Bakaður geitaostur hvenær sem er

Vandamálið við geitaost er það er of mikil geit i honum. Eða þannig hugsaði ég hér áður, nú er ég þannig að mér finnst geitaostur góður ef hann er mildur ekki eins og maður hafi gleypt blautan kiðling. Fólk er mismunandi hvað þetta varðar sumir hata geitaost. Það skrítna við það að þó ég vilji hafa geitabragðið milt þá elska ég geitaost. Það er bara eitthvað við þetta sérstaka funky bragð og með hunangi er bara eitthvað sem gerist.

Eins og með aðra osta þá má matreiða geitaosta á ýmsa vegu, ein leið er að baka hann í ofni. Hann verður algerlega magnaður þannig. Svo er bara að sletta hunangi yfir t.d. og krydd. Þetta getur verið ljómandi forréttur með ísköldu kampavíni eða funky wild ale t.d. eða verið hluti af stærri máltíð eða jafnvel svona “nattemad” ,eins og Danir kalla það, eftir gott kvöld. Það er nefnilega sáraeinfalt að útbúa þetta.

Skerið niður geitaostarúllu, hér er það val hvers og eins hve bragðmikill osturinn er. Setjið olíu á litla pottajárnspönnu og steikið ostinn þannig að það komi smá litur undir. Hér má nota hvernig pönnu sem er það er bara svo smart að bera þetta fram svona í lítilli pönnu. Setjið hunang yfir og kryddið með chilli flögum. Það má alveg vera slatti. Ég setti líka ögn salt. Svo er þetta bakað í pönnunni í ofni við 200 gráður þar til osturinn er orðinn gullinn og fallegur. Mér finnst líka gott að hafa ristaðar furuhnetur ofan á þessu, það gefur notalegt bit.

Svo er bara að bera þetta fram. Það má alveg bæta smá hunangi á þetta ef maður vill. Svo er það graslaukur eða vorlaukur, klippa niður og sáldra yfir. Það má svo bera þetta fram með góðu kexi eða ristuðu súrdeigsbrauði. Ég átti t.d. til afgang af súrdeigssnittubrauði, skar það í þunnar sneiðar og steikti svo á báðum hliðum uppúr olíu og smjöri á pönnu. Þetta kom ofsalega vel út. Varðandi pörun þá gengur gott freyðivín hér ef ekki er of mikið chilli, annars líka bjór, t.d. belgískur sveitabjór (saison), funky wild ale, belgískur Trappist, allt mjög góðar paranir.