Það er stórkostlegt þegar maður dettur niður á eitthvað nýtt og gott. Ég var í kjötbúðinni um daginn, Kjötsmiðjunni Fosshálsi að næla mér í tvíreykt hangikjöt og þá benti kjötmeistarinn mér á grafið lamb. Okkur Sigrúnu fannst það hljóma vel og ákv að prófa, kjötmeistarinn mælti með graflaxsósu og soðið egg með.
RÉTTUR: Grafið lamb, fínskorið í þunnar sneiðar með ögn graflaxsósu og soðnu eggi. Fínt á snittubrauð eða bara beint á diskinn.
BJÓRINN MEÐ: bjórinn má ekki yfirtaka senuna, lambið er svo dásamlegt og ljúft og þarf að fá að njóta sín. Mildur saison/sveitabjór á borð við LEIF frá Borg er flottur með. Við viljum íslenskan bjór með íslensku lambi ekki satt? Það væri vel hægt að velja SKAÐA saison líka frá Ölvisholti, eða einhvern erlendan ef maður vill svíkja lit!
Ég er hrifinn af tvíreykta lambinu en ég verð að segja að þetta grafna lamb er bara dásamlegt. Það er svo mjúkt og djúsí með aðeins piparkryddi og öðru góðgæti. Feiti „kindakeimurinn“ sem maður finnur í hangikjötinu er alveg fjarverandi. Graflaxsósan er svo alveg sérstök, hún er samt sem áður alls ekki neitt sem þarf að vera með en lífgar samt uppá réttinn en lambið eitt og sér er bara svo gott. Eggið er skemmtilegt með (á myndinni eru litlir puttar reyndar búnir að taka eggið og borða það en það verður að hafa það).
Hér eru dálítið viðkvæmir bragðtónar á ferð og þegar maður ætlar að para drykkinn með þarf að hafa það í huga, maður vill alls ekki yfirgnæfa réttinn með of öflugum drykk. Rauðvínið er eiginlega of mikið myndi ég segja. Við ákváðum að fara í sveitabjór eða saison með þessum rétt en við höfum lengið haft gaman að þessari pörun, þ.e.a.s saison með lambakjöti. LEIFUR er sérstaklega skemmtilegur því í honum er íslenskt blóðberg sem passar vel við „jarðartóna“ í kjötinu. Venjulega er engin beiskja í saison og hann er skemmtilega kryddaður með ögn sítrustónum og í Leif er svo notað aðeins piparkorn. Það var mjög gaman að sjá hvernig blóðbergið lifnaði við í bjórnum í þessari pörun. Bjórinn bætti svo notalegu kryddi og sætum gerkeim við kjötið án þess að taka neitt frá því. Mjög skemmtileg pörun sem vert er að prófa.
You must be logged in to post a comment.