Surtur 8.5 með dásamlegum blámygluosti

Nú er ég lítið fyrir Þorramat og í raun skil ég ekki afhverju fólk leggur sér þetta til munns en smekkur manna er auðvitað misjafn og allt það.  Mér hefur reynst ómögulegt að finna bjór til að para við Þorramatinn nema þá helst eitthvað sem er svo potent og magnað að það nær að drepa alveg niður óbragðið frá Þorramatnum.  Þetta er líklega  hugmyndin með íslenska Brennivíninu sem menn drekka með þessu eða hvað?  Surtur imperial stout frá Borg brugghús gæti staðið sig vel sem staðgengill brennivínsins því hann er jafnan þræl mikill og magnaður?  Surtur er Þorrabjór þeirra Borg manna en þeir gera alltaf nýjar útgáfur af hinum upprunanlega Surt 8 ár hvert.  Bjórinn kemur jafnan út á bóndadaginn en ég hef kallað þennan tímaSurtsdaga síðan við héldum þá hátíðlega á Skúla Craft Bar á sínum tíma.  Surtsdagar eru spennandi tími, jól bjóráhugafólks og nautnaseggja því það ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá hvernig Surt bjórar koma frá Borg hverju sinni.  Í ár eru þeir t.d. 5.

img_5840Ég hef fyrir löngu gefist upp á að reyna að para bjór við Þorramat en þar sem Þorramatur er jafnan úldinn og myglaður datt mér í hug að draga fram uppáhalds ostinn minn, blámygluostinn sem vissulega er myglaður og þá „Þorralegur“ eða hvað?  Það er vel þekkt að imperial stout á vel við blámygluostinn en osturinn hefur þróttinn til að halda vel velli gagnvart stórum bjórum.  Ég ákvað að prófa SURT 8.5 2017 sem nú er fáanlegur frá og með bóndadeginum í vínbúðinni.  Surtur 8.5 er 13.2% imperial stout þroskaður á Armagnac tunnum og hann fer svo vel með blámygluostinum að það er í raun undravert.  Osturinn er bragðsterkur og mikill með áberandi seltu og mikla mýkt sem skilur eftir sig skán í gómnum.  Surturinn kemur inn með sinn þrótt og beiskju en á sama tíma sætu og mýkt. Beiskjan hreinsar skánina af gómnum og opnar alveg upp bragðflækjurnar í ostinum og sætan fer vel á móti seltunni í ostinum.  Bjórinn og osturinn tvinnast saman og verða saman ofsalega rúnaðir og mjúkir í munni.  Vínkeimurinn frá tunnunni skín aðeins í gegn og gerir upplifunina meira elegant.  Prófið að smjatta aðeins á ostinum og fáið ykkur svo sopa af bjórnum áður en ostbitanum er rennt niður.  Sprengja!

Já þetta er svo sannarlega gott „Þorrakombo“, ég prófaði að sjálfsögðu líka með SURT 8.4 sem er þroskaður á Single Malt Whisky tunnum, öðruvísi en álíka magnaður með þessum osti.