Nú eru komnar þrjár „mathallir“ á höfuðborgarsvæðið þegar þetta er ritað (maí 2019), sú nýjasta er í Höfða. Vissulega erum við hér komin heldur langt frá miðbænum en ætlunin er líklega að höfða til vinnandi fólks á virkum dögum en nóg er af fyrirtækjum á svæðinu með svanga starfsmenn í hádeginu og svo eru íbúðarhverfi allt í kring. Það er líka bar á staðnum sem rekinn er af Beljanda og virðist stefnan að hafa barstemningu þarna um helgar.
Við hjá B&M erum mjög hrifin af þessari hugmyndafræði, Mathöllin á Hlemmi hefur t.d. alveg slegið í gegn hjá okkur og er klárlega sú besta af þeim þremur sem nú eru starfandi í borginni en sú þriðja er á Granda. Við munum líklega fjalla nánar um Hlemm síðar.
Það er dálítið vandamál með mathöllina á Höfða að það er ansi erfitt að fá bílastæði þarna á háannatímum en flestir koma jú á bíl þar sem þetta er ekki beint miðsvæðis. Hitt sem truflar okkur hér á B&M talsvert er drykkja úrvalið en hjá okkur gengur þetta dálítið út á að para mat og drykk, oftast bjór en ekki síst freyðivín. Freyðivín er nefnilega sá drykkur sem nánast gengur með öllum mat, við höfum amk enn ekki lent á lélegri pörun í þeim efnum en það er bara ekki hægt að fá freyðivín í mathöllinni. Hipstur er sýnist okkur eini staðurinn sem býður uppá búblur en það er bara prosecco í heilum flöskum, ekki glasavís. Mögulega er þetta bara eitthvað sem menn hafa ekki spáð í og munu bæta úr. Gott cava er t.d. alveg magnað með flestu sem er í boði í mathöllinni og ég tala nú ekki um kampavín ef maður vill gera ekstra vel við sig. Það skal þó tekið fram að Hipstur hefur þegar brugðist við og er að skoða þetta eitthvað þannig að hver veit hvað gerist á næstunni?
En fyrst ég er kominn inn á Hipstur þá skulum við klára þá umræðu en að okkar mati er þetta sá staður í Mathöllinni sem vert er að eltast við. Þeir eru með frábæra og dálítið öðruvísi rétti, t.d. brauðrétti, rækjubrauð með helling af sallati, dill, hvítlauk, kóríander ofl góðgæti ásamt haug af stórum safaríkum rækjum, svo er það sveppabrauðið þar sem sveppir og hvítlaukur eru í aðlhlutverki en líka alls konar grænt með ss radísur (sem eru reyndar rauðar) og grænkál. Allt þetta liggur svo á tveim sneiðum af ristuðu súrdeigsbrauði sem er löðrandi í ljúffengri sósu. Þetta er í raun réttur fyrir tvo hvor um sig, þú getur tekið svona brauð einn en þá ertu líka alveg farinn.
Súpan hjá þeim er frábær líka, þykk og bragðmikil fiskisúpa og svo eru þeir með breytilegan rétt dagsins sem virðist alltaf vera sjávarfang í grunninn. B&M hefur ekki náð að smakka meira af matseðlinum en við erum að vinna í því, það jú svo stutt síðan þetta opnaði.
Með þessu er hægt að fá bjór, reyndar bara Carlsberg en það má grípa bjór á öðrum stöðum eins og t.d. Brio af krana bara á næsta stað sem er 2 m frá. Góður pilsner er frábær með þessu hjá þeim því kolsýran og létt humalbeiskjan klippir vel í gegnum djúsí sósurnar og hreinsar vel palletuna og opnar allt upp. Hinn fullkoni bjór með Hipstur matseðlinum væri hins vegar saison því slíkur bjór er frábær með svepparéttum og sjávarfangi. Það eru létt krydd í saison frá gerinu og ögn sýra líka sem er svo góð með fiskréttum. Humlar og beiskja er afar látlaus og svo er einhvern veginn alltaf þessi jörð í saison sem tengir svo afskaplega vel við jarðartóna í sveppum, radísum og öðru rótargrænmeti. Saison og súpur, sér í lagi fiskisúpur eru eins og sniðið fyrir hvort annað, algjörlega fullkomið.
Það er því miður ekki hægt að fá neinn saison á neinum stað í Mathöllinni, það væri helst að semja við Beljanda að hafa einn saison frá einhverjum á krana. Ja eða bara Leif frá Borg í gleri, það væri bara vel þegið!
Eins og fyrr segir eru þeir svo að skoða búblumálin á Hipstur en maturinn þeirra hrópar á þurrt cava eða kampavín. Prosecco er nefnilega oftast helst til sætt fyrir okkar smekk þó það sé þó til mjög gott. Vandinn er að þeir selja bara prosecco í heilum flöskum eins og staðan er í dag. Sjáum hvað setur.
Þetta er í raun stóra vandamálið með Mathöllina á Höfða, það er ekki hægt að fá neinar góðar búblur á neinum stað sem er stórfurðulegt. Vonum að menn muni átta sig og laga þetta. Hitt sem okkur finnst vanta eru náttúrúvínin en það er líklega vegna þess að við elskum þessi vín og erum vön að komast í góð náttúrúvín á Skál í Mathöllinni á Hlemmi. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að allt sé frábært en það væri alla vega stór plús að geta komist í náttúrúvín á Höfða.
Mig langar líka að nefna hér til sögunnar annan stað sem við elskum hér á B&M en það er The Gastro Truck sem selur einfaldlega bestu kjúklingaborgarana í bænum. Heimalagaða sósan þeirra er frábær með stökkum djúpsteikta kjúklingnum og svo er ljómandi ferskt og frískandi heimalagað hrásallat á kantinum. Við kynntumst The Gastro Truck fyrst þegar hann var á flakki um borgina og maður þurfti að fletta upp hvar hann væri hverju sinni því það var vel þess virði að aka langar vegalengdir í hádeginu til að næla sér í borgara. Svo tóku þeir sér bólfestu í Mathöllinni á Granda og nú einnig í Höfða sem einfaldar allt saman. Það góða við það að hafa food truck í mathöll er að þá er hægt að para bjór með borgaranum. Fyrir þá sem vilja það og eru ekki á bíl auðvitað!
