Surtur 30 og tvíreykt lamb, flott Þorracombo!

img_5666


RÉTTUR:  Tvíreykt lamb frá Kjötsmiðjunni með heimagerðri piparrótarsósu og klettasallati á snittubrauði.  Lambið er fínskorið í þunnar sneiðar, sett á snittubrauð ofan á fersku kelttasallati og svo piparrótarsósa yfir.

Piparrótarsósan: það er allt í lagi að kaupa bara tilbúna sósu sem fæst t.d. í  flestum kjötbúðum ef maður er ekki að nenna þessu en annars er til aragrúi af uppskriftum á netinu, t.d. þessi hér á Eldhússögum.

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 msk majónes
  • 1 pakki piparrótarmauk
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt

BJÓR MEÐ: Hér viljum við prófa að para reyk á móti reyk og bjórinn má vel vera dálítið öflugur.  SURTUR 30 er taðreyktur imperial stout með góða fyllingu, létta sætu og svo áberandi taðreyk í bragði.  Kemur mjög skemmtilega út hér.


 

Nú er Þorrinn að ganga í garð eina ferðina enn með öllum þeim viðbjóði sem honum fylgir í matargerð.  Það er þó ljós í myrkrinu, Surturinn frá Borg sem kemur ár hvert í nýrri mynd og bjargar Þorranum.   Að þessu sinni kemur SURTUR 30 aftur ásamt fleirum.  Surt 30 2016 árgerð smakkaði ég í október 2016 en það er einmitt bjórinn sem er að koma núna á markað eftir að hafa þroskast á flöskum í nokkra mánuði.  Taðreykurinn er orðinn mjög látlaus og vel viðráðanlegur.  Bjór & Matur ákvað að prófa að skipta út súrum ógeðslegum hrútspungum og kæsta sjálfdauða hákarlinum fyrir okkar alíslenska tvíreykta hangikjöt og para við Surt 30.   Hugmyndin er góð, reykur á móti reyk ekki satt?  Þetta gengur mjög vel upp, reykurinn í bjórnum lyftir upp bragðinu í hangikjötinu og svo pakka ristuðu malttónarnir öllu vel inn með dulítilli sætu.  Bjórinn er einnig nokkuð beiskur en beiskjan hjálpar beiskjunni í klettasallatinu að kljúfa fituna í sósunni og lambinu og dregur þannig ögn úr „kindafitubragðinu“ sem fylgir hangikjötinu þó það sé minna áberandi í því tvíreykta.  Þetta kom alla vega mjög vel út og er auðvitað alveg eins íslenskt og það gerist og því vel viðeigandi á sjálfum Þorranum.  Njótið?

Giljagaur með tvíreyktu alíslensku lambi með heimagerðri piparrótarsósu og klettasallati

 

RÉTTUR:  Tvíreykt lamb frá Kjötsmiðjunni með heimagerðri piparrótarsósu og klettasallati á snittubrauði.  Lambið er fínskorið í þunnar sneiðar, sett á snittubrauð ofan á fersku kelttasallati og svo piparrótarsósa yfir.

Piparrótarsósan: það er allt í lagi að kaupa bara tilbúna sósu sem fæst t.d. í  flestum kjötbúðum ef maður er ekki að nenna þessu en annars er til aragrúi af uppskriftum á netinu, t.d. þessi hér á Eldhússögum.

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 msk majónes
  • 1 pakki piparrótarmauk
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt

BJÓR MEÐ: Bjórinn með þarf að vera þróttmikill til að ráða við þennan rétt.  barley wine er alveg kjörinn stíll í verkefnið.  Hér völdum við Giljagaur frá Borg sem er einn af okkar uppáhalds jólabjórum.  Geggjað kombo.  Það eru því miður ekki margir barley wine bjórar í vínbúðinni en þó eru þeir til, spyrjið bara staffið í búðinni.


Við Íslendingar borðum alls konar kræsingar yfir hátíðarnar, einn vinsælasti rétturinn er gamla góða hangikjötið sem mér finnst reyndar persónulega alls ekkert spennandi. Tvíreykta lambið er hins vegar stórkostlegt og alveg borðleggjandi sem t.d. forréttur á aðfangadag eða áramótum, já eða bara sem nart á Þorláki yfir síðustu gjöfunum. Við Sigrún ákváðum þetta árið að prófa bjór með í staðinn fyrir rauðvínið sem reyndar kemur alltaf vel út með þessum rétti.

Kjötið fengum við í Kjötsmiðjunni Fosshálsi en þar bentu fróðir menn okkur svo á annan skemmtilegan rétt, grafið lamb sem á að vera gott með graflaxsósu og harðsoðnu eggi.  Við ákváðum að prófa bæði (sjá nánar hér).

img_5647

Tvíreykta lambið er dálítið feitt í munni með reyk og aðeins salti og svo þessum einkennandi hangikjötskeim sem við þekkjum öll og elskum en er þó mun mýkri og mildari en í venjulegu hangikjöti.  Persónulega finnst mér hefðbundið hangikjöt ekkert spennandi, já uss ég veit ekki dæma.  Piparrótarssósan kemur svo með örlítið kryddað og sætt bragð á móti og loks rífur beiskt klettasallatið aðeins í og skapar þarft jafnvægi.   Það er bæði hægt að gera sósuna sjálfur og finnast margar uppskriftir á netinu, t.d. hér á Eldhússögum en ef maður hefur ekki tíma er vel hægt að kaupa sósuna t.d. á sama stað og kjötið og það er oftast bara flott sósa.
Rétturinn stendur fyllilega teinréttur einn og sér en þegar maður parar saman við réttan bjór þá gerist eitthvað enn meira spes.   Þessi réttur er hins vegar töluvert öflugur og þarf sterkan og mikinn bjór sér við hlið, við völdum að prófa GILJAGAUR frá Borg, einfaldlega af því að það er stórkostlegur bjór og hann er svo sannarlega öflugur án þess að vera ruddalegur.  Já það má nefnilega ekki gleyma því að við erum ekki bara að leita eftir einhverjum bjór sem passar við matinn heldur viljum við góðan bjór, dásamlegan jafnvel og pörunin á að upphefja bæði réttinn og bjórinn.  Með Giljagaur  þá er þetta solid. Giljagaur er flottur barley wine sem þýðir þróttur og þó nokkur sæta, mér finnst svo Giljagaur alltaf bera með sér einhverja lúmska appelsínu í  bakgrunni.  Sætan í bjórnum kemur skemmtilega á móti reyknum og seltunni í kjötinu og passar vel við mjúka sæta bragðið í piparrótarsósunni.  Klettasallataið kemur svo með beiskjuna sem klýfur fituna í lambinu og gerir hana meira viðráðandi, einnig bakkar beiskjan í bjórnum þessa fléttu skemmtilega upp.  Rétturinn og bjórinn tvinnast saman og upphefja hvort annað án þessa að gleypa, stórkostlegt alveg.  Þetta er réttur sem verður á borðum á þessu heimili á aðfangadag svei mér þá.