Það hefur ekki farið framhjá lesendum að við höfum verið að rannsaka dálítið gufusoðna Bao brauðið síðustu daga. Hér er fylling sem mig langaði að prófa eftir að ég smakkaði portobello fyllinguna á Skúla Bao Bun. Djúpsteiktir portobello sveppir með súrum gúrkum, kóríander og spicy majo, þetta var svo sem ekki alveg eins og hjá Skúla en var alveg svakalega gott.
Það sem þarf fyrir soðbrauðin finnið þið hér, ásamt aðferðinni.
ÞAÐ SEM ÞIÐ ÞURFIÐ (fyrir portobello fyllingu):
Portobello sveppir, 2-3 hattar
½ bolli hveiti (ca 120ml)
1 og ½ bolli brauðrasp (um 350ml)
¼ bolli (60ml) fínt rifinn parmegano ostur, má alveg vera ódýrari þurr ostur
2 mtsk ferskl steinselja skorin fínt
½ tsk þurkaður chilli pipar (flögur)
Salt og malaður svartur pipar
3 egg, pískuð létt
AÐFERÐ:
Takið sveppina, dustið mold af og fjarlægið stilkana og fjarlægið fanirnar („tálknin“ undir sveppnum) og snyrtið kanta. Skerið svo hattinn í ræmur, ca 1 cm breiðar. Setjið eggin í skálina og pískið létt, hveitið í aðra skál og í þá þriðju setjið þið kryddin, raspið og rifna ostinn. Hitið olíuna í potti þar til að þið sjáið að hún er oriðin vel heit eða (ca 170 gráður). Takið svo sveppina, veltið fyrst uppúr hveiti, svo eggjum og loks kryddblöndunni. Setjið svo varlega ofan í pottinn og látið krauma þar til orðið vel krispí og fallega gullbrún. Látið svo drjúpa af þeim á eldhúsbréfi. Smakkið svo bara til, ef ykkur finnst sveppirnir ekki alveg tilbúnir innst þá má alveg lauma þessu í ofn aðeins.
Svo klippið þið niður kóríander, ekki nota stilkana. Hrærið saman majonesi og sriracha sósu og smakkið til eftir smekk. Það er líka mjög flott að nota bara sriracha óblandaða. Raðið þessu svo öllu í Bao brauðin þegar þau eru tilbúin, ekki gleyma súru gúrkunum og berið svo strax fram á meðan brauðið er volgt. Steiktur laukur er pottþétt gott líka með þessu.

BJÓRINN:
Saison er snilld hér, jörðin í bjórnum gengur vel við jarðbundna sveppina og svo koma þessi belgísku krydd mjög vel út með kóríandernum. Sýran í gúrkunum blandast við léttu sýrðu tónana í bjórnum og svo kemur sætan frá bjórnum og gerinu mjög vel á móti chilli sósunni. Það fer auðvitað eftir bjórnum en flestir saison bjórar eru léttir og frískandi og halda vel velli þrátt fyrir sriracha sósuna og sérstaklega ef menn fara bara í spicy-mayo sem er auðvitað ekki eins sterk. Bjórinn léttir stemninguna þannig að rétturinn verður ekki of þungur í maga. Dæmi um saison hér heima er t.d. SKAÐI frá Ölvisholti ef hann fæst þá enn? SAISON DUPONT sem er eiginlega konungurinn í saison fjölskyldunni og svo er LEIFUR frá borg nokkurs konar saison, hann er hins vegar kryddaður með blóðbergi og beitilyngi sem gefa alveg nýtt bragð með þessum rétti.
Ég valdi hins vegar ÚLF frá Borg með þessu, minn uppáhalds íslenski bjór um þessar mundir, sérstaklega eftir breytingarnar. Úlfur er IPA sem gengur gríðarlega vel með þessu, bjórinn hefur beiskjuna og snerpuna sem þarf eiginlega á móti svona djúpsteiktum mat sem er jú dálítið mikið löðrandi í fitu, beiskjan gerir áferðina beittari og dregur úr þunganum frá fitunni. Svo koma sýrurnar í humlunum með alls konar sítrus og blóm sem algjörlega knúsa kóríanderinn og gera hann ofsalega skemmtilegan. Súru gúrkurnar eru einnig flottar með humlunum og svo eins og svo oft hefur komið fram þá magnar beiskjan alltaf aðeins brunann í chilli-inu en þessi áhrif eru mest í upphafi bara. Fyrir okkur hér þá er beittur ferskur IPA einmitt það sem þarf til að einhvern veginn gera alla máltíðina léttari og þægilegri og skapar pláss fyrir fleiri soðbrauð hvort sem það er jákvætt eða ekki. Þetta combo var alveg svakalega ljúffengt. Auðvitað kona fleiri IPA til greina, ss GOTO frá Stone, STONE IPA, TUMI HUMALL frá Gæðingi ofl. Þið getið einfaldlega prófað þetta sjálf heima eða rölt niður á Skúla Craft bar og prófað!