Heimagerðir Luisiana Kjúklingastrimlar að hætti Vegamóta (Bastard Brew & Food)

Bastard Brew & Food opnaði um daginn og ég fór aðeins á flug aftur í tímann.  Luisiana kjúklingastrimlarnir á Vegamótum…ohh ef þið hafið smakkað þá þá vitið þið um  hvað ég er að tala.  Vanabindandi andskoti!!! Ég skil ekki afhverju ég hef ekki enn reynt að apa eftir þessu fyrr. Ég ákvað loksins á dögunum að reyna að gera þetta sjálfur því maður kemst jú ekki oft úr húsi með þrjú börn á öllum aldri og allt það.   Frábært að geta bara gert þetta heima í eldhúsinu.  Ég held að árangurinn hafi verið ansi góður.  Sonurinn eldri sem er kjúklinga fíkill og mjög dómharður á slíka rétti var amk í 7. himni.  Ég tek því sem góð meðmæli.  Ég verð að taka það fram að ég googlaði Luisiana Strimlar og lenti á Töddi Brasar.  Þannig að eftirfarandi er byggt á blogginu hans en hann tekur ekki fram nein hlutföll og svo breytti ég BBQ sósunni dálítið.  Ég þekki bloggið hans annars ekki neitt!

Innkaupalistinn (fyrir ca 4):

Fyrir gráðostasósuna.

1 dós sýrður rjómi
Heill blámygluostur
4-5 matskeiðar majones
2-3 hvítlauksgeirar
Salt og pipar eftir smekk

Fyrir BBQ sósuna.

Stubbs Smokey Mesquite BBQ sósa, heil krukka, þessi er svo mögnuð.
Ca 2-3 tsk Sriracha sósa
Maple sýróp eftir smekk, ég slumpaði ca 3 tsk í þetta.

4-5 Kjúklingabringur
2 egg
Brauðrasp
Mc Cormick kryddblanda fyrir Buffalo kjúkling

Humlaður hveitibjór með ss Sólveig frá Borg.  Margt annað gengur líka en þetta er bara svo fullkomin pörun.

Aðferð.
Þetta er með þeim einfaldari.  Hér er aðal atriðið að njóta og para rétt.  Snyrtið kjúklingabringurnar og skerið í grófa strimla, í raun bara eftir smekk.  Setjið eggin í skál og pískið þar til blandast.  Veltið kjúklingastrimlum uppúr kryddblöndunni og drekkið svo í eggjunum.  Látið renna af og veltið svo uppúr raspinu og setjið á ofngrind.  Raðið öllum strimlunum á grindina og svo skellið því þessu í ofn á 200 gráðum. Munið að snúa strimlunum miðja vegu svo þeir verði stökkir á öllum hliðum.  Ég man ekkert hvað ég hafði þetta lengi inni, ég tók bara prufur á strimlana þar til þeir voru tilbúnir.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum græjið þið sósurnar.  Hellið allri BBQ sósunni í skál og blandið svo Sriracha við og sýrópinu.  Dálítið eftir smekk. Þetta á samt að rífa aðeins í.
Setjið svo allt sem fer í gráðostasósuna í „blender“ og maukið vel.  Passið að salta ekki of mikið því osturinn er ansi saltur.

Ég mæli með ofnbökuðum kartöflum eða frönskum með. Ég prófaði tagliatelle pasta hins vegar sem kom ágætlega út.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn drekkið þið honum í BBQ sósunni og setjið á disk ásamt ostasósu og meðlæti.

Pörunin.
Sólveig er þægilegur humlaður hveitibjór frá Borg.  Þetta er ekki nýr bjór en kemur nú með aðeins breyttum áherslum.  Flottur og þægilegur sumarbjór en að mínu mati er sumar  eini tíminn fyrir hveitibjór.  Sólveig er hins vegar dálítið beiskari og líflegri en hveitibjórar eru hefðbundið.  Þessi bjór kemur frábærlega vel út með Luisiana kjúklingnum.  Ég mæli með því að menn prófi þetta heima eða rölti niður á Bastard Brew & Food og kaupi strimla og Sólveigu á krana (var til síðast þegar ég vissi) ef eldamennska vefst fyrir.

BBQ sósan er nokkuð sæt í grunninn og klístruð en svo kemur chili bruninn fram í bakgrunni frá sriracha sósunni og tvinnar allt saman.  Í heildina er hver biti nokkuð sterkur á tungu.   Gráðostasósan er sölt og feit með áberandi hvítlaukskeim.  Þegar BBQ sósan mætir svo gráðostasósunni þá gerist eitthvað í munninum sem ekki er hægt að lýsa, maður verður bara að smakka. Humlaður hveitibjór ss Sólveig er fullkominn með þessu öllu saman, hér erum við með milda áferð frá hveitinu sem pakkar inn brunanum dálítið á meðan beiskjan frá humlunum rífur aðeins upp hitann en einnig tengja humlar vel við saltið og magna það upp.  Kolsýran og beiskjan vinna svo vel saman við að kljúfa rjómakenndu þekjuna sem myndast í gómi frá BBQ sósunnig og gráðostasósunni og létta verulega á þessum rétti.   Bjórinn tengir einhvern veginn allt þetta saman, salt, beiskt og chili hita en karamellukeimurinn frá maltinu í bjórnum elskar líka klístraðar BBQ sósur.  Þetta er virkilega flott pörun.  Ég eiginlega heimta að heyra ykkar álit, þetta er með betri pörunum í langan tíma.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s