Hunangs, lime sriracha kjúklingaspjót með brakandi lager bjór

Það er komið sumar og þá vill maður dusta rykið af grillinu og græja eitthvað gott. Í dag er brakandi blíða, pallurinn klár og konan með óskir um eitthvað gott og sumarlegt. Ég var alveg lost en langaði að gera eitthvað einfalt en samt eitthvað sem virkaði eins og ég hafði lagt mikla vinnu í það. Ég datt niður á þessa uppskrift af netinu. Ég man ekkert hvaðan þetta kom. Útkoman var svakalega góð og ég held að hér sé kominn kjúklingaréttur sumarsins en ég mun pottþétt bjóða vinum og vanda í þetta í sumar.

Það sem þarf fyrir ca 5

  • tveir bakkar af kjúklingarlærum, úrbeinuðum
  • 6 mtsk soya sósa
  • 1/2 bolli hunang
  • 2 mtsk ólífuolía
  • 2 tsk rifinn límónubörkur
  • 6 mtsk safi úr límónum
  • 8 hvítlauskgeirar, gróft skornir
  • slatti af ferskri engiferrót. Skræld og skorin niður í kubba. ca 65g
  • 3 mtsk sriracha sósa
  • 1,5 tsk salt
  • ferskur kóríander, slatti, til að skreyta
  • límónu sneiðar til að skreyta með og kreysta yfir

Kóríander, límónu og basilicu sósa

Þessi er geggjuð með, sjá nánar hér!

Aðferð

Hreinsið kjúklinginn, klippið burt hvítu ljótu fituna. Skerið í minni bita sem ykkur finnst hæfilegt á spjótin. Leggið til hliðar.

Setjið soya sósu, hunang, ólífuolíu, rifinn límónubörk, límónusafa, hvítlauk, sriracha engiferrót og salt í „blender“ og maukið í drasl eða þar til þið eruð með alveg mjúka og fína blöndu. Takið frá ca dl í könnu. Þetta hitið þið upp alveg í lokin og notið sem sósu. Leggið kjúklinginn í þessa marineringu og inn í ísskáp helst í 5 tíma eða lengur.

Leggið grillspjót í bleyti. Hitið svo grillið, ekki hafa það of heitt samt. Þið finnið útúr þessu. Þræðið loks bitunum uppá grillspjótin, gott er að lauma rauðlauk með, sveppum og pariku inn á milli. Skellið þessu svo á grillið. Fylgist með, snúið spjótunum reglulega til að fá jafna áferð.

Gott er að hafa ferskt salat með, t.d. klettasalat og spínat með bláberjum, jarðaberjum, furuhnetum og fetaost, og auðvitað góðri ólífuolíu.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, raðið þið spjótunum á fallegan bakka eða brauðbretti, skreytið með kóríander yfir og heilum kóríander greinum til hliðar. Kreistið límónusafa yfir kjúklingaspjótin. Skerið niður nokkra límónubáta og skreytið með þeim.

Hitið afganginn af marineringunni sem þið tókuð til hliðar og hellið yfir kjötið.

Pörunin

Hér gæti maður farið í flottan basic west coast IPA með notalegum sítruskeim frá humlunum og beiskju sem dálítið magna upp kryddin í réttinum en elegant og heiðarlegur ljós lager kemur líka svakalega vel út. Lagerinn er nógu látlaus til að taka ekki yfir en samt með karakter og þrótt til að halda velli. Ofsalega flott pörun.