Við hjónin kíktum um síðustu helgi (12.4.19) út að borða með nokkrum góðum vinum, eitthvað sem við gerum mikið af og höfum gert í gegnum tíðina. Við ákváðum að skoða Eiriksson Brasserie sem opnaði 2.4.2019 í gamla Landsbankahúsinu við Laugaveg 77. Við vorum svo sem ekki þarna til að taka út bjórsenuna eða náttúrúvíns úrvalið heldur bara að njóta góðs matar með góðum félagsskap en matseðillinn lítur nefnilega mjög vel út og er megin áhersla lögð á truflur þarna. Auðvitað gjóar maður samt alltaf augunum yfir drykkina á matseðlinum, og myndar sér skoðanir út frá því.
Meðal eiganda staðarins eru reynsluboltar í bransanum, þau Friðgeir Ingi Eiriksson og Sara Dögg Ólafsdóttir. Það var mikið að gera þetta kvöld, staðurinn troðfullur af fólki og skemmtileg stemning. Staðurinn er allur hinn glæsilegasti að sjá og lofaði því góðu fyrir það sem koma skyldi.
Við vorum því nokkuð hissa með það sem við upplifðum þetta kvöld og verð ég að segja fyrir mitt leiti að ég mun ekki koma aftur á Eiriksson. Það er ekki venjan hjá okkur hér á Bjór & Matur að skrifa neikvæða gagnrýni um bari, brugghús eða veitingastaði, við höfum þá frekar sleppt að fjalla um þá ef við erum ósátt. Hins vegar voru viðbrögð staðarins þegar bent var á það sem miður fór þannig að ég bara get ekki látið það vera að skrifa hér um okkar reynslu.
Staðurinn er glænýr, það verður ekki af þeim tekið og því á eftir að slípa eitt og annað til og laga hnökra, eitthvað sem menn gætu sagt að sé bara eðlilegt, hins vegar má benda á það að verðlag er ekkert lægra þegar staðir eru að opna og slípast til. Þú greiðir jafn mikið fyrir það, ja ég vona amk að þeir hækki ekki verðin þegar á líður. Við verðum samt að vera sanngjörn því þetta er alls ekki dýrasti staður borgarinnar.
Við vorum sex og tókum öll eftir því strax að eitthvað vantaði upp á þjónustuna, við vorum t.d. búin að sitja dágóða stund áður en einhverjum datt í hug að færa okkur matseðlana. Við gátum svo loks pantað drykkina, bjórúrvalið er ekkert sérstakt en dregur svo sem ekki niður staðinn enda ekki lögð sérstök áhersla á bjór. Þeir eru þó með Franziskaaner, Leffe, Stella, Peroni, Kalda IPA og svo Eirikson Kalda (sem í raun er bara klassískur Kaldi ljós). Það var einhver við borðið sem pantaði Franziskaaner og annar Leffe og báðir komu þessir í réttum glösum sem var ánægjulegur plús. Ég og frú vorum hins vegar í stuði fyrir búbblur og á listanum eru þeir með Gulu ekkjuna (Veuve Clicquot ) sem er afar ljúft kampavín og á fínum prís, glasið á 1700 kr. Þjónustustúlkan kom hins vegar til baka tómhent og sagði okkur að þeir væru búnir með Gulu ekkjuna. Svekk, frúin fékk sér þá hvítvín en ég ákvað að fara í vatnið bara enda næsta kampavín sem í boði var á 2800 kr glasið. Það verður að teljast lélegt að geta ekki boðið uppá það sem er á matseðlinum,ég meina hvernig getur maður látið kampavínið klárast, þetta er staður sem státar að flottasta vínkjallara landsins. Líklega þá bara í rauðvíni eða hvað?
Maturinn kom svo nokkurn veginn á sama tíma, einhverir smáhlutir sem gleymdust, ekkert stórmál. Einn úr hópnum hins vegar fékk ekki sinn rétt, andalifur pizzu fyrr en eftir dúk og disk, flestir búnir að borða þegar rétturinn kom. Engin sárabót boðin þegar maturinn kom loksins. Maturinn var misgóður, við smökkuðum eitt og annað, við Sigrún fengum flotta geitaosta pizzu og truflu gnocchi en andalifrin, sem er eitt af okkar uppáhalds, var ekki vond en bara voðalega látlaus og óspennandi, eitthvað sem ég myndi aldrei panta mér aftur þarna. Flestir við borðið voru ekkert yfir sig spenntir yfir matnum, gnocchi hjá einum ofsoðið og pizzan með andalifrinni, sem nota bene var mælt með í upphafi, var eitt það versta sem við höfum bragðað. Þetta var pizzan sem kom þegar allir voru búnir að borða.
Gott og vel, svona gerist. Það eru ekki allir ánægðir alltaf og smekkur manna er misjafn. Þegar hins vegar kúnni lætur vita af óánægju sinni þá myndi maður ætla að veitingastaður myndi taka við slíkum upplýsingum með þökkum og nota til að skoða það sem mætti bæta og jafnvel bregðast við og lagfæra. Í það minnsta biðjast afsökunar og jafnvel bæta fyrir á einhvern máta. Þannig færi maður jafnvel tiltölulega sáttur frá borði. Á Eiriksson hins vegar mættum við bara hroka og það frá einum af eigendum staðarins. Sú sem fór og lét vita af þessu fyrst (ekki undirritaður) fékk að vita að það væri sko til fleiri kampavín, enginn skilningur fyrir afhverju við vorum að kvarta, hins vegar var okkur ekki boðið annað kampavín á sama verði, 1700 vs 2800 kr er töluverður munur. Svo var henni bent m.a. á að 30 manns eða var það 300 manns, ég man það ekki, hefðu pantað andalifur pizzuna þetta kvöld og sko enginn kvartað.
Þjónninn okkar reyndi samt að bæta fyrir þetta, hún var mjög afsakandi og reyndi að bjóða þeirri sem fékk matinn svona seint drykk, loks kom svo tiramisu eftirréttur í boði hússins, þegar við vorum að fara standa upp og borga, þetta var virkilega ljúffengur réttur, líklega það besta sem við fengum þetta kvöld. Ég vil líka taka fram að ég fékk mér einn tiramisu martini og hann var alveg spot on.
Svo kom að því að gera upp, aftur var það einn af eigendum sem tók við okkur, parið sem fékk andalifur pizzuna þurfti ekki að borga fyrir hana blessunarlega en það þurfti samt að fljóta með að þetta væri mjög skrítið, enginn hefði kvartað. Þegar ég svo reyndi að benda viðkomandi á að í raun varðar okkur ekkert um hvað öðrum hafi líkað eða ekki líkað var ég spurður hvort ég vissi hvernig andalifur ætti að vera, hvort ég hefði yfir höfuð smakkað andalifur. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur, í stað þess bara að biðjast afsökunar og jafnvel gefa smá sárabætur þá er viðkomandi að rengja okkur og í raun láta okkur líða eins og við hefðum ekki hundsvit á matarmenningu hvað þá andalifur. Ég veit ekki , við ættum kannski bara að skammast okkar fyrir að vera að efast um gæðin? Það voru 30 aðrir sem ekki voguðu sér að kvarta! Þetta segir viðkomandi án þess að hafa smakkað það sem okkur var borið á borð en ég spurði viðkomandi sérstaklega að því hvort hann hefði smakkað réttinn okkar. Alla vega, við hjónin höfum ferðast um allan heim og borðað á Michelin stöðum og öðrum stöðum hér og þar og svo sannarlega borðað andalifur í París og víðar og við teljum okkur vita upp á hár hvenær OKKUR finnst eitthvað óætt eða ekki, jafnvel þó við séum ekki með Hótel Holt á ferilskránni eins og eigendur Eiriksson.
Við vonum að þetta hafi verið undantekning þetta kvöld því staðurinn er flottur og hugmyndafræðin skemmtileg. Ég held bara að menn þurfi aðeins að skoða hvernig brugðist er við kvörtunum og ekki taka þeim sem einhverri árás. Það er langt frá því að vera ódýrt að fara út að borða á Íslandi og kúnninn á því skilið fagmannleg viðbrögð og virðingu ef eitthvað bjátar á. Og já, ef menn vilja kafa í tölfræði þá voru það 30 sem ekki kvörtuðu en 6 sem gerðu það. Við getum þá sagt að það hafi verið 20% óanægja með Andalifur Pizzuna þetta kvöld eða 6/30.
You must be logged in to post a comment.