Bleikju tartar sem smellpassar í sushi veisluna

Ég lærði það “the hard way” að borða aldrei aftur nauta tartar það er bara svo ofsalega auðvelt að fá matareitrun, jafnvel þó maður sé staddur á virtum veitingastað í París. Hins vegar er bleikju tartar allt annað, ég veit samt ekki afhverju, engiferið eða sýran kannski? En alla vega, við vorum með sushi veislu um daginn og ákváðum að drýgja með bleikju tartar. Þetta kom ofsalega vel út. Þetta er líka frábær réttur þegar maður er ekki allt of svangur en langar í eitthvað, gott, ferskt sem ljúft er að skola niður með kampavíni eða góðu cava.

Svo fékk ég frábært komment úr sal í gær, þessi réttur er geggjaður ef þú vilt slá um þig við árbakkann. Þú ert þá búinn að skera niður hráefnið og græja og það vantar bara nýveidda laxinn úr ánni. Ferskara gerist það sennilega ekki.

Það sem þarf fyrir 4

  • Ferskur lax eða bleikja, ca 760 g, skorið í litla bita
  • Ferskur kóríander, hnefafylli
  • Soyasósa, 1-1,5 dl
  • Avocado, 2 stk skorinn í bita
  • Ferskur engifer, ca 2-3 cm bútur fínsaxaður
  • Safi úr einni límónu
  • Ólífuolía, ca 3 mtsk
  • Rauðlaukur, hálfur, skorinn fínt
  • Vorlaukur, skorinn smátt, ca 2 mtsk
  • Smakkað til með pipar og chilli flögum

Aðferð

Þetta er sára einfalt. Skerið fiskinn í bita, ca 1 cm á kant og setjið í skál, blandið saman við kóríander, soyasósunni og avocado bitum. Kreistið eina línónu yfir, ólífuolía og saxið engiferrót og rauðlauk smátt og blandið öllu saman. Smakkið svo bara til og bætið við hráefni eftir smekk. Ágætt að láta standa aðeins í ískáp áður en borið er fram.

Þessi réttur parast einkar vel við ískalt kampavín eða vandað cava/crémant.