Það er dálítið fast í okkur að þegar við gerum okkur glaðan dag og förum út að borða að þá þurfum við að verja öllu kvöldinu á einum og sama staðnum. Við veljum okkur veitingastað sem okkur líst vel á og erum þar þangað til við höfum borgað reikninginn og höldum heim á leið. Oft er það samt þannig að við erum ekkert endilega ánægð með alla réttina sem við fáum, forrétturinn er kannski fínn, aðalrétturinn geggjaður en eftirrétturinn bara lala. Oft er maturinn frábær en drykkirnir ekkert spennandi eða öfugt. Við Sigrún höfum stundum talað um hvað væri sniðugt að prófa það besta á mismunandi stöðum, t.d. taka eftiréttinn á öðrum stað en aðalréttinn, og jafnvel milli drykk á enn öðrum stað!
Um daginn ákváðum við að prófa þetta. Við fengum óvænt pössun fyrir börnin og ákváðum að nýta tækifærið og gera vel við okkur. Auðvitað allt of seint að panta borð á laugardagskvöldi á veitingastað. Við tókum því prufukeyrslu á þennan títt nefnda draum okkar.

Við byrjuðum á Reykjavík Meat í forrétt og drykk, þessi staður er bara frábær, við höfum borðað á honum áður og var allt gott sem við fengum okkur og þjónustan vinaleg og spot on. Verðlag er líka mjög gott þarna og kokdillarnir veglegir og hrikalega góðir, t.d. er besti Espresso Martini í bænum þarna og Pornstar Martini er líklega það besta sem við höfum fengið í kokdillum í langan tíma. Það sem dró okkur á Meat þetta kvöld var allt þetta og svo frábært verð á kampavínsglasinu en þarna fær maður glasið af Moet á 1800 kr sem er afar sanngjarnt verð fyrir góðar búblur. Við fengum okkur svo nauta carpaccio með þessu en það er alveg fáránlega gott á Meat. Annað sem ég verð að taka fram er klósettið á Reykjavík Meat en við höfum bara aldrei komið inn á eins huggulegt klósett á neinum veitingastað, ofsalega nett, já ég veit, áhugavert, það er svo hreint og snyrtileg að maður gæti vel borðað forréttinn þarna svei mér þá! Þó svo að við hefðum vel getað borðað þarna allt kvöldið þá fengum við jú bara borð af því að við lofuðum að vera bara í forrétt, auk þess langaði okkur að prufa hugmyndina okkar!

Eftir forrétt og drykk röltum við því á Public House í frábæru veðri. Við komumst að því hversu gott það er að rölta svona um bæinn milli rétta, þannig skapast meira pláss og maður verður allur einhvern veginn léttari á því. Það var líka ofsalega góð stemning í miðborginni þetta kvöld. Það er allt gott á Public en „so not pizza“ er þess virði að nefna sérstaklega en hún er líklega frá öðrum hnetti, við pöntum okkur alltaf þennan rétt þegar við kíkjum á Public og grísa soðbrauðið er í miklu uppáhaldi hjá mér líka. Við fengum okkur 3 litla rétti saman og drykk með. Á þessum stað er sniðugt að prófa marga rétti og deila en það er eiginlega hugmyndafræði staðarins en auðvitað má maður panta sér margar so not pizza t.d. ef maður vill, ég geri það mögulega næst. Svo var kominn tími á meira rölt og millidrykk svona til að láta aðeins sjatna enda of snemmt að henda sér í eftirréttinn.
Við litum við á Mikkeller & Friends Reykjavík en þar er alltaf eitthvað gott að fá á krana. Ég fékk mér hrikalega flottan súrbjór frá De Garde en frúin bætti á sig kampavíni af bestu sort. Við tilltum okkur niður á Systir Restaurant sem er glænýr staður en matseðillinn þarna er virkilega spennandi og munum við klárlega taka tékk á honum á næstunni. Notaleg stemning, gott spjall og ljúfir drykkir.

Við vorum löngu búin að ákveða eftirréttinn, við höfum meira að segja stundum velt því fyrir okkur að fara bara beint í eftirréttinn þarna og svo heim. Jább, ég er að tala um hvítu súkkulaði ostakökuna með ástaraldin kókos sorbet og ítölsku marens (meringue) á Kol Restaurant. Þessi réttur er svo ótrúlegur, bragðlaukarnir eiga ekki séns, þeir steinliggja í sjokki, hér gengur allt upp, áferðin, bæði mjúkt, stökkt, kalt og djúsí og svo er bragðið magnað, hvítt súkkulaði með fersku ástaraldin mauki og svo kókos flögum með léttri rist, og þetta marens, Guð minn góður! Það er eiginlega óvirðing við réttinn að reyna að lýsa honum, maður verður að smakka. Við fengum strax pláss við barinn sem var bara það sem okkur langaði, gaman að sitja þarna í miðjum hamagangnum og fylgjast með barþjónunum hrista og blanda alls konar drykki. Maturinn kom svo þarna fram beint úr eldhúsinu þannig að við sátum þarna umlukin alls konar angan af hinum og þessum réttinum. Reyndar buðu þeir okkur líka borð ef við vildum en þetta var bara fullkomið svona.
Já þetta var alveg magnað kvöld, það besta frá 4 stöðum borgarinnar, notaleg stemning, gott rölt og frábær félagsskapur. Maður kom einhvern veginn svo léttur og notalegur út úr þessu kvöldi, ekki pakksaddur eins og svo oft. Við vorum þó ekki alveg tilbúin í heimferð þarna eftir Kol og röltum því aftur á Reykjavík Meat í loka drykk. Þar var okkur boðið í huggulegt horn og fengum stórbrotið rauðvín Hess Collection 19 Block Mountain Cuvée sem því miður verður ekki fáanlegt lengi því vínviðurinn brann víst allur í brununum miklu í Kaliforníu hérna um árið. Þetta var alveg stórkostlegt vín, venjulega selt í flöskuvís en þar sem þeir voru að lofa þjónunum að smakka máttum við kaupa glös fyrir okkur.
Já við mælum svo sannarlega með þessu, við breyttum í raun miðbænum í eina stóra mathöll og völdum það besta frá þeim bestu.