Indian Pale Ale Gulrótarkaka fyrir fullorðna!

Það er gaman að para bjór við mat og jafnvel enn skemmtilegra þegar maður notar bjórinn sem hráefni matargerð. Hér erum við með skemmtilega og gómsæta gulrótarköku fyrir fullorðna.  Double India Pale Ale (DIPA) Gulrótarköku!  Uppskriftin er fengin úr bókinni „Cooking With Beer“ sem ég gaf sjálfum mér í jólagjöf síðustu jól.


RÉTTUR: Double IPA gulrótarkaka úr STONE RUINATION IPA með IPA rjómaosta kremi fyrir 8-10.  

– 1/2 bolli rúsínur
– 75 g ananasbitar úr dós
– 50 ml STONE RUINATION IPA eða annar double IPA
– 200 g smjör við stofuhita
– 200 g púðursykur
– 4 eggjarauður
– sletta af salti
– börkur af einni appelsínu
– 225 g hveiti
– 1 teskeið lyftiduft
– 1/2 tsk mulinn kanill og engifer
– 250 g rifnar gulrætur

KREM. 300g rjómaostur, 200g mascarpone, 50 ml STONE RUINATION IPA eða annar DIPA, börkur af 1 appelsínu og flórsykur eftir þörfum til að stilla af sætu og þykkt.

BJÓR MEÐ: Að sjálfsögðu notum við DIPA bjór með þessu og ekki verra að nota sama bjórinn og notaður er í uppskriftina, hér er það STONE RUINATION IPA sem er ofsalega flottur með þessu.  Úrvalið ef DIPA bjór er ekki mikið hér  heima en To Øl Dangerously Close to Stupit eða BrewDog Hardcore IPA koma einnig til greina.  Muna menn svo ekki eftir ÚLF ÚLF frá Borg.


img_5877

Við byrjum á því að opna eina ískalda dós af STONE RUINATION IPA sem kemur reyndar ekki í Vínbúðina fyrr en 1.2.17.  Maður verður jú að hafa það huggulegt þegar maður stendur í ströngu í eldhúsinu.  Þessi bjór er dásamlegur og við getum verið örugg um að hann er eins ferskur og það gerist.  Þurr, mikill í munni með notalegri beiskju sem aðeins tekur í, sítrus, furunálar og svo þægileg sæta.  Beiskjan tónar skemmtilega vel við beiskann börkinn af appelsínunum eins og við munum komast að þegar allt er klárt.

KÖKUMIXIÐ. Byrjum á að hita ofninn í 180 gráður.  Hellið svo 50 ml af bjór í skál og leggið rúsínurnar og ananasbitana í bleyti. Takið svo aðra stóra skál og þeytið vel saman smjörinu og sykrinum.  Bætið svo við eggjarauðum, einni í einu og þeytið vel á milli. Bætið svo saman við salti og rifnum appelísnuberki.  Þegar þetta er komið saman bætum við út í hveiti, lyftidufti, kanil og engifer og hrærið varlega.  Loks blöndum við gulrótum (rifnum fínt með rifjárni), rúsínunum og ananasbitunum ásamt bjórnum sem þetta lá í saman við rest.  Blandið vel saman öllum þessum dásamlegu hráefnum.

Hellið kökumixinu í tvö smurð form, ca 25cm í þvermál.  Bakið svo í ofni í 30-35 mín.  Þið tékkið bara á hvort botnarnir eru tilbúnir, stundum þarf aukalega 5-10 mín en ekki brenna þetta í Guðana bænum, það er dýrmætur bjór um borð.  Þegar þetta er tilbúið eru botnar teknir úr formum og kældir.

KREMIÐ. Einfallt, meira að segja ég get gert þetta krem og það skemmtilega við kremið er að við notum líka bjór í það.  50ml alveg.  Byrjum á að blanda rjómaostinum, bjórnum og rifnum appelsínuberki saman.  Hrærið svo flórsykri smám saman saman við og smakkið til eftir þörfum.  Við viljum ekki hafa kremið of sætt því það er skemmtilegt að finna beiskjuna í bjórnum og appelísnunni í gegn.  En þið ráðið þessu svo sem.

Skellið  svo botnunum saman með kremi á milli og ofaná.  Tilbúið!!!  Opnaðu annan bjór og klappaðu þér á bakið.  Reyndar var það Sigrún sem bakaði þetta á meðan ég hamaðist við kvöldverðinn, rifna grísinn sem tók dálítinn tíma.  Takk fyrir mig Sigrún!

Hóaðu svo í vini og bjóddu uppá köku með bjór.  Krakkarnir okkar smökkuðu kökuna en fannst hún aðeins of beisk en þannig á hún að vera.  Hér takast á sæta og beiskja frá appelsínum en ekki síst bjórnum.  Bjórinn gefur þurran sítrus keim en einnig sætu í kökuna.   Kakan ein og sér er ofsalega skemmtileg, nartar örlítið í bragðlaukana með smá beiskjubiti eftir að sætan er liðin hjá.  Minnir í raun dálítið á IPA bjór hvað þetta varðar. Svo fullkomnum við þetta með ísköldu glasi af STONE RUINATION IPA , magnað.  Bjórinn er auðvitað dálítið stór og öflugur en þéttleikinn, fyllingin og sætan í kökunni mæta bjórnum vel og svo tvinnast bjór og kaka saman í beiskjunni.  Bjórinn magnar ekki upp beiskjuna eins og maður hefði alveg eins búist við heldur virðist þetta jafnast meira út svona.

Mjúkt taco með reyktum hægelduðum grís og reyktum imperial stout

Ég fæ ekki nóg af taco, þetta er bara svo gott og möguleikarnir eru endalausir.  Rifinn hægeldaður grís er í gríðarlega miklu uppáhaldi hjá okkur Sigrúnu og því í raun alveg borðleggjandi að blanda þessu saman, rifið grísa taco, í raun fáránlegt að gera það ekki. Hér erum við með uppskrift og bjórpörun sem að mínu mati er ein besta pörun okkar til þessa og þessi grís, maður minn hvað þetta er gott.  Það væri gaman að heyra ykkar álit ef þið prófið þetta.


RÉTTUR (fyrir 4) : Mjúkt taco með reyktum rifnum grísa hnakka (1 kg eða meira) með sýrðum bjórlögðum rauðlauk, ferskum kóríander og þroskuðum Cheddar osti. Hægeldað í 3-4 klst í ofni við 150 gráður.

KRYDD NUDD (RUB).  Ein tsk af öllu, mjög einfalt, sjávar salt, svartur mulinn pipar, púðursykur, chili flögur, mulin kóríander fræ, reykt papríka, laukkrydd, hvítlauks krydd, fennel duft, og season all.  Hrært saman og svo nuddað í kjötið og svo er kjötið látið liggja í þessu þar til það fer í eldun.  Helst 2-3 tíma.

SOÐIÐ. Þetta fer allt í pottinn með grísakjötinu í 3-4 tíma við 150 gráður.

-2 stórir laukar grófskornir
-4 gulrætur skornar í 3 bita eða svo
– nautasoð 200ml (1.5 súputeningur í heitu vatni)
– Reyktur bjór, 500ml (t.d. LAVA STOUT)
– 3 mtsk epla edik
– 4 hvítlauksrif
– 4 lárviðarlauf
– 1 kanilstöng
– 3 heilar stjörnuanis stjörnur
– 2 mtsk púðursykur

Laukur og gulrætur eru brúnaðar á pönnu í ólífuolíu og smá smjöri, því næst er þessu öllu skellt í pott og látið malla aðeins áður en kjöti er bætt við og svo sett í ofn í 3-4 klst.

BJÓRLEGINN RAUÐLAUKUR.  1 stór rauðlaukur, skorinn til helminga og svo í fínar ræmur.  Laukurinn fer svo í stóra krukku eða ílát með loki.  150ml af reyktum bjór (LAVA STOUT) er hellt yfir.  Næst er 150ml af epla ediki, 25g af sjávarsalti og 100g sykri soðið saman í pott í 4 mín og loks hellt yfir laukinn.

MJÚKT TACO. Sjá nánar hér og að neðan.

Meðlæti.  Þroskaður mjúkur Cheddar (t.d Applewood), mætti vera reyktur og svo ferskur kóríander.

BJÓRINN: Við viljum hafa þetta reykt og því þarf bjórinn sem við eldum úr að vera reyktur,  hér heima er ekki mikið úrval en LAVA STOUT frá Ölvisholti er fullkominn í þetta.  Það mætti reyndar nota SURT 30 frá Borg ef hann er til eða frægasta reykbjór allra tíma Aecht Schlenkerla Rauchbier.  Bjórinn með getur verið af ýmsum toga en skemmtilegt er og tilvalið að para reykinn í kjötinu við reyktan bjór og mikinn bjór. LAVA STOUT er eins og bruggaður fyrir þennan rétt.  Fyrir þá sem ekki þora í hann geta vel við unað með pale ale eða IPA, t.d. GO TO IPA frá Stone Brewing.


Búðu þig undir dásamlegt kvöld, bjóddu endilega vinum því þeir eiga eftir að verða orðlausir.  Þessi réttur er bara svo geggjaður.  Ég hef lengi verið dálítið skotinn í LAVA STOUT frá Ölvisholti Brugghús en það hefur reynst erfitt að para hann við góðan rétt.  Ég er hins vegar alveg á því að hér erum við komin með algjörlega fullkomna pörun.

MJÚKT TACO. Í raun heimagert naan brauð að hætti Sigrúnar.  Líklega er best að byrja á að undirbúa brauðið strax í upphafi og láta það svo hefast.

  • 1 tsk ger
  • 2 matskeiðar olía
  • 3 bollar hveiti
  • 4 matskeiðar jógúrt (t.d. grísk jógúrt)
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk hunang
  • 3/4 bollar volgt vatn

Þurrefnum er blandað saman ásamt geri. Oliu, hunangi, jógúrti og vatni er einnig blandað saman og svo sett saman við þurrefnin. Hnoðum þetta vel og látið hefast í 30 til 60 mín. Því lengur því betra.   Sjá að neðan framhaldið.

KJÖTIÐ: Ekki velja dýrustu bitana í þetta því það er bara peningasóun, kjötið má þó ekki vera eitthvað rusl heldur.  Ég valdi hér grísa hnakka, 1 kg er líklega nóg en samt betra að hafa aðeins meira.  Byrjið á að blanda saman kryddunum fyrir nuddblönduna og nudda kjötið vel uppúr henni.   Leggja svo kjötið í fat og inn í ískáp þar til það fer í eldun.  Ágætt að hafa þetta í 2-3 tíma ef tími gefst, best að láta liggja enn lengur ef  hægt er.  Þegar kjötið hefur legið nægilega lengi er það brúnað á öllum hliðum í ólífuolíu á heitri pönnu og svo lagt til hliðar.  Prófið að finna kryddkeiminn á puttunum eftir nuddið, alveg geggjað, ég fór strax á flug með bjórpörun og sá fyrir mér einhvern geggjaðan saison…en það er reyndar önnur saga.

img_5860-001
Það fer alveg hálfur líter af reyktum stout í þetta, Lava er mjög flottur en má vera eitthvað annað ss Surtur 30 eða Aecht Schlenkerla Rauchbier t.d.


SOÐIÐ
. Brúnið laukinn og gulræturnar í potti sem hægt er að loka, því næst er nautakrafti, bjórnum (reyktur), púðursykri, hvítlauk, stjörnuanis, kanilstönginni, lárviðarlaufum, og epla edikinu bætt saman við og kjötinu svo bætt útí og látið malla aðeins.  Svo er lokið sett á pottinn og inn í ofn á 150 gráður í 3-4 tíma.  Ég verð að vara ykkur við, ilmurinn í eldhúsinu verður ómótstæðilegur þegar líður aðeins á.

IMG_5862-001.JPG
BJÓRLEGINN RAUÐLAUKUR
.  Fínt að undirbúa meðlætið á meðan kjötið mallar í ofninum. Skerið heilan rauðlauk í tvennt og svo í þunna strimla.  Setjið í krukku eða ílát með loki.  Bætið 150 ml af reyktum bjór saman við.  Svo er 150 ml af epla ediki 25 g sjávarsalti og 100 g af sykri sett í pott og látið malla í 4 mín eða svo.  Hellið svo yfir laukinn og látið standa þar til hefur alveg kólnað.

Nú er þetta alveg að koma, ekki gleyma taco deiginu.  Það er tímabært að fara undirbúa það núna. Fletjið deigið út í hæfilega stórar flatbökur. Næst er olía hituð á pönnu, stingið svo nokkur göt með gafli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúa við og steikja hina hliðina þegar loftbólur byrja að myndast.  Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar.  Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

Tékkið á kjötinu þegar nær drekur endanum og gangið skugga úr um að það sé ekki að þorna upp.  Bætið við vatni eða bjór ef svo er.  Þegar kjötið er tilbúið er potturinn tekinn úr ofninum og í Guðana bænum passið ykkur, ég brenni mig alltaf því ég gleymi að potturinn er allur brennandi heitur.   Takið kjötið varlega uppúr vökvanum og setjið í á fat og rífið í sundur með göfflum.  Hér í raun fellur kjötið í sundur af sjálfu sér nánast.
Síið soðið yfir potti og sjóðið svo aðeins niður því þetta soð er einfaldlega geggjað með tacoinu.  Það er allt í lagi að þykkja aðeins með sósujafnara ef maður vill.
Loks er kjötið sett í tacoið, rauðlaukur yfir, rifinn cheddar ostur, kóríander og svo soðið af kjötinu.  Með þessu drekkum við svo að sjálfsögðu sama bjórinn og við notuðum í eldunina, LAVA STOUT.  Hér erum við með dálítið krefjandi imperial stout reyndar, bragðmikill og öflugur með áberandi rist og reyk en einnig aðeins sætu í bakgrunni og jafnvel lakkrís.  Það eru ekki allir sem ráða við þennan bjór en það er í raun í lagi, þessi réttur gengur með ansi mörgum bjórstílum. Porter, brown ale og bock eru líklega geggjaðir með þessu en pilsner, pale pale, session IPA koma líka vel til greina.

Ég prófaði reyndar nýja session IPA bjórinn frá Stone Brewing með þessu GO TO IPA sem var alveg magnaður með.  Bjórinn léttir dálítið á réttinum og bætir við aðeins sætu og ávaxtakeim og opnar þetta allt saman aðeins upp.  Mildir reyktónar í réttnum dansa vel með sítruskeimnum í bjórnum svo kemur karamellumaltið í bjórnum með notalegan bakgrunn.  Kóríander og IPA/pale ale er alltaf gott kombo.  Njótið!

IMG_5872-001.JPG

Stone Brewing á Íslandi!

Í gær fór ég á kynningu á Kex hostel þar sem fulltrúar frá Stone Brewing í Berlín renndu yfir sögu brugghússins og kynntu nokkra klassíska Stone bjóra sem væntanlegir eru í vínbúðir landsins 1.2.17.  Stone hefur lengi verið eitt af þeim brugghúsum heimsins sem ég held hvað mest uppá en hingað til hefur verið erfitt að fá þá í Evrópu.  Ástæðan er einföld og virðingaverð, Stone er afar ant um gæði bjórsins sem þeir senda frá sér og þeir vilja ekki að bjórinn þeirra tapi ferskleikanum.   Þeir sem ætla sér að selja bjórinn þeirra þurfa að skrifa undir samning sem ma inniheldur ákvæði um að bjórnum sé fargað ef hann er meira en 3 mánaða gamall.  Flutningaleiðir frá höfuðstöðvunum í Bandaríkjunum eru langar og tímafrekar og því næst einfaldlega ekki að koma bjórnum í hús og selja innan þess tíma.  Til að svara aukinni eftirspurn opnuðu Stone brugghús í Berlín seint á síðasta ári (2016) og nú er það því orðinn veruleikinn sem blasir við okkur að Stone er komið til Íslands.   Það eru nautnaseggirnir og snillingarnir Andri og Ingi hjá Járn  og Gler sem standa fyrir þessu og þeir hafa hvíslað að mér að verðið á þessum bjór verði með besta móti.

„Allt kapp lagt á gæði bjórsins til neytandans!“

Þetta var skemmtilegur fyrirlestur í gær og bjórinn stórkostlegur, ég var sérstaklega ánægður með að sjá að flest allt var í dósum enda er það eina vitræna leiðin til að varðveita gæði bjórsins og Stone er eitt af þeim brugghúsum heimsins sem er að reyna að koma þessum boðskap á framfæri.  Bjór gærdagsins var mjög ferskur enda bara rúmlega 3 vikur síðan hann kom úr brugghúsinu í Berlín.  Það má svo taka fram að Stone bruggar eftir pöntun, ekki öfugt, þ.e.a.s þú pantar bjórinn og þá brugga þeir hann fyrir þig þannig að þeir eru aldrei með neinn lager.

20170127_120744.jpg
Eins og stendur á dósunum frá Stone, dósir eru betri punktur!

Ég tók sérstaklega eftir því á þessari kynningu að nokkuð er lagt uppúr matarpörun hjá Stone.  Í Berlín er Stone með stærsta bjórgarð Þýskalands með stærsta úrval af hágæðabjór.  Staðurinn tekur yfir 1000 manns í sæti og er mikið lagt upp úr góðum mat sem hentar bjórnum. Á kynningunni í gær töluðu þau um að bjórinn þeirra væri mjög matarvænn og nokkuð auðvelt að para hina ýmsu rétti við hann og á síðunni þeirra má t.d. finna ábendingar um ýmsar matarparanir fyrir hvern bjór, eins og t.d. hér Go TO IPA sem er virkilega flottur session IPA sem mun detta í Vínbúðina innan tíðar..  Mér finnst alltaf gaman þegar fólk hugsar um  og talar um mat og bjór saman.

Þetta eru sem sagt mjög góðar fréttir, Stone í Vínbúðirnar, hver hefði trúað þessu fyrir nokkrum árum?  Við hjá Bjór & Matur hlökkum til að byrja að prófa okkur áfram með matarparanir fyrir þessa karla.