátt, svipað og heima bara og svo vill maður auðvitað rannsaka gríska matargerð og vill bara fá þetta óaðfinnanlegt frá heimamönnum. Við elduðum samt nokkrum sinnum, þá helst tzatziki og grískt salat sem var mjög gott samt. En ég mæli með því að gera sem minnst heima í eldhúsinu nema þú sért grískur kokkur auðvitað. Ef þú ert svo virkilega að spara aurinn þá ferðu í strætisfæði á borð við Gyros. Í næsta þorpi við okkur er frábær grillstaður, Kaneva (https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic) https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic þar sem maður fær gyros vefjur á 500 kr stykkið og er þetta alveg heil máltíð takk fyrir.
Grísa Gyros vafið í pita
Við hér á Bjór og Matur erum mikið matarfólk og því er fókusinn hjá okkur alltaf dálítið mikið á mat og drykk þegar við ferðumst út fyrir landssteinana. Grikkir lifa fyrir að njóta og njóta til að lifa eitthvað sem okkur finnst einmitt það eina rétta. Matur er stór þáttur í grískri menningu og eiga þeir marga stórkostlega þjóðarrétti. Við reyndum að smakka eins marga og við gátum. Auðvitað nær maður ekki öllu í einni ferð en það er gaman að reyna. Hér á eftir eru nokkrir réttir sem við mælum sérstaklega með að smakka. Það má einnig sjá smá samantekt á instagramminu minu undir highlights. Auðvitað munum við svo reyna að gera þetta heima þegar við komum heim og pósta uppskriftum ef vel tekst til.
Tzatziki ómissandi hluti grískrar máltíðar
Tzatziki. Ég held að það sér eðlilegast að nefna þetta meðlæti efst á lista enda ómissandi hluti af grískri matargerð. Menn nota þetta sem bara sósu á gott brauð, út á salatið eða sem fyllingu í t.d. Gyros eða bragðbætir á souvlaki grillkjötið. Það er alltaf hægt að bæta matinn með tzatziki. Þettar dálítið eins og indverska raita nema hráefnið og auðvitað bragð ekki það sama. Í tzatziki er notað grísk jógúrt, gúrka, hvítlaukur, hvítvínsedik eða sítrónusafi, ólífuolía, salt og krydd á borð við dill eða mynta. Ég mæli með að panta alltaf tzatziki með þegar pantaður er matur á veitingastað.
Mouzakka
Mouzakka er líklega með þekktari grískra rétta og er algjört möst að smakka. Ekki bara einu sinni því útgáfurnar eru mismunandi á milli veitingastaða. Uppistaðan í þessu eins konar lasagne eru kartöflur í skífur sem eru annað hvort steiktar í ofni eða djúpsteiktar og þeim svo raðað í eldfast mót. Eggaldin í sneiðum og svo nautahakk eða blanda af lamba og nautahakki. Þetta er lungnamjúkt, bragðmikið og dásamlegt. Þetta er eitthvað sem við munum reyna við heima á Íslandi.
Grískt salat
Gískt Salat eða Cretan Salat, kallað líka Horiatiki. Ok ég var þarna líka eins og þið, hugsaði salat, maður hefur margoft gert salat með alls konar. Er það eitthvað spes? Hér er það bara einhvern veginn öðruvísi og geggjað gott. Líklega er það dressingin og fetaosturinn er svo magnaður. Kannski er það bara að allt hráefnið er fyrsta flokks. Grískt salat inniheldur djúsí tómata, gúrkubita eða sneiðar, græna papríku, rauðlauk, kalamata ólífur og svo stóra fetaosta kubba efst. Brauðteningar eru oft líka með. Mér finnst virkilega smart að hafa svona stórar blokkir af feta efst en ekki blandað í salatið í litlum bitum.
Saganaki, djúpsteiktur gruyere eða feta
Saganaki. Ef þér líkar ostur þá munt þú elska þennan rétt. Saganaki er djúpsteiktur ostur, oftast gruyere eða feta eða annar ostur sem bráðnar vel. Með þessu fylgir ferskur sítrónubiti sem er kreistur yfir ef maður vill. Einfalt en gott, ég mæli líka með að borða þetta með tzatziki. Þetta er fullkominn biti fyrir máltíðina eða bara sem snarl með ísköldum grískum lager. Sonur minn fékk sér þennan rétta nánast í hvert mál. Við höfum svo sem djúpsteikt ost heima en hér eftir mun ég reyna að negla þetta þegar heim er komið. Vandamálið er líklega gæðin á ostinum heima?
Gemista/Yemista
Gemista/Yemista. Gemista er mjög vinsæll réttur, þetta er í raun fylltur bakaður tómatur eða papríka. Fyllingin getur verið alls konar, klassístk hrísgrjón eða risotto, fíntskorið grænmeti og stundum hakkað nauta eða grísakjöt. Þetta er svo bakað í ofni með eins konar marinara sósu. Í raun er ekkert rétt eða rangt í þessu, aðal málið er að fylla þetta grænmeti og baka.
Dakos
Dakos. Þetta er flott sem forréttur eða bara smá biti með góðum bjór eða víni. Dakos er dálítið eins og þurr brauðbolla skorin til helminga og sem minnir á brauðtening í áferð, ofan á þetta eru svo hakkaðir tómatar, krydd og grískur feta eða mizithra ostur. Mjög létt og þægilegt.
Gyros vefja í pítubrauði
Gyrosogsouvlakipita. Oft er talað um að Grikkir hafi fundið upp pítuna, ég ætla ekki að dæma um það en eitt er víst að Grikkir eru með þeim fyrstu sem tala um pitubrauð. Ýmist er pítubrauð fyllt með grillkjöti og grænmeti eða borið fram á diski ásamt pitubrauði og grænmeti. Klassískt eru franskar kartöflur með í fyllingunni. Munurinn á gyros og souvlaki er dálítið óljóst finnst mér, gyros á samt meira við kjötkeilu líkt og kebab. Sem sagt kjötið er þrætt upp á tein þannig að það myndi stóra keilu og svo látið snúast og grillast þannig, oftast kjúklingur, grís, lamb eða kjúklingur, á meðan souvlaki er þrætt á minni tein og er eldað lárétt. Kjötið er svo borðað beint af teininum eða sett í pítubrauð. Gyros er hins vegar rakað af kjötkeilunni og borið þannig fram í pítubrauði eða á diski með brauðiniu. Í raun skiptir þetta ekki máli, ef þú pantar gyros eða souvlaki í pítubrauði ættir þú að fá hrikalega góða pítu. Þetta er frábær skyndibiti og kostar lítið. Hér nýtur auka tzatziki sósa sín fullkomlega því oft er ekkert voða mikið af sósu í þessu.
VÍN, BJÓR OG ANNAÐ FLJÓTANDI
Við á Bjór og Matur erum löngu komin dálíð út fyrir bara að fjalla um bjór. Freyðivín er nefnilega í miklu uppáhaldi hjá okkur líka en rauðvín og kokteilar eru að koma mikið inn líka. Ég viðurkenni að ég hef ekki tengt Grikki við léttvín og alls ekki freyðivín en Grikkir gera svo sannarlega ljómandi vín og eru reyndar með elstu vínframleiðendum veraldar og eru til heimildir um 6000 ára virðulega sögu þeirra í víngerð. Grísk vín hafa í gegnum söguna verið mikils metin og í hávegum höfð.
Við prófuðum nokkur rauðvín hér, allt vín sem við höfum aldrei séð áður eða heyrt af. Vivino appið hjálpaði mikið við valið en stundum völdum við bara flöskuna eftir útlitinu. Við vorum nánast allaf ánægð með vínin sem við völdum, við viljum helst bragðmikil og þétt rauðvín, ekki of sæt en heldur ekki of súr. Ég ætla ekki að fjalla meira um þau hér en það er alla vega hægt að ganga út frá því að fá góð rauðvín hér. Hvítvín líka geri ég ráð fyrir en við prófuðum lítið af þeim.
Domaine Karanika er eitt af frægari freyðivíns framleiðendum Grikkja, allt ofsalega ljúft sem við smökkuðum, sérstaklega rosé útgáfan.
Freyðivínin eru annar handleggur en þau komu svo sannarlega á óvart. Við Sigrún konan mín erum mikið búblufólk, við elskum gott kampavín eða frískandi spænskt cava. Vandað crémant er líka voða vinsælt hjá okkur þegar við viljum fá franskar búblur á viðráðanlegu verði og á Ítalíu drekkum við bara franciacorta. Kampavín hér kosta svipað og heima, kannski 1000 kr ódýrara og úrvalið er ekki mikið. Við höfum ekki séð mikið cava en það er prosecco sem ræður hér ríkjum eins undarlegt og það er. Ég skil bara ekki afhverju veitingahús, hótel, krár ofl bjóða bara kampavín eða prosecco þegar mun betri freyðivín eru til og ég tala nú ekki um þegar þau eru framleidd í landinu? Ég mun aldrei skilja það. Grikkir búa nefnilega til sitt eigið freyðivín og það er svo sannarlega í topp gæðum. Framleitt með sömu aðferð og kampavínið, metode traditional en má auðvitað ekki kallast champagne nema í því héraði í Frakklandi. Við smökkuðum einar 5 tegundir, allt virkilega gott og vandað nema kannski ein. Það er meira að segja einn framleiðandi á Krít sem gerir virkilega fínt freyðivín.
Freyðivín frá Krít, virkilega gott
Við fundum freyðivínin í matvöruverslunum og vínbúðum hér, ekki á veitingastöðunum. Ef þú ætlar að prófa ekki bíða þar til þú ert kominn á flugvöllinn, þar er ekkert til nema prosecco og kampavín já og smá cava frá Freixnet
Ég hef sagt þetta áður, eða nokkurn veginn svona, á instagram og vefsíðinni okkar líka en verður ekki of oft kveðið og segi ég það hér aftur. “Ef þú ert að ferðast á Ítalíu, láttu kampavín eiga sig nema þér sé sama um budduna, forðastu prosecco nema þér sama um gæðin og fáðu þér frekar fransiacorta. Það sama á við um Spán, þar er það cava sem er málið og svo hér á Grikklandi, láttu procecco vera og finndu flösku af grísku freyðivíni, helst brut, það er virkilega gott”.
Ískaldur lager við höfnina í Chania
Bjórinn á Krít. Verum hreinskilin, Grikkir eru ekki þekktir fyrir bjór og myndi ég ekki vera að eltast sérstaklega við hann hér. Þeir gera ágætis ljósan lager sem er ofsalega þakklátur í hitanum. Ískaldur ljós lager af krana í 28 stiga hita er bara æði. Heima á Íslandi myndi maður sennilega hella honum í vaskinn. Það er samt sem áður smá von fyrir hörðustu bjórnördana því skammt frá Chania eða 25 km vestur af borginni er handverksbrugghús sem kallar sig Cretan Brewery.
Smakkprufur á Cretan Brewery Charma
Brugghúsið sem er staðsett mitt í gróðursælum litlum dal umkringt appelsínu og ólífutrjám og er fyrsta brugghúsið á svæðinu, mögulega það eina ég skal ekki segja. Þeir framleiða nokkra mismunandi bjóra, allt létt og þægilegt, meira að segja vel drekkanlegan IPA og skemmtilegan dunkel, en það sem mér fannst eiginlega merkilegra er að þeir bjóða upp á mat líka og það var sko ekkert slor. Besta cretan salat sem ég smakkaði í þessari ferð takk fyrir og meze plattinn var bara geggjaður. Mæli með þessu ef þú ert með einhvern sem keyrir.
TÚRKISBLÁR SJÓR OG BLEIKAR BAÐSTRENDUR
Náttúran hér er stórbrotin, fjöll og dalir og nánast hvert sem litið er má sjá víðáttumiklar breiður af ólífutrjám enda Grikkir 3. stærsti framleiðandi ólífuolíu í heimi. Á Krít má finna 35 milljónir ólífutrjáa takk fyrir. Í þorpunum má svo sjá appelísnutré, sítrónutré og ferskjutré út um allt. Annað slagið ekur maður framhjá vínekrum líka enda framleiða Grikkir flott og góð vín eins og fyrr segir. Það sem vakti líka athygli mína er hversu græn og blómleg sveitin er meðfram hraðbrautinni, maður ekur ekki í gegnum þurra eyðimörk eins og t.d. á Spáni heldur eru runnar í alls konar blóma meðfram veginum, bleik, gul, rauð blóm og svo litlir pálmar hér og þar og auðvitað ólífutrén. Mjög fallegt.
Ég verð svo að eyða orðum í strendurnar, nú er ég alls ekki mikið fyrir baðstrendur, reyni að forðast þær eftir bestu getu því ég er ekki mikið fyrir að liggja eins og klessa í sólinni og allur sandurinn sem finnur sér leið í öll skúmaskot fer dálítið í mínar fínustu. En, í þessari ferð var ég dolfallinn, ég elska fallega náttúru og maður minn, strendurnar á Krít eru eitthvað annað. Þær eru eins og maður sér í bíómyndum sem gerast á eyjum, lengst út í kyrrahafi eða álíka. Við skoðuðum nokkar af ströndum eyjarinnar, bæði frægar og minna frægar strendur og við vorum að elska þær allar. Sandur er alltaf sandur, pirrandi en hvílíkt sjónarspil. Hvítar sandstrendur sem ná langt út í kristaltærann sjóinn. Hvítur sandbotninn gerir sjóinn grænbláan og svo út í túrkis þegar lengra kemur frá ströndinni, það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Jafnvel mágur minn sem við hittum í þessari ferð og sem hatar svona strendur var himinn lifandi og þá er nú mikið sagt.
Horft niður á Balos ströndina
Balos er ein af þeim ströndum sem þú verður að skoða á Krít. Hún kemur fram efst eða næst efst á lista yfir strendur á Krít enda á hún það sannarlega skilið blessunin. Þetta er einfaldlega fallegasta strönd sem ég hef komið á og hef ég skoðað þær nokkrar í gegnum tíðina. Það sem gerir hana svona magnaða eru nokkur atriði, best að skoða líka myndirnar hér. Það hversu afskekkt hún er gerir hana spennandi, það er enginn bær eða þorp sem liggur við ströndina heldur taka brattar fjallshlíðar við af sandströndinni. Sum staðar eru grjóthnullungar út í vatninu sem greinilega eru tilvaldir staðir fyrir ljósmynd “litla hafmeyjan” style en það voru ófágar konur sem komu sér fyrir uppá þessum grjótum til að pósa fyrir myndavélarnar í alls konar stellingum. Það er ekki til svona mynd af mér samt. Hluti af Balos ströndinni liggur að grunnu lóni, þar nær sjórinn upp að hnjám þannig að maður getur vaðið þvert yfir lónið sem er líka vel heitt og notalegt. Botninn er hvítur og í fjarlægð virðist fólk vera að vaða mjólk upp að hnjám, Hinu meginn mætir ströndin svo opnu Miðjarðarhafinu með þessum dáleiðandi túrkisbláa sjó. Balos er líka ein af bleikuströndum Krítar en í sannleika sagt þarf að hafa smá fyrir því að sjá bleika litinn en á sumum stöðum er samt alveg smá bleikt svæði sem kemur ægilega vel út á mynd.
Bleik slikja í sandinum á Balos strönd
Það eru nokkrar “bleikar” strendur á Krít en það er afar sjaldgæft fyrirbæri, aðeins um 10 slíkar strendur í heiminum ef ég skil það rétt. Bleiki liturinn stafar af skel af ákveðnu krabbadýri sem er bleik að lit. Til að komast á Balos er hægt að velja tvær leiðir. Ég mæli með þeim báðum ef hægt er. Það er hægt að keyra þetta auðveldlega ef maður er ekki hræddur við grófan malarveg og brattar hlíðar niður í sjó. Maður lullar þetta bara upp í rólegheitum, útsýnið er geggjað líka ef maður gefur því gaum. Vegurinn endar á bílastæði þaðan sem maður þarf svo að rölta niður á Balos strönd. Áður en maður byrjar að rölta niður hlíðina þarf maður að passa að gleyma ekki að fara út að fjallsbrúninni þar sem maður sér yfir öll herlegheitin. Útsýnið þaðan er eitthvað sem mun sitja í þér að eilífu. Hér er svo sannarlega hægt að ná góðum myndum. Svo tekur við rölt niður að ströndinni. Vesenið hér er svo heimleiðin því eftir heitan dag á ströndinni þarftu að brölta þetta upp aftur í kannski 28-30 stiga hita.
Hin leiðin er svo að leigja bát sem siglir með þig inn að Balos. Frá Kissamos er þetta um 30 mín sigling en um 1,5 klst frá Chania. Fer kannski eftir hvernig bát þú ert á. Þetta er ofsalega skemmtilegt líka því hér sérðu auðvitað eyjuna frá sjó, brunar meðfram bröttum hömrum og endar svo í þessum dásamlega sælureit. Menn stoppa líka alltaf við litla eyju sem er rétt út af Balos strönd. Þar getur maður baðað sig í kristaltærum sjónum eða rölt upp í gamalt virki sem er þarna efst á litlu fjalli. Útsýni þaðan er mjög fallegt. Þú getur líka gert bæði auðvitað. Ég mæli samt með ef maður er ekki í fanta formi að spara röltið og nota það frekar þegar komið er á Balos. Koma sér fyrir og rölta svo upp hlíðina kannski rúmlega hálfa leið og fá þá þetta geggjaða útsýni sem ég talaði um að ofan.
Bleikur sandur og túrkisblátt hafið á Falasarna
Elfonissi er svo enn ein bleika ströndinn og líklega er talað meira um hana en Balos. Alla vega er þetta sú strönd sem þú verður að koma á ef þú googlar Krit. Við ákváðum að sleppa henni, bæði vegna þess að hún er í um klukkutíma og 20 mínútu akstur frá Spilia en líka af því að þar er gríðarlegur ferðamannastraumur og við bara nenntum ekki að standa í því. Við fórum hins vegar á Falasarna sem var bara í um 30-40 mínútna akstur frá okkur. Líka bleik strönd eins og Balos en mun “rólegri”. Ekki eins mögnuð og Balos en engu að síður með þeim fallegri og meira af þessu bleika. Túrkisblár sjórinn og svo löng ströndin, með hvítum sandi en líka sumstaðar klettum sem ná í sjó fram og mynda litlar víkur og mínístendur sem vert er að elta uppi ef maður vill litla paradís alveg fyrir sig. Það eru bleikir blettir víða og mér fannst bleiki sandurinn meira áberandi en á Balos. Það er svo hægt að leigja sér bekki eða jafnvel eins konar sólskýli með púðum og kósíheit. Mat og drykki er svo hægt að panta frá veitingahúsum sem liggja á stangli meðfram ströndinni. Okkar upplifun hér var frábær og mælum við eindregið með að eyða góðum degi hér líka. Aðkoma einföld á bíl, nóg af bílastæðum, veit ekkert hvernig þú kemst hingað án bíls samt.
Samantekt
En já ég hef þetta ekki lengra að sinni, nógu langt er það nú þegar. Sem samantekt fyrir þá sem nenna ekki að lesa þá er Krít bara dásamleg, sérstaklega í júní en þá er ferðamannastraumurinn ekki farinn af stað. Flogið beint um þessar myndir með Icelandair til Chania.
Matarkúlturinn er frábær, vínin geggjuð, frábærar búbblur líka og já þú finnur amk eitt craft brugghús skammt frá Chania. Náttúran er dásamleg, veður fullkomið og baðstrendurnar þær fallegustu í heiminum að okkar mati. Þarftu meira?
Hér á síðunni tökum við stundum fyrir staði sem okkur finnast sérstaklega markverðir fyrir þær sakir að þar er hægt að fá framúrskarandi bjór og/eða náttúrúvín ásamt góðum mat. Þetta eru staðir sem okkur finnst frábært að koma á og við getum dekrað við öll skilningarvitin. Listinn okkar hér á B&M er ekki langur enda erum við bara mjög vandlát í þessum efnum. Systir hjá Dill Restaurant er nýr staður hér í borg og okkur finnst hann eiga heima á listanum. Systir er þar sem gamli ónefndi pizzastaðurinn var við Hverfisgötu 12, fyrir ofan Dill Restaurant og fyrir neðan Mikkeller & Friends Reykjavík. Þið þekki flest staðinn, lítill en mjög heimilislegur og notalegur með geggjuðum pizzum. Nú er þessi staður allur en í staðinn er búið að lyfta staðnum aðeins upp og gera hann meira gourmet með tengingu við Dill. Hanastél og eðal vín virðast í forgrunni og svo er hægt að fá allan bjórinn sem í boði er að ofan frá Mikkeller & Friends og taka með niður sem fordrykk eða til að para með matnum að vild. Maturinn er settur saman og eldaður í Dill eldhúsinu á neðri hæðinni, Dill er auðvitað kapituli útaf fyrir sig en við ætlum ekki fjalla um hann frekar hér að þessu sinni en það verður samt sagt hér að hann verðskuldar svo sannarlega Michelin stjörnuna sína aftur.
Við Sigrún kíktum við á Systir fyrir nokkrum vikum í einn drykk eftir góða kvöldstund í bænum og vorum mjög ánægð. Kampavínsglasið var ofsalega gott og á frábæru verði, 2000kr og vel í látið. Hanastélin litu líka ofsalega vel út og greinilegt að það var fagmaður að verki á barnum. Matseðillinn lofaði góðu og við ákváðum því að koma aftur og skoða þetta betur sem við svo gerðum núna um helgina.
Matseðillinn á Systir er lítill en virðist vel skipulagður og úthugsaður. Þarna er eitthvað fyrir alla! Mér skilst líka að seðillinn taki breytingum annað slagið. Réttirnir eru skapaðir af kokkunum á Dill og eldaður þar í eldhúsinu undir vökulum augum Gunnars Karls matreiðslumeistara sem er kominn aftur heim eftir sigurför í New York borg þar sem hann ásamt teyminu á Agern lönduðu einni verðskuldaðri Michelin stjörnu hér um árið. Gunni er álíka hógvær og hann er snjall í eldhúsinu en ég leyfi mér að fullyrða hér að hann er dásamlegur kokkur og líklega einn af okkar bestu. Ég viðurkenni að ég hef smá „foodcrush“ á honum eftir að hafa upplifað matinn hans bæði á Dill og Agern í New York og svo núna á Systir.
Það er fullkomið að byrja kvöldið á einum fordrykk, t.d. spennandi hanastél af barnum eða trítla upp á Mikkeller & Friends sem er einn af bestu bjórstöðum borgarinnar og næla sér ljúfan 9% Nelson Sauvin Brut Mango Passion súrbjór t.d. á meðan matseðillin er skoðaður. Þegar maður er á nýjum stað og þekkir ekki réttina er sniðugt að fara í smakkseðlana (tasting menu) ef slíkt er í boði því þá fær maður nasaþefinn af því sem menn eru að gera í eldhúsinu. Ekki er svo verra að taka vínpörunina (eða bjórpörun ef það er í boði) með ef maður treystir því að menn kunni sitt fag í þeim efnum. Það er nefnilega afar ánægjulegt að upplifa vandaða vín eða bjórpörun og fá þannig dálítið aðra og betri upplifun af réttunum.
Hafandi farið í gegnum bjórpörunina á Agern þegar Gunni réði þar ríkjum þá vissi ég að við værum í góðum málum hér. Við Sigrún fórum því í vínpörunina og sáum sko ekki eftir því. Hver réttur var bæði fallegur og vandaður og dálítið sérstakur. Þetta voru litlir en hæfilegir réttir, sem sagt minni útgáfur af réttunum ef þeir væru pantaðir stakir.
Við fórum samt frá borði nákvæmlega eins og maður vill fara frá svona borði, mettur en alls ekkert að springa. Maður vill svo ekkert fara frá svona borðum ef út í það er farið. Við eigum mjög erfitt með að tala hér um uppáhalds rétti eftir þetta kvöld en ef ég mætti bara panta einn rétt myndi ég taka gröfnu bleikjuna með fennel majo og engifer, þetta var svakalegt, reyndar myndi ég eiga erfitt með að panta ekki grísasíðuna sem var svo fáránlega mjúk og ljúf en þó stökk og mikil og í fullkomnu jafnvægi. Sigrún myndi panta sér þorskinn á kálbeði og helling af smjöri. Vínin með voru alveg „spot on“ og það leyndi sér ekki að þessar paranir voru alveg úthugsaðar. Við fengum freyðandi náttúruvín með fyrstu tveim réttunum og með þeim þriðja kom dásamlegt hvítvín. Nú er ég lítið fyrir hvítvín nema þau séu eitthvað spes og spennandi en ég get sagt ykkur að þetta vín, Isolano by Valdibella, var svakalegt og myndi ég kaupa það aftur og aftur og aftur ef ég gæti. Rauðvínið í lokin, Agape var líka frá Valdibella og álíka magnað og hvíta vínið en þetta vín steinlá með grísasíðunni, þvílík hamingja í munni. Við fengum svo ábót á það vín í lokin.
Þjónustan var vinaleg og heimilisleg en það er auðvelt að gleyma sér og gera meiri kröfur þegar maður er byrjaður að borða því maturinn er eitthvað sem maður gæti hafa fengið á Michelin stað. Systir er hins vegar ekki glerfínn Michelin staður, enda er það ekki meiningin, og því má ekki dæma hann sem slíkan þegar t.d. hnífapör gleymast með matnum, eða einn drykkurinn kom ekki á borðið. Í heildina var þetta stórkostlegt kvöld hjá okkur með nóg af spennandi verkefnum fyrir bragðlaukana. Við munum svo sannarlega koma þarna aftur bæði í ljúfan kvöldverð eða bara til að tilla okkur við barinn í smáréttina og drykki.
Nú eru komnar þrjár „mathallir“ á höfuðborgarsvæðið þegar þetta er ritað (maí 2019), sú nýjasta er í Höfða. Vissulega erum við hér komin heldur langt frá miðbænum en ætlunin er líklega að höfða til vinnandi fólks á virkum dögum en nóg er af fyrirtækjum á svæðinu með svanga starfsmenn í hádeginu og svo eru íbúðarhverfi allt í kring. Það er líka bar á staðnum sem rekinn er af Beljandaog virðist stefnan að hafa barstemningu þarna um helgar.
Við hjá B&M erum mjög hrifin af þessari hugmyndafræði, Mathöllin á Hlemmi hefur t.d. alveg slegið í gegn hjá okkur og er klárlega sú besta af þeim þremur sem nú eru starfandi í borginni en sú þriðja er á Granda. Við munum líklega fjalla nánar um Hlemm síðar.
Það er dálítið vandamál með mathöllina á Höfða að það er ansi erfitt að fá bílastæði þarna á háannatímum en flestir koma jú á bíl þar sem þetta er ekki beint miðsvæðis. Hitt sem truflar okkur hér á B&M talsvert er drykkja úrvalið en hjá okkur gengur þetta dálítið út á að para mat og drykk, oftast bjór en ekki síst freyðivín. Freyðivíner nefnilega sá drykkur sem nánast gengur með öllum mat, við höfum amk enn ekki lent á lélegri pörun í þeim efnum en það er bara ekki hægt að fá freyðivín í mathöllinni. Hipstur er sýnist okkur eini staðurinn sem býður uppá búblur en það er bara prosecco í heilum flöskum, ekki glasavís. Mögulega er þetta bara eitthvað sem menn hafa ekki spáð í og munu bæta úr. Gott cava er t.d. alveg magnað með flestu sem er í boði í mathöllinni og ég tala nú ekki um kampavín ef maður vill gera ekstra vel við sig. Það skal þó tekið fram að Hipstur hefur þegar brugðist við og er að skoða þetta eitthvað þannig að hver veit hvað gerist á næstunni?
Rækjubrauðið er svakalegt á Hipstur, brakandi pilsner með eins og Brio er frábært combo
En fyrst ég er kominn inn á Hipstur þá skulum við klára þá umræðu en að okkar mati er þetta sá staður í Mathöllinni sem vert er að eltast við. Þeir eru með frábæra og dálítið öðruvísi rétti, t.d. brauðrétti, rækjubrauð með helling af sallati, dill, hvítlauk, kóríander ofl góðgæti ásamt haug af stórum safaríkum rækjum, svo er það sveppabrauðið þar sem sveppir og hvítlaukur eru í aðlhlutverki en líka alls konar grænt með ss radísur (sem eru reyndar rauðar) og grænkál. Allt þetta liggur svo á tveim sneiðum af ristuðu súrdeigsbrauði sem er löðrandi í ljúffengri sósu. Þetta er í raun réttur fyrir tvo hvor um sig, þú getur tekið svona brauð einn en þá ertu líka alveg farinn.
Súpan hjá þeim er frábær líka, þykk og bragðmikil fiskisúpa og svo eru þeir með breytilegan rétt dagsins sem virðist alltaf vera sjávarfang í grunninn. B&M hefur ekki náð að smakka meira af matseðlinum en við erum að vinna í því, það jú svo stutt síðan þetta opnaði.
Með þessu er hægt að fá bjór, reyndar bara Carlsberg en það má grípa bjór á öðrum stöðum eins og t.d. Brioaf krana bara á næsta stað sem er 2 m frá. Góður pilsnerer frábær með þessu hjá þeim því kolsýran og létt humalbeiskjan klippir vel í gegnum djúsí sósurnar og hreinsar vel palletuna og opnar allt upp. Hinn fullkoni bjór með Hipstur matseðlinum væri hins vegar saisonþví slíkur bjór er frábær með svepparéttum og sjávarfangi. Það eru létt krydd í saison frá gerinu og ögn sýra líka sem er svo góð með fiskréttum. Humlar og beiskja er afar látlaus og svo er einhvern veginn alltaf þessi jörð í saison sem tengir svo afskaplega vel við jarðartóna í sveppum, radísum og öðru rótargrænmeti. Saison og súpur, sér í lagi fiskisúpur eru eins og sniðið fyrir hvort annað, algjörlega fullkomið.
Það er því miður ekki hægt að fá neinn saison á neinum stað í Mathöllinni, það væri helst að semja við Beljanda að hafa einn saison frá einhverjum á krana. Ja eða bara Leiffrá Borg í gleri, það væri bara vel þegið!
Eins og fyrr segir eru þeir svo að skoða búblumálin á Hipstur en maturinn þeirra hrópar á þurrt cavaeða kampavín. Prosecco er nefnilega oftast helst til sætt fyrir okkar smekk þó það sé þó til mjög gott. Vandinn er að þeir selja bara prosecco í heilum flöskum eins og staðan er í dag. Sjáum hvað setur.
Sveppabrauðið á Hipstur með krydduðum saison, fullkomið!
Þetta er í raun stóra vandamálið með Mathöllina á Höfða, það er ekki hægt að fá neinar góðar búblur á neinum stað sem er stórfurðulegt. Vonum að menn muni átta sig og laga þetta. Hitt sem okkur finnst vanta eru náttúrúvíninen það er líklega vegna þess að við elskum þessi vín og erum vön að komast í góð náttúrúvín á Skálí Mathöllinni á Hlemmi. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að allt sé frábært en það væri alla vega stór plús að geta komist í náttúrúvín á Höfða.
Mig langar líka að nefna hér til sögunnar annan stað sem við elskum hér á B&M en það er The Gastro Truck sem selur einfaldlega bestu kjúklingaborgarana í bænum. Heimalagaða sósan þeirra er frábær með stökkum djúpsteikta kjúklingnum og svo er ljómandi ferskt og frískandi heimalagað hrásallat á kantinum. Við kynntumst The Gastro Truck fyrst þegar hann var á flakki um borgina og maður þurfti að fletta upp hvar hann væri hverju sinni því það var vel þess virði að aka langar vegalengdir í hádeginu til að næla sér í borgara. Svo tóku þeir sér bólfestu í Mathöllinni á Granda og nú einnig í Höfða sem einfaldar allt saman. Það góða við það að hafa food truck í mathöll er að þá er hægt að para bjór með borgaranum. Fyrir þá sem vilja það og eru ekki á bíl auðvitað!
Það er dálítið fast í okkur að þegar við gerum okkur glaðan dag og förum út að borða að þá þurfum við að verja öllu kvöldinu á einum og sama staðnum. Við veljum okkur veitingastað sem okkur líst vel á og erum þar þangað til við höfum borgað reikninginn og höldum heim á leið. Oft er það samt þannig að við erum ekkert endilega ánægð með alla réttina sem við fáum, forrétturinn er kannski fínn, aðalrétturinn geggjaður en eftirrétturinn bara lala. Oft er maturinn frábær en drykkirnir ekkert spennandi eða öfugt. Við Sigrún höfum stundum talað um hvað væri sniðugt að prófa það besta á mismunandi stöðum, t.d. taka eftiréttinn á öðrum stað en aðalréttinn, og jafnvel milli drykk á enn öðrum stað!
Um daginn ákváðum við að prófa þetta. Við fengum óvænt pössun fyrir börnin og ákváðum að nýta tækifærið og gera vel við okkur. Auðvitað allt of seint að panta borð á laugardagskvöldi á veitingastað. Við tókum því prufukeyrslu á þennan títt nefnda draum okkar.
Reykjavík Meat í forrétt
Við byrjuðum á Reykjavík Meat í forrétt og drykk, þessi staður er bara frábær, við höfum borðað á honum áður og var allt gott sem við fengum okkur og þjónustan vinaleg og spot on. Verðlag er líka mjög gott þarna og kokdillarnir veglegir og hrikalega góðir, t.d. er besti Espresso Martini í bænum þarna og Pornstar Martini er líklega það besta sem við höfum fengið í kokdillum í langan tíma. Það sem dró okkur á Meat þetta kvöld var allt þetta og svo frábært verð á kampavínsglasinu en þarna fær maður glasið af Moet á 1800 kr sem er afar sanngjarnt verð fyrir góðar búblur. Við fengum okkur svo nauta carpaccio með þessu en það er alveg fáránlega gott á Meat. Annað sem ég verð að taka fram er klósettið á Reykjavík Meat en við höfum bara aldrei komið inn á eins huggulegt klósett á neinum veitingastað, ofsalega nett, já ég veit, áhugavert, það er svo hreint og snyrtileg að maður gæti vel borðað forréttinn þarna svei mér þá! Þó svo að við hefðum vel getað borðað þarna allt kvöldið þá fengum við jú bara borð af því að við lofuðum að vera bara í forrétt, auk þess langaði okkur að prufa hugmyndina okkar!
Aðalréttur eða réttir á Public House
Eftir forrétt og drykk röltum við því á Public Houseí frábæru veðri. Við komumst að því hversu gott það er að rölta svona um bæinn milli rétta, þannig skapast meira pláss og maður verður allur einhvern veginn léttari á því. Það var líka ofsalega góð stemning í miðborginni þetta kvöld. Það er allt gott á Public en „so not pizza“ er þess virði að nefna sérstaklega en hún er líklega frá öðrum hnetti, við pöntum okkur alltaf þennan rétt þegar við kíkjum á Public og grísa soðbrauðið er í miklu uppáhaldi hjá mér líka. Við fengum okkur 3 litla rétti saman og drykk með. Á þessum stað er sniðugt að prófa marga rétti og deila en það er eiginlega hugmyndafræði staðarins en auðvitað má maður panta sér margar so not pizza t.d. ef maður vill, ég geri það mögulega næst. Svo var kominn tími á meira rölt og millidrykk svona til að láta aðeins sjatna enda of snemmt að henda sér í eftirréttinn.
Við litum við áMikkeller & Friends Reykjavík en þar er alltaf eitthvað gott að fá á krana. Ég fékk mér hrikalega flottan súrbjór frá De Garde en frúin bætti á sig kampavíni af bestu sort. Við tilltum okkur niður á Systir Restaurant sem er glænýr staður en matseðillinn þarna er virkilega spennandi og munum við klárlega taka tékk á honum á næstunni. Notaleg stemning, gott spjall og ljúfir drykkir.
Sjúkur eftirréttur á KOL Restaurant
Við vorum löngu búin að ákveða eftirréttinn, við höfum meira að segja stundum velt því fyrir okkur að fara bara beint í eftirréttinn þarna og svo heim. Jább, ég er að tala um hvítu súkkulaði ostakökuna með ástaraldin kókos sorbet og ítölsku marens (meringue) á Kol Restaurant. Þessi réttur er svo ótrúlegur, bragðlaukarnir eiga ekki séns, þeir steinliggja í sjokki, hér gengur allt upp, áferðin, bæði mjúkt, stökkt, kalt og djúsí og svo er bragðið magnað, hvítt súkkulaði með fersku ástaraldin mauki og svo kókos flögum með léttri rist, og þetta marens, Guð minn góður! Það er eiginlega óvirðing við réttinn að reyna að lýsa honum, maður verður að smakka. Við fengum strax pláss við barinn sem var bara það sem okkur langaði, gaman að sitja þarna í miðjum hamagangnum og fylgjast með barþjónunum hrista og blanda alls konar drykki. Maturinn kom svo þarna fram beint úr eldhúsinu þannig að við sátum þarna umlukin alls konar angan af hinum og þessum réttinum. Reyndar buðu þeir okkur líka borð ef við vildum en þetta var bara fullkomið svona.
Já þetta var alveg magnað kvöld, það besta frá 4 stöðum borgarinnar, notaleg stemning, gott rölt og frábær félagsskapur. Maður kom einhvern veginn svo léttur og notalegur út úr þessu kvöldi, ekki pakksaddur eins og svo oft. Við vorum þó ekki alveg tilbúin í heimferð þarna eftir Kol og röltum því aftur á Reykjavík Meat í loka drykk. Þar var okkur boðið í huggulegt horn og fengum stórbrotið rauðvín Hess Collection 19 Block Mountain Cuvée sem því miður verður ekki fáanlegt lengi því vínviðurinn brann víst allur í brununum miklu í Kaliforníu hérna um árið. Þetta var alveg stórkostlegt vín, venjulega selt í flöskuvís en þar sem þeir voru að lofa þjónunum að smakka máttum við kaupa glös fyrir okkur.
Já við mælum svo sannarlega með þessu, við breyttum í raun miðbænum í eina stóra mathöll og völdum það besta frá þeim bestu.
Pizza og bjór er líkega þekktasta og mest klassíska pörun við bjór sem þekkist og þetta er líka frábært combo ef rétt er að öllu staðið. Auðvitað þarf bjórinn að vera góður og pizzan frábær svo þetta gangi upp allt saman. Í Hveragerði færðu hvor tveggja, áður voru það aparnir í Eden sem trekktu að, svo tivolíið en nú er það sennilega Ölverk. Já Ölverk er brugghús sem býður upp á vandaðan craft bjór af ýmsum toga og svo frábærar eldbakaðar flatbökur af öllu tagi.
Það eru þau skötuhjú Elvar og Laufey sem standa að baki Ölverks í Hveragerði, bæði miklir nautnaseggir og bragðlaukagæðingar. Elvar er þaulreyndur heimabruggari í grunninn og kann vel til verka þegar kemur að bjórnum. Það er nefnilega því miður oft þannig þegar ný brugghús opna hér heima að menn eru bara að þræla upp brugghúsi og hendast af stað í að brugga bara eitthvað sem þeir svo kalla craft bjór til að selja pöpulnum sem fyrst. Þegar menn hins vegar hafa bjór sem ástríðu og kunna til verka verður útkoman allt önnur, nefnilega bjór sem hægt er að njóta.
Ölverk opnaði dyr sínar 2017 og hefur nú komist yfir „the dreadfull 18 months“ og virðist bara dafna vel. Ég heimsótti þau hjón skömmu eftir opnun en þá voru þau ekki farin að brugga á staðnum. Pizzurnar sátu samt lengi í minningunni því þær eru frábærar. Svo hef ég bara ekki komið aftur fyrr en núna í síðustu viku (sjá video hér). Ég einfaldega hafði ekki áttað mig á því að maður þarf ekki að fara þetta á bíl, það gengur strætó frá RVK. Frá heimili mínu í Nolló eru það 35 td mín þannig að ég er fljótari á Ölverk en á Mikkeller & Friends í down town RVK með strætó. Tímasetningin hjá mér var reyndar ekki alveg tilviljun, ég hafði verið að spá lengi að fara en núna vissi ég að Ölverk bruggaði bjór með Fonta Flora frá USA á dögunum og mig grunaði að sá bjór væri tilbúinn. Fonta Flora þekkja þeir sem mættu á hina árlegu bjórhátíð í Ægisgarði í febrúar.
Bjórinn var vissulega tilbúinn, Borkasonheitir hann og er eins lokal og hægt er. Bruggaður með bökuðum pizza botnum úr ofninum á staðnum, ein 60 stk takk fyrir, þetta var sett í meskinkuna ásamt eldiviðarkubbum sem Ölverk notar til að kinda ofninn góða. Í suðuna fór svo slatti af nýklipptum birki (þaðan er nafnið komið, Birkir Borkason úr Ronju) greinum sem vaxa í Hveragerði. Loks er bjórinn gerjaður með saisongeri. Bjórinn hljómar eins og „gimmck“ bjór en útkoman er vægast sagt frábær. Hér erum við með 3% í raun kvass/saison fuison bjór sem gæti vel staðið sem 5% saison. Mildur og þægilegur en með furðu mikinn skrokk sem verður að hengja á allt brauðið í bjórnum. Sætan líklega frá birkinu og svo öööörlítill reykur frá ofninum. Þetta er frábær session bjór og ég vona að Ölverk muni brugga þennan aftur. Húrra Fonta Flora og Ölverk. Hér er líkla sennilega eini kvassbjórinn (google it) á Íslandi þessa stundina? Sjá nánar hér!
Ég smakkaði svo helling af bjór hjá þeim en það eru 6 Ölverk bjórar á krana og tveir gestakranar sem ég lét vera að þessu sinni, ég meina það var þriðjudagur. Ég verð að segja að það kom mér á óvart að ég var ánægður með alla þessa 6 bjóra en hér er passað uppá að hafa úrvalið sem mest, allt frá léttum krispí lageryfir í DIPAog súrbjór. Ég er sökker fyrir NEIPAbjór og var ég mjög ánægður með Disko Djús hjá þeim. Ég hafði reyndar smakkað hann á bjórhátíðinni en hann var mun betri þarna heima hjá sér! Elvar sagði mér að þau höfðu bruggað 86 bjóra frá upphafi en það er stefnan hjá þeim að gera alltaf eitthvað nýtt þó svo að þau haldi sig alltaf við ákveðna stíla að mestu. Elvar sýndi mér svo líka smá gæluverkefni en í einu horninu í brugghúsinu standa tvær eikartunnur en þar er hann að leika sér að þroska bjór. Á annari er villigerjaður saisoná hvítvínstunnu en á hinni er imperial stout á rúg bourbon tunnu, 12% skratti. Þessir voru sturlaðir báðir tveir og lítil fluga suðaði því að mér að þeir færu mögulega á flöskur í mjög mjög takmörkuðu magni. Vei! Sjá nánar hér!
Svo er það maturinn, já það er ýmislegt í boði, bjórsnarl og pizzur. Ég fékk mér pizzu með döðlum, beikon og gráðaosti, þvílíkt hnossgæti en svo kom Elvar með eitthvað sem ég vil meina að sé bara hið fullkomna snarl með bjór. Þýsk pretzel bakað í bænum með heimalagaðri bjórostadýfu sem er alveg geggjuð. Þetta er fáránlega flott með t.d. german pils eða ekstra special bitternum (ESB) sem er á krana hjá þeim en bæði DIPAog Stoutkoma líka æði vel út með þessu. Það eru þýsk hjón sem baka þetta fyrir Ölverk og svo er þetta hitað upp rétt áður en þú færð þetta í gogg. Heitt og mjúkt og dásamlegt. Hér má svo finna uppskrift af ostadýfunni, ég get sagt ykkur að ég er að fara gera þetta um helgina! (Mynd frá mbl.is).
En já, Ölverk er alla vega valmöguleiki ef þig langar í frábærar pizzur og góðan bjór með. Ég hvet ykkur til að skoða leiðarkerfi Strætó og kíkja í heimsókn. Svo er auðvitað hægt að panta pizzu símleiðis á leið úr bænum og pikka hana upp á leið í bústað!
B&M leit við hjá RVK Brewing Co í gær smakk og stuð. Við sendum þetta út í beinni á fésbókinni í gær og er enn hægt að sjá þetta hér. Það var bara kominn tími á að smakka nitrogen bjór af nitro krananum þeirra, reyndar eru þeir með tvo slíka. Já nitro krana, hvað er nú það? Júbb það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag. Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra. Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið. Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn.
Í gær smakkaði ég Co & Co sem er imperial bakkelsis stout sem ég áður fjallað um, stórkostlegur bjór en algjörlega geggjaður af nitro krananum, þetta þarf ég að komast í aftur sem fyrst. Ég smakkaði líka annan og kannski þekktari bjór af nitro krananum þeirra en það er enginn annar en sir Guinnes sem kom bara til landsins í fyrradag beint frá heimahögum í Írlandi. Ég er venjulega ekki sérlega hrifinn af Guinnes en þegar hann er serveraður svona er hann dásamlegur, come and getit, ekki viss um að sé til meira en kútur af þessu.
„fyrsti cask bjórinn á Íslandi?“
En svo er það handpumpaði tunnubjórinn eða cask bjórinn, já þetta er eitthvað sem fólk hefur kannski lítið verið að spá í hér heima enda hefur þetta form á bjór ekki verið til á Íslandi þar til nú! Já í gær voru menn nefnilega á vígja fyrsta (svo vitað sé) cask pumpuna á klakanum. Þeir voru með heldur óhefðbundinn bjór undir eða svo kallaðan classic pretzel saison að nafni Is This It? sem er bjórinn sem RVK Brewing bruggaði með New York brugghúsunum sem komu hingað til lands í febrúar fyrir bjórhátíðina árlegu. Venja er að cask bjór sé stout, pale ale, brown ale eða álíka en ekki kannski saison þó svo að allt sé leyfilegt í þessu. Mér heyrist á Valla að menn muni leika sér áfram með þetta og setja alltaf eitthvað skemmtilegt á caskið. En hvað er þá cask bjór? Ég lét Valla útskýra þetta í gær, Valli og Cask ale! Í stuttu máli, handpumpaður bjór sem er ekki undir þrýstingi í tunnunni og dálítið flatur en dásamelga mjúkur og notalegur. Ég hef aldrei verið spenntur fyrir þessum stíl til þessa en þetta er skemmtileg tilbreyting og ég held að ég sé loksins orðinn nægilega þroskaður fyrir þetta, mörg ár síðan ég smakkaði þetta síðast. Þetta er alla vega möguleiki og ég hvet ykkur til að koma á RVK Brewing og smakka!
En það var heilmikil stemning í gær, staðurinn fullur af fólki og góðum bjór og svo stóð Siggi í brúnni og þeytti skífur þar til DJ Katla mætti til leiks með enn meira stuð. En ég smakkaði fleiri bjóra í gær, ekki bara nitro og caskið, t.d. var Killer Bunny helvíti magnaður, samstarf við Bonn, titlaður imperial ESBen fyrir mér er þetta DIPA. Svo hef ég verið að tala dálítið um lagerinn undanfarið en Valli lét mig fá helvíti skemmtilegan 4.6% Yuzu hrísgrjóna lager sem hann kallar Arigato. Fólk hefur kannski smakkað hann á nýafstaðinni bjórhátíð en hann var þar á dælu alla dagana. Þetta er léttur og ofsanelga þægilegur lager með ögn sítrónublæ. Frábær viðbót í lagerflóruna. Takk fyrir mig Siggi og Valli!
Allt tekur enda, líka hin árlega íslenska bjórhátíð, það er bara þannig. Síðasti dagurinn var frábær, undirritaður var bara nokkuð heill heilsu sem er plús á svona hátíð. Það var ekki eins troðið og hina dagana, líklega af því að einhverjir láu heima með sárt ennið eftir gærdaginn?
‘Eg ákvað að taka bara einn stíl fyrir síðasta kvöldið, IPAen það varð svo sem úr að ég fór í einn og einn súrbjórinnog auðvitað imperial stout líka til að enda gott kvöld! Malbygg átti dálítið sviðið um stund þegar þeir hófu legendary bottle pour af Brewhahaá slaginu kl 18:00. Það hafði meira að segja myndast smá röð við básinn þeirra 10 mín í. Auðvitað varð maður að taka einn imperial stout þá.
Tired Hands héldu svo áfram að gleðja undirritaðan með frábærum IPAog verulega vönduðum Saison. DIPAinn frá KCBC var flottur en flottastur IPA bjóra var Orange Crush frá Finback, verulega næs NEIPA með blóðappelsínum og mandarínu, menn voru greinilega sammála því hann kláraðist fljótt. Aslin var reyndar með álíka magnaðan DIPA og svo var Imperial Stoutinn þeirra svakalegur, Mexican Hot Chocolate og líklega sá besti í sínum flokki þetta kvöld. Orðið á götunni var dálítið að Aslin hefði neglt þessa hátíð með frábærum bjór alla dagana. Other Half voru svo líka með ofsalega ljúfan NEIPA en kölschinnþeirra var skrítinn, með ananas ofl og minnti bara á frostpinna úr fortíðinni, ekki gott. Menn voru margir ósammála mér hér.
Lamplighter frá Boston voru líka með solid lineup alla hátíðina, ekkert mindblowing en bara allt gott en í gær voru þeir með alveg magnaðan belgískan quadrupelþroskaður á púrtvís tunnum, klikkað stöff. Ég dundaði mér aðeins á Omnom básnum í gær en þeir voru með svakalegt súkkulaði, 100% súkkulaði. það var vægast sagt svakalegt og alls ekki allra, beiskt eins og ég veit ekki hvað. Þetta súkkulaði kom vel út með quadrupelnum frá Lamplighter.
Íslensku brugghúsin voru á sínum stað, sumt alveg ágætt, annað skrítið og jafnvel vont en sumt ansi gott. T.d. smakkaði ég mjög góðan bláberja súrbjór frá Brothers Brewing, ég er oftast ekkert spenntur fyrir ketilsýrðum bjór en þessi vara mjög nettur og myndi sóma sér vel í dósum eða flöskum. DIPAinn frá Ölverk var líka dálítið spes en gekk alveg upp, mjög þurr með saison geri, um að gera að prófa hann ef þú átt leið framhjá Hveragerði. Smiðjan var svo með NEIPAsem ég verð að segja að var bara alls ekkert galinn, ég myndi alveg fá mér hann aftur, frábært hvað frumraunir þeirra á stóru græjunum komu fínt út á þessari hátíð
Það var svo eitt sem ég gleymdi að nefna og ég vona að menn hafi ekki farið illa út úr því en alla hátíðardagana var hægt að rölta upp á eins konar svalir innanhúss og fá sér húðflúr, spurning hvort einhverjiur hafi vaknað upp með nýtt og skemmtilegt húðflúr sem þeir mundu ekki eftir að hafa fengið sár? Skemmtilegt.
En já nú er þetta bara búið, heilt ár í næstu gleði en lífið heldur áfram held ég, fullt af bjór framundan frá okkar frábæru íslensku brugghúsum og líka spennandi nano/Lamplighter collab sem ég fjalla um síðar.
B&M mun svo taka alla bjórhátíðina saman á næstu dögum. Skál í bili!
You must be logged in to post a comment.