Þessi réttur fékk svo mikla athygli á instagramminu okkar að ég ákvað að henda hér inn uppskrift. Stökkar kartöflur steikar í andafitu, fullkomið meðlæti með alls konar mat. Ég fékk þessa uppskrift hjá vini mínum Lækninum í Eldhúsinu en ég er svo sem ekki viss um að hún sé alveg eins því þetta var bara svona munnleg uppskrift frá honum í gegnum konuna mína og til mín. En það er allt í lagi, þetta er bara geggjað og kom mér í raun óvart hversu vel þetta kom út, ef einhver hefði fært mér þetta hefði ég veðjað á að þetta væru djúpsteiktar kartöflur.
Það sem þarf í þetta:
- Kartöflur, skrældar
- smá salt og pipar
- andafita (t.d. sem umlykur confit de canard í dós)
- hveiti
Aðferðin
Þetta er einfalt, svo einfalt reyndar að mig langar næstum til að semja eitthvað bull til að láta þetta hljóma flókið. En ég geri það ekki samt, við erum saman í þessu. Ég var með önd sem ég kaupi í dós, Confit de Canard, en þessi önd er alveg fáránlega góð. Andalærin eru umlukin andafitu í dósinni sem ég notaði að hluta til í þessar kartöflur en restina geymi ég t.d. þar til næst bara.
Sem sagt, skrælið kartöflur, sjóðið svo í vatni með smá salti í ca 7 mín. Ég gleymdi mér auðvitað og tók ekki tíman en þetta á ekki sjóða þar til þær eru tilbúnar.
Setjið svo slatta af hveiti í poka ásamt salti og pipar. Bara svona eftir höfðinu. Setjið svo kartöflurnar í pokann og hristið þannig að hveitið hjúpi kartöflurnar.
Setjið andafitu á pönnu og hitið upp, steikið svo kartöflurnar á dálítið háum hita. Við erum ekkert að eltast við að brúna þær en gott að velta kartöflunum aðeins um þannig að það komi aðeins litur á þær og fitan hjúpi allar hliðar (auðvitað eru í raun ekki hliðar á kartöflum, þær eru hnettir en þið vitið hvað ég á við).
Hitið bakarofn í 180 gráður. Svo setjið þið pönnuna í ofninn ef pannan þolir það, annars er það bara að henda þessu í eldfast mót en látið fituna á pönnunni fylgja með. Bakið svo í ca 50 mínotur. Tékkið bara á kartöflunum, þegar þær eru orðnar stökkar og vel litaðar þá eru þær klárar.
Gangi ykkur vel!