Paella með kjúkling og pylsu

Paella er skemmtilegur og frábær réttur sem gleður alla. Það er gaman að bera á borð risavaxna pönnu fulla af kræsingum. Það er líka gaman að elda paella, allt á einni pönnu. Paella er frá Spáni, nánar tiltekið frá Valencia og í raun má ekki kalla allt paella, það er víst ekki alveg sama hvað maður setur á pönnuna. En mér er alveg sama hvað maður kallar þennan rétt, bara að þetta sé gott.
Segja má að paella sé spænska útgafan af risotto, eða alla vega þannig hugsa ég það.

Það er smá kúnst að elda “grjónin to perfection” við viljum ekki enda með grjónagraut, grjónin þurfa að vera ögn stökk, al dente, en alls ekki of hörð. Svo þarf maður að ná smá bruna eða karamelluáferð í botninn, socarrat kalla Spánverjar það. Þetta er algjört lykilatriði því socorrat gefur ekki bara áferð heldur líka ákveðið bragð. Paella á þannig að vera lagskipt, fullkomin grjón efst og svo þessi karamelluáferð neðst, það má því ALDREI hræra í paella nema alveg í blá byrjun.

Aðferð

Ég er langt frá þvi að vera sérfróður í paella en ég hef gert þetta nokkrum sinnum og þetta er farið að verða ansi gott hjá mér. Hér koma basic leiðbeiningar eins og ég verið að gera þetta. Neðar er svo uppskriftin af þeirri sem við vorum með síðast. Gott að allt sé klárt, grænmeti skorið niður, protein skorið í hæfilega bita og krydd sé tilbúið blandað saman áður en byrjar er að elda því stundum þarf hraðar hendur þegar pannan er farin að hitna.

  1. Fyrst er að útbúa soðið, það er frábært að gera það frá grunni með grænmetisafgöngum en það má alveg nota kjúklingakraft og blanda í vatn. Við höfum gert bæði og höfum svo sem ekki orðið vör við mikinn mun. Soðið þarf að vera heitt og því gott að láta standa við pönnuna en þannig helst það heitt frá hitanum unand pönnunni.
  2. Kveikjið undir pönnunni, ekki kannski alveg á mesta hita, oft er hægt að hafa lægri hita í jöðrunum á pönnunni en það er betra. Setjið olíu yfir alla pönnuna.
  3. Skerið niður grænmetið, t.d. Papríku, lauk, hvítlauk, sveppi ofl sem þið viljið og mýkið á miðri pönnu. Passa að brenna ekki hvítlaukinn. Færið svo grænmetið út í kantana
  4. Næst er það próteinið, brúnið það á miðri pönnu. Það má alveg stelast til að krydda smá hér líka. Ekki fullelda próteinið samt. Færið svo út í kant með grænmetinu
  5. Setjið svo kryddblöndu á miðja pönnuna og steikið aðeins, ca 1 mínúta eða svo.
  6. Bætið svo tómatpúrru saman við kryddin (ef þið eruð með slíkt) og blandið svo öllu saman á pönnunni. Færið svo aftur út í kant.
  7. Grjónin koma næst, steikið þau stutt á miðri pönnu, 1-2 mín og blandið svo saman við allt sem er á pönnunni. Hellið vel af soðinu yfir og blandið vel saman og dreifið svo jafnt úr öllu yfir alla pönnuna. Hér er mikilvægt að pannan halli ekki þannig að soðið myndi polla.
  8. Svo er bara að láta malla, þegar suðan kemur upp þá lækkið þið hitann niður í lægsta hita og látið malla. ALLS EKKI hræra neitt í grjónunum eftir þetta. Fylgist með, bætið soði við þegar vökvi er nánast horfinn inn í grjónin.
  9. Nú er það socarrat skrefið. Þegar grjónin eru tilbúin, sem sagt orðin mjúk með smá biti í samt þá hækkið þið undir og látið krauma í amk 2-3 mínútu á hæsta hita. Mögulega lengur en þið lærið inn á ykkar pönnu. Takið svo af hitanum og látið standa í 3-5 mínútúr áður en borið er fram. Hér viljum við aðeins brenna grjónin neðst þannig að þau verði karamelluð og stökk.
Socarrat

Svo er bara að prófa sig áfram með hráefni. Þessi hér er afar vinsæl á okkar heimili. Paella með kjúkling og chorizo pylsu

  • 1 kg kjúklingalærkjöt, úrbeinað
  • 3-4 hvítlauskrif pressaðir
  • Ólífuolía, ca 2 dl
  • 1 papríka smátt skorin
  • 2 mtsk paprikukrydd
  • 1 mtsk reykt papríka
  • 2 mtsk rósmarínkrydd
  • 1 askja sveppir skornir gróft
  • 1 sterk pylsa, skorin í bita, ekki sneiðar.
  • 1 dl tómatpúrra, eða aðeins meira
  • 500 g paellugrjón
  • Kjúklingasoð, ég nota alltaf alla 2 lítrana og jafnvel meira
  • 1-2 Lime, skorið í báta, til að kreista yfir hver fyrir sig

Hér er gott að steikja fyrst pylsuna, þá nær maður úr henni olíunni og bragðinu sem svo kryddar kjúklinginn þegar þið steikið hann.