Júdas 16.1 og páska – eplabaka með pecanhnetum og karamellusósu.



RÉTTUR: eplabaka með muldu páskaeggi og pecanhnetum, skreytt með pecanhnetum og karamellusósu.

– 200g hveiti
– 200g smjör
– 200g sykur
– 100g haframjöl
– 4 græn epli
– 3 lítil mulin páskaegg frá Nóa td.
– Pecanhnetur grófsaxaðar
– kanilsykur

Aðferð.  Einfalt, hveiti, smjör, sykur og haframjöl er hnoðað saman í skál.  Eplin afhýdd og skorin í sneiðar og raðað í eldfast mót.  Kanilsykur yfir (ekki spara) og svo er deigið mulið yfir ásamt muldum pecanhnetum og páskaeggjabrotum.  Þessu er svo hent í ofn á ca 180 gráður þar til komin er fallega gyllt áferð á deigið.

BJÓRINN: Þessi réttur er ofsalega „rich“ og því erfitt að hafa of þungan bjór með.  Quadrupel er massífur bjórstíll hins vegar langaði okkur að prófa JÚDAS 16.1. með þessu eiginlega vegna þess að bragðnúansar í bjórnum minna að mörgu leiti á réttinn.  Bock eða Scotch ale koma einnig sterklega til greina hér.



img_6006
JÚDAS 16.1 PÁSKABJÓR
:
Júdas nr 16 var páskabjórinn frá Borg brugghús árið 2013 og var jafnframt fyrsti quadrupel okkar Íslendinga.  Virkilega flottur bjór á sínum tíma og ég tala nú ekki um þegar maður var búinn að lofa honum að eldast á flösku í ár t.d.  Quadrupel er belgískur bjórstíll og með þeim öflugari í bjórveröldinni.  Oftast liggur bjórinn frá 11% og uppúr.  Orðið „quad“ þýðir í sjálfu sér ekki neitt sérstakt en er meira tilvísun í styrk bjórins.  T.d. má segja að belgískur dubbel (eins og t.d. Leffe) sé tvöfaldur, tripel þrefaldur (Westmalle Tripel) og þá væri quadrupel fjórfaldur ekki satt?  Í ár færir Borg brugghús okkur Júdas endurfæddan, Júdas nr16.1 sem hefur þroskast á notuðum koníakstunnum í einhverja mánuði en við það dregur bjórinn í sig viðarkeiminn og bragð af koníaksrestunum.

Í glasi er Júdas 16.1 dökk dökk brúnn eða eiginlega svartur með léttan froðuhaus sem hverfur með hraði.  Það hellist yfir mann dásamlegur angan úr glasinu þegar hellt er, mikil sæta eins og rúsínur eða sykruð epli og svo er koníakið áberandi með ögn viðarkeim.  Í munni er mikill þróttur og vínandi sem er alls ekki sprittaður heldur meira á sætu nótunum, eins og sherrí eða koníak (nema hvað?).  Tunnukeimurinn og koníakið er áberandi og svo eins og rúsínur, og þegar líður á bjórinn og hann fær að volgna aðeins koma fram nýjir tónar, gul epli, kanelsykur og jafnvel hunang eða appelsínusafi.  Stórskemmtilegur bjór, maður getur treyst því að Júdas 16.1 setji sinn svip á Páskana.

PÖRUN:
Hvað gengur svo með quadrupel?  Ekki auðveld spurning því bjórinn er stór og mikill og getur verið erfitt að finna máltíð sem passar.  Rétturinn þarf að þola ágang bjórsins en á sama tíma að njóta sín.  Borg brugghús vann sælla minninga skemmtilega bjór og matarpörunarkeppni á síðasta ári sem kallað var „Bryggeribrak“.  Meðal bjóra sem Borg tefldi fram á þessari keppni var einmitt Júdas 16.1.  Pörunin var „spot on“ með hugljúfum eftirrétti.  Við erum að tala um kryddmarineraðar plómur,með áberandi sýrum, borið fram með sýrðum rjóma og karmeliseruðum heslihnetum.  Hljómar dásamlega.  Sigrún gerir stundum eplaböku eða mulning, ég veit ekki hvað maður á að kalla þetta, en eplabökuhrúgald kemur vel til greina?  Alla vega mjög gott, með skornum eplum, góðu „hveitikrösti“, pecanhnetum og kanilsykri.  Svo er hægt að bragðbæta með súkkulaðibitum og karamellusósu yfir!   Ég ákvað að prófa að tefla þessu á móti Júdasi og af því að við erum með Páskabjór þá notuðum við páskaegg frá Nóa í þetta.  Útkoman var virkilega flott.

Ég verð samt að viðurkenna að þetta er mjög þungt, bakan er mjög saðsöm og svo er bjórinn heldur ekkert lamb að leika sér við þannig að menn verða að vera opnir fyrir þessu.  Fá sér bara litla skammta af bökunni og njóta.  Gleðilega Páska!!!

 

Dangerously Close to Stupid, bestur á Íslandi!

Ég má til með að nefna hér til leiks bjór sem nýlega er kominn í vínbúðir hér heima.  Þetta er bjór sem við tókum annað slagið inn á dælu á Skúla Craft Bar á meðan ég lék þar lausum hala.  Einn af mínum uppáhalds bjór hvorki meira né minna.   Nú er hann sem sagt kominn í vínbúðirnar.  Dangerously Close to Stupid er imperial india pale ale (IIPA) eða double india pale ale (DIPA) en flestir held ég greini ekki þarna á milli enda líklega óþarfi.  Hvort sem er þá er um öflugan IPA stíl að ræða.  Hann er ofsalega flottur í nefi með miklum ávaxtakeim og blómlegum humlum, ég sé fyrir mér grape aldinn og appelsínur.  Í munni er hann mikill og þéttur með góða fyllingu.  Beiskjan er áberandi en langt frá því að vera óþægileg því sæta frá humlum og korni kemur þarna á móti og svo er þó nokkur ávaxtakeimur.  Það er áberandi hvað bjórinn er ferskur og spriklandi en það er það sem er svo mikilvægt með þennan bjórstíl.  Frábær bjór sem fólk verður að vita af.

INDIA PALE ALE:  Óhætt er að segja að India Pale Ale eða IPA sé vinsælasti bjórstíll bjóráhugamanna, það er einnig sá stíll sem flestir heimabruggarar ná góðum tökum á að brugga.  IPA er upphaflega enskur bjórstíll en í dag er ameríska útgáfan líklega mun þekktari.
       Saga IPA stílsins er skemmtileg eins og hún er oftast sögð og má rekja aftur til nýveldistíð heimsveldisins Englands en þeir þurftu á þeim tíma að tryggja hermönnum sínum í Indlandi stöðugt streymi af góðum bjór til að halda þeim kátum.  Á þeim tíma var kælitækni ekki til staðar og siglingar langar og allur bjór kom skemmdur á leiðarenda.  Menn brugðu þá á það ráð að nota óvenju mikið af humlum í bjórinn því humlar hafa rotvarnareiginleika.  Úr varð bjór sem hélt „lífi“ alla leið til indlands og hann var töluvert beiskari (vegna humlanna) en menn áttu að venjast.  India Pale Ale varð til.
        Í dag er IPA stíllinn orðinn mun beiskari.  Þannig að ef menn sjá bjór sem er af gerðinni IPA þá þýðir það beiskja og humlar.  ATH humlar geta einnig gefið af sér ávaxtakeim og sæta blómlega tóna.  Vandamál við humlana er hins vegar að olíurnar og sýrurnar sem gefa beiskjuna og bragð eru töluvert rokgjarnar og hverfa úr bjórnum með tímanum.  Þetta gerist óþarflega hratt og því er IPA einn af þessum bjórstílum sem á að drekka ferskan.

photo-1Umræðan um DIPA eða IIPA er eitthvað sem ég hef aldrei velt fyrir mér fyrr en ég ræddi þennan bjór við einn af sköpurum hans Tobias (To Øl Brewing) hér um árið.  Ég varð einfaldlega að hrósa honum fyrir verkið og þannig fórum við að ræða stílinn.  Tobias vill meina að Dangerously Close to Stupid sé meira IIPA en DIPA af því að hann er léttari og ekki eins sætur og þeir DIPA bjórar (Final Frontier t.d.) sem To Øl gerir.  Tobias segist nota 95% pilsner malt og 5% melanoidin í Dangerously á meðan blanda af crystal, brown, munich, melanoidine og pilsner malt er í First Frontier. Það er alltaf priceless að fá tækifæri á að ræða við bruggmeistara um bjórinn þeirra. 

Ég prófaði þennan magnaða bjór í stað Stone Ruination í IPA Gulrótakökuna sem ég póstaði hér um daginn og útkoman var vægast sagt geggjuð.   

Stone Brewing á Íslandi!

Í gær fór ég á kynningu á Kex hostel þar sem fulltrúar frá Stone Brewing í Berlín renndu yfir sögu brugghússins og kynntu nokkra klassíska Stone bjóra sem væntanlegir eru í vínbúðir landsins 1.2.17.  Stone hefur lengi verið eitt af þeim brugghúsum heimsins sem ég held hvað mest uppá en hingað til hefur verið erfitt að fá þá í Evrópu.  Ástæðan er einföld og virðingaverð, Stone er afar ant um gæði bjórsins sem þeir senda frá sér og þeir vilja ekki að bjórinn þeirra tapi ferskleikanum.   Þeir sem ætla sér að selja bjórinn þeirra þurfa að skrifa undir samning sem ma inniheldur ákvæði um að bjórnum sé fargað ef hann er meira en 3 mánaða gamall.  Flutningaleiðir frá höfuðstöðvunum í Bandaríkjunum eru langar og tímafrekar og því næst einfaldlega ekki að koma bjórnum í hús og selja innan þess tíma.  Til að svara aukinni eftirspurn opnuðu Stone brugghús í Berlín seint á síðasta ári (2016) og nú er það því orðinn veruleikinn sem blasir við okkur að Stone er komið til Íslands.   Það eru nautnaseggirnir og snillingarnir Andri og Ingi hjá Járn  og Gler sem standa fyrir þessu og þeir hafa hvíslað að mér að verðið á þessum bjór verði með besta móti.

„Allt kapp lagt á gæði bjórsins til neytandans!“

Þetta var skemmtilegur fyrirlestur í gær og bjórinn stórkostlegur, ég var sérstaklega ánægður með að sjá að flest allt var í dósum enda er það eina vitræna leiðin til að varðveita gæði bjórsins og Stone er eitt af þeim brugghúsum heimsins sem er að reyna að koma þessum boðskap á framfæri.  Bjór gærdagsins var mjög ferskur enda bara rúmlega 3 vikur síðan hann kom úr brugghúsinu í Berlín.  Það má svo taka fram að Stone bruggar eftir pöntun, ekki öfugt, þ.e.a.s þú pantar bjórinn og þá brugga þeir hann fyrir þig þannig að þeir eru aldrei með neinn lager.

20170127_120744.jpg
Eins og stendur á dósunum frá Stone, dósir eru betri punktur!

Ég tók sérstaklega eftir því á þessari kynningu að nokkuð er lagt uppúr matarpörun hjá Stone.  Í Berlín er Stone með stærsta bjórgarð Þýskalands með stærsta úrval af hágæðabjór.  Staðurinn tekur yfir 1000 manns í sæti og er mikið lagt upp úr góðum mat sem hentar bjórnum. Á kynningunni í gær töluðu þau um að bjórinn þeirra væri mjög matarvænn og nokkuð auðvelt að para hina ýmsu rétti við hann og á síðunni þeirra má t.d. finna ábendingar um ýmsar matarparanir fyrir hvern bjór, eins og t.d. hér Go TO IPA sem er virkilega flottur session IPA sem mun detta í Vínbúðina innan tíðar..  Mér finnst alltaf gaman þegar fólk hugsar um  og talar um mat og bjór saman.

Þetta eru sem sagt mjög góðar fréttir, Stone í Vínbúðirnar, hver hefði trúað þessu fyrir nokkrum árum?  Við hjá Bjór & Matur hlökkum til að byrja að prófa okkur áfram með matarparanir fyrir þessa karla.

Bjórsmökkunar heimboð

Það er alltaf gaman að smakka og uppgötva nýja bjóra en ef maður er í góðra vina hópi verður upplifunin enn betri.  Það er því tilvalið að hóa í góða vini þegar smakka á nokkra bjóra og gera flotta kvöldstund úr því.  Í dag er bjórinn dálítið „inn“ hjá okkur á klakanum og fólki finnst ofsalega spennandi að vera boðið í bjórsmakk  eða það er alla vega okkar reynsla.  Þetta má framkvæma t.d. með einhverju einföldu snarli með eða bara hóa í venjulegt matarboð en hafa smá bjórsmakk í upphafi t.d. Eins og áður þá eru engar harðkjarna reglur sem þarf að fylgja en það eru samt nokkur atriði má hafa í huga svo allt verði sem skemmtilegast.  Hér ætlum við að tæpa á því helsta en þetta á fyrst og fremst að vera gaman ekki satt?

  • Gott er að bjóða ekki uppá of margar tegundir sama kvöld því þá er hætt við að síðustu bjórar kvöldsins renni saman í eitt. 3-4 er passlegt en má alveg fara upp í 6 ef ekki er mikið í hverju glasi.
  • Ef þú þekkir bjórinn sem þú ætlar að bjóða þá er fínt að byrja á léttari og mildari bjór og færa sig svo upp í þróttmeiri bjór í lokin.  Það er bara þannig að ef maður drekkur 13% barley wine í upphafi mun allt sem eftir kemur virka bragðlaust.
  • Ef þú ert sjálf/ur að fara smakka bjórinn í fyrsta sinn er gott bara að skoða prósenturnar og byrja á lægsta styrk og oft er miðað við að hafa ljósari bjórinn fyrst og svo dekkja eftir sem líður á.  ATH þó að liturinn getur blekkt, t.d. 5% porter sem er kolsvartur ætti að koma undan 9% DIPA sem er ljós.
  • Gaman er svo að passa að hafa smá fjölbreytni í bjórvali, ekki hafa t.d. 3 mismunandi lager bjóra eða súrbjóra.  Það er gaman að fá smá innsýn í hve breytileikinn er mikill.
  • Svo er alltaf gaman að taka dálítið mið af þeim mat sem maður býður uppá, t.d. ef maður er með forrétt, aðalrétt og eftirrétt að hugsa aðeins út í hvernig brjór passar með hvaða rétt.

Svo er bara um að gera að drífa þetta í gang, smakka og pæla og leika sér með paranir.

Surtur 8.5 með dásamlegum blámygluosti

Nú er ég lítið fyrir Þorramat og í raun skil ég ekki afhverju fólk leggur sér þetta til munns en smekkur manna er auðvitað misjafn og allt það.  Mér hefur reynst ómögulegt að finna bjór til að para við Þorramatinn nema þá helst eitthvað sem er svo potent og magnað að það nær að drepa alveg niður óbragðið frá Þorramatnum.  Þetta er líklega  hugmyndin með íslenska Brennivíninu sem menn drekka með þessu eða hvað?  Surtur imperial stout frá Borg brugghús gæti staðið sig vel sem staðgengill brennivínsins því hann er jafnan þræl mikill og magnaður?  Surtur er Þorrabjór þeirra Borg manna en þeir gera alltaf nýjar útgáfur af hinum upprunanlega Surt 8 ár hvert.  Bjórinn kemur jafnan út á bóndadaginn en ég hef kallað þennan tímaSurtsdaga síðan við héldum þá hátíðlega á Skúla Craft Bar á sínum tíma.  Surtsdagar eru spennandi tími, jól bjóráhugafólks og nautnaseggja því það ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá hvernig Surt bjórar koma frá Borg hverju sinni.  Í ár eru þeir t.d. 5.

img_5840Ég hef fyrir löngu gefist upp á að reyna að para bjór við Þorramat en þar sem Þorramatur er jafnan úldinn og myglaður datt mér í hug að draga fram uppáhalds ostinn minn, blámygluostinn sem vissulega er myglaður og þá „Þorralegur“ eða hvað?  Það er vel þekkt að imperial stout á vel við blámygluostinn en osturinn hefur þróttinn til að halda vel velli gagnvart stórum bjórum.  Ég ákvað að prófa SURT 8.5 2017 sem nú er fáanlegur frá og með bóndadeginum í vínbúðinni.  Surtur 8.5 er 13.2% imperial stout þroskaður á Armagnac tunnum og hann fer svo vel með blámygluostinum að það er í raun undravert.  Osturinn er bragðsterkur og mikill með áberandi seltu og mikla mýkt sem skilur eftir sig skán í gómnum.  Surturinn kemur inn með sinn þrótt og beiskju en á sama tíma sætu og mýkt. Beiskjan hreinsar skánina af gómnum og opnar alveg upp bragðflækjurnar í ostinum og sætan fer vel á móti seltunni í ostinum.  Bjórinn og osturinn tvinnast saman og verða saman ofsalega rúnaðir og mjúkir í munni.  Vínkeimurinn frá tunnunni skín aðeins í gegn og gerir upplifunina meira elegant.  Prófið að smjatta aðeins á ostinum og fáið ykkur svo sopa af bjórnum áður en ostbitanum er rennt niður.  Sprengja!

Já þetta er svo sannarlega gott „Þorrakombo“, ég prófaði að sjálfsögðu líka með SURT 8.4 sem er þroskaður á Single Malt Whisky tunnum, öðruvísi en álíka magnaður með þessum osti.

Flöskuþroskaður bjór, hvernig, hvar og hvers vegna?

20161231_162319.jpg
Mikkeller Santas Little Helper 2012 verður áramótabjórinn 2016

Ég fæ oft spurningar frá vinum og lesendum um hvort hinir og þessir bjórar séu góðir til geymslu og hversu lengi.  Eins og svo oft í bjórveröldinni þá eru engar grjótharðar reglur í þessum efnum, það má í raun geyma allan bjór, spurningin er bara hvort hann verði góður eða vondur við þá meðferð.  Það er afar sjaldgæft að menn verði veikir af gömlum bjór, ef það er yfir höfuð hægt?
Stundum benda framleiðendur okkur á ef bjór þeirra er hentugur til geymslu en oft er bjórinn ný framleiðsla og þeir hafa jafnvel ekki hugmynd sjálfir um hvernig bjórinn mun bragðast með tímanum.  Það er kannski það sem er svo spennandi, þessi óvissa og tilraunastarfsemi?
Borg Brugghús hefur verið iðið við að skapa nýja bjóra sem oftar en ekki eru hentugir til geymslu.  Giljagaurinn þeirra er t.d. gott dæmi og svo auðvitað Surturinn sem kemur ár hvert í kringum Þorra.
Ef maður ætlar að hella sér út í þessar pælingar er gott að hafa nokkrar reglur eða ábendingar til hliðsjónar svo þetta verði skemmtilegt ferðalag.  Bjórstílarnir eru gríðarlega margir og ólíkir og alls ekki allir stílar henta til geymslu, lager skemmist t.d. með tímanum og bjór þar sem humlar eru í lykilhlutverki eins og pale ale og IPA t.d. eiga að drekkast eins ferskir og hægt er því humlarnir tapa gæðum með tímanum.   En ok, nokkrir punktar:

  • Bjór sem er lár í áfengi er oftast ekki góður til geymslu
  • Humlaður bjór tapar humalkarakter símum við geymslu en þarf svo sem ekki að verða verri.  IPA og Pale Ale á hins vegar að drekka ferska (að mínu mati)

  • Hátt áfengismagn (yfir 8%) þýðir oftast geymslubjór í flestum tilvikum en er þó ekki algilt.
  • Klassískir stílar til geymslu eru barley wine, imperial stout, Trappist bjórarnir, Belgian strong ale ofl.   Súrbjórarnir, gueuze, lambic, kriek ofl eru lágir í áfengi en mjög flottir geymslubjórar einnig.
  • Ekki leggja síaðan bjór í þroskun, síaður bjór inniheldur sáralítið ger og því verða breytingar ekki miklar þegar fram líða stundir.  Vissulega verða þó einhverjar breytingar.  T.d. fer gosið með tímanum og beiskjan hverfur.
  • Smakkaðu bjórinn ferskann, legðu svo nokkra til hliðar og smakkaðu svo annað slagið til að sjá hvernig hann þroskast.  Stundum er það svo að tveggja ára bjór er verri en þriggja ára og svo framvegis.

Það sem gerist þegar bjór er látinn þroskast er að hann breytist, verður einhvern veginn meira „rúnaður“ eins og ég kalla það.  Ég sé fyrir mér ferskan bjór eins og kassa með beittar brúnir og horn en svo þegar hann er látinn þroskast í einhvern tíma verður hann meira rúnaður, brúnir verða mýkri og hornin mást af.  Bjórinn verður oft einhvern veginn flóknari og heilsteyptari.  Það er ýmislegt sem gerist þegar bjór fær að standa í flöskunni, kolsýran fjarar út, humlarnir missa beiskjuna og bragð og svo heldur gerið sem er á sveimi í bjórnum áfram að vinna á sykrunum og mynda estara sem gefa bragð.  Sumir braðgtónar fjara þannig út á meðan nýjir koma fram.

Það sem ber að varast er sólarljós en það fer alls ekki vel með bjórinn.  Brúnar flöskur eru betri en grænar.  Geymið bjórinn í skugga og kuldi er betri en hiti, forðist hitasveiflur og ekki hringla með bjórinn.  Enginn veit svo hver hámarks geymslutíminn er, ekki láta „best fyrir“ merkinguna trufla þig, framleiðendur verða einfaldlega að setja einghverja dagsetningu á vöru sína. Flóknara er það nú ekki.

Lítil dæmisaga, Mikkeller Santas Little Helper 2012 sem ég hef verið að geyma lengi lengi.  Það er nendilega erfitt að finna rétt tilefni fyrir svona raritet.  Hann er flottur ferskur, kemur ár hvert í krignum jólin.  Ég prófaði hann svo fyrst árið 2015 og þá var hann bara stórbrotinn, ég átti ekki orð.  Svo komst ég ekki lengra með hina flöskuna en áramótin 2016/17 (4 ára flaska) og því miður varð ég bara fyrir vonbrigðum.  Bjórinn var bara frekar sprittaður og hvass, eitthvað sem ég bjóst alls ekki við.  Frekar súrt, hann bar stórkostlegur þriggja ára gamall en ekki eins góður ári síðar.  Svona er þetta, spurningin er svo hvort hann verði enn betri 5 ára gamall?  Eitthvað sem ég get í raun ekki svarað nema einhver eigi 2012 árgerð þarna úti.

Bleiki Fíllinn, sögulegt samstarf

img_5691

Bjór þessi markar tvímælalaust tímamót í bjórveröld okkar hér heima að mínu mati því hér eru komnir saman tveir toppar í handverks bjór á Íslandi, Borg og Gæðingur sem aldrei hafa unnu saman áður.  Já við erum að tala um samstarfsbjór eða „collab“ sem er löngu orðið tímabært hjá þessum öðlingum.  Nafnið er dálítið flippað, miðinn er vægast sagt skemmtilega skreyttur af Hugleiki Dagssyni sem reyndar sér um miðaskreytingarnar hjá Gæðingi alla jafna og bjórinn sjálfur er gríðarlega fallegt sjónarspil.  Stíllinn er í grunninn IPA en hann hefur verið peppaður upp í áramótabúning með framandi furðukryddum, rauðrófusafa og djúsí tropical humlum ásamt belgísku geri.
Í nefi er haugur af suðrænum ávöxtum, belgískt ger og aðeins humlar eða eitthvað sem gæti verið rauðrófusafinn.  Í munni er þægileg beiskja en alls ekkert sem rífur of mikið í.  Miklir ávextir og krydd og svo eins og ögn pipar í restina.  Sætan er stoppuð dálítið af með þurrum humlunum og líklega kemur rauðrófusafinn aðeins með þarna líka sem jafnan er aðeins beiskur og þurr og „earthy“ ef svo má segja.  Virkilega tilkomumikill í glasi svona dásamlega bleikur og mattur  og sómir hann sér vel á borðum um áramótin þar sem allt snýst jú um ljós og skæra liti ekki satt?

img_5713Svo er spurningin, hvaða matur passar við þennan flippaða bjór?  Bleiki fíllinn er vissulega stórskemmtilegur einn og sér sem fordrykkur, liturinn gerir það að verkum að bjórinn getur vel „púllað“ elegant freyðivínsglas fyrir matinn en ég veit þó ekki með miðnæturbjórinn, hann þarf alltaf að vera meira pótent í áfengi að mínu mati.   En vilji maður máta þennan við mat þá eru líklega margir möguleikar því hann er sætur með ávaxtablæ sem hægt er að leika sér með, svo er hann hæfilega beiskur og getur þannig „klippt“ í sundur feitar sósur og meðlæti, rauðrófurnar koma svo vel út í bakgrunni þegar bjórinn nær aðeins að volgna og þær koma vel út með ýmsum réttum ekki satt og loks er aðeins pipar í honum og svo belgíski kryddblærinn.  En bjórinn er það nýr að maður hefur bara ekki náð að prófa hann með nokkrum rétti og því eru hér bara getgátur á ferð.
Við Sigrún ætlum hins vegar að prófa hann með kalkúninum okkar (segir maður það?). En það er nokkuð látlaust kjöt en fyllingin og sósan spilar oftast höfuðrulluna.  Fyllingin er t.d. með svínahakki, brauðkubbum, sellerí, eplabitum og jafnvel beikoni en vissulega getur hún verið margs konar.  Ég held að ávextirnir komi vel út með fyllingunni, létti aðeins á þungu svínahakkinu og beikoninu og tvinnist saman við eplin.  Beiskjan opnar svo og léttir á fitunni í svínahakkinu og sósunni með.  Svo held ég að tönuberjasultan sem við slettum oft með þessu öllu til að rífa upp stemninguna komi rosalega vel út með þessum ávaxtabjór.  En það er bara um að gera að prófa ekki satt?  Eitt er víst að það verður alltaf gaman og gleðilegt nýtt ár!