Ég sá þetta á instagram um daginn, þ.e.a.s menn voru að para scotch egg við american pale ale. Ég heillaðist af frábærum myndum af eggjunum. Ég hef svo sem aldrei spáð í það hvað Skota egg eru en nú veit ég það. Ég ákvað að prófa því þetta hljómaði bara ansi blátt áfram í rauninni en ég komst að því að þetta er dálítið dútl og vesen. Venjulega tala ég um hvað einfalt er að gera þessar uppskriftir sem ég tek fyrir hér en nú verð ég að viðurkenna að þetta er bara ansi snúið. En gott er það og pörunin frábær.
Það sem þarf í þetta (fyrir 2):
- 2 egg, linsoðin
- 1 egg, hrært
- 2 msk mjólk
- 4 msk Gölli IPA eða álíka bjór
- 400g ca nautahakk
- 400g ca svínahakk
- graslaukur, smátt skorinn
- steinselja, smátt skorin
- timían ca tvær greinar
- salt og pipar
- 1 bolli Panko brauðrasp
- 1/2 bolli hveiti
- 1,5 L djúpsteikingarolía
Bjórinn:
- Hér viljum við dálítið humlaðan/beiskan bjór sem getur borað sig í gegnum fituna í matnum og opnar allt upp. Bjórinn þarf líka að tóna vel við áferð og bragð í matnum. Hér er ekkert annað en American Pale Ale (APA) eða India Pale Ale (IPA) sem kemur til greina. Ég valdi Gölla IPA frá Brothers Brewery en þetta er stórfínn IPA með áberandi maltkeim. Það má vel vera einhver annar IPA eða APA samt.
Aðferð
Ok ég sagði í upphafi að þetta væri ekki einfalt. Fyrir mér hljómaði þetta samt afar einfalt og það gerir það svo sem en svo eru nokkur atriði sem alla vega vöfðust fyrir mér. Við borðuðum kl 21:00 þetta kvöld!
- fyrst þarf að sjóða eggin, gerið það sem þið eruð vön til að fá linsoðin egg, t.d. egg sett varlega í pott með köldu vatni, látið suðu koma upp og sjóðið í um 5 mín. Takið svo eggin varlega upp og látið í ísbað til að stöðva eldunina. Ég myndi gera eitt auka egg, svona tester!
. - Saxið ferska kryddið í smátt, blandið því svo við nauta og svínahakkið t.d. í hrærivél. Saltið og piprið þetta líka. Hér má alveg leika sér með krydd, sumir nota Worcestershire sósu eða álíka til að fá meira bragð. Svo setjið þið bjórinn í, 5msk eða svo og hnoðið allt saman. Plastfilma yfir og svo látið stífna aðeins í ískáp.
. - Hingað til nokkuð einfalt ekki satt? Svo kemur að því að ná bévítans skurninum af eggjunum, þetta er snúið, linsoðin ekki vilja detta í sundur og eða hvítan fer bara með skurninum. Hvernig sem þið gerið þetta þá er þetta líklega mesta dútlið. (ég var með 6 egg og því ansi lengi, sem skýrir kannski afhverju við borðuðum seint.
. - Nú er að koma kjötinu utan um eggin. Setjið matarfilmu á borð og takið kjötklessu og setjið á filmuna. Fletjið út með puttunum og myndið disk sem er töluvert stærri en eggið þegar það liggur í miðjunni. Ca 5 cm í allar áttir. Lokið svo varlega filmunni með kjötinu í utan um eggið þannig að það þeki eggið alveg. Fínt að vinda upp á báða endana á filmunni en þannig herðist utan um kjötið og eggið. Gerið þetta við öll 3 eggin og látið svo standa í 10 mín í ískáp til að stífna.
. - Náði í tvo diska og eina skál eða eldfast mót eða álíka til að píska saman egg og 2 msk mjólk. Setjið hveiti á fyrsta diskinn, eggjamjólkina í skálina og á 3. diskinn panko brauðrasp.
. - Setjið olíu (td vegetable oil) í pott eða djúpsteikingarpott og hitið upp. Olían á að ná 176 gráðum. Hér byrjaði ég að lenda í vandræðum, ég er bara með venjulegan pott og engan mæli þannig að ég vissi ekkert hver hitinn var. Ég veit þó núna að ég var með of mikinn hita því brauðraspið var fljótt mjög dökkt og nánast brennt en kjötið óeldað. Svo lækkaði ég hitann og beið þar til olían var orðin töluvert kaldari og þá gekk þetta betur. Skv uppskrift á að djúpsteikja þetta í 7-8 mín við 176 gráður og líklega best að fara eftir því. T.d. fínt að prófa testerinn og sjá hvort vanti uppá steikinguna eða hvort það sé of mikið (eggið harðsoðið).
. - Alla vega, veltið eggjunum upp úr hveiti, svo eggjamjólk og loks brauðraspinu og djúpsteikið svo varlega.

Pörunin
Það er virkilega flott að kljúfa eggin í tvent og bera þannig fram með sinnepi (ég notaði hunangs Dijon sinnep) og steiktan lauk eða bara eitthvað sem ykkur finnst passa. Klettasallat kemur líka mjög vel út með þessu. Svo er það IPA eða APA. Þessir bjórstílar eru beittir og öflugir og ráða vel við þennan rétt. Humlabitið klýfur fituna og opnar upp réttinn og kolsýran skefur góminn og gerir klárt fyrir næsta bita. Karamellumaltið tengir fullkomlega við djúpsteikta brauðraspið og virkar nánast eins og eðlilegt framhald af því í munni. Svo er þessi stíll dálítið stökkur ef svo má segja, beiskur og hvass sem passar vel við stökka brauðhjúpinn á kjötinu. Mér fannst beiskjan koma skemmtilega út sem andsvar við eggjarauðunni og tvinnaði andstæður saman á einhvern hátt. Þetta er alveg mögnuð pörun og Gölli frá þeim bræðrum í Eyjum er frábær í þetta.
You must be logged in to post a comment.