Þessi sósa er frábær með alls konar, en við gerðum hana upphaflega með quesadilla, geggjað gott með.
Það sem þarf
1/2 búnt ferskur kóríander
1/2 búnt fersk basillika
Ca 10 myntulauf
1 stór hvítlauksgeiri, pressaður
2 tsk hunang
3 til 5 kúfaðar mtsk majones
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Setjið allt í blandara og maukið vel saman, smakkið til með salti og pipar. Setjið svo í skál og bætið við 1-2 mtsk majones eftir smekk, hrærið saman við til að þykkja.
Það þarf ekki mörg orð hér. Mexikanskt er bara geggjað og skemmtilegt að útbúa. Hér er hugmynd af quesadilla og meðlæti sem hægt er að nota með flestum suður amerískum réttum. Njótið….það væri gaman að tagga okkur ef þið prófið eitthvað af þessu.
Veltið kjúklingnum uppúr chili flögum, reyktu papríku kryddi, salti og pipar. Magnið fer eftir smekk bara. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu, setjið svo kjúllann í miðjuna. Raðið svo grænmetinu í kringum kjúllann. 3 ferskir maískólfar, 1 stór laukur skorinn í grófa bita, einn ferskur chilli eða eitthvað sterkara ef þið viljið, 4 hvítlauksgeirar. Dreifið ólifuolíu yfir, salt og pipar og setjið svo inn í ofn. Bakið við 200 gráður í ca 15 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Takið þá kjúklinginn af plötunni. Hækkið hitann eða setjið á yfirgrill. Grillið grænmetið áfram þar til komið er smá bruni á það. Ekki brenna þetta samt.
Rífið kjúklinginn og setjið á pönnu, skafið kornin af maískólfunum og setjið á pönnuna. Skerið hvítlaukinn, laukinn og chilli í litla bita og bæti því við og hrærið öllu saman. Bætið ca bolla af salsa verde saman við. Fínt að vera bara búinn að gera salsa daginn áður. Hér er svakalega einfalt salsa verde og óskaplega ljúffengt. Rífið svo hálfan mexico ost og einn bolla rifinn cheddarost yfir og blandið saman við og bræðið ostinn saman við. Rífið loks ca lúku af ferskum kóríander yfir þetta allt.
Finnið til tortilla kökur (ekki verra ef er heimabakað), dreifið kjúklingablöndunni yfir og setjið svo kökur yfir. Sem sagt svona samlokur. Olía á pönnu og steikið svo tortilla samlokurnar á báðum hliðum. Skerið svo í fernt og raðið á disk, eða bretti. Skreytið með límónubátum, rifnum parmesan, pækluðum rauðlauk og kóríander eða myntulaufum t.d.
Þetta er gott eitt og sér svo sem en við viljum hafa gott meðlæti með. Hér er dæmi um meðlæti sem gengur mjög vel með. Pæklaður rauðlaukur er líka algert möst.
Ég má til með að benda á þessa pörun en ég held að sjaldan sé hægt að tala um eins flott match. Beiskur og brakandi IPA er öflugur en samt nógu hógvær til að lofa matnum að njóta sín en heldur samt vel velli gagnvart sterkum bragðflækjunum í þessu. West coast IPA og kóríander hefur alltaf einhvern veginn parast mjög vel saman í mínum bókum, þetta tvennt tvinnast saman og myndar alveg nýtt bragð. Það er vonlaust að lýsa þessum dansi með orðum. Prófið bara sjálf. Við mælum með Úlf IPA frá Borg.
Guacamole er ómissandi með suður amerískum mat. Til eru ótal uppskriftir og útgáfur en ég ákvað að skrá þessa niður til að hafa hana hér til taks þegar ég þarf að grípa í hana síðar. Sigrún mín henti í þetta um daginn og það var bara svo gott.
Salsa verde er ómissandi í mexikanskri matargerð, bæði notað sem hráefni í rétti eða sem meðlæti. Þetta heimagerða salsa verde er geggjað, hingað til hef ég ætlað að kaupa svona en aldrei fundið tilbúið en nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því framar. Þetta er fljótlegt og einfalt. Ég man ekkert hvar ég sá þetta, þetta var einhvers staðar á youtube.
Það sem
250 g kirsuberjatómatar, skornir í tvent
2 fersk chili, eða jalapeno eða habanero, fer eftir hversu mikinn bruna þú vilt í þetta
4 hvítlauksgeirar
1 laukur skorinn í nokkra bita
1 sæt paprika (löng rauð)
1 búnt ferskur kóríander
3-4 mtsk límónusafi
Salt og pipar
Aðferðin
Takið fram elfast mót, stillið bakarofn á 210. Skerið tómata í tvent (250 g) og raðið í mótið, afhýðið hvítlauksgeirana (4 stk), skerið eina sæta langa papriku í tvent eftir endilöngu og setjið með sárið niður í mótið. Sama með 2 fersk chilli nema að fjarlægið fræin. Laukur er skorinn gróft í nokkra bita og líka settur á mótið. Svo er bara að baka þetta í ca 10 mín eða þar til kominn bruni á grænmetið. Þið ráðið auðvitað hversu mikið “char” þið viljið hafa.
Mér finnst ágætt að klára þetta með gasbrennara. Setjið þetta svo allt í blender sem þolir heitt innihald. Takið ferskt kóríander og rífið það aðeins niður, setjið með laufum og stilkum í blandarann. Bætið um 3 mtsk límónusafa við, salt og pipar eftir smekk og maukið.
Smakkið þetta til, meira límónusafi eða meira salt, pipar eða hvað það nú er. Takið fram pönnu, setjið olíu á pönnuna og hitið vel, eins og ef þið væruð að fara steikja naut. Passið ykkur það gæti skettst olía á ykkur. Hellið svo úr blandaranum í einum hvelli á pönnuna, það kæfir í raun olíusletturnar. Það á að vera læti. Hér erum við að karmellisera blönduna dálítið og draga fram bragðið.
Loks setjið þið þetta í krukku og notið þegar þarf.
Við kíkjum oft inn áHalfebaked Harvest þegar okkur vantar hugmyndir en þessi kona dælir út nýjum uppskriftum mörgum á dag. Það hefur allt veri geggjað sem við höfum prófað frá henni til þessa. Hér er ein sem heillaði mig mjög þegar ég sá hana og ákvað að láta á reyna. Úkoman var vægast sagt svakaleg! Ég fór ekki alveg eftir uppskriftinni en samt nánast! Svona gerði ég þetta og svona mun ég gera þetta aftur.
Það sem þarf
2 mtsk chili krydd
2 tsk reykt papríka
1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk
1 laukur skorinn smátt
3 ferskir maís kólfar (2 bollar af kornum)
2 hvítlauksgeirar skornir smátt
Salt og pipar
Slatti af smjöri
130g rjómaostur
1/3 bolli sýrður rjómi
80g smjör
1 bolli majones
2 mtsk af ferskum límónusafa
Ferskur kóríander
Parmesan, rifinn
Aðferðin
Blandið saman kryddunum, 2 mtsk chili duft, 2 tsk reykt papríka og 1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk. Smá salt líka. Blandið saman. Ég endaði með töluverðan afgang, krydd eru dýr og því myndi ég alla vega helminga uppskriftina næst en svo er bara að geyma þetta fyrir næstu ídýfu.
Svo er það brúna smjörið. Ég tók um 80 g smjör og lét það malla í potti þar til orðið brúnt og komin froða yfir og notalegur karamellu hnetukeimur. Bragðbætti svo með smá salti og ca tsk af kryddblöndunni.
Saxið einn lauk smátt og mýkið á pönnu í olíu og smjöri á meðalháum hita. Ca 5 mínútur, skafið svo maískornin af maískólfunum (2 bollar) og bætið á pönnuna ásamt 1-2 tsk hvítlauksmauk og svo teskeið af kryddblöndunni. Hrærið þetta saman og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Ég bætti reyndar slatta af smjöri saman við, það er bara svo ljúft að steikja úr smjöri. Það tók mun lengri tíma en 5 mín að mýkja maísinn hjá mér. Saltið og piprið eftir smekk.
Þegar þetta er farið að mýkjast undir tönn þá bætið þið 130g rjómaosti saman við, lækkið hitann og látið ostinn bráðna saman við. Svo er það 1/3 bolli sýrður rjómi. Ég notaði reyndar 2 teskeiðar af brúna smjörinu sem ég gerði í byrjun. Hræri þetta saman allt.
Hrærið saman ca 1 bolla af majonesi og 2 mtsk lime safa og klípu af salti, setjið ídýfuna í fallega skál, rífið slatta af parmesan ost yfir, slettið majoblöndunni yfir, svo ferskur kóríander yfir allt og loks dreifið þið smekklega brúna smjörinu yfir þetta allt saman.
Pörunin
Það er alltaf gaman að huga að því hvað er best að drekka með matnum, hér erum við með bragðmikla og dálítið spicy ostaídýfu, hér gengur ískaldur brakandi pilsner eða amerískur lager fullkomlega með þessu. Auðvitað allir þessir mexíkönsku lagerbjórar líka en þeir eru heldur óspennandi. Amerískur west coast IPA væri mitt val samt en þetta er auðvitað smekks atriði.
Undanfarið hef ég verið dálítið hugmyndalaus varðandi eldamennskuna, bara ekkert drif….getur maður farið í eldhúslægð? Alla vega, það lifnaði yfir mér um daginn þegar Björk nágranni minn var að tala um villisveppa risotto sem hún hafði smakkað einhvers staðar og það djúpsgteikt í þokkabót. Ég ákvað að prófa að gera svona því risotto er gott, villisveppir eru góðir og allt djúpsteikt er geggjað. Þetta tókst mjög vel. Ég man ekki hvar ég fann uppskrift en minnir að það hafi verið á Vínotek! Ég fór svona að mestu eftir henni.
Það sem þarf fyrir ca 4
2 skarlottulaukar, skornir smátt
2 hvítlausrif, skorið smátt eða hvitlauks mauk sem mér finnst mun skemmtilegra að nota, það væri þá ca 1 tsk
Ca 100g kastaníusveppir, smátt skorið
Ca 50g þurrkaðir villisveppir, skorið smátt
1.5L sveppasoð (tveir teningar af sveppakrafti leyst í vatni)
400g risotto grjón
2 dl hvítvín
75g smjör
100g rifinn parmesan ostur
Salt og pipar
háfur sveppaostur circa
Pancho rasp
olía til djúpsteikingar
Klettasalat, einn poki
Parmesan, rifinn yfir
Trufflu aioli, sem meðlæti ef vill
Fyrir papríku tómata sósuna
1 krukka grillaðar papríkur (Jamie Oliver t.d) saxað smátt
1 dós hakkair Mutti tómatar
2 hvítlauksgeirar skornir smátt
1 skarlottulaukur, skorinn smátt
1 lúka af ferskri basillicu, smátt skorið
Salt og pipar
1-2 dl rjómi eftir smekk
Aðferð
Skolið villisveppina í heitu vatni, leggið svo í bleyti í volguvvatni í 15 mín. Sigtið svo vatnið frá og skerið smátt. Setjið slatta af smjöri á pönnu, saxið skarlottlauk (2 stk), hvíltauksrif (2 stk), og sveppi (ca 100g) smátt.
Steikið fyrst lauk og hvítlauk á pönnunni á ekki of miklum hita, passa að hvítlaukur brenni ekki. Bætið sveppunum útí, meira smjör ef þarf. Bætið svo ca dl. af hvítvíni saman við. Setjið svo grjónin út í og veltið vel uppúr smjöri og hvítvíni. Bætið rest af hvítvíni samanvið og látið malla þar til vökvi er nánast horfinn. Bætið þá 2 ausum af sveppasoði út á pönnuna og hrærið áfram á meðalhita.
Þegar vökvinn er nánast horfin er þetta endurtekið, sem sagt ausið alltaf reglulega vökva saman við og hrærið stöðugt svo ekki brenni í botninn. Endurtakið þetta í ca 20 mín eða lengur þar til grjónin eru mjúk en samt ekki eins og grautur, það á að vera smá bit í þessu. Skerið loks smjör í kubba og bætið út á grjónin, rífið svo parmesan yfir og blandið öllu saman. Salt og pipar eftir smekk.
Setjið svo risotto í skál og kælið. Svo er það djúpsteikingin. Skerið sveppaostinn í litla kubba, ca 1 cm á kant eða minna. Hjúpið ostabitana með risotto þannig að þið myndi litla bolta með ost í miðjunni. Stærð fer eftir smekk en eftir því sem boltarnir eru stærri því minna bráðnar osturinn inní. Ég myndi miða við aðeins stærri en golfkúlur. Veltið svo bollunum upp úr pancho raspi og djúpsteikið þar til orðið gullið og fagurt. Látið standa á grind þar til þið berið fram.
Papríku tómata sósan
Mýkið laukinn (1 stk) á meðalhita í smá smjöri og olíu, bætið hvítlauk (2 rif) saman við og mýkið, bætið svo smátt skorinni paprikunni (1 krukka) ásamt hökkuðu tómötunum (1 dós) saman við og hrærið á meðal hita. Salt og pipar eftir smekk. Bæti svo 1-2 dl rjóma saman við og blandið saman og látið malla áfram. Bætið loks basillikunni saman við. Ef þetta er of þykkt þá þynnið með vatni.
Svona, nú er allt klárt. Setjið klettasalat á disk, dreifið sósunni (sjá að neðan) yfir fyrir miðju og raðið þrem risotto bollum yfir þannig að þær standi í sósunni. Rífið svo ríkulega parmesan yfir og raðið loks ferskum basilliku blöðum efst. Svo er geggjað að hafa smá trufflu aioli með þessu líka, væri jafnvel hægt að setja það inní bollurnar með ostinum.
Pörunin
Hér gengur alls konar, gott rauðvín eða þróttmikið hvítvín. Jafnvel góðar búbblur. Í bjórnum væri það t.d. Saison (farmhouse) eða jafnvel belgískur blond. Ég held líka að krispípilsner gæti gengið og svo fyrir meira ævintýri, belgískur Tripel.
Það er gaman að gera hleypt egg þó það sé dálítið dútl. Það er bara einhvern veginn skemmtilegra og meira grand að borða hleypt egg vs linsoðin eða spæld egg. Egg Benedicts er klassískur réttur þar sem hleyptu eggin fá að njóta sín.
Um daginn prófaði ég brunch á Apotekinu en á laugardögum og sunnudögum bjóða þeir uppá alls konar geggjaðar útgáfur af Egg Benedicts, ég prófaði humarinn sem ég verð að mæla með og svo var það rifna öndin sem var geggjuð. Eins og svo oft áður þá fær maður hugmyndir þegar maður fer út að borða og svo prófar maður að apa eftir í eldhúsinu heima. Við ákvæðum að prófa öndina og viti menn, við negldum þetta. Já svakalega gott þó ég segi sjálfur frá.
Hérna er þetta eins og við gerðum þetta
Það sem þarf fyrir fjóra:
Confit de Canard í dós (fæst í Bónus t.d.)
Teryaki sósa, 3 mtsk
Hoisin sósa, ca 2 mtsk
2 græn epli skorið í báta
3 eggjarauður í Hollandaise sósu
8 egg, hleypt (poached)
sykur og smjör fyrir karamlellu
Vöffludeig, heimagert eða tilbúið
Kóríander til skrauts
Aðferðin:
Takið andalærin úr fitunni, endilega geymið fituna t.d. fyrir stökkar kartöflur eða álíka. Setjið öndina í eldfast mót og látið malla bara. Við erum í raun bara að hita þetta vel upp.
Fínt að græja eggin, sjá aðferð hér. Geymið svo eggin í ísbaði þar til rétt áður en þið berið fram. Þá hitið þið þau upp í sjóðandi vatni í 15 sek.
Fínt líka að græja eplin, gerið karamellu eftir þeirri aðferð sem þið kjósið og látið eplin krauma í þessu þar til þau eru orðin mjúk og hálf maukuð. Leggið til hliðar.
Takið öndina svo úr ofninum og rífið niður eins mikið og þið getið. Blandið teryiaki og hoisin sósu vel saman við, smakkið þetta bara til. Þið hafið þetta eins og þið viljið. Ég notaði smá salt til að rífa aðeins upp bragðið.
Svo er það bara að henda sér í hollandais sósuna og baka vöfflurnar.
Setjið svo heitar vöfflurnar á disk, eina á hvern disk. Rifna öndin fer svo ofan á. Hitið upp eggin í 15 sekúndur, þerrið með þurrku og raðið ofan á öndina. Ef hollandais sósan er farin að þykkna má hræra smá heitu vatni samanvið, ausið svo sósunni yfir eggin, og ekki gleyma karamellu eplunum. Loks skreytið þið með ferskum kóríander og ég reyndar held að pæklaður rauðlaukur væri geggjaður með þessu. Geri það næst. Svo er bara að njóta!
Við erum alltaf í vandræðum með hvað við viljum hafa í matinn á jóladag. Það er einhvern veginn allt orðið þreytt og maður er eiginlega að springa. Þetta árið ákváðum við að gera humarsúpu og gera hana frá grunni. Við höfum ekki gert það sjálf áður en útkoman var hrikalega góð. Svo góð reyndar að nú er komin ný hefð hér á bæ, jóladags humarsúpan.
Við vorum mest megnis með lítinn humar í súpuna ásamt nokkrum stórum hölum ofan á. Við vorum sammála um að næst myndum við sleppa litu körlunum og nota bara stóran humar og þá hafa minna af honum. Það er miklu betra!
Það sem þarf (fyrir 4-5):
Humar í skel, stór, því stærri því betra. Slepptu litla súpu humarnum. Magn fer eftir smekk bara, 700 g er fínt t.d
Smjör, 50g
Ólifuolía
Rauð paprika, 1 stk skorin smátt
Gulur laukur, 1 stk, skorinn smátt
Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
Gulrætur, 2-3 stk skornar í litlar sneiðar
Hvítlaukur, 2-3 geirar
Tómat purré, 2 mtsk
Cayenne pipar, 1 tsk
Hvítvín 0,5 dl
Kókósmjólk, þykka gumsið efst/rjóminn, ca hálf dós.
Rjómi, 500 ml + þeyttur rjómi, 1 peli
Philadelfia rjómaostur, 200 g
Humarsoð (sjá að neðan)
Fyrir soðið:
Humarskeljar af 700g humar
Smjör, 50g
Ólifuolíu
Gulur laukur, 1 stk skorið gróft
Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
Gulrætur, 4 litlar skornar í litla bita
Hvítlauksgeirar, 3-4 skornir smátt
Fennel fræ, 2 tsk
Cayenne pipar, 1 tsk
Vatn, 2L
Hvítvín, 1,5-2 dl
Humarkraftur, 4 mtsk
Salt og pipar
Aðferðin
Svona gerðum við þetta. Byrjuðum á að afþýða humar yfir nótt. Skelflettum og hreinsuðum garnir úr. Svo er það smjör (50g) í stóran pott, ólifuolía og humarskeljarnar (af ca 700g humarhölum), 2 tsk fennelfræ og 1 tsk Cayenne pipar. Við brúnuðum skeljarnar í smá stund svona. Bættum svo útí skornum lauk (1 stk), blaðlauk skorinn í sneiðar (1 stk), smátt skornum gulrótum (4 stk) og hvítlauksgeirunum (3-4 stk).
Létum þetta mýkjast á rúmlega meðalhita. Svo bættum við ca 2 dl hvítvíni samanvið og fljótandi humarkrafti (4 mtsk) og létum aðeins sjóða niður. Lyktin á þessu stigi lofar svo sannarlega góðu. Loks bættum við 2 L vatni samanvið og náðum upp suðunni. Við létum þetta svo malla í líklega 3 tíma á lágum hita undir loki. Það má vel láta þetta malla lengur svo sem, þá verður soðið bara sterkara. Við sigtuðum svo soðið frá grænmetinu og lögðum til hliðar. Smakkið soðið til með salti og pipar.
Þá er það súpan sjálf. Þetta er mikið til sama innihald og í soðinu. Skárum niður 1 rauða papriku, 1 gulan lauk, 1 blaðlauk og ca 3 gulrætur. Mýktum þetta í potti í olíu og 50g smjöri ásamt Cayenne pipar (1 tsk). Bættum svo um hálfum dl hvítvíni samanvið. Þegar þetta er orðið mjúkt þá bættum við tómatpúrruni (2 mtsk) saman við og blönduðum vel. Settum þetta svo í blandara sem þolir hita (t.d. Vitamix) ásamt ca dl af soðinu og hvítlauksgeirum og maukuðum þetta vel þar til engar agnir voru sjáanlegar.
Settum svo maukið aftur í pottinn, bættum saman við soðinu og rjómaostinum (200 g) og hrærðum vel saman og náðum upp suðu. Bragðbætt með salti og pipar og jafnvel humarkrafti ef ykkur finnst vanta bragð. Þetta var mjög bragðmikið hjá okkur á þessu stigi. Þegar þetta var búið að malla dálítið bættum við 500 ml rjóma og svo kókosmjólk eftir smekk. Við notuðum í raun kókosrjómann sem er efst í dósinni og smökkuðum til. Þetta var ca hálf dós.
Svo er það humarinn (skelflettur). Ég steikti hann uppúr slatta af smjöri, pressuðum hvítlauk (3 geirar) og smá þurrkaðri steinselju (átti ekki til ferska). Mjög basic, bara passa að steikja þá frekar of lítið en hitt, súpan klárar svo verkið. Ef þið eruð með litla súpu humarhala þá skolið þið þá bara, þerrið og bætið þeim útí súpuna um leið og hún er borin fram. Þeir sjóða strax þar. Stóru humarhalana settum við ofan á súpuna þegar súpan var komin í skálarnar ásamt þeyttum rjóma.
Pörunin
Það þarf ekkert að para neitt við þetta en það er skemmtilegra, það var hátíð í bæ hjá okkur og við áttum flotta flösku af Dom Perignon kampavíni sem paraðist stórkostlega við súpuna. Gott hvítvín, þurr saison eða belgiskur tripel myndu eiga svakalega vel við líka.
Sigrún gerir ofsalega góðar brauðbollur og við ákváðum að hafa þær með súpunni, nýbakaðar og lungnamjúkar með smjöri. Frábær veilsa. Njótið.
Ég nota bjór mikið í matargerð því hann flott hráefni með margslunginn karakter sem erfitt er að fá í öðrum hráefnum. Ég hef sagt það áður, ég er súkkulaðifíkill og ég hef engin plön um að fara í meðferð. Stout bjór og súkkulaði er góð pörun, stout er sérlega flottur með eftirréttum því hann er með skemmtilega blöndu af kaffi og dökku súkkulaði í sínum bragðprófíl.
Hér datt ég inn á eftirrétt sem sameinar þetta, sem sagt súkkulaði og stout. Þessi réttur er eins geggjaður og hann lítur út fyrir að vera. Uppskrift er fengin frá The Beeroness á instagram en þessi kona gerir mjög spennandi rétti úr bjór.
Það sem þarf:
170 g dökkir súkkulaðihnappar
1/3 bolli góður stout, ég notaði hér Morning glory frá RVK Brewing
115g brætt smjör
1 bolli sykur
1/2 bolli púðursykur
3 stór egg
3/4 bolli hveiti
1 tsk salt
1/4 bolli bökunarkakó
Fyrir stout súkkulaðisósuna
280 g dökkt súkkulaði
1/3 bolli súkkulaði stout. Ég var með Jóla Jólru imperial stout frá Ölvisholti
Vanilluís
Aðferðin:
Best er að gera kökuna degi áður en hún er borin fram þá verður hún blautari og þéttari.
Byrjið á að setja súkkulaðihnappana (170 g) í skál sem þolir hita. Setjið skálina yfir pott með vatni í. Ekki láta vatnið snerta skálina. Stillið á meðalhita, bætið 1/3 bolla stout út í og bræðið súkkalaðið saman við bjórinn. Takið af hitanum.
Í stóra skál blandið þið saman bræddu smjöri (115 g), sykur (1 bolli) , púðursykur (1/2 bolli). Hrærið saman, bætið svo þremur eggjum saman við og blandið vel.
Blandið súkkulaði blöndunni saman við og loks salti, hveiti (3/4 bolli) og kakó (1/4 bolli). Hrærið þessu saman svo það sameinist allt. Leggið bökunarpappír í ferhyrnt mót og hellið blöndunni yfir.
Bakið við 180 gráður í 25-30 mín. Kakan á að vera þétt að ofan en virðast nánast fljótandi undir yfirborðinu. Látið svo kólna yfir nótt helst, en það þarf samt ekki.
Svo er það heita súkkulaðisósan.
Bræðið dökkt súkkulaði (280g) saman við 1/3 bolla stout yfir vatnsbaði eins og áður. Gott er að hafa bjórinn hér ekki of ramman, imperial stout eða jafnvel pastry stout kemur vel út hér.
Flóknara var það ekki. Skerið kökuna í ferkantaða bita og raðið á disk. Setjið svo væna skeið af vanilluís ofaná, svo annan brownie bita og loks aftur vanilluís efst. Hellið svo yfir stout súkkulaðisósunni og sáldrið nokkrum súkkulaðihnöppum efst og berið fram.
Pörunin
Hér er pörunin augljós, kaffiporter eða stout eða kannski enn betra sætur imperialstout er frábær pörun. Þetta gæti samt orðið dálítið þungt í maga svona. Við prófuðum því bláberja súrbjór sem kom fáránlega vel út. Ber og súkkulaði er auðvitað augljós pörun. Ég átti til Skyrjarm jólabjór og notaði hann og mikið svakalega kom þetta vel út.
You must be logged in to post a comment.