Villigæsapaté með vinagrette, og klettasalati, fullkomið með Skyrjarmi bláberjabjór frá Borg.

Skyrjarmur er nýjasti jólabjórinn frá Borg Brugghús  en um er að ræða stórkostlegan bláberja súrbjór bruggaður með skyri og óvenjulega mikið af bláberjum.  Bjórinn er gríðarlega drekkanlegur, mildur og ljúfur með ögn súran blæ sem þó er óverulegur því bláberjasætan kemur vel á móti og skapar frábært jafnvægi.  Bláberin eru allsráðandi í þessum bjór og því fannst okkur rétt að prófa að para hann við einhverja villibráðina sem við erum vön að gæða okkur á yfir jólin.

Við prófuðum tvo rétti sem báðir steinlágu, villigæsapaté með klettasalati og bláberjavinagrette  eða hindberjavinagrette sem er jafn gott.  Þessi pörun kom virkilega vel út.  Patéið nýtur sín með klettasalatinu og sætsúru vinagrette-inu en svo kemur bláberja hamingjan frá bjórnum og bindur allt þetta í eina ljúfa heild sem skolast svo niður í mallakút.  Hvorugt tekur völdin, hvorki bjórinn né gæsin en einmitt þannig á þetta að vera.  Frábært.  Það er jafnvel hægt að sleppa vinagrette en þá er gott að fá sér sopa á meðan maður er með gæsina í munni.

IMG_7700.JPG
Hinn rétturinn er af sama toga en þó allt öðruvísi, heitreykt heiðagæs með vinagrette og klettasalati ofan á snittubrauð.  Hér er kjötið dálítið þurrt á tungu en með öööörlitlu af vinagrette kemur smá kontrast við villibragðið og mýkir kjötið sem fær að njóta sín í munni.  Bjórinn kemur svo á eftir og hreinsar góm og tungu með unaðslegum bláberjakeim, létt súrt og sætt sem tengir svakalega skemmtilega við villibragðið í gæsinni.  Ég veit ekki hvor rétturinn er betri þannig að við munum hafa þá báða með Skyrjarmi í jólaboðum þetta árið.