Bjórsmökkunar heimboð

Það er alltaf gaman að smakka og uppgötva nýja bjóra en ef maður er í góðra vina hópi verður upplifunin enn betri.  Það er því tilvalið að hóa í góða vini þegar smakka á nokkra bjóra og gera flotta kvöldstund úr því.  Í dag er bjórinn dálítið „inn“ hjá okkur á klakanum og fólki finnst ofsalega spennandi að vera boðið í bjórsmakk  eða það er alla vega okkar reynsla.  Þetta má framkvæma t.d. með einhverju einföldu snarli með eða bara hóa í venjulegt matarboð en hafa smá bjórsmakk í upphafi t.d. Eins og áður þá eru engar harðkjarna reglur sem þarf að fylgja en það eru samt nokkur atriði má hafa í huga svo allt verði sem skemmtilegast.  Hér ætlum við að tæpa á því helsta en þetta á fyrst og fremst að vera gaman ekki satt?

  • Gott er að bjóða ekki uppá of margar tegundir sama kvöld því þá er hætt við að síðustu bjórar kvöldsins renni saman í eitt. 3-4 er passlegt en má alveg fara upp í 6 ef ekki er mikið í hverju glasi.
  • Ef þú þekkir bjórinn sem þú ætlar að bjóða þá er fínt að byrja á léttari og mildari bjór og færa sig svo upp í þróttmeiri bjór í lokin.  Það er bara þannig að ef maður drekkur 13% barley wine í upphafi mun allt sem eftir kemur virka bragðlaust.
  • Ef þú ert sjálf/ur að fara smakka bjórinn í fyrsta sinn er gott bara að skoða prósenturnar og byrja á lægsta styrk og oft er miðað við að hafa ljósari bjórinn fyrst og svo dekkja eftir sem líður á.  ATH þó að liturinn getur blekkt, t.d. 5% porter sem er kolsvartur ætti að koma undan 9% DIPA sem er ljós.
  • Gaman er svo að passa að hafa smá fjölbreytni í bjórvali, ekki hafa t.d. 3 mismunandi lager bjóra eða súrbjóra.  Það er gaman að fá smá innsýn í hve breytileikinn er mikill.
  • Svo er alltaf gaman að taka dálítið mið af þeim mat sem maður býður uppá, t.d. ef maður er með forrétt, aðalrétt og eftirrétt að hugsa aðeins út í hvernig brjór passar með hvaða rétt.

Svo er bara um að gera að drífa þetta í gang, smakka og pæla og leika sér með paranir.