Blog

Trufflu-gnocchi í rjómasósu, parmesan og ferskar trufflur

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum á Eriksson Brasserie, ég fæ bara ekki nóg af honum. Hann er sem smáréttur á Eriksson en það má alveg panta tvo í einu. Ég ákvað að fá Sigrúnu mína með í lið og prófa að gera þetta heima. Það tókst glimmrandi vel. Svona gerðum við þetta.

Það sem þarf fyrir 4 sem aðalrétt

  • 750 g ferskt gnocchi eða heimagert
  • 3-4 skarlottulaukar saxað fínt
  • Lúka af steinselju, saxað
  • 4 hvítlauksrif rifinn
  • 100 til 150 g smjör
  • 3 dl hvítvín
  • 4 dl sterkt kjúklingasoð
  • 250 ml rjómi eða meira
  • Sveppir skornir smátt
  • Strengjabaunir, skornar í örlitla bita
  • Lúka af graslauk skorinn smátt
  • Estragon, pipar, hvítlauksduft og salt á sveppina
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 2 bollar rifinn parmesan
  • Svört truffla skorinn þunnt í mandolin

Aðferðin

Við byrjuðum á að skera skarlottulauk (3-4 stk) í smátt og góð lúka af ferskri steinselju er líka skorin smátt. Þetta var svo mýkt í smá olíu og helling af smjöri á pönnu. Svo reif ég yfir þetta með rifjárni 4 hvítlauksgeira. Blanda vel saman á pönnunni.

Næst er það hvítvínið, 3 dl og kjúklingasoðið. Ég hitaði 400ml af vatni og hrærði saman amk matskeið af kjúklingakrafti. Bætti þessu á pönnuna og sauð þetta áfram niður. Það er allt í lagi að pipra aðeins en ekkert salt, þetta varð nefnilega aðeins of salt hjá mér. Kreistið hálfa sítrónu yfir og blandið saman.

Á meðan þetta er að sjóða niður þá er fínt að byrja á sveppunum. Skerið sveppi í smátt, ca ein askja og steikið í slatta af smjöri. Hér má krydda með pipar, salt og ég notaði estragon og hvítlauksduft líka. Þegar sveppirnir eru vel eldaðir bætið þið smátt skornu strengjabaununum út í og mýkið. Það á samt ekki að vera of mjúkt, það má vera smá bit í baununum. Takið til hliðar.

Svo er það bara að bæta rjómanum saman við soðið á pönnunni og láta malla áfram, loks 2 bollar af rifnum parmesan og látið bráðna saman við.

Sjóðið gnocchi, ca 3 mín eða þar til það fer að fljóta upp. Hellið vatninu af og veltið gnocchi upp úr sósunni. Það má líka bara blanda gnocchi saman við sósuna en ég vildi hafa sósuna í lágmarki hjá mér. Setjið svo á disk, hellið sveppa baunablöndunni yfir.

Skerið truffluna í örþunnar sneiðar helst með mandolin yfir gnocchi og klippið svo ferskan graslauk yfir allt.

Fullkomnir smáborgarar með langelduðu nauta brisket, chipotle majo og brokkolísalati

Það er nánast í öllum veislum að maður finnur smáborgara meðal rétta. Ég hef alltaf látið á vera því það er undantekningalaust að þeir eru þurrir og óspennandi til átu.

Við frúin vorum með útskriftar veislu fyrir son okkar í gær og ákváðum að gera sjálf einhverja rétti en kaupa þó flesta réttina því maður hefur jú ekki endalausan tíma. Mig langaði að prófa að gera smáborgara eins og ég myndi vilja fá þá. Þetta var niðurstaðan og þeir fengu frábæra dóma gesta. Lang vinsælasti rétturinn og kláruðust rúmlega 100 borgarar langt á undan öllu öðru. Hér er eins og ég gerði þetta. Ég skal viðurkenna það að það er gott að hafa einn eða tvo með sér að raða þessu saman, við vorum tvö í þessu og það gekk samt furðu hratt.

Það sem þarf fyrir 100 borgara

  • 2,5 kg nauta brisket
  • 2 laukar skornir í grófa bita
  • 4-6 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 stórar gaulrætur, skornar í bita
  • 2 mtsk ferskt origano, saxað smátt
  • 1 mtsk þurrkað timian
  • 1 mtsk paprikukrydd
  • 1 – 2 mtsk reykt paprika
  • 1 mtsk cumin krydd
  • 2 mtsk tómat púrra (Mutti)
  • 300 ml rauðvín
  • 500 ml nautasoð (1-2 mtsk nautakraftur í 500ml vatn)
  • Ein krukka chipotle paste
  • Safi úr hálfri límónu
  • Heimagert brokkolísalat

Aðferð

Ég mæli með að gera langeldaða kjötið deginum áður en veislan er. Eða byrja daginn mjööög snemma.

Ég fékk brisket í Costco, það kemur upprúllað bundið með snæri. Ég byrjaði á að klippa á snærið og skar svo brisket niður í smærri einingar svo ég gæti steikt það á pönnu. Svo er kjötið steikt á öllum hliðum á heitri pönnu í olíu og smjöri.

Takið til stóran pott sem hægt er að loka. Skerið niður 2 lauka í grófa bita, 4 gulrætur og pressið 4-6 hvítlauksrif. Mýkið þetta í olíu í pottinum. Bætið svo kryddunum saman við, 2 mtsk origano, 1 mtsk timian, 1 mtsk papríku krydd, 2 mtsk reykt papríka og 1 mtsk cumin. Blandið vel saman, bætið svo 2 mtsk tómatpúrru, 300ml rauðvín og 500ml nautasoð saman við og blandið vel. Bætið svo kjötinu í pottinn og látið suðuna koma upp.

Setjið lok yfir pottinn og inn í ofn við 145 mín í 3-4 klst. Takið svo pottinn út, og munið að hann er heitur. Takið kjötið úr pottinum og rífið það niður með tveim göfflum á disk.

Sigtið soðið frá grænmetinu í lítinn pott. Hellið aðeins af soðinu yfir kjötið en afganginn sjóðið þið niður. Bætið um 2-3 mtsk hlynsírópi saman við soðið og látið malla í eina klst eða þar til þetta hefur soðið niður amk um helming. Þetta á að verða þykkt og svart en geggjað gott.

Hellið þessari sósu yfir kjötið og blandið vel saman.

Næst er það brokkolísalatið, þetta er reyndar einn mest skoðaði réttur á síðunni okkar. Frábært salat og geggjað hér í þessu samhengi. Skerið samt brokkolí í litla bita svo það verði ekki of gróft fyrir smáborgarana.

Hendið í chipotle majo, hér er bara að smakka til. Hellingur af majonesi, nánast ein krukka af chipotle paste og svo hálf límóna kreist yfir. Bladið vel og smakkið til.

Svo annað hvort bakið þið sjálf eða kaupið hamborgarabrauðið, við fengum brauðið frá Garra. Kartöflubrauð en það er mjúkt og þægilegt. Skerið brauðið til helminga, setjið slatta af kjöti á botninn, toppið með brokkolísalatinu og smyrjið vel af chipotle majo á lokið.

Uppáhalds hanastélin

Ég er alltaf að detta niður á frábæra kokteila eða það sem við köllum víst hanastél á íslensku. Ég er svo endalaust að gleyma uppskriftunum eða bara gleyma hvaða kokteilar standa uppúr. Hér ætla ég að safna þeim sem mér finnst bestir, eiginlega mest bara fyrir mig.

Espresso Martini

Þessi er bara alltaf klassískur, þó ég sé ekki oft að fá mér þennan í seinni tíð þá er hann alltaf í uppáhaldi.

  • 35 ml vodka
  • 35 ml kahluha
  • 35 ml espresso kaffi

Kælið espresso kaffið, setjið svo allt í shaker með klökum og hrisstið vel. Hristið svo aftur án klaka og hellið i fallegt glas.


Appelsínu súkkulaði Espresso Martini

Þessi er alveg geggjaður. Heill eftirréttur útaf fyrir sig. Flottur jóladrykkur.

  • 35 ml vodka
  • 35 ml kahlua
  • 35 ml espresso kaffi
  • 15 ml cointreau
  • 15 ml súkkulaði síróp

Setjið öll hráefnin í shaker með klökum. Passið að hafa espresso kalt.

Hrisstið vel með klökum og svo aftur án klaka. Streina í fallegt glas og svo skreyta með appelsínu og söxuðu súkkulaði


Jasmín

Þessi er ofsalega hressandi, mikil sýra og appelsína með þægilega beiskju. Ég elska þennan dálítið

  • 50 ml gin
  • 15 ml campari
  • 15 ml cointreu
  • 15 ml sykursíróp
  • 25 ml sítrónusafi

Maður hendir þessu bara í hrisstara með klökum og hrisstir. Ekki flókið


Jungle Bird

  • 50 ml dökkt romm
  • 15 ml campari
  • 25 ml ananas safi
  • 15 ml sykursíróp
  • 25 ml límónu safi

Þetta er bara eins og með flesta þessa kokteila, setjið bara allt í shaker, fyllið upp með ísmolum og hrisstið vel. Streina svo í glas og skreytið með t.d. Ananasbita.


Pink Gin Sour

Pink gin er skemmtilegt að leika sér með. Hér er fallegur konudags drykkur t.d.

  • 50 ml pink gin
  • 25 ml sítrónu safi
  • 20 ml sykursíróp
  • Eggjahvíta úr einu eggi

Setjið allt í shaker ásamt klökum og hrisstið vel. Fyrst með klökum og svo án klaka til að fá þéttari froðu.

Hellið svo í fallegt glas glas á fæti.


Pink Kókos Gin Sour

Þessi drykkur er geggjaður bæði á borði og í munni. ég meina þetta er svo djúsí og fallegt.

  • 25 ml pink gin
  • 25 ml campari
  • 25 ml kókosrjómi
  • 25 ml sítrónusafi
  • 12,5 ml sykursíróp
  • Eggjahvíta úr einu eggi

Setjið allt í shaker með klökum. Hrisstið vel með klökum og svo aftur án klaka til að fá þétta froðu.


Freyðandi Jólastél

Ég veit ekki hvað skal kalla þennan drykk en þetta er jóla kokteill með krydduðu rommi eða bourbon og freyðivíni.

  • 50 ml kryddað romm eða bourbon
  • 35 ml trönuberjasafi
  • 35 ml granateplasafi
  • 17 ml Cointreau
  • Þurrt freyðivín eftir smekk
  • Ferskt trönuber og rósmarín grein

Allt nema freyðivín og skraut sett í shaker með ísmolum og hrisst. Strjúkið sítrónusneið eftir kantinum á glasinu, dýfið svo ofan í sykur. Hellið kokteil í glas og skreytið með trönuberjum og rósmarín


Old Cuban

Þessi er algerlega frábær og smá freyðandi líka, virkar frábærlega sem áramóta kokteill.

  • 50 ml dökkt romm
  • 25 ml límónusafi
  • 25 ml sykursíróp
  • 3 skvettur angastura bitter
  • Þurrt freyðivín eftir smekk
  • 3-4 stk fersk mynta

Setjið fyrst myntulaufin í shaker og kremjið þau til að opna þau. Bætið svo klaka og rest nema freyðivínið í shakerinn og hrisstið vel. Hellið í glas og toppið með freyðivíni. Skreytt með myntu


Whiskey Sour

Ok þessi kokteill er eins klassískur og þeir gerast en þetta er líklega minn allra uppáhalds koktleill

  • 50 ml Whiskey
  • 3 skvettur Angastura
  • 25 ml sítrónusafi (ca 1 sítróna)
  • 20 ml sykursíróp
  • Eggjahvíta úr einu eggi

Setjið allt í shaker með klökum. Hrisstið vel með klökum og svo aftur án klaka til að fá þétta froðu.

Ath, fyrir extra gott twist þá hef ég bætt 15 ml Amaretto við þetta og minnkað þá whiskey niður í 35ml.

Filet mignon, eldun

Mín uppáhalds steik punktur.  Eldunin skiptir miklu máli en auðvitað gæði kjötsins líka.  Við viljum fitusprengt og fallegt kjöt.  Þú biður um filet mignon steikur í kjötbúðinni eða skerð sjálfur niður miðhlutann í steikur ef þú kaupir nautalund í t.d. Bónus.  Já þú færð nefnilega gott kjöt þar líka.

Það sem þarf

  • Nautalund skorið í hæfilegar steikur
  • Ólifuolía til steikingar
  • Smjörklípa
  • Ferskt rósmarín
  • Hvítlauksgeirar
  • Salt og pipar

Aðferð

Saltið og piprið vel steikurnar í skurðsárin. Olía á pönnu, kremjið nokkra hvítlauksgeira og setjið á pönnuna ásamt tveimur greinum af rósmarín.  Steikið á háum hita í 3 til 4 mín á hvorri hlið.  Bætið smjöri á pönnuna og ausið yfir steikurnar annað slagið.

Rúllið svo steikunum á rönd eftir pönnunni og lokið hliðunum þannig.

Færið steikurmar yfir í eldfast mót og bakið í ofni við 145 gráður þar til kjarnhita er náð, 54 – 55 gráður.

Látið svo kjötið hvíla í 10 til 15 mín áður en það er skorið

Kramda kartöflusalatið hennar Sigrúnar

Þetta er eitthvað sem mun slá í gegn líkt og brokkolíaslatið okkar sem fær fjölda flettinga hér á hverjum degi. Ég bara veit það af því að þetta er algerlega geggjað kartöflusalat, og reyndar líka af því að allir sem hafa fengið þetta hjá okkur vilja uppskriftina. Þetta gengur með held ég bara flestu sem þú ert að elda. Einnig t.d. Sem álegg á spari pylsuna eða á burgerinn. Ég ætla að reyna hér að koma þessu frá mér á skikkalegan máta.

Það sem þarf (fyrir 6-8 manns sem meðlæti)

Auðvitað stillið þið svo kryddum eftir smekk, hér er bara svona viðmið.

  • 700 – 1000 g kartöflur
  • 8 kúfaðar mtsk majones
  • 4 kúfaðar mtsk sýrður rjómi
  • 1 mtsk dion sinnep
  • 1/2 til heil líme, safinn
  • Ca lúkufylli af fínt skornum graslauk.
  • 2 stk skarlóttulaukur skorinn mjög fínt
  • 1 gul eða rauð papríka, skorin mjög smátt
  • 1 stk ferskur chilli skorinn smátt.
  • 1/2 búnt kóríander fín saxað
  • 1/2 búnt steinselja fín saxað
  • 3-4 vorlaukar, skorið fínt

Aðferð

Byrjið á að sjóða kartöflurnar með hýðinu, veii, já það þarf sko ekkert að skræla. Þegar þær eru fullsoðnar takið þær til hliðar meðan þið græjið brúnt smjör (200g). Sjá aðferð að neðan. Þegar þið hafið brúnað smjörið þá kryddið þið smjörið með kryddunum (1-2 tsk reykt papríka, 1-2 tsk oregano, 1 tsk hvítlauksduft, salt og pipar.

Takið kartöflurnar og kremjið þær þannig að þær opnist (sjá mynd), setjið svo í eldfast mót eða á ofnplötu. Fínt að nota glas til að kremja kartöflurnar. Hellið brúna kryddsmjörinu yfir, kryddið með smá salti og pipar og chilli flögum og bakið í ofni við 200 gráður þar til kartöflurnar eru orðnar stökkar. Hér getið þið í raun stoppað ef þið viljið, þessar kartöflur svona eru geggjað meðlæti. Ég myndi þá rífa yfir þær parmesan ost og svo aðeins aftur í ofn.

Látið annars kartöflurnar kólna meðan grænmetið er skorið niður. Skerið ferskan chilli, papríku og skarlottulauka niður í smátt, blandið öllu saman í skál ásamt söxuðum kóríander, steinselju, graslauk og vorlauk. Reynið að saxa graslaukinn og vorlaukinn eins hárfínt og þið getið því það gefur meira bragð (trikk sem við fengum frá Steinbirni á Brand Restaurant).

Út í þetta hrærið þið saman majonesi , sýrðum rjóma og dijon sinnepi (1 mtsk) og safa úr límónu (hálf til heil límóna). Kryddið aðeins með reyktri papríku.

Skerið kartöflurnar aðeins niður og blandið svo öllu saman í fallega skál. Það er smart að dreifa saxaðri rauðri papríku og steinselju yfir en auðvitað er það ekkert möst svo sem.

Brúnt smjör

Setjið smjörið í pott á meðal hita, látið malla þannig að kraumi í smjörinu. Passið að sjóða ekki of lengi þá brennur smjörið en það er svo alveg tilgangslaust að gera þetta ef smjörið er soðið of stutt. Smjörið á að verða brúnt og það á að koma svona karamellur hnetukeimur af því. Það er líka hægt að fara dálítið eftir því þegar smjörið fer að krauma öðruvísi og froða myndast á yfirborðinu og próteinin fara að falla út. Prófið ykkur bara áfram með þetta.

Dokkan brugghús á Ísafirði

Ég kíkti loksins á Dokkuna á Ísafirði en Dokkan er fyrsta verstfirska brugghúsið, stofnað í oktober 2017.  Þetta er svo sem ekki beint í alfaraleið fyrir mig þannig að ég hef hingað til ekki átt leið hjá.  Ég kom til Ísafjarðar í fyrsta sinn um helgina, ofsalega skemmtilegur snotur bær.  Ég var nefnilega kominn í skuld við vini okkar Björgvin og Satu sem hafa búið á Ísafirði í nokkur ár og verið að bíða eftir innliti frá okkur Sigrúnu.  Alla vega, Dokkan, ég er svo sem ekki að smakka bjórinn þeirra í fyrsta sinn enda fást dósir frá þeim í Vínbúðinni í RVK en það bara eitthvað annað þegar maður er kominn á staðinn þar sem bjórinn er skapaður, og fá hann svo af krana í notalegri bruggstofu (taproom).  Bjór á heimavelli er alltaf bestur,  það segi ég alla vega. 

Dokkan er skynsamlega staðsett við höfnina þar sem stóru farþegaskipin leggja að og því tryggður ákveðinn straumur viðskiptavina ekki bara um helgar heldur virkum dögum líka.  Þetta er huggulegur staður sem serverar bæði mat og bjór af 12 krönum.  Það er líka myndarlegur dósakælir upp við einn vegginn.  Svo eru stórar glerrúður sem gefa gestum innsýn inn í sjálft brugghúsið þar sem galdrarnir gerast.

Ég smakkaði nýjan bjór frá þeim, Skutull IPA sem er ofsalega skemmtilegur single hop Galaxy IPA.  Galaxy eru spennandi humlar sem hefur verið erfitt að fá á heimsvísu en þeir gefa bjórnum sérstakt bragð.  Ég rabbaði stuttlega við Hákon sem er einn af eigendum Dokkunnar og spurði um Skutul í dós til að taka með heim.  Hann átti það ekki til enda var hann bara að fara skella honum á dósir sama kvöld. Hins vega bauð hann mér að renna við morguninn eftir áður en við rúlluðum heim á leið.  Ég þáði það boð og fékk með mér tvær kippur af bjórnum.  Við erum að tala um það ferskasta sem hægt er að fá, ekki sólarhrings gamall IPA á dós er bara geggjaður.  Miðinn var ekki klár en það er bara allt í lagi.

Ég mæli með að kíkja við á Dokkuna ef menn eru á ferð um Vestfirði, ég held að þetta sé eina handverksbrugghúsið á Vestfjörðum nema Galdri reyndar á Hólmavík.  En það er í lagi því menn geta bara byrgt sig upp af dósum fyrir ferðalagið.

Illiblóma Martini, hrærður ekki hrisstur!

Ég hef stöku sinnum sett inn hér uppskriftir fyrir hanastél þegar ég dett inn á eitthvað sérstaklega skemmtilegt að mínu mati. Bjóráhuginn er nefnilega pínu að fjara út því miður. Vonandi er það bara tímabil. En alla vega, ég hef reynt að fíla martini en það hefur bara reynst mér erfitt, allt of mikill vínandi líklega? Reyndar fannst mér Vesper Martini pælingin sem ég og Ragnar Freyr nafni minn duttum í hjá Marberg hér um árið dálítið skemmtileg. Líklega tengist það James Bond, eitthvað við það að smakka kokteilinn sem hann “bjó til”.

En ok, hér er ég með martini sem ég er virkilega ánægður með. Helvíti gott stöff. Hann er smá sætur og smá sterkur en alls ekki of og svo þessi sérstaki illiblómakeimur. Ég fann uppskrift á netinu en fór ekki alveg eftir henni en ég mun klárlega nota mína útgáfu næst. Og til að gefa smá skít í James Bond þá er þessi útgáfa hrærð en ekki hrisst eins og hann vildi hafa martini. Hrærð útgáfa gefur betra bragð og meira.

Það sem þarf í einn drykk

  • St Germain líkjör 40 ml
  • Himbrimi Old Tom Gin (dökkt) 40ml
  • Vermouth Antica Formula 20ml
  • Límónusafi 20ml

Aðferð

Taktu til fallegt martini glas. Settu svo klaka í kokteil hrisstara eða hátt glas. Settu svo öll hráefnin í hrisstarann og hrærðu vel þar til orðið vel kalt.

Svo er bara að “streina” í martini glas og njóta!

Djúpsteiktar Eldfjallarisarækjur Með Sætri Chilly Majósósu

Ok, þessar eru algerlega geggjaðar! Tekur nokkrar mínutúr að gera. Djúpsteikt vissulega en það er bara allt í lagi, smá spari bara. Allt sem er djúpsteikt er bara gott held ég svei mér þá. Ég væri jafnvel til í að prófa djúpsteiktan þorramat. Maður borðar bara salat á móti ekki satt?

En ok vindum okkur í þetta.

Það sem þarf

  • Risarækjur, ekki foreldaðar. Magn fer eftir græðgi
  • Maíshveiti til að velta rækjunum uppúr
  • AB mjólk eða súrmjólk til að velta rækjunum uppúr
  • Ca 1 dl gott majones
  • Ca 0,5 – 1 dl sriracha sósa
  • Ca 1 dl sæt chillisósa
  • Salt og pipar
  • Hvítlauksduft
  • Olía til að djúpsteikja uppúr
  • Smá ferskur kóríander

Aðferðin

Hitið olíu í djúpsteikingarpotti, eða djúpri pönnu. Saltið rækjurnar, smá hvítlauksduft líka og piprið. Setjið svo rækjurnar í skál og veltið uppúr AB mjólk eða súrmjólk. Þegar olían er orðin heit þá veltið þið rækjunum uppúr maíshveitinu, hér viljum við hjúpa rækjurnar vel af hveitinu. Ég hef fengið maíshveiti í Fiska en Sigrún mín segir að það sé nú til víða. ATH, þetta er ekki maizenamjöl sósujafnari.

Djúpsteikið í 3-4 mínútúr, saltið svo strax á eftir og látið aðeins kólna. Blandið saman ca 1 dl majonesi, 1 dl sætri chillisósu og 0,5-1 dl sriracha sósu. Smakkið þetta bara til. Veltið svo rækjunum uppúr sósunni og berið fram með ferskum kóríander.

Dóttir mín var alveg í skýjunum þegar hún smakkaði þetta og sagði þetta minna mikið á eldfjalla sushirúllurnar ef þið þekkið þær frá Tokyosushi. Við ákváðum því að skýra þessar rækjur eldfjallarækjur.

Pörunin

Hér kemur margt til greina, það er t.d. Geggjað að para þetta við West coast IPA en brakandi ferskur lager eða pilsener er líka geggjaður með þessu. Jafnvel spicy saison.

Geggjuð sænsk/indversk chilly klessukaka með spicy karamellu ganace topping

Þessa köku smakkaði ég fyrst þegar við Yesmine Olsson elduðum saman inverska veislu fyrir vini okkar. Mindblowing skal ég segja ykkur, ég hef margoft smakkað sænska klessuköku en þessi er með smá auka krúsídúllum, chilly, myntu og pistasiuhnetum og þessi karamellu hjúpur yfir er bara rugl. Uppskriftin er sem sagt í grunninn frá Eldhússögum og svo hefur hún verið tekið á næsta level af Yesmine. Þessi kaka er fullkominn endir á dásamlegri indverskri veislu.

Við Sigrún vorum með gesti í gær, við elduðum besta kjúklingarétt veraldar, Chicken 65 og svo vorum við með sturlaðar aloo kartöflur með. Í lokin buðum við uppá þessa köku sem sló rækilega í gegn.

Það sem þarf

Fyrir botninn

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 1 og 1/2 dl Hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • Hnífsoddur salt

Fyrir chilly karamellukremið

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 1/4 tsk chilly flögur (vorum með extra hot flögur)

Fyrir cruncy kornflex topping

  • 100 g suðusúkkulaði, brætt
  • 1 bolli kornflex
  • 1 tsk rifinn engifer
  • 1/4 tsk chilly flögur
  • Smá salt
  • Pistasíuhnetur, saxaðar
  • Fersk mynta, skorið smátt
  • 1/4 peli rjómi, þeyttur

Aðferðin

Ok það gæti vel verið að Yesmine geri þetta öðruvísi, en svona gerðum við þetta. Höfum gert þetta nokkrum sinnum og alltaf komið vel út.

Hitið bakarofn í 175 gráður, bræðið svo 100g smjör í potti. Takið fram skál, setjið í hana tvö egg, 1,5 dl hveiti, 5 mtsk kakó, 2 tsk vanillusykur og smá salt. Bætið svo smjörinu samanvið og blandið vel. Smyrjið lausbotna form, ca 22-24 cm þvermál. Hellið deiginu ofaní og bakið í ca 20 mínútur. Takið svo kökuna út og látið kólna.

Þá er það kremið. Setjið allt saman í pott nema kryddunum, sem sagt 2 dl rjóma, 1 dl sykur, 1 dl síróp og 100g suðusúkkulaði. Hrærið saman og latið svo suðuna koma upp. Látið svo blönduna malla á lægri hita þar til hún þykknar. Hrærið í annað slagið. Þeta tekur um 10 mínútur. Þegar þetta er orðið dálítið þykkt takið þið pottinn af og bætið smjörinu út í. Blandið vel saman. Bætið svo saman við chilly og saltinu. Smakkið þetta til, það fer auðvitað eftir hversu sterkt chilly þið eruð með. Þetta á samt að rífa dálítið í.

Látið standa þar til það hefur kólnað vel niður. Þetta er reyndar ansi veglegt, mætti jafnvel helminga uppskriftina. Hellið svo yfir kökuna og látið kólna áfram inn í ískáp.

Bræðið 100 g suðusúkkulaði, blandið chilly og fínt rifnumn engifer saman við. Smá salt líka. Hellið kornflex flögum (1 bolli) í skál og hellið súkkulaðinu yfir, blandið vel þannig að flögurnar hjúpist vel. Drefið svo úr þessu á smjörpappír og kælið í frysti.

Svo er bara að taka kökuna úr kæli, mylgja súkkulaðikornflexið yfir, saxið svo pistasíuhnetur og dreifið yfir, ekki spara hneturnar. Svo er ágætt að klippa niður smá ferska myntu. Við hentum bláberjum yfir þetta síðast, kom vel út. Þetta er frábært með mynturjóma. Setjið rjomann bara í skál, klippið niður smá búnt af myntu og þeytið þar til orðið stíft. Ekki flókið

Djúpsteikt Maísrif með chipotle majo

Þetta er skemmtilegur biti sem Björk og Maggi í næsta húsi gáfu okkur að smakka um daginn. Algerlega frábært nasl t.d. fyrir matinn eða bara eitt og sér yfir leiknum. Mér finnst líka gaman hversu framandi og óvenjulegt þetta lítur út á diskinum, manni gæti dottið í hug kolkrabbi eða álíka.

Það sem þarf

  • 4 maískólfar skornir til helminga svo aftur í fernt eftir endilöngu
  • Olía til djúpsteikingar
  • Ca 1 mtsk chilliduft
  • ca 1 mtsk hvítlauksduft
  • Hálf til ein mtsk reykt papríka
  • Salt og pipar
  • Nokkrar límónur
  • 1 bolli majones
  • 1-1,5 tsk chipotle paste
  • Límónusafi
  • salt og pipar

Aðferð

Notaðu beittan hníf annars er hætt á því að missa nokkra putta. Skerðu hvern maískólf til helminga, svo stillirðu helmingunum upp á rönd og skerð niður til helminga endilangt og svo aftur til helminga endilangt þannig að þú endar með 4 rif úr hverjum hálfum maískólfi. Sem sagt úr einum maískólfi færðu 8 rif.

Gerðu kryddblönduna, chilliduft ca matskeið, hvítlauksduft ca matskeið og svo reykt papríka. Líklega er hálf matskeið nóg. Smá salt og pipar, þetta er dálítið slump. Smakkaðu þig aðeins áfram.

Djúpsteiktu rifin við um 170 gráður í 7-8 mínútur. Takktu rifin uppúr olíunni og veltu þeim uppúr kryddblöndunni. Kreistu svo límónusafa yfir rifin.

Svo er það 1 bolli majones í skál, hrærðu saman við 1 til 1,5 tsk chipotle paste, kreistu smá límónusafa saman við eftir smekk. Smakkaðu þig svo til með salti og pipar.

Berðu fram með límónubátum.