Við eldum oft eftir Halfbaked Harvest hér á þessum bæ enda er hún með frábærar uppskriftir. Með tímanum þróast uppskriftirnar hjá okkur, við fínstillum kryddin og bætum hráefnum við og lögum að okkar bragðlaukum. Hér er frábær réttur, einn af vinsælustu réttum í litlu fjölskyldunni okkar, white chicken chili. Chili er einhvers konar kjötkássa eða mjög þykk súpa.
Það sem þarf fyrir ca 4-6
Kjúklinga lærkjöt, úrbeinað, einn og hálfan bakka
Rauðlaukur, hálfur skorinn í smátt. Má vera annar laukur eins og Skarlottlaukur t.d.
Þurrkað timian, ca 1 mtsk
Hvítlauksgeirar, 2-3. Smátt saxaðir
Reykt papríka, hálf mtsk
Kóríanderkrydd, hálf mtsk
Cummin, hálf mtsk
Chili flögur hálf tsk eða eftir smekk bara
Kjúklingasoð, 500-750ml
Matreiðslurjómi, 500 ml eða meira
Rjómaostur, 200g
Rifinn cheddarostur 100g
Smjörbaunir eða cannelonibaunir helst. Ein dolla, sigta vatnið frá.
Ef þið gerið salsa verde, sem í raun þarf ekki en er miklu betra þá er gott að byrja á þvi Set hér inn hlekk á einfalt en geggjað salsa verde.
Byrjið á að skera hálfan rauðlauk og 2-3 hvítlauksgeira smátt, mýkið í smjöri. Bætið svo kryddunum út í 1 mtsk timian, 1/2 mtsk reykt papríka, 1/2 mtsk cummin og 1/2 mtsk kóríander krydd. Svo ca 1/2 tsk chiliflögur. Fer reyndar eftir smekk. Steikið þetta aðeins saman, bætið svo kjúklingnum saman við og steikið aðeins uppúr kryddunum. Það má bæta smá ólífuolíu útá ef þetta er orðið þurrt. Svo bætið þið 500ml kjúklingasoði samanvið og um hálfum bolla af salsa verde og látið malla í smá stund áður en þið hellið 500ml matreiðslurjóma útá. Látið malla á meðal hita.
Þegar kjúklingur er soðinn í gegn þá rífið þið hann niður, sigtið vatnið frá baununum og bætið saman við. Látið malla áfram. Það má bæta kjúklingasoði útí ef þið viljið aðeins auka magnið. Ég bætti um 150 ml útí. Setjið svo líka um 200g rjómaost og 100g rifinn cheddarost, má vera meira sko. Þetta mallar áfram meðan meðlæti er gert klárt.
Smakkið til með salti og pipar, ég bætti líka lúku af ferskum kóríander útí. Sjóðið nú eggin í öðrum potti, látið suðuna koma upp, setjið svo varlega eggin útí, miðum við eitt egg á mann. Látið sjóða í um 7 mín og 15 sekúndur. Takið pottinn þá strax af hitanum og kælið með köldu vatni. Eggin ættu að vera rétt rúmlega linsoðin.
Eggin eiga að vera aðeins meira en linsoðin
Skerið svo niður avocado, ferskan kóríander, setjið rifinn cheddar í skál, skerið vorlauk í smátt og setjið í skál. Skerið niður lime í báta. Nú er allt klárt. Við mælum með að setja kjúklingakássu í hverja skál, takið skurn af einu eggi og skerið í tvent og setjið í hverja skál, ferskur kóríander yfir, rifin cheddar og vorlaukur. Svo er frábært að kreista líme safa yfir og sletta smá chili krisp yfir. Það er líka frábært að sletta smá sala verde yfir allt í lokin. Svo bara að njóta!
Örstutt stopp á framandi slóðum. Ég hef aldrei komið til Póllands, ekki einu sinni þegar við Sigrún túruðum um Evrópu á Interraili fyrir all nokkrum árum síðan, veit reyndar ekki afhverju við stoppuðum ekki í Póllandi? En núna vorum við að bæta fyrir það, við skruppum til Gdansk í Póllandi, þriggja nátta stopp. Á svona stuttum tíma nær maður vissulega ekki að upplifa allt sem er í boði eða kynnast borginni almennilega, maður er heldur ekki endilega að reyna það. Fyrir okkur átti þessi ferð að vera afslöppunarferð og þvi ekkert stress. En alla vega, hér eru nokkur orð um mína fyrstu upplifun í þessari borg!
Nokkur góð ferðaráð
Hótelgistingin er mikilvægari en maður heldur. Við gistum á frábærum stað, sem er mikilvægt þegar stoppið er stutt, sem sagt að velja hótel sem er vel staðsett miðað við þínar þarfir hverju sinni svo þú komist leiðar þinnar fótgangandi en ert ekki að eyða tíma á hverjum degi í að komast í það sem þú vilt sjá og upplifa. Við vorum á Hilton í gamla bænum, frábært hótel alveg við ánna í hjarta gamla miðbæjarins eða í raun við upphaf gamla miðbæjarins ef svo má að orði komast. Við völdum hótelið vegna þess að við vildum vera í gamla bænum því við ætluðum ekkert að fara í miklar skoðunarferðir en vildum skoða svona það helsta samt og oftast er “gamli bærinn” í borgum Evrópu snotur og huggulegur og vert að skoða. Við völdum þetta hótel reyndar líka því þar er heilsulind sem bíður uppá gufu, sundlaug, rooftop sólbaðsaðstöðu og nudd. Við Sigrún erum líka mikið fyrir rooftop bari og á þessu hóteli er einmitt einn slíkur sem okkur fannst ofsalega fínn. Flottir kokteilar, frábært útsýni yfir gamla bæinn og góð stemning en þegar við vorum þarna var plötusnúður sem hélt uppi stemningunni. Þjónustan mætti hins vegar vera örlítið betri, dálítið hæg fannst okkur en ok maður leggur sumt á sig!
Rooftop barinn á Hotel Hilton
Venjulega er ég búinn að plana mikið fyrir svona borgarferðir, eins og hvað á að skoða, helstu pöbba og veitingastaði og alltaf er ég búinn að bóka nokkra veitingastaði fyrirfram en ekki að þessu sinni, þessi ferð var bara svona skyndi ákvörðun hjá okkur. Ég hef nefnilega lært það af biturri reynslu, þó það hljómi rómantískt, að það getur bara verið frekar súrt að ætla sér bara svona að rölta um og ramba inn á frábæran veitingastað, einhvern falinn fjársjóð í einhverju snotru húsasundi (það er bara í bíómyndum). Það sem gerist iðulega er að þú ert að rölta um, orðinn svangur eða vantar góðan drykk í kropp, hitinn er að drepa þig, þú ert allur þvalur og óþægilegur og þú ferð að leita í dálítilli örvæntingu erftir stað til að svala öllum þörfum þínum á, eitthvað skjól en þú lendir á stað sem reynist svo vera bara svona la la eða jafnvel slæmur. Svo eftir matinn þinn eða drykkinn þá nokkrum skrefum lengra gengur þú fram á ofsalega kósí og flottan stað sem þú hefðir miklu frekar vilja tilla þér á. Þannig var það hjá okkur alla vega hér áður fyrr, áður en við fórum að plana smá fyrir ferðalög okkar. Lífið er of stutt fyrir slæma matarupplifun! Vertu búinn að skoða og plana, og jafnvel bóka borð á nokkrum stöðum fyrirfram. Það er alltaf hægt að afbóka bara ef stemningin er ekki þannig að það henti þér þegar þú ert kominn á áfangastað. Ekki misskilja, þetta á ekki að vera niðurnegld dagskrá sem ekki má víkja út frá, meira svona beinagrind sem má styðjast við ef maður vill. Planið á ekki að valda streitu. Ég gerði þetta ekki í þessari ferð, braut mína eigin reglu, við lentum í veseni fyrsta daginn, römbuðum inn á stað sem lofaði góðu, fullt af fólki á staðnum, flott útsýni yfir litla sæta göngugötu en svo fengum við versta…LANGVERSTA foccacia sem ég hef bara smakkað. Myndi líkja því við strokleður, seigt, gúmmíkennt og bara vont. Bjórinn var fínn og einhver kæfa sem við pöntuðum var í lagi. En upplifunin bara alls ekkert góð. Ykkur til varnar heitir þessi staður Machina eða eitthvað í þeim dúr.
Vert að skoða í mat og drykk
Anda dumplings á Geneza
En maður lætur ekki deigan síga heldur leggst bara í smá vísindi eða les smá pistil á Bjór og Matur ;). Við lentum ekki í neinum vandræðum eftir þetta og get ég svo sannarlega mælt með nokkrum stöðum í mat og drykk, sem ég geri hér að neðan. Við vorum ekkert sérstaklega að eltast við pólska matargerð í þessari ferð, sem einkennist dálítið af kjöti, ljúffengum pylsum og eins konar dumplings svo eitthvað sé nefnt.. Svo eru þeir mikið fyrir að súrsa grænmeti á borð við kál og gúrkur. En eins og ég segi þá ætla ég sannarleg ekki að þykjast vita eitthvað um pólskan matarkúltúr, ég skoða það bara síðar. Við smökkuðum reyndar oft alls konar dumplings rétti, allt bara frábært. Ítalskir veitingastaðir eru frekar áberandi allt um kring sem er bara hið besta mál enda elskum við Sigrún ítalska matargerð.
Það eru margir veitingastaðir meðfram Motlawa ánni í gamla bænum
Það eru t.d. nokkrir meðfram Motlawa ánni svo sem Sempre, Geneza, Viceversa ofl. Við náðum ekki að prófa Sempre sem reyndar lofar góðu ef marka má dóma á netinu, hann var reyndar líka á öðrum stöðum í borgninni og líka í Sopot strandbænum sem ég kem aðeins inná neðar. Geneza og Viceversa fengu hins vegar að elda ofan í okkur. Það er í raun af nóg af taka þarna, ef maður vill snæða við árbakkann, verðlag nokkuð mismunandi auðvitað en ég held að almennt sé lækki verðlag þegar fjær dregur ánni. Viceversa er frekar vænn við budduna, þjónustan vinaleg og maturinn mjög góður, ekki fine dining samt en bara fínn. Reyndar fannst okkur nauta carpaccio-ið sem við fengum okkur í forrétt pínu skrítið en líklega einhver túlkun á réttnum sem við eigum ekki að venjast. Aðalréttirnir voru hins vegar frábærir, óaðfinnanlegt gorgonzola gnocchi og grísa saltimbocca skolað niður með þéttu Primitivo rauðvíni.
Frábært pólskt orange vín á Geneza
Nokkru ofar meðfram ánni sömu meginn er svo Geneza, annar ítalskur staður með mjög flottan mat. Ég held ég myndi frekar mæla með þessum ef valið væri milli þessara tveggja. Kannski er það bara af því að þar fengum við frábært pólskt orange vín sem við fundum ekki annars staðar. Hér er tilvalið að tilla sér og kæla sig niður í steikjandi sólinni með köldum drykk og skoða mannfólkið sem líður hjá. Það var hér sem við settumst niður fyrsta daginn eftir skelfilega foccacia málið og vorum við því dálítið svöng.
Við pöntuðum arancini til að deila. Ég hef borðað arancini marg oft en þessi réttur var líklega sá fallegasti til þessa. 3 fullkomnar stökkar kúlur í basil olíu og með berjasultu, framsetning sem ég er ekki vanur. Glasið af orange víninu kostaði dálítið, eða 48 zloty eða rétt undir 1500kr. Við enduðum líka ferðalag okkar með hádegisverði á Geneza og vorum ofsalega sátt. Ég mæli með bökuðu fíkjunum fylltum með rjómageitaosti og hunangi, svakalegt og öskrandi góð pörun við orange vínið. Ég pantaði líka gnocci sem var ofsalega gott með bragðflækjum sem við höfðum aldrei smakkað áður, sætt, súrt og rjómakennt allt í senn. Hér fengum við okkur líka dumplings fyllt með langelduðu rifnu andakjöti, svakalega gott en svona dumplings er klassíker í pólskri matarmenningu.
Það voru tveir staður sem stóðu uppúr fannst okkur. Fyrst má nefna True sem er frábær “fine dining” staður í frönskum stíl sem ég mæli svo sannarlega með. Þetta kostar alveg smá en þú ert að fá flotta þjónustu og geggjaðan mat, vel þess virði. Óaðfinnanlegur matur og meira að segja espressoið í lokin var fullkomið. Við pöntuðum í forrétt villtar grillaðar argentískar risarækjur í hvítvíni með kókosmjólk, chili og skarlottulauk og svo grillaðan hörpudisk í beurre blanc sósu. Þetta var algerlega geggjað, rækjurnar brögðuðust nánast eins og humar og sósan sem kom með þeim var eins og beint af himnum ofan, ég hefði getað sett þetta á flösku og drukkið í stórum stíl. Sósan kom fullkomlega á móti sterku chiliinu á rækjunum. Aldrei nokkurn tíman hef ég skammað eins góðar rækjur. Harpan kom í beurre blanc sósu með að ég held basil olíu og svo næfurþunnum eplaskífum, salvíu og létt steiktum mandarínu bátum. Blanda sem algerlega gekk upp. Þetta pöruðum við svo með góðu kampavíni en hefðum getað farið í eikað eða smjörað hvítvín á borð við Chardonnay eða Chablis. Í aðalrétt var það svo “beef tenderloin” með demi glace, grænum sykurbaunum í dásamlegri brúnni smjörsósu og svo smjörsteiktir chantarell sveppir í demi glace og dill soðsósu. Maður velur allar sósur og meðlæti sér eftir eigin höfði. Ég vil þakka Hugrúnu okkar fyrir þessa frábæru ándingu.
Bestu pizzur sem ég hef smakkað á Ostro
Hinn staðurinn er líka við ánna, en bara hinumeginn alveg við litlu hreyfanlegu göngubrúnna. Ostro heitir hann, hann er ítalskur og valinn nr eitt af ítölskum stöðum á svæðinu ef maður treystir internetinu. Ostro er mun ódýrari staður enda sérhæfir hann sig í eldbökuðum flatbökum þannig að ef þú ert pizza aðdáandi þá skaltu ekki missa af þessum stað. Reyndar þó þú borðir ekki einu sinni pizzu þá muntu elska þessar, það getur bara ekki annað verið. Með bestu pizzum sem ég hef smakkað. Við erum að tala um fullkomlega bakaðar súrdeigs pizzur, maður gæti í raun sleppt öllu áleggi og borðað botninn einan og sér en ekki gera það samt, álegið er svo geggjað líka. Pizza nr 11 var stórkostleg, bianco með ítölsku salami, þunnum peruskífum, gorgonzola, mozzarella og valhnetum. Hin pizzan var nr 5 minnir mig,bragðmikil gorgonzola pizza sem sveik ekki. Á matseðlinum er vert að taka eftir vínpöruninni sem þeir mæla með fyrir neðan hverja pizzu, hvort sem er hvítt eða rautt. Skemmtilegt.
Það er ekki hægt að bóka borð hér, maður þarf bara að næta og líklega að standa í smá röð við árbakkann (ekki bak við hús þar sem líka er aðkoma að staðnum) en röðin gengur hratt fyrir sig og verðlaunin eru ríkuleg.
Við tókum svo eftir öðrum stað þarna við ánna sem vakti áhuga okkar aðallega vegna þessa að fyrir utan var alltaf löng biðröð af fólki sem freistuðu þessa að fá borð síðar um kvöldið en það þarf að bóka borð þarna með löngum fyrirvara. Staðurinn heitir Cheleb in Wino, hjómar eins og Seleb í glasi en þýðir held ég brauð og vín. Ég veit ekkert hvort þetta er góður staður eða þess virði að hanga í röð fyrir en hann sker sig alla vega mjög úr þarna við árbakkann með þessa röð fyrir framan og svo er allt húsið upplýst í fjólubláum lit og mikil stemning. Lofar góðu en ómögulegt að segja nema prófa sjálfur.
Bjór í Gdansk
Ég get svo ekki fjallað um veitingastaði hér án þess að nefna Piwnica Rajcó sem er brugghús eða bruggbar staðsettur beint fyrir aftan Neptúnus styttuna sem er eitt helsta tákn Gdansk. Piwnica er bruggbar sem þýðir að þeir brugga allan bjórinn sinn á staðnum og þeir eru líka með mat. Ég smakkaði allan bjórinn frá þeim, 6 tegundir í 4 heimsóknum, allt virkilega vandað og gott. Það er frábært að sitja úti við stóra torgið og sötra bjórinn og leggjast í mannlífsrannsóknir, bara vera og slaka!
Ef hitinn er að drepa þig úti eru stórir gangar og salir neðanjarðar og bar auðvitað líka. Þú getur hér virt fyrir þér brugghúsið og flottu gerjunar og þroskunartankana sem standa í röðum bak við glervegg í öðrum endanum. Þú getur drukkið bjórinn með nokkrum aðferðum, pantaðu staka bjóra í krús 0,3L , 0,5 eða 1L eða ef þú ert sjálfstæður getur þú keypt kort og dælt þínum bjór sjálfur að eigin vali. Svo er líka hægt að fá bjórturn, ef þú ert í góðum félagsskap og smekkur ykkar er eins. Turninn er þá fullur af bjór sem kemur á borð til þín. Það er svo krani neðst og þú dælir sjálfur beint í glösin ykkar. Loks er hægt að fá smakkbakka sem alltaf er góð hugmynd ef maður veit ekkert hvað maður vill.
Maturinn ku líka vara mjög góður, ég get ekki tjáð mig mikið um hann en ég fékk mér bara einn smárétt þarna, anda dumplings sem voru fáránlega góðir.
8% Baltic Porter á Piwnica
Ég ætla ekki að reyna að ráðskast með þig mikið en gerðu það fyrir mig að smakka Baltic Porterinn þeirra, hann er frábær 8% baltic porter sem er stíll sem fundinn var upp á þessum slóðum. Kannski ekki bestur í hitanum en fullkominn að kvöldi dags. Svo er Amberinn þeirra skemmtilegur, fullkominn matarbjór ef þú vilt fara í matseðilinn líka. Það eru fleiri bjórstaðir í Gdansk, meira að segja slatti af craft börum en ég skoðaði þá ekki í þessari ferð, þetta var bara ekki þannig ferð. Svo er annar bruggbar í gamla bænum, Brovarnia sem státar af besta bjór Póllands að þeirra eigin sögn. Þessi staður er auglýstur bak og fyrir t.d. á flugvellinum og víðar. Staðurinn sem er staðsettur á neðri hæð Hótel Gdansk kemur líka upp ofarlega þegar maður leitar á netinu eftir bestu veitingastöðum borgarinnar. Við borðuðum ekki þarna en ég greip einn IPA sem var stórkostlegur. Ég sé að það er vel hægt að fara hingað í sérstaka bjórferð, set það á to do lista hjá mér.
Gdansk, gamli bærinn
Varðandi borgina sjálfa þá get ég bara tjáð mig um gamla miðbæinn, fyrir okkur í þessari ferð var hann bara alveg nóg. Þetta er ægilega fallegur bær, hreinlegur, enginn hundakúkur á götum, ekki sorp eða klóaklykt sem gýs upp, ekkert cannabis ský sem maður gengur inní eins og víða er orðið í öðrum borgum, engir betlarar eða slíkt. Maður upplifir öryggi og fólk hér almennt vinalegt. Ég heyrði enga amerísku, enga íslensku og varla skandinavísku ef út í það er farið, hér virðast flestir vera frá slavneskum þjóðum sem er frábært. Ég nenni ekki að hitta nágranna minn á ferðalögum mínum erlendis, nema jú ef það eru Maggi og Björk, Hreimur eða Darri og frú auðvitað…já ok líka þið hin ef þið eruð að lesa, æi þið fattið hvað ég meina? Það er miður ágúst og bærinn dálítið pakkaður af fólki, sérstaklega meðfram ánni og á stærstu verslunargötunum. Líklega væri betra að vera hér í júní eða september? Byggingarstíll er ægifagur, ég veit ekki enn á hvað hann minnir en það er eins og blanda af Prag, Stokkhólmi með smá Köben og dash af Brussel. Ofsalega skemmtilegt.
Verðlag, já við spáum í það alltaf, ég varð pínu fyrir vonbrigðum, ég var að búast við mun lægra verði en mögulega hef ég verið að flækjast inn á dýrari staði bæjarins, ég veit ekki en alla vega, sums staðar var rauðvínsglasið eða hvítvínið á svipuðu verði og heima, kampavín var dýrt eins og reyndar víðast hvar í heiminum en bjórglasið var samt alltaf töluvert lægra en heima og kokteilar rokkuðu frá um 800kr og upp í kannski 2000 kr eftir því hvar þú varst staddur. Verðlag meðfram ánni virðist nokkuð hærra en þegar fjær dregur ánni en það er svo sem vel þekkt í öðrum borgum.
Sopot strandbærinn
Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en má samt til með að nefna Sopot sem er lítill strandbær skammt frá Gdansk. Það tekur um 20 mín með Uber eða Taxa að fara frá gamla bænum t.d. Ég mæli með að fara dálítið snemma dags og eyða heilum degi og kvöldstund í þessum bæ. Stefnið á WhiteMarlin sem liggur alveg við ströndina og röltið svo þaðan um svæðið. Það er lítill miðbæjarkjarni þarna með aragrúa af veitingastöðum og svo er mikið að gerast í kringum hótelin sem liggja við ströndina. Þetta er mjög huggulegt svæði. Það er notalegt að tilla sér á einhvern strandbarinn og fá sér drykk eða bara skella sér á ströndina og baða sig í Eystrasaltinu. Þarna er líka gríðarlega löng timburbryggja, sú stærsta í Evrópu takk fyrir. Þú borgar 10 Zloty fyrir að rölta út á hana, mjög skemmtilegt rölt. Á enda bryggjunnar er veitingastaður ef maður er svangur.
Lengsta trébryggja í Evrópu er í Sopot
Við skoðuðum því miður ekki mikið af Sopot, komum heldur seint þangað en þetta lofaði allt góðu. Ég get þó mælt með strandbarnum á White Marlin, við snæddum reyndar kvöldverð þar líka en það voru engir flugeldar, maturinn var fínn en þjónusta mjög mjög hæg sem kannski er alveg í lagi því staðsetningin er geggjuð. Alveg við ströndina og hægt að sitja líka beint á sandinum við borð undir sólhlíf. Gdansk verður sannarlega heimsótt aftur og Sopot er líka komið á to do listann hjá mér.
Ég elska gott gnocchi eða kartöflupasta eins og maður gæti kalla það á íslensku. Þessir litlu mjúku koddar sem sjúga í sig þá sósu sem þeir eru framreiddir í. Í raun þarf ekki endilega einhverja magnaða sósu með því gnocchi er nánast bara nóg eitt og sér.
Alla vega mig langaði að geta gert þetta sjálfur frá grunni og prófaði því uppskrift af netinu. Fyrsta tilraun var allt í lagi, ég bjóst svo sem ekki við meiru en það, ég breytti svo aðeins hráefnum og negldi þetta í tilraun tvö. Hér hef ég skráð niður hvernig ég gerði þetta og þetta var mun minna mál en ég hafði haldið.
Það sem þarf fyrir ca 4
500 g bökunarkartöflur
150 g “00” hveiti
1 egg
1/2 tsk fíngert salt
Aðferð
Kartöflurnar skipta einhverju máli uppá áferð að gera. Ég prófaði fyrst með venjulegar kartöflur en fannst ég ekki ná fíngerðu mjúku gnocchi. Svo notaði ég stórar bökunarkartöflur og verður það það sem ég nota framvegis. Betri áferð en líka það að þú sleppur við að skræla margar litlar kartöflur. Mér finnst leiðinlegt að skræla.
Byrjaðu á að baka kartöflurnar í hýðinu við 200 gráður. Það tekur mestan tíma. Svo lætur þú þær kólna ögn svo þú getir handfjatlað þær en það er samt gott að hafa þær dálítið heitar þegar þú ferð að hnoða. Skerðu kartöflurnar í tvent og skafðu innanúr þeim. Þannig sleppur þú við að skræla. Stappaðu kartöflurnar vel og safnaðu saman 500g af stöppunni.
Settu 150g hveiti á borð, bættu kartöflustöppunni saman við og búðu til brunn eða hreiður. Hrærðu svo einu eggi saman við 1/2 tsk salt í skál. Notaðu gaffal, ég veit ekki afhverju en það var tekið fram í uppskrift! Getur sennilega notað hvað sem er til að blanda saman saltinu við eggið. Þegar salt er uppleyst í egginu tekur þú 1 mtsk af hrærunni og setur saman við kartöflublönduna.
Hnoðaðu þessu svo saman í kúlu. Ekki vera of lengi því þá verður þetta meira og meira klístur. Mér fannst þetta vera allt of þurrt í upphafi en svo varð þetta bara fínt. Ef er of klístrað þá má bæta við hveiti. Ef of þurrt, prófaðu að hnoða aðeins áfram en annars má bæta við smá af eggjahrærunni.
Stráðu hveiti á borð og klíptu af deigkúlunni hæfilega klípu og rúllaðu út í orm sem er um 1 cm að þvermáli. Bútaðu svo orminn niður í ca 2 cm bita. Þrýstu varlega með fingri í miðjuna á hverjum bita þannig að það myndast smá dæld. Þetta endurtekur þú þar til deigkúlan er búin. Settu svo bitana á brauðbretti, hveiti undir og láttu hvíla við stofuhita í 20-30 mín.
Hér er gott að græja sósuna sem á að vera með. T.d. einfaldasta sósa í heimi en virkilega góð, salvíu sítrónu smjörsósa. Sjá að neðan.
Settu vatn í stóran pott og láttu suðuna koma upp, bættu þá 2 mtsk af salti saman við. Svo setur þú gnocchi bitana útí og lætur sjóða. Það góða við þetta er að þú þarft ekki að taka tímann, þegar gnocchi koddarnir fljóta upp á yfirborðið þá eru þeir tilbúnir. Ágætt að passa samt að þeir hafi ekki festst saman eða við botninn með því að hræra varlega 1 – 2 sinnum. Taktu gnocchi uppúr vatninu með gataskeið og settu beint í sósuna og berðu svo fram sem fyrst.
Dásamlegt salvíusmjör með parmesan og sítrónu
Þessa geta allir gert. Settu slatta af smjöri í pott 150 – 200g og meðal hiti undir. Þegar smjörið er byrjað að bráðna þá bætir þú 3-4 salvíublöðum saman við. Lætur þetta malla. Svo er fínt að mylja smá pipar yfir og kreistu 1-2 sítrúnusneiðar yfir. Láttu svo bara sítrónubátana liggja í þessu áfram. Þegar smjörið er farið að brúnast smá þá er fínt að taka af hitanum. Taktu salvíuna úr smjörinu og þerraðu á eldhúsbréfi.
Svo er bara að setja gnocchi í fallega skál, velta því svo uppúr salvíusmjörinu og helling af fínt rifnum parmesan osti. Salvíublöðin ættu að vera orðin stökk og hægt að mylja þau yfir allt í lokin. Ef ekki er hægt að steikja þau ögn áfram í pottinum.
Salat, er það eitthvað spennandi kann einhver að spyrja? Maður hefur oft hent í salat með steikinni t.d. bara skorið eitthvað grænmeti niður og blandað salat úr Bónus. Ekkert spennandi. Jú jú stundum tekst manni vel til og gott salat er ansi gott. Við vorum á Krít á dögunum og fengum okkur auðvitað grískt salat og það sem var kallað cretan salat og þvílíkt sælgæti. Það kom okkur á óvart hversu ofsalega gott þetta salat var og mig langaði auðvitað að skilja hvernig hægt væri að gera þetta svona gott. Líklega er það hráefnið, það er því miður þannig að hér heima á Íslandi komumst við ekki auðveldlega í fyrsta flokks hráefni, tómatarnir eru frekar döll og það sama má segja um papríkuna og ostinn. Ólífurnar hér eru líka bara grín í flestum tilvikum, í raun skammarlegt að kalla þetta ólífur. Reyndar er hægt að finna innfluttan grískan fetaost ef maður er ofsalega heppinn og í Krónunni má finna góðar ólífur sem kosta samt augun úr. Alla vega, það er mikilvægt að finna góðar ólífur, ekki spara í þær, frekar sleppa að gera salatið. Dressingin skiptir reynda miklu máli og það er vel hægt að bjarga þessu með góðri dressingu. Síðan við komum heim höfum við verið dugleg að prófa okkur áfram og tekist bara nokkuð vel til.
Það sem þarf í salat fyrir ca 4-6
Þetta eru svo sem engin geimvísindi. Fer auðvitað eftir smekk líka en við höfum verið að nota heila gúrku, eina gula papríku, stóra fötu af kirsubejratómötum, hálfan rauðlauk, góðar ólífur og svo einn til tvo fetaostakubba eða einn íslenskan ostakubb sem reyndar er aðeins stærri. Svo viljum við brauðteninga, slatta.
Í dressinguna þar:
Safi úr hálfri sítrónu
Rauðvínsedik, 1-2 mtsk
Ólífuolía, extra virgin, um 3 mtsk
Dijon sinnep, 1 tsk
Kryddblanda, oregano, chili, papríku duft, salt og pipar. (Við höfum notað gríska kryddblöndu en þetta er cirka það sem er í henni)
Aðferð
Ég hef verið að gera salat vitlaust til þessa, litlir fetaostabitar úr krukku blandað í salatblöndu úr Bónus. Aldrei aftur. Hér er engin salatblanda eða fetabitar úr krukku. Þú þarf helst að hafa mandolin, skerðu gúrkuna á ská í mandolíni þannig að þú færð sporöskulaga sneiðar. Skerðu svo hálfan rauðlauk líka í mandolíni, skerðu tómatana til helminga og paprikuna í bita. blandaðu þessu saman í skál. Bættu brauðteningum og ólífum saman við og blandaðu áfram. Svo er að græja dressinguna, smakkaðu þig áfram með kryddin. Blandaðu svo dressingu saman við salatið. Raðaðu nokkrum gúrkusneiðum meðfram rönd skálarinnar. Taktu svo feta eða ostakubbinn og skerðu hann i tvo þríhyrninga og svo er hægt að skera hvern þríhyrning eftir röndinni þannig að þú færð tvo þríhyrninga úr einum. Legðu ostinn ofan á salatið, skreytið með rauðlauksræmum og slettið svo smá dressingu yfir.
Við heimsóttum krít núna í sumar og drukkum svo sannarlega í okkur gríska matarmenningu. Eitt af því sem við tókum með okkur heim var steiktir osturinn Saganaki. Reyndar talað um djúpsteiktan fetaost en það var oft líka guyere eða annar sambærilegur ostur. Ef maður skoðar uppskriftir þá er ekki talað um djúpsteikt samt. Alla vega það er hægt að gera bæði. Ég er búinn að prófa nokkrum sinnum eftir að ég kom heim að steikja ostinn á pönnu í mikilli olíu. Fólk var að kalla eftir uppskrift á instagramminu áðan og því ákvað ég að henda þessu inn hér enda afar einfalt.
Það sem þarf fyrir ca 2-4
Grískur fetaostur 2 stk ef þú finnur, annars íslenskan salatost. Eða gruyere ost sem er geggjaður líka.
Ein sítróna skorin í báta
Balsamic crema
Slatti af olíu til að steikja uppúr
Hveiti til að velta ostinum uppúr
2 egg, pískuð í skál
Pancho rasp til að velta ostinum uppúr
1-2 tsk rósmarín krydd
2-3 tsk oregano
1 tsk reykt papríka
Salt og pipar
Aðferð
Þetta er svo einfalt, snýst aðalega um að brenna sig ekki á olíunni. Taktu fram þrjár skálar, settu hveiti í eina, tvö egg í aðra, pískuð og pancho rasp í þá þriðju. Kryddið raspið með kryddunum og blandið.
Takið ostin úr umbúðunum, skerið í tvo þríhyrninga og velti fyrst upp úr hveitinu, allar hliðar. Ef osturinn er of þurr þá má bleyta hann með vatni. Dustið aðeins hveitinu af, veltið svo ostinum uppúr eggjunum og því næst uppúr raspinu þannig að osturinn hjúpist vel á öllum hliðum. Líka á röndinni.
Hitið olíu í djúpri pönnu. Hafið vel af olíu þannig að osturinn hálf drekkist í henni. Þegar olían er orðin heit þá er bara að skella ostinum varlega út í og steikja á báðum hliðum þar til allar hliðar eru orðnar gullbrúnar og osturinn mjúkur að innan.
Setjið ostinn á disk, sprautið balsamic kremi yfir og berið fram með sítrónusneiðum.
Ég var að upplifa Krít í fyrsta skipti í sumar og mun án efa koma aftur, þetta er dásamlegur sælureitur fyrir fólk sem elskar góðan mat, drykk, safaríkar baðstrendur og spennandi menningu. Já og vinalegt fólk. Ekki skemmir fyrir að það er auðvelt að komast hingað frá Íslandi þar sem Icelandair flýgur núna beint til Chania frá Keflavík. Ég ætla ekki að þykjast geta listað hér upp allt það besta við Krít eða hvaða veitingastaði ber að eltast við eða forðast. Ég ætla heldur ekki að þykjast vera sérfróður í grískri matargerð, ekki enn sem komið er alla vega. Mig langaði bara að punkta niður svona það helsta sem okkur fannst standa uppúr í 14 daga ferð okkar til eyjarinnar miðað við staðsetninguna þar sem við gistum og svæðið þar í kring. Mögulega gagnast það einhverjum sem er á höttunum eftir ævintýri fyrir öll skilningarvitin.
Til að byrja með þá erum við farin að ferðast í júní til útlanda frekar en í júlí eða ágúst. Júní er frábær tími til að ferðast á því ferðamannastraumurinn og örtröðin virðist ekki byrja fyrr en í júlí. Hitinn á suðlægari slóðum er líka viðráðanlegri þannig að ég mæli með þessum tíma, nema auðvitað ef fólk vill meiri hita og læti?
GISTINGIN
Litlar búðir og kaffihús í gamla bænum í Chania
Líklega eru flestir sem koma til Krítar að gista í eða við Chania sem er önnur stærsta borg eyjarinnar á eftir höfuðstaðnum Heraklion sem liggur austar á eyjunni. Það búa um 60.000 íbúar í Chania af um 640.000 á eyjunni allri. Þetta er fallegur bær, sérstaklega gamli bærinn og gamla höfnin sem er vel varðveitt í sinni upphaflegu mynd í feneyskum byggingarsíl. Við erum að tala um litlar verslunargötur þar sem þú finnur litlar búðir, kaffihús, bari, spennandi skyndibitastaði og iðandi mannlíf. Það er gaman að rölta þarna um og villast í litlu þröngu götunum eða tilla sér niður á einhvern af veitingastöðunum við gömlu höfnina og panta sér smá snarl á borð við Dakos eða Saganagi ost skolað niður með ísköldum kranabjór og horfa á mannlífið líða hjá eða bara njóta útsýnisins yfir höfnina. Það er líka gaman að rölta út að vitanum sem stendur í mynni hafnarinnar en þaðan er flott útsýni yfir höfnina og gamla bæinn.
Gamli bærinn og höfnin í Chania
Á kvöldin breytist stemningin algerlega, litlu þröngu göturnar breytast í kósí veitingastaði þar sem fólk situr úti í rökkrinu við borð með daufri birtu frá kerti eða lukt. Mjög kósí stemning. Barirnir lifna líka við með hlátrasköllum og gleði og litlu búðirnar eru margar opnar áfram fram á kvöld.
Dularfull stemning í Chania að kvöldi
Ég get ímyndað mér samt að í júlí og ágúst sé erfitt að fóta sig í mannmergðinni hér og er gott að hafa það í huga þegar fríið er skipulagt. Unglingurinn sem var með í för var mjög sáttur vip Chania því þar er að finna eina Starbucks staðinn á eyjunni skv honum þ.e.a.s en það er auðvitað ekkert sem maður er venjulega að eltast við eða hvað?
Spilia Village hótelgarðurinn
Við gistum ekki í Chania heldur í pínu litlu þorpi sem heitir Spilia og er um 30 km vestan við Chania. Þetta þorp er krúttlegt, rólegt klassískt grískt þorp og nánanast engir ferðamenn nema á eina hótelinu í þorpinu, Spilia Village sem ég mæli svo sannarlega með. Við vorum í húsi tengt hótelinu með sundlaug útaf fyrir okkur. Það voru engir gestir í nálægum húsum og því afar rólegt og þægilegt hjá okkur. En okkur var þó tjáð að það væri mun meira líf í júlí og ágúst hér, allt uppbókað. Starfsfólkið hér allt mjög vinalegt og þægilegt og vill allt fyrir mann gera.
Plateia Cafe Meze
Það eru tveir veitingastaðir í þorpinu, báðir í 1 mín göngufæri frá okkur. Við urðum fyrir vonbrigðum með annan þeirra og fórum ekki aftur á hann en hinn Plateia Cafe Meze er frábær og fórum við oft á hann og aldrei nein vonbrigði. Ég held að við höfum prófað allt á matseðlinum þegar upp var staðið eða svona 95%. Frábær matur og verðlag gott. Hér fengum við mikið af klassískum grískum réttum og á föstudögum er lifandi tónlist og jafnvel dans. Staðurinn er fjölskyldurekinn og kemur mikið af hráefninu í réttina frá fjölskyldunni sjálfri sem er með hænur og kindur og ræktar ýmsar kryddjurtir og ávexti. Allar ólífurnar og ólíurnar koma líka frá þeirra eigin uppskeru. Mjög skemmtilegt, svona beint frá bónda. Reyndar er það þannig að flestir sem hér búa eru með einskonar sjálfsþurftarbúskap, rækta appelsínur, sítrónur, krydd ofl og halda hænur og bíflugur jafnvel og fá þannig egg, hunang og kjöt. Virkilega rómantískt allt saman. Fólk forðast að fara í matvörubúðir hér því verðlag þar er fáránlega hátt og alveg á pari við það sem við upplifum heima á Íslandi.
Þó svo að þorpið sé krúttlegt og veitingastaðurinn frábær þá mæli ég með að vera á bíl hér ef maður vill skoða eitthvað en það er líka hægt að leigja hjól á hótelinu en það er auðvitað takmarkað sem maður kemst á þeim. Ég held að næst myndum við vilja blanda dálítið saman, vera t.d. viku í Chania og svo seinni vikuna í litlu þorpi á borð við Spilia og vera þá með bíl.
UMFERÐARMENNINGIN
Það er ósköp þægilegt að vera á bíl hér en bílamenningin er dálítið spes samt og er eins og menn fari ekki eftir vegmerkingum. Gatnamót eru oft mjög skrítin í þorpunum og þar eru þröngar götur sem getur verið snúið að aka eftir. Svo eru auðvitað engin bílastæði eða nánast engin þannig að maður þarf oft að leggja dálítið frá áfangastað sínum og ganga rest. Það eru einhvers konar hraðbrautir hér en ég átta mig ekki á hámarkshraða þar. 90km/klst er það hæsta sem ég hef séð merkt. Mig langaði samt að nefna aksturslagið á þessum hraðbrautum, fyrst taldi ég mig vera að keyra fyrir aftan manneskju með heilablóðfall eða undir áhrifum vímuefna. Svo sá ég fleiri og fleiri svona ökumenn og áttaði mig á að það væri ég sem væri úr skjön við hina. Vegirnir eru þannig að það er ein akrein í hvora átt aðskildar með ýmist brotnum eða óbrotnum línum og það eru óbrotnar línur yst en svo kemur mjög breiður vegkantur. Bílarnir virðast rása á veginum, eru ýmist hálfir útaf eða alveg út á vegkantinum. Umferð á móti er varasöm því maður mætir oft bíl sem er hálfur inn á þinni akrein þrátt fyrir tvöfaldar óbrotnar línur. Stundum eru þrír bílar hlið við hlið á þessum vegum sem nota bene eru bara með einni akgrein í hvora átt. Svo virðist sem Grikkir noti vegkantinn fyrir hægari umferð og það virðist þannig vera hefð fyrir því að þú færir þig yfir á vegkantinn, já yfir óbrotnu línuna, til að hleypa hraðari umferð framhjá. Einnig gott að vera ekkert of nálægt miðlínunni því eins og ég sagði, stundum koma bílar á móti hálfir inni á þínum vegarhelming.
GRÍSK MATARGERÐ
Hér erum við komin inn á það sem er best við Krít að okkar mati, maturinn, já ok strendurnar eru líka svakalegar reyndar, sjá neðar. Við vorum með miklar áætlanir um að elda mikið sjálf enda með heilt hús undir okkur en sú hugmynd er eiginlega ekki góð. Til að byrja með eru mjög takmörkuð eldhúsáhöld í eldhúsinu, þú ert aldrei að vinna með þín áhöld alla vega, verðlag í matvöruverslununum var mjög hátt, svipað og heima bara og svo vill maður auðvitað rannsaka gríska matargerð og vill bara fá þetta óaðfinnanlegt frá heimamönnum. Við elduðum samt nokkrum sinnum, þá helst tzatziki og grískt salat sem var mjög gott samt. En ég mæli með því að gera sem minnst heima í eldhúsinu nema þú sért grískur kokkur auðvitað. Ef þú ert svo virkilega að spara aurinn þá ferðu í strætisfæði á borð við Gyros. Í næsta þorpi við okkur er frábær grillstaður, Kaneva (https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic) https://maps.app.goo.gl/Uq4b9FtjRiX8ErM26?g_st=ic þar sem maður fær gyros vefjur á 500 kr stykkið og er þetta alveg heil máltíð takk fyrir.
Grísa Gyros vafið í pita
Við hér á Bjór og Matur erum mikið matarfólk og því er fókusinn hjá okkur alltaf dálítið mikið á mat og drykk þegar við ferðumst út fyrir landssteinana. Grikkir lifa fyrir að njóta og njóta til að lifa eitthvað sem okkur finnst einmitt það eina rétta. Matur er stór þáttur í grískri menningu og eiga þeir marga stórkostlega þjóðarrétti. Við reyndum að smakka eins marga og við gátum. Auðvitað nær maður ekki öllu í einni ferð en það er gaman að reyna. Hér á eftir eru nokkrir réttir sem við mælum sérstaklega með að smakka. Það má einnig sjá smá samantekt á instagramminu minu undir highlights. Auðvitað munum við svo reyna að gera þetta heima þegar við komum heim og pósta uppskriftum ef vel tekst til.
Tzatziki ómissandi hluti grískrar máltíðar
Tzatziki. Ég held að það sér eðlilegast að nefna þetta meðlæti efst á lista enda ómissandi hluti af grískri matargerð. Menn nota þetta sem bara sósu á gott brauð, út á salatið eða sem fyllingu í t.d. Gyros eða bragðbætir á souvlaki grillkjötið. Það er alltaf hægt að bæta matinn með tzatziki. Þettar dálítið eins og indverska raita nema hráefnið og auðvitað bragð ekki það sama. Í tzatziki er notað grísk jógúrt, gúrka, hvítlaukur, hvítvínsedik eða sítrónusafi, ólífuolía, salt og krydd á borð við dill eða mynta. Ég mæli með að panta alltaf tzatziki með þegar pantaður er matur á veitingastað.
Mouzakka
Mouzakka er líklega með þekktari grískra rétta og er algjört möst að smakka. Ekki bara einu sinni því útgáfurnar eru mismunandi á milli veitingastaða. Uppistaðan í þessu eins konar lasagne eru kartöflur í skífur sem eru annað hvort steiktar í ofni eða djúpsteiktar og þeim svo raðað í eldfast mót. Eggaldin í sneiðum og svo nautahakk eða blanda af lamba og nautahakki. Þetta er lungnamjúkt, bragðmikið og dásamlegt. Þetta er eitthvað sem við munum reyna við heima á Íslandi.
Grískt salat
Gískt Salat eða Cretan Salat, kallað líka Horiatiki. Ok ég var þarna líka eins og þið, hugsaði salat, maður hefur margoft gert salat með alls konar. Er það eitthvað spes? Hér er það bara einhvern veginn öðruvísi og geggjað gott. Líklega er það dressingin og fetaosturinn er svo magnaður. Kannski er það bara að allt hráefnið er fyrsta flokks. Grískt salat inniheldur djúsí tómata, gúrkubita eða sneiðar, græna papríku, rauðlauk, kalamata ólífur og svo stóra fetaosta kubba efst. Brauðteningar eru oft líka með. Mér finnst virkilega smart að hafa svona stórar blokkir af feta efst en ekki blandað í salatið í litlum bitum.
Saganaki, djúpsteiktur gruyere eða feta
Saganaki. Ef þér líkar ostur þá munt þú elska þennan rétt. Saganaki er djúpsteiktur ostur, oftast gruyere eða feta eða annar ostur sem bráðnar vel. Með þessu fylgir ferskur sítrónubiti sem er kreistur yfir ef maður vill. Einfalt en gott, ég mæli líka með að borða þetta með tzatziki. Þetta er fullkominn biti fyrir máltíðina eða bara sem snarl með ísköldum grískum lager. Sonur minn fékk sér þennan rétta nánast í hvert mál. Við höfum svo sem djúpsteikt ost heima en hér eftir mun ég reyna að negla þetta þegar heim er komið. Vandamálið er líklega gæðin á ostinum heima?
Gemista/Yemista
Gemista/Yemista. Gemista er mjög vinsæll réttur, þetta er í raun fylltur bakaður tómatur eða papríka. Fyllingin getur verið alls konar, klassístk hrísgrjón eða risotto, fíntskorið grænmeti og stundum hakkað nauta eða grísakjöt. Þetta er svo bakað í ofni með eins konar marinara sósu. Í raun er ekkert rétt eða rangt í þessu, aðal málið er að fylla þetta grænmeti og baka.
Dakos
Dakos. Þetta er flott sem forréttur eða bara smá biti með góðum bjór eða víni. Dakos er dálítið eins og þurr brauðbolla skorin til helminga og sem minnir á brauðtening í áferð, ofan á þetta eru svo hakkaðir tómatar, krydd og grískur feta eða mizithra ostur. Mjög létt og þægilegt.
Gyros vefja í pítubrauði
Gyrosogsouvlakipita. Oft er talað um að Grikkir hafi fundið upp pítuna, ég ætla ekki að dæma um það en eitt er víst að Grikkir eru með þeim fyrstu sem tala um pitubrauð. Ýmist er pítubrauð fyllt með grillkjöti og grænmeti eða borið fram á diski ásamt pitubrauði og grænmeti. Klassískt eru franskar kartöflur með í fyllingunni. Munurinn á gyros og souvlaki er dálítið óljóst finnst mér, gyros á samt meira við kjötkeilu líkt og kebab. Sem sagt kjötið er þrætt upp á tein þannig að það myndi stóra keilu og svo látið snúast og grillast þannig, oftast kjúklingur, grís, lamb eða kjúklingur, á meðan souvlaki er þrætt á minni tein og er eldað lárétt. Kjötið er svo borðað beint af teininum eða sett í pítubrauð. Gyros er hins vegar rakað af kjötkeilunni og borið þannig fram í pítubrauði eða á diski með brauðiniu. Í raun skiptir þetta ekki máli, ef þú pantar gyros eða souvlaki í pítubrauði ættir þú að fá hrikalega góða pítu. Þetta er frábær skyndibiti og kostar lítið. Hér nýtur auka tzatziki sósa sín fullkomlega því oft er ekkert voða mikið af sósu í þessu.
VÍN, BJÓR OG ANNAÐ FLJÓTANDI
Við á Bjór og Matur erum löngu komin dálíð út fyrir bara að fjalla um bjór. Freyðivín er nefnilega í miklu uppáhaldi hjá okkur líka en rauðvín og kokteilar eru að koma mikið inn líka. Ég viðurkenni að ég hef ekki tengt Grikki við léttvín og alls ekki freyðivín en Grikkir gera svo sannarlega ljómandi vín og eru reyndar með elstu vínframleiðendum veraldar og eru til heimildir um 6000 ára virðulega sögu þeirra í víngerð. Grísk vín hafa í gegnum söguna verið mikils metin og í hávegum höfð.
Við prófuðum nokkur rauðvín hér, allt vín sem við höfum aldrei séð áður eða heyrt af. Vivino appið hjálpaði mikið við valið en stundum völdum við bara flöskuna eftir útlitinu. Við vorum nánast allaf ánægð með vínin sem við völdum, við viljum helst bragðmikil og þétt rauðvín, ekki of sæt en heldur ekki of súr. Ég ætla ekki að fjalla meira um þau hér en það er alla vega hægt að ganga út frá því að fá góð rauðvín hér. Hvítvín líka geri ég ráð fyrir en við prófuðum lítið af þeim.
Domaine Karanika er eitt af frægari freyðivíns framleiðendum Grikkja, allt ofsalega ljúft sem við smökkuðum, sérstaklega rosé útgáfan.
Freyðivínin eru annar handleggur en þau komu svo sannarlega á óvart. Við Sigrún konan mín erum mikið búblufólk, við elskum gott kampavín eða frískandi spænskt cava. Vandað crémant er líka voða vinsælt hjá okkur þegar við viljum fá franskar búblur á viðráðanlegu verði og á Ítalíu drekkum við bara franciacorta. Kampavín hér kosta svipað og heima, kannski 1000 kr ódýrara og úrvalið er ekki mikið. Við höfum ekki séð mikið cava en það er prosecco sem ræður hér ríkjum eins undarlegt og það er. Ég skil bara ekki afhverju veitingahús, hótel, krár ofl bjóða bara kampavín eða prosecco þegar mun betri freyðivín eru til og ég tala nú ekki um þegar þau eru framleidd í landinu? Ég mun aldrei skilja það. Grikkir búa nefnilega til sitt eigið freyðivín og það er svo sannarlega í topp gæðum. Framleitt með sömu aðferð og kampavínið, metode traditional en má auðvitað ekki kallast champagne nema í því héraði í Frakklandi. Við smökkuðum einar 5 tegundir, allt virkilega gott og vandað nema kannski ein. Það er meira að segja einn framleiðandi á Krít sem gerir virkilega fínt freyðivín.
Freyðivín frá Krít, virkilega gott
Við fundum freyðivínin í matvöruverslunum og vínbúðum hér, ekki á veitingastöðunum. Ef þú ætlar að prófa ekki bíða þar til þú ert kominn á flugvöllinn, þar er ekkert til nema prosecco og kampavín já og smá cava frá Freixnet
Ég hef sagt þetta áður, eða nokkurn veginn svona, á instagram og vefsíðinni okkar líka en verður ekki of oft kveðið og segi ég það hér aftur. “Ef þú ert að ferðast á Ítalíu, láttu kampavín eiga sig nema þér sé sama um budduna, forðastu prosecco nema þér sama um gæðin og fáðu þér frekar fransiacorta. Það sama á við um Spán, þar er það cava sem er málið og svo hér á Grikklandi, láttu procecco vera og finndu flösku af grísku freyðivíni, helst brut, það er virkilega gott”.
Ískaldur lager við höfnina í Chania
Bjórinn á Krít. Verum hreinskilin, Grikkir eru ekki þekktir fyrir bjór og myndi ég ekki vera að eltast sérstaklega við hann hér. Þeir gera ágætis ljósan lager sem er ofsalega þakklátur í hitanum. Ískaldur ljós lager af krana í 28 stiga hita er bara æði. Heima á Íslandi myndi maður sennilega hella honum í vaskinn. Það er samt sem áður smá von fyrir hörðustu bjórnördana því skammt frá Chania eða 25 km vestur af borginni er handverksbrugghús sem kallar sig Cretan Brewery.
Smakkprufur á Cretan Brewery Charma
Brugghúsið sem er staðsett mitt í gróðursælum litlum dal umkringt appelsínu og ólífutrjám og er fyrsta brugghúsið á svæðinu, mögulega það eina ég skal ekki segja. Þeir framleiða nokkra mismunandi bjóra, allt létt og þægilegt, meira að segja vel drekkanlegan IPA og skemmtilegan dunkel, en það sem mér fannst eiginlega merkilegra er að þeir bjóða upp á mat líka og það var sko ekkert slor. Besta cretan salat sem ég smakkaði í þessari ferð takk fyrir og meze plattinn var bara geggjaður. Mæli með þessu ef þú ert með einhvern sem keyrir.
TÚRKISBLÁR SJÓR OG BLEIKAR BAÐSTRENDUR
Náttúran hér er stórbrotin, fjöll og dalir og nánast hvert sem litið er má sjá víðáttumiklar breiður af ólífutrjám enda Grikkir 3. stærsti framleiðandi ólífuolíu í heimi. Á Krít má finna 35 milljónir ólífutrjáa takk fyrir. Í þorpunum má svo sjá appelísnutré, sítrónutré og ferskjutré út um allt. Annað slagið ekur maður framhjá vínekrum líka enda framleiða Grikkir flott og góð vín eins og fyrr segir. Það sem vakti líka athygli mína er hversu græn og blómleg sveitin er meðfram hraðbrautinni, maður ekur ekki í gegnum þurra eyðimörk eins og t.d. á Spáni heldur eru runnar í alls konar blóma meðfram veginum, bleik, gul, rauð blóm og svo litlir pálmar hér og þar og auðvitað ólífutrén. Mjög fallegt.
Ég verð svo að eyða orðum í strendurnar, nú er ég alls ekki mikið fyrir baðstrendur, reyni að forðast þær eftir bestu getu því ég er ekki mikið fyrir að liggja eins og klessa í sólinni og allur sandurinn sem finnur sér leið í öll skúmaskot fer dálítið í mínar fínustu. En, í þessari ferð var ég dolfallinn, ég elska fallega náttúru og maður minn, strendurnar á Krít eru eitthvað annað. Þær eru eins og maður sér í bíómyndum sem gerast á eyjum, lengst út í kyrrahafi eða álíka. Við skoðuðum nokkar af ströndum eyjarinnar, bæði frægar og minna frægar strendur og við vorum að elska þær allar. Sandur er alltaf sandur, pirrandi en hvílíkt sjónarspil. Hvítar sandstrendur sem ná langt út í kristaltærann sjóinn. Hvítur sandbotninn gerir sjóinn grænbláan og svo út í túrkis þegar lengra kemur frá ströndinni, það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Jafnvel mágur minn sem við hittum í þessari ferð og sem hatar svona strendur var himinn lifandi og þá er nú mikið sagt.
Horft niður á Balos ströndina
Balos er ein af þeim ströndum sem þú verður að skoða á Krít. Hún kemur fram efst eða næst efst á lista yfir strendur á Krít enda á hún það sannarlega skilið blessunin. Þetta er einfaldlega fallegasta strönd sem ég hef komið á og hef ég skoðað þær nokkrar í gegnum tíðina. Það sem gerir hana svona magnaða eru nokkur atriði, best að skoða líka myndirnar hér. Það hversu afskekkt hún er gerir hana spennandi, það er enginn bær eða þorp sem liggur við ströndina heldur taka brattar fjallshlíðar við af sandströndinni. Sum staðar eru grjóthnullungar út í vatninu sem greinilega eru tilvaldir staðir fyrir ljósmynd “litla hafmeyjan” style en það voru ófágar konur sem komu sér fyrir uppá þessum grjótum til að pósa fyrir myndavélarnar í alls konar stellingum. Það er ekki til svona mynd af mér samt. Hluti af Balos ströndinni liggur að grunnu lóni, þar nær sjórinn upp að hnjám þannig að maður getur vaðið þvert yfir lónið sem er líka vel heitt og notalegt. Botninn er hvítur og í fjarlægð virðist fólk vera að vaða mjólk upp að hnjám, Hinu meginn mætir ströndin svo opnu Miðjarðarhafinu með þessum dáleiðandi túrkisbláa sjó. Balos er líka ein af bleikuströndum Krítar en í sannleika sagt þarf að hafa smá fyrir því að sjá bleika litinn en á sumum stöðum er samt alveg smá bleikt svæði sem kemur ægilega vel út á mynd.
Bleik slikja í sandinum á Balos strönd
Það eru nokkrar “bleikar” strendur á Krít en það er afar sjaldgæft fyrirbæri, aðeins um 10 slíkar strendur í heiminum ef ég skil það rétt. Bleiki liturinn stafar af skel af ákveðnu krabbadýri sem er bleik að lit. Til að komast á Balos er hægt að velja tvær leiðir. Ég mæli með þeim báðum ef hægt er. Það er hægt að keyra þetta auðveldlega ef maður er ekki hræddur við grófan malarveg og brattar hlíðar niður í sjó. Maður lullar þetta bara upp í rólegheitum, útsýnið er geggjað líka ef maður gefur því gaum. Vegurinn endar á bílastæði þaðan sem maður þarf svo að rölta niður á Balos strönd. Áður en maður byrjar að rölta niður hlíðina þarf maður að passa að gleyma ekki að fara út að fjallsbrúninni þar sem maður sér yfir öll herlegheitin. Útsýnið þaðan er eitthvað sem mun sitja í þér að eilífu. Hér er svo sannarlega hægt að ná góðum myndum. Svo tekur við rölt niður að ströndinni. Vesenið hér er svo heimleiðin því eftir heitan dag á ströndinni þarftu að brölta þetta upp aftur í kannski 28-30 stiga hita.
Hin leiðin er svo að leigja bát sem siglir með þig inn að Balos. Frá Kissamos er þetta um 30 mín sigling en um 1,5 klst frá Chania. Fer kannski eftir hvernig bát þú ert á. Þetta er ofsalega skemmtilegt líka því hér sérðu auðvitað eyjuna frá sjó, brunar meðfram bröttum hömrum og endar svo í þessum dásamlega sælureit. Menn stoppa líka alltaf við litla eyju sem er rétt út af Balos strönd. Þar getur maður baðað sig í kristaltærum sjónum eða rölt upp í gamalt virki sem er þarna efst á litlu fjalli. Útsýni þaðan er mjög fallegt. Þú getur líka gert bæði auðvitað. Ég mæli samt með ef maður er ekki í fanta formi að spara röltið og nota það frekar þegar komið er á Balos. Koma sér fyrir og rölta svo upp hlíðina kannski rúmlega hálfa leið og fá þá þetta geggjaða útsýni sem ég talaði um að ofan.
Bleikur sandur og túrkisblátt hafið á Falasarna
Elfonissi er svo enn ein bleika ströndinn og líklega er talað meira um hana en Balos. Alla vega er þetta sú strönd sem þú verður að koma á ef þú googlar Krit. Við ákváðum að sleppa henni, bæði vegna þess að hún er í um klukkutíma og 20 mínútu akstur frá Spilia en líka af því að þar er gríðarlegur ferðamannastraumur og við bara nenntum ekki að standa í því. Við fórum hins vegar á Falasarna sem var bara í um 30-40 mínútna akstur frá okkur. Líka bleik strönd eins og Balos en mun “rólegri”. Ekki eins mögnuð og Balos en engu að síður með þeim fallegri og meira af þessu bleika. Túrkisblár sjórinn og svo löng ströndin, með hvítum sandi en líka sumstaðar klettum sem ná í sjó fram og mynda litlar víkur og mínístendur sem vert er að elta uppi ef maður vill litla paradís alveg fyrir sig. Það eru bleikir blettir víða og mér fannst bleiki sandurinn meira áberandi en á Balos. Það er svo hægt að leigja sér bekki eða jafnvel eins konar sólskýli með púðum og kósíheit. Mat og drykki er svo hægt að panta frá veitingahúsum sem liggja á stangli meðfram ströndinni. Okkar upplifun hér var frábær og mælum við eindregið með að eyða góðum degi hér líka. Aðkoma einföld á bíl, nóg af bílastæðum, veit ekkert hvernig þú kemst hingað án bíls samt.
Samantekt
En já ég hef þetta ekki lengra að sinni, nógu langt er það nú þegar. Sem samantekt fyrir þá sem nenna ekki að lesa þá er Krít bara dásamleg, sérstaklega í júní en þá er ferðamannastraumurinn ekki farinn af stað. Flogið beint um þessar myndir með Icelandair til Chania.
Matarkúlturinn er frábær, vínin geggjuð, frábærar búbblur líka og já þú finnur amk eitt craft brugghús skammt frá Chania. Náttúran er dásamleg, veður fullkomið og baðstrendurnar þær fallegustu í heiminum að okkar mati. Þarftu meira?
Ok byrjum á pestóinu, pestó sem þú færð í krukku út í búð getur verið ágætt en heimagert er svo langt um betra. Þetta hér er t.d. geggjað. Hér er það með djúpsteiktu ravioli og klettasalati, og auðvitað ólífuolíu yfir og ekki skemmir fersk basillica.
Það sem þarf fyrir ca 4-5
Pyrir pestóið
200 g sólþurrkaðir tómatar (í krukku)
200 – 300 g grillaðar papríkur í krukku
20 g fersk basillica
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
60 g furuhnetur, ristaðar
50 g Parmesan rifinn
50 ml ólífuolía
salt og
Fyrir rest
500 g ravioli pasta
Djúpsteikingarolía
Klettasalat
Fersk basillica til skrauts
Parmisan, rifinn
Maísmjöl
3 egg
Aðferðin
Byrjum á pestó. Skerið sólþurrkaða tómata (200g) og grilluðu papríkurnar (200 – 300g) niður í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Bætið svo út í, um 20 g basillicu, 1-2 pressuðum hvítlauksgeirum, 60 g ristuðum furuhnetum og maukið þetta saman. Mér finnst ágætt að hafa dálítið grófa áferð á þessu en þið gerið það sem þið viljið
Blandið svo ólífuolíu (50ml) og 50 g rifnum parmesan osti saman við og hrærið saman með sleikju. Ef þetta er of gróft þá blandið þið aðeins áfram í matvinnsluvélinni. Salt og pipar eftir smekk.
Svo er það pasta. Hrærip 3 eggjum saman í skál, í aðra skál setjið þið slatta af maísmjöli. Veltið svo pasta uppúr eggjum og svo maísmjöli. Djúpsteikið í nokkrar mínútur þar til orðið stökkt og eldað inní. Þetta eru bara 2-3 mínútur, smakkið bara til.
Tomahawk steik er í raun bara ribeye með stæla. Ef þér líkar við ribeye eða rifauga eins og þetta heimfærist yfir á íslenskuna þá áttu eftir að elska tomahawk. Steikin er bragðmeiri líklega frá beininu en svo eldar maður tomahawk líka öðruvísi, meiri bruni á grillinu t.d.
Ég hef reynt að gera hina fullkomnu tomahawk síðustu árin. Hún kostar sitt þannig að maður kannski getur ekki æft sig hverja helgi. Stundum hefur hún heppnast vel en stundum ekki. Undanfarið hefur þetta samt verið að ganga vel og mér fannst kominn tími til að skrá þetta niður hér.
Aðferðin
Mér finnst skemmtilegast að gera beina eldun á grilli, ekki reverse sear eins og mikið er talað um. Fyrst er að krydda steikina vel á öllum hliðum. Bara eitthvað gott krydd, pipar, salt ofl. Ég var með truflusalt og pipar núna síðast. Reyndar líka rosmarín krydd. Pressið kryddið vel inn í kjötið á allar hliðar þess, líka þykku fituröndina.
Hitið grillið, reynið að halda hitanum í kringum 200 gráður. Setjið svo steikina á grillið og eldið í um 12 mínútúr. Snúið steikinni á mínútu fresti meðan eldað er, þá meina ég líka upp á rönd. Fitan í kjötinu mun kveikja bál, það er allt í lagi. Það má samt færa kjötið úr eldinum aðeins þegar snúið er. Við þessa aðferð bráðnar fitulagið vel inn í kjötið. Það er allt i lagi þó það komi eins og brunaskorpa á kjötið.
Óbein eldun, næst er að slökka á öllum brennurunum nema einum. Færðu steikina í hornið á grillinu fjærst brennaranum og lækkaðu hitann aðeins. Svo er bara að láta malla undir lokuðu grillinu. Ágætt ef hitinn fer ekki yfir 150 gráður. Snúið svo kjötinu annað slagið þannig að ekki sama hlið snúi alltaf að brennaranum sem er í gangi. Þegar kjarnhiti hefur náð um 51 gráðu takið þið kjötið af og látið hvíla undir álpappír í ca 10 mínútur. Kjarnhiti ætti að hækka um nokkrar gráður og enda í 54 -55 gráðum. Fullkomið medium rare. Ég hef reyndar lent í því ítrekað með marga mismunandi hitamæla að þeir mæla bara eitthvað bull. Treysti meira á að pota í kjötið til að meta.
Við setjum oftast smjörklípu ofan á steikina og rósmaríngrein á meðan hún hvílir undir álpappírnum. Svo er bara að skera stykkið niður í fallegar steikur en halda beininu með, það lítur bara svo vel út. Maður er svo sannarlega að borga fyrir beinið og því um að gera að láta það njóta sín. Hins vega má benda á að til er steik sem menn kalla kúrekasteik eða cowboy steik sem er í raun Tomahawk nema með afskornu rifbeini. Sama kjötið nema ódýrari.
Vandamálið við geitaost er það er of mikil geit i honum. Eða þannig hugsaði ég hér áður, nú er ég þannig að mér finnst geitaostur góður ef hann er mildur ekki eins og maður hafi gleypt blautan kiðling. Fólk er mismunandi hvað þetta varðar sumir hata geitaost. Það skrítna við það að þó ég vilji hafa geitabragðið milt þá elska ég geitaost. Það er bara eitthvað við þetta sérstaka funky bragð og með hunangi er bara eitthvað sem gerist.
Eins og með aðra osta þá má matreiða geitaosta á ýmsa vegu, ein leið er að baka hann í ofni. Hann verður algerlega magnaður þannig. Svo er bara að sletta hunangi yfir t.d. og krydd. Þetta getur verið ljómandi forréttur með ísköldu kampavíni eða funky wild ale t.d. eða verið hluti af stærri máltíð eða jafnvel svona “nattemad” ,eins og Danir kalla það, eftir gott kvöld. Það er nefnilega sáraeinfalt að útbúa þetta.
Skerið niður geitaostarúllu, hér er það val hvers og eins hve bragðmikill osturinn er. Setjið olíu á litla pottajárnspönnu og steikið ostinn þannig að það komi smá litur undir. Hér má nota hvernig pönnu sem er það er bara svo smart að bera þetta fram svona í lítilli pönnu. Setjið hunang yfir og kryddið með chilli flögum. Það má alveg vera slatti. Ég setti líka ögn salt. Svo er þetta bakað í pönnunni í ofni við 200 gráður þar til osturinn er orðinn gullinn og fallegur. Mér finnst líka gott að hafa ristaðar furuhnetur ofan á þessu, það gefur notalegt bit.
Svo er bara að bera þetta fram. Það má alveg bæta smá hunangi á þetta ef maður vill. Svo er það graslaukur eða vorlaukur, klippa niður og sáldra yfir. Það má svo bera þetta fram með góðu kexi eða ristuðu súrdeigsbrauði. Ég átti t.d. til afgang af súrdeigssnittubrauði, skar það í þunnar sneiðar og steikti svo á báðum hliðum uppúr olíu og smjöri á pönnu. Þetta kom ofsalega vel út. Varðandi pörun þá gengur gott freyðivín hér ef ekki er of mikið chilli, annars líka bjór, t.d. belgískur sveitabjór (saison), funky wild ale, belgískur Trappist, allt mjög góðar paranir.
Ég var með spúsunni í matar og bjórferð í Kaupmannahöfn um daginn. Gríðarlega skemmtileg ferð. Á leiðinni heim var ég ekki kominn með nóg af mat og drykk en sem betur fer er ekki of seint að njóta þó þú sért kominn í gegnum öryggisleit á Kastrup flugvelli. Þar er nefnilega Mikkeller með bar og beint við hliðina á er Ramen to Bíiru sem er í eigu Mikkel Bjergsø og Daisuke Uki og er ekta japanskur núðlustaður sem sameinar japanskan skyndimat og hágæða danskan handverksbjór. Ég náði mér þarna í ljúfan öl á Mikkeller og spicy núðlur með grísasíðu og eggi. Ég var mjög sáttur því í mörg ár hef ég verið að stefna á að prófa Ramen to Bíiru en aldrei náð því. Í stuttu máli var þetta bara alveg geggjað og bjórinn parast einkar vel við.
Það góða við Evrópuflug er að þú getur flogið heim á kristilegum tíma, við vorum t.d. lent kl 16:30 og komin í Krónuna klukkutíma síðar og ég farinn að elda Ramen 40 mín eftir það. Já ég eldaði með ómissandi stuðningi Sigrúnunnar minnar spicy ramen núðlur með ungnautafilet og hálflinsoðnum eggjum. SVAKALEGA GOTT!
Galdurinn er að gera gott soð, ég man ekki alveg hlutföllin því þetta er bara svona að prófa sig áfram dæmi, smakka til en ég reyni hér að henda niður svona circa það sem ég gerði. Svo er bara að smakka sig áfram.
Það sem þarf fyrir 5
500 g Ungnautafilet eða annað gott nautakjöt
7 egg
2-3 L nautasoð (vatn blandað með 3-4 mtsk nautakrafti)
2-3 mtsk ferskur, rifinn engifer
4 hvítlauksrif, rifinn
2 dl soyasósa
1 mtsk sriracha sósa
2 tsk fennel fræ
4 mtsk Tom Yum Paste (áttum ekki til miso paste)
4 stjörnuanis
2 tsk salt
1 mtsk sesamolía plús sletta til að steikja kjötið uppúr
1 tsk sterkar chiliflögur
1 lime skorið í báta
Portobello sveppur skorinn í bita (af því að ég átti til einn)
Fyrir marineringu
1 tsk Rósapipar, mulinn
2 tsk reykt papríka
Salt
rifinn ferskur engifer
3 tsk hvítlausksalt
2 tsk kóríander krydd
2 mtsk soyasósa
2 mtsk ólífuolía
1 mtsk el Toro krydd
Aðferðin
Ok ég byrjaði á að skera kjötið í ca 6-7 mm þykkar sneiðar og krydda. Fann til það sem ég átti, kóríander krydd, toro krydd, reykt papríka, hvítlaukssalt og steytti svo rósapipar og smá salt yfir. Nuddaði þessu inn í kjötið. Bætti kóríander kryddi við og svo reif ég helling af engifer, líklega verið um 2 tsk og dreifði yfir kjötið. Bleytti vel í með soyasósu og ólífuolíu og lét svo bara standa svona.
Sauð næst eggin, það hefur tekið mig dálítinn tíma að finna út úr hvernig ég næ íslenskum eggjum hálflinsoðnum en það tókst. Eggin sett varlega í sjóðandi vatn, ekki bullsjóðandi vatn því þá springa þau. 7 mín og 10 sekúndúr. Hellið heita vatninu af og látið kalt vatn renna í amk 2 mín í pottinn. Þetta stoppar eldunina. Takið skurninn af og geymið. Við erum að miða við að fá eggjarauðu sem er soðin í köntum en næstum því lin alveg innst.
Setjið olíu í stóran pott, smá smjörklípu. Steikið hvítlaukinn (4 geirar) ásamt rifinn engifer (hellingur, 2-3 mtsk) og fennelfræ (2 tsk) í smá stund, bætið svo við öllu hinu, nema eggjum og kjöti auðvitað og náið upp suðunni. Ég átti til portobello svepp sem var orðinn svekktur í ískápnum, skar hann í bita og henti í pottinn. Svo er þetta bara soðið í dágóða stund, amk klukkutíma. Smakkið svo til, bætið útí eftir þörfum soya, sriracha eða það sem þykir passa. Lækkið svo hita og látið malla. Bætið nautasoði saman við ef þetta virðist of lítill vökvi.
Sjóðið svo núðlurnar skv leiðbeiningum. Steikið svo kjötið í 30 sek á báðum hliðum uppúr sesamolíu og leggið til hliðar. Smakkið til. Ef of lítið eldað þá bætið þið bara nokkrum sekúndum við. ATH kjötið eldast áfram í soðinu á eftir.
Búið til listaverkið
Þetta er það skemmtilega við eldamennsku, að raða saman og bera fram. Sigtið núðlurnar og skammtið í fallegar skálar, hellið soðinu yfir þannig að þetta verði vel blautt, ekki samt alveg súpa. Leggið nautakjöt yfir í enda skálanna, skerið eggin til helminga og setjið tvo helminga í hverja skál, ef of linsoðin þá látið þið eggin meira ofan í soðið. Dreifið svo kóríander yfir og kreistið einn límónubát yfir allt og leggið annan ofan á núðlurnar. Njótið með t.d. IPA eða NEIPA bjór.
You must be logged in to post a comment.