Egg eru líklega það hráefni sem við hér á Bjór og Matur gætum ekki verið án. Það er hægt að gera svo ótal margt með þeim, eins og dásamleg hleypt egg, eða alvöru eggjahræru að hætti Gordon Ramsay, já eða bara gamla góða linsoðna eggið með salti og ekki má gleyma bakstrinum eða sósunum eins og silkimjúka hollandais sósuna eða bennann. Þegar ég var lítill þá fékk ég oft ommilettu hjá pabba. Það var í raun ekkert sem ég man sérstaklega eftir sem einhverja lúxus máltíð heldur bara eggjaköku með pylsubitum og einhverju slíku. En þetta þjónaði sínum tilgangi á þeim tíma svo sem, að metta mallakút þegar lítill áhugi eða tími var fyrir að stússa í eldhúsinu.
Ég hef svo tekið eftir því í öllum kvikmyndum um mat og í þessum matreiðsluþáttum eins og MasterChef ofl að ommiletta er einhver svona marker eða viðmið fyrir hversu fær maður er í eldhúsinu. Ég tek það fram nú eins og oft áður að ég er enginn snillingur í matargerð en ég hef gaman af áskorunum og prófa mig áfram. Ég ákvað að fara í smá rannsóknarleiðangur í þessu og hef verið að prófa mig áfram og lesið mig til um ommilettur. Franska aðferðin heillaði mig og það er hún sem ég er að reyna að apa eftir. Ég er orðinn bara mjög sáttur við útkomuna en líklega er alltaf hægt að gera betur? Hér er alla vega eins og ég geri þetta.
Það sem þarf í eina ommilettu
- 3 egg (fer reyndar eftir stærð pönnunnar), þetta miðast við pönnu hjá mér sem er lítil, ca 20 cm í þvermál. Stærri panna, fleiri egg.
- Smjöklípa á pönnuna
- Salt
- Krydd eftir smekk, ég nota chilli flögur, oregano og smá papriku krydd
- Parmesan, rifinn, ca 2 mtsk
- Trufflu Aioli, ca 2-3 tsk, fer algerlega eftir smekk
- Eitthvað “meðlæti” t.d. Bara tómatar, avocado, graslaukur eða eitthva sem ykkur dettur í hug.
Aðferð
Brjótið 3 egg í skál, ekki brjóta þau á kanti skálarinnar heldur á flötu undirlagi því annars er hætta á að fá skurn inn í eggið. Saltið með ca hálfri tsk af salti. Hrærið svo vel, mjög vel til að fá loft vel inn í eggin.
Takið til kryddin og rífið parmesan. Hitið “non stick” pönnu, það er mikilvægt, það gengur ekkert með venjulegar pönnu. Við viljum hafa þetta aðeins yfir meðalhita.
Setjið smá olíu á pönnun og myndarlega smjörklípu og látið bráðna. Passið að smjör og olía þeki alla pönnuna.
Hellið eggjahrærunni á pönnuna og hrærið með sleikju eða þunnum spaða sem má nota á teflon pönnu. Ég vil hafa þetta örþunnan plastspaða. Hrærið í þessu þar til eggin eru farin að verða eins og eggjahræra á forstigi. Alls ekki gera alveg eggjahræru. Sléttið svo úr þessu þannig að þekji alla pönnuna. Lækkið hitann undir. Dreifið svo rifnum parmesan osti yfir allan flötinn, kryddið svo eftir smekk og fylgist með. Losið ommilettuna meðfram köntunum með spaðanum. Um leið og það er hægt að byrja að rúlla ommilettunni upp þá hallið þið pönnunni frá ykkur og rúllið ommilettunni upp með spaðaun.
Yfirborðið á að vera alveg slétt og heiðgult. Ommilettan á helst að vera dálítið blaut ofaná, sem sagt ekki alveg fulleldað í gegn. Rúllið ommilettunni alveg upp rennið henni af pönnunni á disk og látið standa aðeins. Eggin halda áfram að eldast í miðjunni.
Ef ommilettan er of blaut inní, eins og óelduð egg þá þarf að hafa hana aðeins lengur á pönnunni næst. Ef hins vegar ommilettan er stíf og leiðinleg þá hafið þig haft hana of lengi á pönnunni. Það er í raun ekki hægt að segja til ákveðinn tíma þetta er tilfinning og smá æfing.
Loks er bara að skreyta með t.d. Avocado og tómötum. Eg ríf líka parmesan yfir og svo má hafa klessu af trufflu aioli til hliðar, það er svoooo gott með þessu. Njótið og endilega taggið mig ef þetta gengur upp hjá ykkur.