Villigæsapaté með vinagrette, og klettasalati, fullkomið með Skyrjarmi bláberjabjór frá Borg.

Skyrjarmur er nýjasti jólabjórinn frá Borg Brugghús  en um er að ræða stórkostlegan bláberja súrbjór bruggaður með skyri og óvenjulega mikið af bláberjum.  Bjórinn er gríðarlega drekkanlegur, mildur og ljúfur með ögn súran blæ sem þó er óverulegur því bláberjasætan kemur vel á móti og skapar frábært jafnvægi.  Bláberin eru allsráðandi í þessum bjór og því fannst okkur rétt að prófa að para hann við einhverja villibráðina sem við erum vön að gæða okkur á yfir jólin.

Við prófuðum tvo rétti sem báðir steinlágu, villigæsapaté með klettasalati og bláberjavinagrette  eða hindberjavinagrette sem er jafn gott.  Þessi pörun kom virkilega vel út.  Patéið nýtur sín með klettasalatinu og sætsúru vinagrette-inu en svo kemur bláberja hamingjan frá bjórnum og bindur allt þetta í eina ljúfa heild sem skolast svo niður í mallakút.  Hvorugt tekur völdin, hvorki bjórinn né gæsin en einmitt þannig á þetta að vera.  Frábært.  Það er jafnvel hægt að sleppa vinagrette en þá er gott að fá sér sopa á meðan maður er með gæsina í munni.

IMG_7700.JPG
Hinn rétturinn er af sama toga en þó allt öðruvísi, heitreykt heiðagæs með vinagrette og klettasalati ofan á snittubrauð.  Hér er kjötið dálítið þurrt á tungu en með öööörlitlu af vinagrette kemur smá kontrast við villibragðið og mýkir kjötið sem fær að njóta sín í munni.  Bjórinn kemur svo á eftir og hreinsar góm og tungu með unaðslegum bláberjakeim, létt súrt og sætt sem tengir svakalega skemmtilega við villibragðið í gæsinni.  Ég veit ekki hvor rétturinn er betri þannig að við munum hafa þá báða með Skyrjarmi í jólaboðum þetta árið.

Gæsapaté með rauðlaukssultu og Backwoods Bastard

img_5697


RÉTTUR:  Gæsapaté frá Kjötbúðinni með rauðlaukssultu

BJÓRINN MEÐ: Þessi réttur kallar á eitthvað massíft og flókið, barley wine gengur líklega vel hér (eins og t.d. Giljagaur frá Borg) en við ákváðum að prófa scotch ale.  FOUNDERS BACKWOODS BASTARD er alveg magnaður bjór einn og sér en með þessum rétt verður hann mjög skemmtilega villtur og gerir gæsapatéið mun skemmtilegra.  Bjórinn er nýkominn í sölu í vínbúðinni og því ber að fagna.


 

Jól og áramót eru skemmtilegur tími því þá má maður leyfa sér alls konar kræsingar.  Ég hef undanfarin ár haft Backwoods Bastard sem einn af mínum áramótabjórum en þetta er algjörlega stórkostlegur bjór frá einu af mínum uppáhalds brugghúsum Founders.  Við erum að tala um 11.1% scotch ale sem er þroskaður í „single malt scotch“ eikartunnum í ár eða svo.  Hér eru menn að fá alls konar gotterí, karamellu, eik, kókos, vínlega sætu og auðvitað aðeins bourbon eða reyndar töluvert bourbon.  Það er líka þó nokkur beiskja í kauða og mikill þróttur.  Mér var hugsað til þessa bjórs þegar ég var staddur í Kjötbúðinni við Grensásveg fyrr í dag á Þorláksmessu að næla mér í nauta carpaccio fyrir aðfangadag.  Þar var mér boðið uppá ljómandi gæsapaté með rauðlaukssultu.  Ég fór strax að íhuga bjór með þessu og datt eiginlega strax Backwoods Bastard í hug en það þarf einmitt dálítið þróttmikinn bjór með svona rétt.

Við Sigrún ákváðum að prófa þetta núna til að sjá hvort þetta gæti gengið um áramótin.  Viti menn þetta svona líka smellpassar.  Gæsapatéið er dálítið feitt með piparkornum og villikeim en samt  látlaust allt saman, rauðlaukssultan er hins vegar nokkuð bragðsterk og mikil en hún lyftir alveg upp gæsinni og gerir hana stórskemmtilega.  Rétturinn þolir því nokkuð öflugan bjór.  Laukurinn er sætur og karamelliseraður en það er einmitt það sem kemur svo skemmtilega út með bjórnum.  Þar kemur sætur vínandinn vel út og svo tvinnast þetta allt saman með kókos og karamellu sem ýtir undir karamelluna í lauknum.  Maður hefði kannski ætlað að bjórinn myndi stela senunni en svo er ekki, þetta verður bara allt eitthvað svo mun flóknara og skemmtilegra svona. Beiskjan vinnur líka vel á móti fitunni og hreinsar pallettuna á milli bita. Þvílík hátíð sem er framundan.