Ég má til með að nefna hér til leiks bjór sem nýlega er kominn í vínbúðir hér heima. Þetta er bjór sem við tókum annað slagið inn á dælu á Skúla Craft Bar á meðan ég lék þar lausum hala. Einn af mínum uppáhalds bjór hvorki meira né minna. Nú er hann sem sagt kominn í vínbúðirnar. Dangerously Close to Stupid er imperial india pale ale (IIPA) eða double india pale ale (DIPA) en flestir held ég greini ekki þarna á milli enda líklega óþarfi. Hvort sem er þá er um öflugan IPA stíl að ræða. Hann er ofsalega flottur í nefi með miklum ávaxtakeim og blómlegum humlum, ég sé fyrir mér grape aldinn og appelsínur. Í munni er hann mikill og þéttur með góða fyllingu. Beiskjan er áberandi en langt frá því að vera óþægileg því sæta frá humlum og korni kemur þarna á móti og svo er þó nokkur ávaxtakeimur. Það er áberandi hvað bjórinn er ferskur og spriklandi en það er það sem er svo mikilvægt með þennan bjórstíl. Frábær bjór sem fólk verður að vita af.
INDIA PALE ALE: Óhætt er að segja að India Pale Ale eða IPA sé vinsælasti bjórstíll bjóráhugamanna, það er einnig sá stíll sem flestir heimabruggarar ná góðum tökum á að brugga. IPA er upphaflega enskur bjórstíll en í dag er ameríska útgáfan líklega mun þekktari.
Saga IPA stílsins er skemmtileg eins og hún er oftast sögð og má rekja aftur til nýveldistíð heimsveldisins Englands en þeir þurftu á þeim tíma að tryggja hermönnum sínum í Indlandi stöðugt streymi af góðum bjór til að halda þeim kátum. Á þeim tíma var kælitækni ekki til staðar og siglingar langar og allur bjór kom skemmdur á leiðarenda. Menn brugðu þá á það ráð að nota óvenju mikið af humlum í bjórinn því humlar hafa rotvarnareiginleika. Úr varð bjór sem hélt „lífi“ alla leið til indlands og hann var töluvert beiskari (vegna humlanna) en menn áttu að venjast. India Pale Ale varð til.
Í dag er IPA stíllinn orðinn mun beiskari. Þannig að ef menn sjá bjór sem er af gerðinni IPA þá þýðir það beiskja og humlar. ATH humlar geta einnig gefið af sér ávaxtakeim og sæta blómlega tóna. Vandamál við humlana er hins vegar að olíurnar og sýrurnar sem gefa beiskjuna og bragð eru töluvert rokgjarnar og hverfa úr bjórnum með tímanum. Þetta gerist óþarflega hratt og því er IPA einn af þessum bjórstílum sem á að drekka ferskan.
Umræðan um DIPA eða IIPA er eitthvað sem ég hef aldrei velt fyrir mér fyrr en ég ræddi þennan bjór við einn af sköpurum hans Tobias (To Øl Brewing) hér um árið. Ég varð einfaldlega að hrósa honum fyrir verkið og þannig fórum við að ræða stílinn. Tobias vill meina að Dangerously Close to Stupid sé meira IIPA en DIPA af því að hann er léttari og ekki eins sætur og þeir DIPA bjórar (Final Frontier t.d.) sem To Øl gerir. Tobias segist nota 95% pilsner malt og 5% melanoidin í Dangerously á meðan blanda af crystal, brown, munich, melanoidine og pilsner malt er í First Frontier. Það er alltaf priceless að fá tækifæri á að ræða við bruggmeistara um bjórinn þeirra.
Ég prófaði þennan magnaða bjór í stað Stone Ruination í IPA Gulrótakökuna sem ég póstaði hér um daginn og útkoman var vægast sagt geggjuð.