Hin árlega bjórhátíð á KEX Hostel 2019 21.2-23.2

Hin árlega íslenska bjórhátíð er í lok febrúar á Ægisgarði en þessi hátíð hefur verið ljósið í svartnættinu í upphafi árs fyrir okkur bjóráhugafólk síðustu árin. Hátíðin náði nýjum hæðum á síðasta ári en þá fengu bjórunnendur að njóta bjórs frá flottustu bjórframleiðendum veraldar og aldrei hafa jafn mörg íslensk brugghús tekið þátt. Önnur eins samkoma hefur ekki sést hér á landi áður. Það sem er svo magnað við þessa hátíð á KEX hostel (sem núna verður haldin á Ægisgarði) er stærðin þrátt fyrir smæðina en með því á ég við að þrátt fyrir að húsakynnin eru lítil þá er hátíðin með því stærsta sem gerist í heiminum þegar við tölum um gæði og fjölda brugghúsa sem mæta. Þetta þýðir að miðafjöldi er takmarkaður og gestir fá í raun einstakt tækifæri til að vera í nánum samskiptum við bjórframleiðendur, raðir eru stuttar og stemningin einstök. Í fyrra ræddi ég við nokkra bruggara sem sögðust sjaldan hafa skemmt sér svona vel á bjórhátíðum víða um heim. Þeim fannst þessi námd við aðdáendur sína svo einstök. Ég tek undir þetta.

Alla vega þessi gleði er að bresta á og listi brugghúsa þetta árið er stórglæsilegur og við getum verið örugg um að bjórinn verður stórkostlegur. Við sjáum mörg nöfn frá því í fyrra en líka mörg ný nöfn sem er alltaf spennandi. Jafnvel þótt topp listarnir á Ratebeer.com séu ekki alveg komnir út fyrir 2018 þá eru stærstu brugghúsin þetta árið sennilega Mikkeller, Other Half, Cloudwater og De Garde Brewing en þessi brugghús voru öll á top 10 lista yfir bestu brugghús veraldar 2017 (de Garde reyndar 2016) og flestum vel kunn en Bjór & Matur fjallaði aðeins um þau á síðasta ári sjá hér.

20180223_191834-01-1.jpeg
Allir koma þeir aftur

Ef við skoðum aðeins þá sem eru að koma aftur 2019 þá átti Other Half stórleik á síðasta ári og er ekki búist við minna núna. Hið danska To Øl þekkja flestir íslendingar nú orðið en þeir hafa mætt öll árin held ég svei mér þá og er auðvitað von á þeim aftur í ár. Þeir eru alltaf dálítið klassískir og stöðugir í því sem þeir eru að gera. Lamplighter kemur aftur en þeir voru magnaðir í fyrra og eru í sérstöku uppháhaldi hjá undirrituðum. Ég held að þeir ætli að brugga aftur með Borg Brugghús þetta árið ef marka má þær flugur sem ég hef aðgang að og hver veit nema minni spámenn nái bruggi með þetta árið….kemur í ljós!

Black Project koma líka aftur en þeir áttu súra sviðið í fyrra að okkar mati, ef þið hafa unun af súrbjór hvers konar þá getið þið verið handviss um að þið fáið það sem þið leitið eftir hjá Black Project. Það verður líka spennandi að sjá samverksbjórinn sem KEX Brewing bruggaði með þeim í fyrra hvenær sem hann kemur út. Fonta Flora voru líka í fyrra en þeir komu mér einna mest á óvart á síðasta ári. Ég þekkti þá lítið fyrir komu þeirra en þeir komu mér í opna skjöldu með algjörlega mind blowing wild ale, Funk Fuzz Wild Ale with Peaches 6.5%. Ég náði svo ekki almennilega að taka út De Garde síðast enda bara svo óskaplega margt í boði en „orðið á götunni“ var að þeir væru með stórgóðan súrbjór/wild ale alla dagana. Það er planið mitt þetta árið að kafa dálítið í öll þessi súru brugghús. Reyndar líka Brekeriet sem ekki voru í fyrra en ég mun fjalla ögn um þá hér að neðan.

Það voru vissulega fleiri frábær brugghús í fyrra sem voru að standa sig vel og koma aftur, þetta verður aldrei nein tæmandi yfirferð hér, svo var bara margt sem við bara náðum ekki að skoða síðast. Ég nefni í því samhengi J Wakefield, Aslin, Brewski og Garage Beer co, allt mjög frambærileg brugghús. Reyndar uppgötvaði ég ekki Garage almennilega fyrr en á ferðalagi í Barcelona á síðasta ári en þeir eru líklega alveg á toppnum meðal brugghúsa á Spáni. Ég get lofað ykkur því að ég mun heimsækja þeirra bás mikið á komandi hátíð.

Svo eru það auðvitað íslensku brugghúsin en þau koma flest með eitthvað gott í gogginn handa okkur aftur þetta árið. Staðfest eru Borg Brugghús, Malbygg, RVK Brewing, Lady, Ægir Brugghús og fleiri!

Nýjir gestir þetta árið

hop-hands-gear-patrol-lead-full

mynd fengin hér – https://gearpatrol.com/2016/09/15/review-hop-hands-tired-hands-beer/

Ef við skoðum aðeins það sem Bjór & Matur er spenntastur fyrir af því sem er að koma nýtt inn þetta árið. Þá vil ég nefna Tired Hands sem hefur lengi verið á lista hjá mér en ég hef aldrei komist í að smakka bjórinn þeirra enda er það bara mjög erfitt því eftirspurnin er mikil. Þeir eru hins vegar dálítið umdeildir um þessar mundir, eitthvað sem ég hef ekki nennt að setja mig inní enda held ég að það breyti ekki bjórnum þeirra mikið. Ég hlakka mikið til að tékka á þessum skötuhjúum en þau eru þekkt fyrir nammibjóra eða bakkelsisbjóra í anda hinna sænsku Omnipollo sem reyndar koma ekki í ár. Ég er pínu sökker fyrir Omnipollo en það er önnur saga. Sagt er að Tired Hands hafi verið upphafsmenn hinna svo kallaðra milkshake IPA alla vega í Bandaríkjunum en um er að ræða safaríkar djúsbombur brugguðum með höfrum, hveiti og mjólkursykri. Þessir bjórar eru algjört salgæti!

Talandi um safabombur. Stigbergets Bryggeri er frá Gautaborg en það hefur verið að vaxa ört síðustu ár og gerir frábæran bjór. Ég hef t.d. sjaldan smakkað eins góðar NEIPA safabombur og frá þessu brugghúsi svei mér þá, þeir standa alveg í hárinu á Other Half hvað þetta varðar. Þetta verður eitt af mínum stoppum alla þrjá dagana á hátíðinni. Brekeriet er líka sænskt brugghús sem sérhæfir sig í súrbjór. Ég hef ekki smakkað mikið frá þeim en það sem ég hef þó smakkað í gegnum tíðina hefur allt verið fullkomið. Það er skemmtilegt að segja frá því, líklega má ég það ekki en Borg Brugghús og Brekeriet brugguðu saman bjór fyrir löngu síðan, í raun blönduðu þeir saman Úlfi frá Borg og rauðum wilde ale frá Brekeriet sem bar nafnið Rauðhetta þannig að úr varð súr eða wild IPA sem auðvitað fékk nafnið Rauðhetta og Úlfurinn en hann mun koma á flöskur bara líklega á næstu vikum/mánuðum eða svo! Spennandi. Reyndar er það ekki óalgengt að brugghús noti tækifærið og bruggi saman bjór á svona hátíð, Borg bruggaði t.d. síðast með Lamplighter og KEX brewing, Malbygg gerði bjór með KEX brewing og Cycle Brewing (5. Besta brugghús veraldar) og svo er líklega eitthvað meira sem var í gangi bak við tjöldin. Þess má geta að bæði KEX brewing og Malbygg mæta til leiks í ár og við fáum von bráðar kannski að smakka þessa samstarfsbjóra. Borg hefur svo planlagt sambrugg með vægast sagt spennandi brugghúsi KCBC sem ég kem að hér að neðan.

Kings County Brewers Collective og fleiri frá NYC

tmg-article_main_wide_2x

En ég get ekki haft þetta mikið lengra að sinni, ég verð þó að nefna KCBC eða Kings County Brewers Collective í Brooklyn NY áður en ég hætti en ég er mjög spenntur fyrir þessu nýja brugghúsi sem var valið besta nýja brugghúsið í New York á síðasta ári af bjórgúrúum hjá Brookfield Place og Thrillist aðeins 18 mánuðum eftir að þeir hófu framleiðslu. Við erum að tala um harða samkeppni því bjórsenan í New York og nágrenni hefur verið að vaxa gríðarlega ört síðustu árin og við erum að sjá þar frábær brugghús poppa upp og má þá benda t.d. stórkostlegar bjórgerðir á borð við títt nefnt Other Half og Grimm sem sumir þekkja í Brooklyn, Evil Twin var einnig að opna sitt eigið brugghús í Brooklyn bara núna á dögunum. Auk Other Half og KCBC eru tvö önnur New York brugghús á bjórhátíð þetta árið, Finback og Interboro. Það er óhætt að mæla með að fólk skoði þessi NYC brugghús á komandi bjórhátíð, hver veit nema þarna leynist næsta Other Half? En eins og fyrr segir mun Borg brugga með KCBC bæði hér heima og svo aftur í New York á vormánuðum, það verður spennandi að fylgjast með því.

En það er erfitt að segja til um eða ákveða hvaða brugghús er best og hvaða bjór er bestur, á svona hátíð það fer dálítið eftir því hvað menn eru að sækjast eftir hverju sinni. Menn verða því að passa sig þegar dómar eru upp kveðnir. Þetta segir ég bara núna því á síðasta ári viðurkenni ég að ég var mikið á höttunum eftir t.d. skýjuðum New England IPA og litaðist mat mig á brugghúsunum dálítið af því hverjir voru með bestu safabomburnar. Ég reyndi þó að vera meðvitaður um það í skrifum mínum um Bjórhátíð. Ég held að almennt verði menn að fara í svona bjórhátíð með opnum hug og endilega prófa alls konar og um fram allt passa að fara ekki of geist. Það er mun betra að geta mætt alla dagana með nokkuð heilan haus í stað þess að fara „all in“ fyrsta daginn og vera svo ónýtur hina dagana, það er nefnilega svo að brugghúsin eru með nýja bjóra nánast alla dagana. Það er allt í lagi að drekka vel af vatni og taka sér hlé til að borða.

img_20180224_004748_688
Muna svo að kaupa miða, þið ykkar sem ekki komast þá getið þið bara lesið umfjöllun okkar hér frá degi hverjum á meðan á hátíðinni stendur, það er samt ekki alveg eins gaman. Sjáumst!