Malbygg mættir til leiks!

Malbygg er eitt af þessum nýju íslensku brugghúsum sem eru að hefja göngu sína um þessar mundir.  Þeir áttu góðan leik á nýafstaðinni Bjórhátíð á Kex þar sem þeir frumsýndu bjór sinn sem kom bara helvíti vel út, eitthvað er enn hægt að fá af þessum bjór á bestu bjórbörum borgarinnar.  En nú eru þessir þremenningar, Andri, Ingi og Bergur sem sagt komnir á fullt til að gleðja okkur hin og það besta við þetta er að þessir menn bæði kunna að brugga bjór og þeir eru með svipaðan smekk og ég á bjór.  Þetta er borðleggjandi.

Ég tók púlsinn á þeim í dag og leit við í brugghúsið þeirra í Skútuvoginum.  Þeir félagar voru í óða önn að ljúka við að brugga einhverjar nýjar kræsingar þegar ég bankaði uppá.  Ég fékk svo að smakka aðeins það sem væntanlegt er frá þeim, sumt bara alveg á næstu dögum.  Til að byrja með eru þeir langt komnir með ljúfan session IPA (4.7%), SOPI,  sem þurrhumlaður er með Citra og svo Mosaic humlum og ögn Colombus.   Ég smakkaði þennan ljúfling ókolsýrðan og það átti eftir að þurrhumla með Mosaic en hann var ansi nettur og lofar virkilega góðu.  Þessi á eftir að slá í gegn held ég en hans er að vænta Á DÓS í Vínbúðirnar bara líklega í næstu viku eða svo.  Mikið hlakka ég til.  Tókuð þið eftir, Á DÓS? Já og var ég búinn að minnast á að allt IPA stöffið frá Malbygg er í raun New England style IPA (NE IPA) þó þeir séu ekkert sérstaklega að upphrópa það á vörum sínum.  Ég fékk að sjá merkimiðana sem eru að koma og þeir koma sko þrusu vel út.  Hlakka til að fá að sýna ykkur hér á næstu dögum.

IMG_7247Ég fékk líka að smakka frábæran DIPA (ca 8%), sem mun heitra GUTLARI, hann er í raun tilbúinn en þeir eru bara að bíða eftir hárrétta augnablikinu til að henda honum á kúta og svo beint á barina, líklega bara um helgina.  Svakalega flottur NEIPA með Citra og Mosaic.  Svo kúrir þarna hjá þeim Galaxy IPA sem er dálítið óþroskaður enn sem komið er.  Hann lofaði góðu en þó lítið að marka svona flatur og óþroskaður.  Þessi mun líka fara á dósir veiiii!

Loks er virkilega spennandi imperial stout í gerjun hjá þeim sem er afrakstur samstarfsbruggunar með Cycle Brewing og KEX Brewing, en þeir félagar skelltu í þessa lögun nú á dögunum þegar Bjórfest stóð sem hæst.  Cycle er 5. besta brugghús veraldar skv Ratebeer um þessar mundir.  Virkilega spennandi amerískt brugghús sem gerir „killer“ imperial stout og porter bjóra. KEX Brewing er svo með betri brugghúsum landsins um þessar mundir sem hefur bruggað með ótal stórlöxum í bruggheiminum.  Þessi samstarfs stout, BREWHAHA, er virkilega flottur, líklega ein 13% en hann mun svo fara á einhverjar spennandi tunnur skilst mér á næstu vikum.  Spennandi!

Bjórhátíð, lokahnykkurinn!

Þá er parTíið búið, loka dagur Bjórhátíðar var í gær og nú er heilt ár í næstu veislu.  Það eru dálítið blendnar tilfinningar sem bærast í manni í dag, að hluta til er ég dálítið feginn að þessu sé lokið, það er bara takmarkað hvað hægt er að leggja á sig en á hinn bóginn þá er maður dálítið tómur inní sér.  Hvað á maður að gera næstu daga t.d.? Enginn bjór? Það er reyndar alveg leyfilegt að opna dós af góðu öli í dag t.d. frá Lamplighter, svona til að trappa sig aðeins niður (þ.e.a.s ef maður var pínu séður og verslaði nesti á Bjórhátíð).

En tökum lokadaginn saman hér eldsnöggt en svo kemur heildar samantekt innan skamms.   Gærdagurinn var dálítið erfiðari en fyrstu tveir, ég held að palletan hafi verið orðinn mettuðm bragðlaukar dálítið dofnir og svo er hitt að maður verður svo vanur góðum bjór að kröfurnar aukast með degi hverjum.  Ég held að 3 dagar séu alveg max í svona fest.  Ég fann amk að ég átti erfitt með að finna virkilega góðan bjór í gær en mér tókst það nú samt.

IMG_6993
Ég smakkaði lítið af því íslenska í gær, en ég leit við hjá KEX brewing, Borg, Malbygg og Ölverk en ég bara gleymdi að smakka spennandi bjór frá Ör Brewing Project sem þeir kölluðu How Hi Are You og er IPA með bourbon, vanillu og laktósa.  Frekar súrt að missa af þessum skrítna karli, en ég er nokkuð viss um að ég geti laumast í smakk á næstunni eða hvað?  Malbygg var hins vegar með besta bjórinn þennan daginn að mínu mati, helvíti nettann skýjaðan pale ale með Galaxy.  Þetta er greinilega allt á réttri leið hjá þeim.  Borg var ekki með neitt spennandi þennan daginn, þ.e.a.s ekkert sem ég hafði ekki smakkað áður nema tuttugu og eitthvað rúmlega % kolsvarta monsterið á litlu tunnunni, hann fór alveg með mig svona á 3. degi í þynnku.  Ég ætla bara ekkert að tjá mig frekar um hann.

Ég var mest ánægður með það sem var að gerast á efri hæðinni í gær,  The Other Half héldu áfram að töfra mann upp úr skónum 3. daginn í röð.  Báðir IPA bjórarnir þeirra voru geggjaðir en mér fannst samt Space Cadet (9.1%) hazy citra DIPA frá Voodoo Brewing alveg sturlaður, einmitt það sem mig vantaði til að lifna aðeins við.  Black Magic, 13% imperial stoutinn frá Voodoo var einnig magnaður, þroskaður á four roses bourbon tunnum, hins vegar heldur snemmt að fara í svona karl kl 16:00 á laugardegi.  The Veil voru líka með mjög gott mót í gær, en ekkert nýtt  samt fyrir mig (hafði smakkað þetta á tap takeover á miðvikudaginn á Mikkeller).  Tripel IPAinn þeirra sem var undir alla dagana var reyndar með betri bjóruim hátíðarinnar.    Bokkereyder var með áhugaverðan bjór,  einn fyrsti bjórinn sem þeir gerðu, gueuze sem tappað var á flösku 2014.  Raf hafði gleymt þessum flöskum en fann þær bara nýlega og ákvað að kippa þeim með til Íslands.  Verulega flottur gueuze.

20180224_163845
Voodoo gaurarnir hafa verið að standa sig vel alla hátíðina

Civil Society (5 besta nýja brugghús á Ratberr 2017) þarf að nefna hér en þeir hafa verið með arfa góðan bjór alla hátíðina.  Safaríku DIPA bjórarnir standa uppúr hjá þeim og í gær var engin undantekning.  Mjög flott.  Besti bjór gærdagsins, þeir voru reyndar tveir, kom hins vegar frá Mikkeller.  Já ég veit pínu klisja? Samt, þessir voru algjörlega mindblowing.  Eftir helling af bjór í gær sem mér fannst bara góður þá kom þessi, Spontanpentadrupelrasperry 13% ávaxtasprengja sem kom mér bara í opna skjöldu.  Eftir þennan bjór var ég í raun bara tilbúin að fara heim og segja þetta gott, ég gerði það reyndar ekki, fékk mér fyrst annað glas ef þessu sælgæti og kláraði svo daginn á Mikkeller Beer Geek Vanilla Maple Shake barrel aged (13%) og þvílíkur endir á góðri hátíð.

20180224_175022_001-01.jpeg
Mikkeller Spontanpentadrupel rasperry (13%)

Bjórfest á Kex, dagur 2!

Þá erum við komin vel inn í miðja Bjórhátíð, dagur tvö yfirstaðinn og hann var sko aldeilis ekki síðri en gærdagurinn. Ég held að mæting hafi veri enn betri en í gær ef marka má andþyngslin á neðri hæðinni. Bjór og Matur tékkaði á því helsta sem í boði var og við könnuðum íslensku brugghúsin sérstaklega að þessu sinni. Þess má geta að RVK Brewing og Smiðjan voru ekki með bjór á þessari hátíð eins og planað var og verðum við því að bíða ögn lengur eftir smakki frá þeim. Malbygg var hins vegar á sínum stað og kom að þessu sinni með nokkuð vandaðan hazy IPA sem óhætt er að mæla með, ég smakkaði hann reyndar eftir ansi marga þunga stóra karla og því ekki alveg réttmætur dómur en engu að síður nettur IPA. Tveir – þrír dagar til og þá held ég að þessi karl þeirra verði alveg mangaður. KEX brewing tefldi fram virkilega flottum NEIPA í kvöld, alveg á pari við það sem aðrir voru með á hátíðinni og verð ég bara að taka hattinn ofan fyrir þeim í kvöld en að mínu mati tók Kex brewing íslensku samkeppnina í kvöld. Vel gert!!!

IMG_6977

Ef við tökum svo súrbjórinn fyrir þá held ég að Black Project, De Garde og Bokkereyder hafi átt sviðið í kvöld. Þó svo að Bokkereyder hafi verið með alveg „rock solid“ villibjór (hop on the hype train) þá held ég svei mér þá að Black Project hafi slegið þá út. Ég hvet amk súra fólkið á morgun til að tékka á Black Project á morgun ef menn vilja súrt og ljúft af bestu sort, súrbjór er annars kjörinn „Þynnkuböster“ ef út í það er farið.. Reyndar verð ég líka að nefna hér Fonta Flora til sögunnar en þeir voru á efri hæðinni með alveg geggjað bottle pore, Funk Fuzz Wild Ale with Peaches 6.5% (sjá mynd) en þessi bjór er einn af topp 5 bjórum kvöldsins að okkar mati. Tékkið endilega á honum á morgun, geggjað stöff.

Það var erfitt að krýna eitthvað eitt brugghús sigurvera kvöldsins, það var bara svo margt gott í boði. Ég ræddi meira að segja við nokkra af mestu bjórspekúlöntum landsins og enginn þeirra gat nefnt eitthvað eitt brugghús til sögunnar í þessu samhengi sem kannski sýnir hversu mögnuð þessi bjórhátíð er. Það er nánast allt gott. Lamplighter var reyndar með alveg sturlaðan bjór, Rabbit Rabbit sem einnig er hægt að taka með sér heim á dósum. Other Half var einnig með algjörlega fáránlega ljúfa DIPA bjóra sem runnu heldur betur vel niður í kvöld. Þetta er bara svo ótrúlega gott hjá þeim, ég ræddi við einn af bruggurum þeirra um hvernig í andskotanum þeir færu að þessu. Hann svaraði bara auðmjúkur „já við reynum bara okkar besta til að gleðja!“. Já annað kvöldið í röð þá voru þeir sko heldur betur að gleðja og það vel. Vá hvað þeir eru að standa sig!

IMG_6986

Cloudwater hélt áfram að valda vonbrygðum, DIPA bjórinn þeirra var bara ekkert spes og myndi ég velja Partíþoku, nýja T-línu bjórinn frá Borg alltaf fram yfir hann en sá er bara alls ekki svo galinn. Kodda helvítið frá því í gær var þó betri að mínu mati. Ég held bara að ég láti Cloudwater eiga sig það sem eftir lifir hátíðar!

The Veil stóðst væntingar í kvöld, þvílík unun! Þeir voru með geggjaðan tripel IPA, þykkur djúsí og ögrandi sem sló vel á þynkuna í byrjun kvölds og svo einn besta bjór sem ég hef smakkað lengi Never Mind Double Plum sem verður bara að teljast meistaraverk!

20180223_171456-02

Ef ég reyni svo að taka saman það besta í kvöld, segjum 4 bestu bjóra kvöldsins þá væru það þessir, Spontan pentadrupel blueberry 12% frá Mikkeller (sjá mynd efst), þvílíkur safi! Svo væri það Quadfather 11.4% Quadrupel frá Voodoo Brewery sem legið hefur á bourbon tunnum í ekki 24 heldur 25 mánuði. Glæsilegur bjór verð ég að segja. Svo var Funk Fuzz Wild Ale with Peaches 6.5% frá Fonta Flora algjörlega mindblowing og loks verð ég að nefna til sögunnar Never Mind Double Plum frá The Veil, algjörlega fullkominn bjór.
Já ég hef þetta ekki lengra í kvöld, maður verður að fara hvíla sig fyrir átök morgundagsins, sjáumst þá!

Meira um Bjórhátíð á Kex! Cycle Brewing, KEX Brewing collab ofl spennandi!

Nú er tæpur mánuður í stærstu bjórhátíð Íslandssögunnar, hina árlegu Bjórhátíð á KEX.  Ég hef þegar fjallað um hátíðina og skoðað nokkur af þeim 50 brugghúsum sem munu mæta á hátíðina með bjórinn sinn.  Mikkeller, To Øl og BRUS, Lord Hobo, Brewsky, Other Half, The Vail, Bokkereyder, Alefarm, De Garde Brewing, Cloudwater Brewing, Civil Society Brewing og People Like Us hef ég þegar fjallað um og má lesa um þessi stórkostlegu brugghús hér.   Þess má geta að nýr best of listi Ratebeer er kominn út og má sjá aðeins breytingar á top 10.  Cloudwater er komið í 2. sæti úr 5. sæti, sem sagt annað besta brugghús veraldar, og Other Half er nú komið úr 10. sæti í 7. sæti.  Mikkeller er núna í 9. sæti en þeir eru svo sem ekki óvanir þessum lista.  Nýtt á listanum er svo Cycle Brewing sem er um þessar mundir 5. Besta brugghús veraldar skv Ratebeer.  Þetta er magnað, það má svo alltaf deila um Ratebeer og þessa lista en það er efni í aðra umfjöllun.

Mig langar aðeins að skoða þetta nánar og nefna til sögunnar nokkur íslensk brugghús sem menn verða að tékka á á hátíðinni.

Cycle Brewing
Image may contain: drink5. Besta brugghús veraldar er staðsett í St. Petersburg Florida í Bandaríkjunum. Þeir hófu göngu sína formlega árið 2013 undir nafninu Cycle Brewing en fyrir þann tíma vöktu þeir mikla athygli með ögrandi bjór sinn sem ónefnt brugghús innan veggja barsins Peg‘s Cantina. Það var sonur eigandans, Doug Dozark sem hóf að brugga á staðnum bjór eftir að hafa lært bjórsmíðar hjá ekki minni brugghúsum en Oscar Blues og Cigar City sem nú er t.d. 8. besta brugghús veraldar á ofantöldum lista.  Nafnið er skýrskotun í ást Dougs á hjólreiðum, ekki flókið það en Doug ku fara allar sínar ferðir á hjóli.  Brugghúsið byrjaði í flottum vönduðum IPA bjórum en síðla árs 2016 fóru þeir að einbeita sér meira að tunnuþroskuðum bjór af ýmsum toga og eru líklega hvað þekktastir fyrir þá bjóra í dag.  Þetta verður eitthvað geggjað!

KEX Brewing,
er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigsCollective ArtsBrusBrewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Nýlega voru þeir svo í heimsókn í Brooklyn NY hjá stórstjörnumum The Other Half brewing og gerðu með þeim dularfullan berliner weisse sem fékk nafnið Nothing To Declare sem er því miður eitthvað sem hálf vonlaust verður að smakka held ég.  Þetta er í raun ansi magnað, að vera að skapa bjór með svona miklum listamönnum í bjórgerð, ekki sjálfgefið!!!

Það verður hins vegar hægt að smakka annan bjór á Bjórhátíð sem KEX Brewing bruggaði með Collective Arts nú á dögunum en það er spennandi imperial stout sem bruggaður er með Omnon caconibbum og salti frá Saltverk og er eins konar tilraun til að gera fljótandi útgáfu af saltkaramellu súkkulaði.  Dósirnar líta geðveikt vel út og bjórinn hljómar svakalega spennandi.  Collective Arts er svo enn eitt brugghúsið sem menn geta tékkað á á Bjórhátíð einnig.

Lady Brewing
er skemmtilegt nýtt farandsbrugghús sem kom með sinn fyrsta bjór á síðasta ári minnir mig, First Lady sem er virkilega elegant og „down to earth“ IPA.  Lady Brewing er eina bjórgerð landsins sem samanstendur einungis af konum en gaman er að minnast þess að það voru í raun konur sem voru brautryðjendur í greininni á sínum tíma en allt frá tímum Egypta hafa konur verið í fararbroddi í bjórgerð þar til tiltölulega nýlega.  Lady bruggar bjórinn sinn að mestu í Ægisgarði líkt og KEX gerir um þessar mundir.  Flottar dömur hér á ferð.

Malbygg og Ör Brewing Project
eru svo bruggsmiðjur sem enn eru ekki farnar að brugga bjór en verða með frumsýningar á Bjórhátíð 2018.  Báðar þessar bjórsmiðjur eru virkilega áhugaverðar og bind ég mjög miklar vonir við þær enda bara topp lið sem stendur á bak við þær.  Hér má lesa nánar um Malbygg og Ör.

Reykjavík Brewing Company
eða RVK Brewing er enn eitt brugghúsið sem mun opna dyr sínar á næstu vikum líklega.  Hér er spennandi verkefni í gangi sem stefnir í að verða jafnvel fyrsta brugghús landsins með „taproom“ sem er bara geggjað.  Hér má lesa um heimsókn mína í verðandi brugghúsið á síðasta ári.

Það eru fleiri íslensk brugghús á Bjórhátíð en ég mun koma að þeim síðar!

Malbygg, góðar fréttir fyrir bjórunnendur

2018 mun verða ár mikilla breytinga í bjórlandslagi Íslands það er öruggt, því nokkrar nýjar og mjög svo spennandi bjórsmiðjur munu hefja framleiðslu á komandi mánuðum.  Malbygg er eitt af þeim og vert er að hafa sérstaklega vakandi augu með þeim því þar eru við stjörnvölin bórunnendur af líf og sál og miklir reynsluboltar í bjórheiminum.  Það eru þeir bræður Andri og Ingi, sem við þekkjum best sem kátu bjórnördana hjá Járn og Gler, en þeir eiga ríkan þátt í bættri bjórmenningu okkar Íslendinga síðustu árin með innfluttningi á heimsklassa „craft“ bjór.  Með þeim í þessu er svo bruggmeistarinn Bergur, gaurinn sem kom Bryggjunni Brugghús á koppinn ekki alls fyrir löngu þar sem hann færði okkur vandaðan og elegant bjór af ýmsum toga.  Þetta trio er að mínu mati fullkomið hráefni í frábæran bjór og ég er sannfærður um að það á bara eftir að koma geggjað stöff frá þeim.

20180115_132357Brugghús hefja oft göngu sína og hverfa svo á braut án þess að nokkur maður muni eftir þeim, (sjáum t.d. Ölgerð Reykjavíkur 2008), enda engin metnaður í gangi, menn fókusera nefnilega of oft á að brugga eitthvað ákveðið fyrir fjöldann, eitthvað sem þeir vita að ganga td í ferðamennina ofl.  Eitthvað bragðlaust sull sem hægt er að selja sem „alvöru íslenskan“ bjór.  Ég veit að Malbygg trioið er ekki á þessum buxunum, þegar menn fara að bugga bjór af líf og sál þá er afraksturinn litaður af því, einfaldlega góður og spennandi.   Malbygg mun fókusera á IPA, hazy NEIPA, imperial stout og tunnuþroskaðan súrbjór, og verður með þetta á kútum helst en einnig eru þeir með flotta dósapökkunarvél.

Þegar ég ræddi við þá félaga á dögunum voru þeir langt komnir með uppsetninguna og leyfi og þess háttar.  Vonir standa til að hefja framleiðslu á næstu mánuðum en það verður hægt að sjá frumsýningu á bjór þeirra á komandi Bjórhátíð á KEX í febrúar og hvet ég ykkur til að kaupa miða og smakka þetta hjá þeim.

Ör Brewing Project

Það eru nokkrar nýjar og afar spennandi bjórgerðir að hefja göngu sína núna í upphafi árs, eitt þeirra er „ör-bjórgerðin“ Ör brewing project.  Persónulega þá er ég mjög spenntur fyrir þessari bjórgerð því ég þekki að eigin raun handbragð bruggmeistarans í brúnni Gunnars Óla Sölvasonar og er það spá mín að þetta verði eitt af topp bjórgerðum í íslenskum bjórkúltúr á komandi árum.  Gunnar Óli er líklega sá maður á Íslandi sem veit hvað mest um bjór og bjórgerð takk fyrir eða alla vega þarna á meðal þeirra færustu í þessu en hann hefur verið að dunda við heimabrugg um áraraðir og kominn held ég eins langt og menn ná í heimabruggi og því algjörlega eðlilegt næsta skref að fara í „pro-brewing“ ef svo má segja.  Ég hef smakkað nokkuð af bjór frá honum í gegnum tíðina sem hann bruggaði undir merkjum Digra (heimabrugg) ásamt brosbræðrunum Andra og Ingja hjá Járn & Gler sem reyndar eru líka að opna brugghús á vormánuðum, Malbygg sem við fjöllum um síðar.

Gunnar er svo aldeilis ekki einn í þessu því kona hans Elísabet hefur hemil á honum og Sölva Dún sem mun sjá um fríkaðar miðaskreytingar ef ég þekki hann rétt en hann er virkilega flinkur á því sviðinu.  Öll þrjú eru samt miklir bjórunnendur og sníða uppskriftirnar í sameingu enda er það eina leiðin.  Brrrrennandi áhugi.

Ör er í raun ekki brugghús sem slíkt heldur eins konar farandsbjórgerð eða gypsy brewing eins og þeir kalla það á enskunni en það er ágætis orð yfir bjórgerð sem bruggar hjá öðrum brugghúsum.  Sem sagt það hefur enga yfirbyggingu undir stórtækar brugggræjur á eigin vegum.  Þetta er sniðug leið til að draga úr kostnaði og virkar bara helvíti vel.  Við þurfum ekki annað en að skoða velgengni Mikkellers sem er líklega þekktasta farandsbrugghús veraldar og sætir gríðarlegrar velgengni eins og vel er þekkt orðið.  Ör mun einblína á bjór sem er eins og sniðinn fyrir mig, sem er bara frábært, skýjaðan New England IPA, stíll sem er að slá í geng um þessar mundir, tunnuþroskaða sveitabjóra (Saison) og tunnuþroskaða imperial stout bjóra.  Bjórinn brugga þeir líklega að mestu leyti hjá Malbygg og mun koma í dósum og kútum á helstu bari.  Þetta er sko spennandi.  Við munum geta smakkað fyrstu bjórana frá Ör á komandi Bjórhátíð á Kex í lok febrúar.

Kexmas session IPA frá Kex Brewing!

Jólabjórarnir eru farnir að flæða á markaðinn og um nóg að velja.  Flest allt frekar vont samt eða afar óspennandi.  Það eru þó nokkrir bjórar þarna úti sem eru áhugaverðir.  Kexmas er fyrsti jólabjórinn frá KEX brewing og hann flokkast hér formlega sem áhugaverður.  Þegar við tölum um jólabjór þá er vissulega engin regla í þeim efnum.  Hvað er jólabjór, það er alls ekki auðveld spurning og líklega ekki neitt svar til.  Fyrir mörgum er jólabjór bara bjór sem kemur út um jólin og bara um jólin og er í sjálfu sér nóg til að vera flokkaður sem jólabjór.  Fyrir aðra, t.d. mér persónulega, þá er jólabjór líka dálítið sætur og öflugur og helst má hann hafa einhverja jólatóna í bragði.

Kexmas er virkilega flottur og vandaður 4.8% session IPA bruggaður með slatta af mosaic og citra humlum sem hafa verið dálítið inn undanfarin ár enda geggjaðir.  Þetta eru humlar sem gefa okkur dálítið suðræna ávaxtatóna og svo auðvitað notalegan sítrus keim sem minnir oft á furunálar…..sem er jólalegt ekki satt?   Session þýðir einfaldlega bjór sem er auðdrekkanlegur, maður getur sem sagt hæglega þambað marga í röð.  Session bjór á það stundum til að vera dálítið óspennandi ef menn vanda ekki til verks, en KEX mönnum tekst hins vegar að gera þennan bjór bæði þægilegan, einfaldan en samt spennandi.  Þetta er bjór fyrir fjöldann en samt mun hann held ég kæta hörðustu bjórnerðina.  Eftirbragðið er svo alveg dásamlegt, þar koma humlarnir fram þurrir og beiskir og gæla við bragðlaukana.  Ég er virkilega sáttur við þennan bjór en það eina sem truflar mig er að ekki er hægt að fá hann með sér heim.  Hann ku aðeins vera fáanlegur á krana á helstu börum og pöbbum borgarinnar næstu vikurnar, ss Kex, Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar, Skál ofl.

Kex Brewing
Það er tímabært að fjalla aðeins um Kex Brewing og alveg tilvalið að gera það hér undir umfjöllun um fyrsta jólabjór brugghússins.  Mér finnst alltaf dálítið óþægilegt að tala um „brugghús“ þegar ég fjalla um bjórgerð af þessum toga því í raun er ekki um brugghús að ræða í þeim skilningi.  Kex Brewing er nefnilega ekki með neina fastformaða yfirbyggingu þar sem þeir brugga bjórinn sinn heldur fá þeir afnot af tækjabúnaði í öðrum brugghúsum víða um land.  Svo kallaðir farands bruggarar eða gipsy brewers.  Þekktasta farandsbjórgerðin er án efa Mikkeller sem nú er orðið eitt stærsta bjórveldi heims bara svona til að setja hlutina í samhengi.

Kex brewing var stofnað árið 2016 og er í eigu Kex og Bjórakademíunnar en heilarnir á bak við bjórgerðina eru þeir Hinrik, Eymar og Steini, allt miklir bjórnördar með svakalegan bakgrunn í gourmet heiminum.  Steini er gamall félagi sem við þekkjum öll frá Microbar á sínum tíma en er nú sá sem öllu stjórnar á Mikkeller & Friends Reykjavík. Steini er mikill bjórperri með flotta pallettu sem alltaf er hægt að treysta þegar á reynir.  Eymar er líklega viðkunnulegasti náungi sem ég hef hitt og líklega með flinkustu heimabruggurum landsins áður en hann fór í „pro“ brewing, menn geta ekki klikkað með svona mann innanborðs.  Svo er það Hinni matreiðslumeistarinn með bjórvitið en  Hinni er sá sem stendur í brúnni á Kex Brewing um þessar mundir auk þess að vera rekstrarstjóri á Hverfisgötu 12.  Hinni er einfaldlega snillingur í eldhúsinu með svakalega pallettu og þessi maður kann sko bjórinn sinn líka.  Ef einhver getur parað bjór og mat þá er það svona gaur.

Kex Brewing er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigs, Collective Arts, Brus, Brewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Lítil fluga í formi Hinna laumaði svo að mér að meira samstarf væri í sjónmáli og má þar nefna eitt af mínum uppáhalds, The Other Half brewing frá Brooklyn New York. Ef þið þekkið ekki þessi frábæru brugghús þá er um að gera að kíkja á Bjórhátíð á Kex 2018 en flest ef ekki öll þessi nöfn verða meðal brugghúsa á hátíðinni á næst ári.

Já það er óhætt að segja að Kex Brewing sé eitt af mínum uppáhalds íslensku bruggúsum um þessar mundir og spennandi að sjá hvað framundan er og vonandi verður hægt að fá eitthvað af þessum samstarfsbruggum heim á klakann….t.d. Other Half dæmið maður minn!

RVK Brewing Company, nýtt brugghús handan við hornið!

Það hefur mikið verið að gerast í hinum íslenska bjórheimi undanfarin 3-4 ár og margt mjög spennandi framundan skal ég segja ykkur.  Brugghús eru byrjuð að poppa upp eins og gorkúlur og önnur á teikniborðum.  Eitt af þeim brugghúsum sem eru í pípunum er RVK Brewing Company í Skipholtinu en ég verð að segja að ég er virkilega spenntur fyrir þessu.  Fyrir því eru tvær ástæður, í fyrsta lagi þá er karlinn í brúnni á þeim bæ Sigurður Snorrason hagfræðingur og heimabruggari og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að bjór.  Siggi er mikill bjórkarl og hefur lengi verið að grúska í heimabruggi með góðum árangri leyfi ég mér að segja.  Auk þess bjó kauði hér á árum áður í Bandaríkjunum þar sem bjórmenningin er á virkilega háu plani og því má leiða líkum að því að bjórinn hans muni bera keim af amerískri bjórhefð sem er nákvæmlega það sem við viljum hér.

Hin ástæðan er svo sú að ég heimsótti Sigga í verðandi RVK Brewing nú á dögunum og fékk að sjá og heyra hvað framundan er. Allt virkilega lofandi.  Ég smakkaði auk þess  nokkra tilraunabjóra frá þeim, t.d. pilsnerinn sem þeir eru að þróa sem var ofsalega flottur og imperial stoutinn þeirra féll líka algjörlega í kramið hjá mér. Báðir þessir bjórar báru merki þess að skapari þeirra gerir þetta að alúð og vandvirkni.

20171020_162711
Pilsnerinn var flottur, bragðmikill, mjúkur með góða fyllingu.

Brugghúsið er sem sagt að taka á sig mynd í þessum skrifuðu orðum, 500L bruggtækin standa gljáfægð og fín og bíða þess að verða tengd og skipulag á brugghúsinu ásamt bruggstofunni (tap room) komið á hreint.  Við Siggi ræddum saman um framhaldið og þá möguleika sem eru í stöðunni og ég get sagt ykkur að þarna á þessum bænum eru menn bara að hugsa nákvæmlega það sama og ég myndi hugsa sem einfaldlega verður að teljast spennandi…..sérstaklega fyrir mig!  Það er ekki klárt hvenær brugghúsið verður komið á fullt sving en líklega mun það bara gerast á næstu mánuðum eða fljótlega eftir áramótin.  Húsnæðið býður svo upp á ýmislegt og hver veit nema við fáum að sjá fyrsta alvöru „tap roomið“ á Íslandi innan tíðar?

20171020_163301
Þessar flottur græjur fara bráðum að töfra fram ölið

Já árið 2018 verður skemmtilegt ár svei mér þá og svo eru fleiri brugghús í deiglunni en nánar um það síðar!

Forsíðumyndin er tekin af fésbókarsíðu RVK Brewing Company!