Egg Benedicts á belgískri vöfflu með hægeldaðri önd og karamellu eplum

Það er gaman að gera hleypt egg þó það sé dálítið dútl. Það er bara einhvern veginn skemmtilegra og meira grand að borða hleypt egg vs linsoðin eða spæld egg. Egg Benedicts er klassískur réttur þar sem hleyptu eggin fá að njóta sín.

Um daginn prófaði ég brunch á Apotekinu en á laugardögum og sunnudögum bjóða þeir uppá alls konar geggjaðar útgáfur af Egg Benedicts, ég prófaði humarinn sem ég verð að mæla með og svo var það rifna öndin sem var geggjuð. Eins og svo oft áður þá fær maður hugmyndir þegar maður fer út að borða og svo prófar maður að apa eftir í eldhúsinu heima. Við ákvæðum að prófa öndina og viti menn, við negldum þetta. Já svakalega gott þó ég segi sjálfur frá.

Hérna er þetta eins og við gerðum þetta

Það sem þarf fyrir fjóra:

  • Confit de Canard í dós (fæst í Bónus t.d.)
  • Teryaki sósa, 3 mtsk
  • Hoisin sósa, ca 2 mtsk
  • 2 græn epli skorið í báta
  • 3 eggjarauður í Hollandaise sósu
  • 8 egg, hleypt (poached)
  • sykur og smjör fyrir karamlellu
  • Vöffludeig, heimagert eða tilbúið
  • Kóríander til skrauts

Aðferðin:

Takið andalærin úr fitunni, endilega geymið fituna t.d. fyrir stökkar kartöflur eða álíka. Setjið öndina í eldfast mót og látið malla bara. Við erum í raun bara að hita þetta vel upp.

Fínt að græja eggin, sjá aðferð hér. Geymið svo eggin í ísbaði þar til rétt áður en þið berið fram. Þá hitið þið þau upp í sjóðandi vatni í 15 sek.

Fínt líka að græja eplin, gerið karamellu eftir þeirri aðferð sem þið kjósið og látið eplin krauma í þessu þar til þau eru orðin mjúk og hálf maukuð. Leggið til hliðar.

Takið öndina svo úr ofninum og rífið niður eins mikið og þið getið. Blandið teryiaki og hoisin sósu vel saman við, smakkið þetta bara til. Þið hafið þetta eins og þið viljið. Ég notaði smá salt til að rífa aðeins upp bragðið.

Svo er það bara að henda sér í hollandais sósuna og baka vöfflurnar.

Setjið svo heitar vöfflurnar á disk, eina á hvern disk. Rifna öndin fer svo ofan á. Hitið upp eggin í 15 sekúndur, þerrið með þurrku og raðið ofan á öndina. Ef hollandais sósan er farin að þykkna má hræra smá heitu vatni samanvið, ausið svo sósunni yfir eggin, og ekki gleyma karamellu eplunum. Loks skreytið þið með ferskum kóríander og ég reyndar held að pæklaður rauðlaukur væri geggjaður með þessu. Geri það næst. Svo er bara að njóta!

Hleypt „poached“ egg og með því!

Egg eru góð og það er hægt að gera svo ótal margt við þau. Eitt af því er að gera hleypt egg. Það er bara svo elegant og svo gefandi þegar þetta tekst og maður sér guluna flæða út og yfir undirlagið þegar skorið er á eggið. Þetta er aðeins meira dútl en að sjóða egg en samt ekki mikið meira vesen. Ég skrifaði inn þessa færslu fyrir nokkrum árum með alls konar tilfæringum, vesen með að búa til vortex og eitthvað. Þetta hefur gengið vel svo sem til þessa en svo benti nafni minn Læknirinn í Eldhúsinu mér á einhvern gaur á Youtube sem blæs á allt þetta. Hann var með aðferð sem er bara algerlega solid. Ég hef prófað nokkrum sinnum og þetta svínvirkar. Ég hef því uppfært færslu mína hér með. Hér er sem sagt eins og ég geri þetta núna! Svo er auðvitað eitthvað meðlæti með, t.d. klassískt að setja þetta ofan á pönnuristað brauð með einhverju álgeggi en þið finnið út úr því. Hollandaise sósa er líka fyrir mitt leiti afskaplega gott með þessu en samt þarf hana ekki, en er samt betra. Bara helvítis ves að gera hana.

Það sem þarf:

  • Egg, mv ca 1 – 2 á mann
  • eplaedik, x 2 mtsk
  • Vatn í djúpan pott

Aðferðin:

Það er smá kúnst að gera eggin fullkomin, þau þurfa svo sem ekki að líta þannig út, aðallega að þau bragðist vel en það er bara svo flott þegar maður nær þeim hnöttóttum og laus við tægjur.

Fyllið meðalstóran pott með vatni þannig að dýpi sé um ca 6 cm eða svo.  Náðið upp suðunni og lækkið svo hitann þannig að búblurnar hverfa og það nánast bærist ekki vatnið.

Eggin brjótið þið í bolla, eitt í hvern. Setjið svo 2 mtsk edik í pottinn og hrærið. Þetta hjálpar til við að halda eggjunum saman á hnattlaga formi. Það er einnig mikilvægt að nota fersk egg en þau virðast halda betur þessari fallegu lögun sem við erum að leita eftir því það er minna af þunnu vatnkenndu hvítunni í fersku eggjunum. Takið svo fram sigti og gleymið öllu tali um hringiðu (vortex). Setjið eggið í sigtið og látið renna af egginu þessari lausu vatnskenndu hvítu (það er þetta sem myndar tægjurnar í pottinum) og rennið því svo ofan í pottinn. Látið svo liggja þarna í 3 mín eða svo. Ekkert að hræra neitt. Tíminn fer dálítið eftir hversu linsoðin eggin eiga að vera hjá ykkur. Ef þið notið gömul egg, trúið mér ég tala af reynslu, þá er svo mikið af þessari lausu vatnskenndu eggjahvítu að það er sáralítið eftir af hvítunni til að hjúpa guluna. Kemur ekki vel út.

Hér er svo sem í lagi að hafa grunnann pott en þá verða egginn meira svona flöt eins og spælegg. Ef potturinn er djúpur þá sekkur eggið til botns og hjúpar guluna og verður meira dropalaga, það er það sem er svo fallegt.

Lyftið svo varlega egginu upp með götóttri skeið og látið renna vel af, það má þerra með pappír. Svona gerið þið við hvert egg, fer auðvitað eftir fyrir hve marga er eldað. Ef þið eruð með mörg egg eða þið þurfið að græja eitt og annað má geyma eggin í ísbaði þar til klárt til að bera fram, þá látið þig eggin vera í pottinum í 2 mín og 40 sek, þetta er alla vega tími sem er að virka fyrir mig. Ísbaðið stöðvar eldunina á eggjunum.

Þegar þið eruð svo klár í að nota eggin, þá setjið þið hvert egg í sjóðandi vatn, varlega samt og látið liggja bara í 15 sek eða svo. Fínt að prófa bara eitt egg og sjá hvaða tími hentar. Við gerum þetta til að hita eggin upp aftur. Svo er bara að raða ofan á eitthvað spennandi og njóta.

Hollandaise sósa

Ég set þessa inn sem sér færslu. Það er auðveldara að finna hana þannig. En mér finnst þetta ómissandi með.

Hér er linkur beint inn á hvernig ég geri þessa sósu.