
Ég fæ oft spurningar frá vinum og lesendum um hvort hinir og þessir bjórar séu góðir til geymslu og hversu lengi. Eins og svo oft í bjórveröldinni þá eru engar grjótharðar reglur í þessum efnum, það má í raun geyma allan bjór, spurningin er bara hvort hann verði góður eða vondur við þá meðferð. Það er afar sjaldgæft að menn verði veikir af gömlum bjór, ef það er yfir höfuð hægt?
Stundum benda framleiðendur okkur á ef bjór þeirra er hentugur til geymslu en oft er bjórinn ný framleiðsla og þeir hafa jafnvel ekki hugmynd sjálfir um hvernig bjórinn mun bragðast með tímanum. Það er kannski það sem er svo spennandi, þessi óvissa og tilraunastarfsemi?
Borg Brugghús hefur verið iðið við að skapa nýja bjóra sem oftar en ekki eru hentugir til geymslu. Giljagaurinn þeirra er t.d. gott dæmi og svo auðvitað Surturinn sem kemur ár hvert í kringum Þorra.
Ef maður ætlar að hella sér út í þessar pælingar er gott að hafa nokkrar reglur eða ábendingar til hliðsjónar svo þetta verði skemmtilegt ferðalag. Bjórstílarnir eru gríðarlega margir og ólíkir og alls ekki allir stílar henta til geymslu, lager skemmist t.d. með tímanum og bjór þar sem humlar eru í lykilhlutverki eins og pale ale og IPA t.d. eiga að drekkast eins ferskir og hægt er því humlarnir tapa gæðum með tímanum. En ok, nokkrir punktar:
- Bjór sem er lár í áfengi er oftast ekki góður til geymslu
- Humlaður bjór tapar humalkarakter símum við geymslu en þarf svo sem ekki að verða verri. IPA og Pale Ale á hins vegar að drekka ferska (að mínu mati)
- Hátt áfengismagn (yfir 8%) þýðir oftast geymslubjór í flestum tilvikum en er þó ekki algilt.
- Klassískir stílar til geymslu eru barley wine, imperial stout, Trappist bjórarnir, Belgian strong ale ofl. Súrbjórarnir, gueuze, lambic, kriek ofl eru lágir í áfengi en mjög flottir geymslubjórar einnig.
- Ekki leggja síaðan bjór í þroskun, síaður bjór inniheldur sáralítið ger og því verða breytingar ekki miklar þegar fram líða stundir. Vissulega verða þó einhverjar breytingar. T.d. fer gosið með tímanum og beiskjan hverfur.
- Smakkaðu bjórinn ferskann, legðu svo nokkra til hliðar og smakkaðu svo annað slagið til að sjá hvernig hann þroskast. Stundum er það svo að tveggja ára bjór er verri en þriggja ára og svo framvegis.
Það sem gerist þegar bjór er látinn þroskast er að hann breytist, verður einhvern veginn meira „rúnaður“ eins og ég kalla það. Ég sé fyrir mér ferskan bjór eins og kassa með beittar brúnir og horn en svo þegar hann er látinn þroskast í einhvern tíma verður hann meira rúnaður, brúnir verða mýkri og hornin mást af. Bjórinn verður oft einhvern veginn flóknari og heilsteyptari. Það er ýmislegt sem gerist þegar bjór fær að standa í flöskunni, kolsýran fjarar út, humlarnir missa beiskjuna og bragð og svo heldur gerið sem er á sveimi í bjórnum áfram að vinna á sykrunum og mynda estara sem gefa bragð. Sumir braðgtónar fjara þannig út á meðan nýjir koma fram.
Það sem ber að varast er sólarljós en það fer alls ekki vel með bjórinn. Brúnar flöskur eru betri en grænar. Geymið bjórinn í skugga og kuldi er betri en hiti, forðist hitasveiflur og ekki hringla með bjórinn. Enginn veit svo hver hámarks geymslutíminn er, ekki láta „best fyrir“ merkinguna trufla þig, framleiðendur verða einfaldlega að setja einghverja dagsetningu á vöru sína. Flóknara er það nú ekki.
Lítil dæmisaga, Mikkeller Santas Little Helper 2012 sem ég hef verið að geyma lengi lengi. Það er nendilega erfitt að finna rétt tilefni fyrir svona raritet. Hann er flottur ferskur, kemur ár hvert í krignum jólin. Ég prófaði hann svo fyrst árið 2015 og þá var hann bara stórbrotinn, ég átti ekki orð. Svo komst ég ekki lengra með hina flöskuna en áramótin 2016/17 (4 ára flaska) og því miður varð ég bara fyrir vonbrigðum. Bjórinn var bara frekar sprittaður og hvass, eitthvað sem ég bjóst alls ekki við. Frekar súrt, hann bar stórkostlegur þriggja ára gamall en ekki eins góður ári síðar. Svona er þetta, spurningin er svo hvort hann verði enn betri 5 ára gamall? Eitthvað sem ég get í raun ekki svarað nema einhver eigi 2012 árgerð þarna úti.