Tvíreykt hangikjöt og grafið lamb með tveim flottum jólabjórum!

Við hjónin uppgötvuðum í desember í fyrra algjörlega undursamlegt kjöt frá KjötsmiðjunniGrafið lamb og tvíreykt hangikjöt.  Við erum ekki að tala um hangikjötsstykki eins og maður er vanur heldur fínskorið næfurþunnt kjöt sem þeir vacumpakka á staðnum þarna í Kjötsmiðjunni.  Upplifunin er allt önnur en þegar maður er sjálfur að reyna að skera þetta af einhverjum lærisbút sem maður fær venjulega.  Grafna lambið er eins, töfrandi þunnar rauðar mjúkar sneiðar sem bráðna í munni.  Þvílíkur unaður.  Ég mæli eindregið með þessu.  Í fyrra lékum við okkur aðeins með bjórpörun með þessari dásemd og kom Giljagaur frá Borg fullkomlega vel út með tvíreykta hangiketinu á meðan léttari bjór á borð við Leifur Saison einnig frá Borg small alveg við viðkvæmari graflambið.  Nú er húsið skreytt að utan og desember að nálgast eins og óð fluga og þá fer maður að hugsa í jólakræsingum.  Í kvöld vorum við að klára skreytingar innandyra og þá þýðir ekkert að eyða öllu kvöldinu í eldamennsku.  Maður verður samt að fá jólafixið sitt og því völdum við grafna lambið og það tvíreykta því það er fljótlegt og einfalt í undirbúningi.  Þegar maður er eginlega of nýjungagjarn og experimental þá þýddi auðvitað ekki að fara í sömu pörun eins og í fyrra, maður verður að prófa eitthvað nýtt, eitthvað sem kallar fram alveg nýja upplifun.  Ég átti dós af jólabjórnum frá Bryggjunni Brugghús sem þeir kalla Fagnaðarerendið og er 5.5% belgískur dubbel, eins átti ég Mikkeller Ginger Brett IPA sem sló í gegn hjá okkur í fyrra.  Við mátuðum þessa tvo með kræsingum kvöldsins og komu þeir mjög vel út.  Tvíreykta hangikjötið er mjúkt og djúsí með nokkuð reyktum keim ásamt kryddi og svo auðvitað þetta einkennandi lambabragð þó svo að það sé í algjöru lágmarki.  Þetta kallar dálítið á bjór sem hefur sterkan persónuleika en eins og alltaf yfirgnæfir ekki kjötið.  Fagnaðarerendið kom mjög vel út, bjórinn er þægilega mildur og ber með sér ögn ávaxtasætu frá dökkum þurrkuðum ávöxtum og notalegan kryddkeim frá belgísku gerinu.  Reykurinn frá kjötinu blandast svo í bjórinn og við fáum út ofsalega skemmtilegan létt reyktan dubbel.  Alveg æðislegt.  Fagnaðarerendið er bara hinn ljúfasti jólabjór frá Bryggjunni og alls engir öfgar í neinar áttir.  Svo er hann svona líka ljómandi fallega dökkrauður.

IMG_6671-001

Grafna lambið er svo mildari útgáfa af þessum herlegheitum, hér er maður alveg laus við reykta keiminn ef hann truflar fólk. Kjötið er mjúkt og djúsí og bráðnar alveg í munni.  Það er ögn selta í því og pipar en svo blandast sætur hunangs kryddkeimur frá graflaxsósunni við ásamt beiskju frá stökku klettasallatinu.  Osturinn toppar þetta svo algjörlega, þurr, ögn saltur með notalega jörð.  Leifur frá Borg er mjög viðeigandi hérna en Ginger Brett IPA frá Mikkeller er svakalega skemmtilegur jólabjór.  Um er að ræða IPA með villigerinu Brettanomyces sem gefur alveg einstakt „funky“ bragð og svo er engifer í þessu sem skín vel í gegn.  Bjórinn er þannig ögn beiskur með þessum skemmtilega funky keim sem ekki er hægt að lýsa og svo er engiferið áberandi.  Virkilega skemmtilegt ofan á lambið og skapar dálítið nýja vídd í þessu.

Uppskrift:IMG_6665

Þetta er svo sem ekki mikil uppskrift.  Kjötið þarf að vera gott, ég hef smakkað mismunandi en það er fullkomið frá Kjötsmiðjunni því það kemur tilbúið í næfurþunnum sneiðum.

  • Tvíreykt hangikjöt, magn fer eftir hve mikið maður vill borða bara
  • Grafið lamb, magn eftir smekk
  • Klettasalat, hellingur
  • Graflaxssósa með grafna lambinu
  • Piparrótarsósa með því tvíreykta
  • Parmisan ostur eða svipaður til að rífa yfir.
  • Snittubrauð ef maður vill hafa undir þessu.