Stundum er það allra einfaldasta bara svo gott. Nú er komið sumar og því við hæfi að borða eitthvað létt og ferskt og ekki skemmir ef maður getur notað grillið aðeins líka! Þetta ljúffenga salat er komið frá Nigella Lawson en hún er mikið fyrir allt sem er djúsí og gómsætt en jafnframt einfalt í framleiðslu. Ég hef lengi verið að spá í að prófa þetta salat með einum af mínum uppáhalds bjórum, FOUNDERS MANGO MAGNIFICO en núna þegar Borg er að koma með nýjan bjór á markað, SÆMUND MANGO PALE ALE þá bara hafði ég enga afsökun lengur fyrir að drífa ekki í að prófa þetta.
Það sem þarf (fyrir 3-4):
1 til 2 þroskaðir mango skornir í kubba
2 fínt saxaðir vorlaukar
2 ferskir chili ávextir fínt skornir og fræhreinsaðir
2-3 súraldin (lime), safinn úr þeim.
3-4 kjúklingabringur, grillaðar og skornar í bita
kál eftir smekk, t.d. einhver blanda bara
2 lúkur af ferskum kóríander, skorinn gróft
sletta af ristaðri sesam olíu, ca 2 – 3 tsk
Bjórinn
Mango Magnifico (10%) frá Founders og/eða Sæmundur Mango Pale ale (4.7%) frá Borg. ATH það þarf að sérpanta Mango Magnifico via ÁTVR.
Aðferð:
Flysjið mango og skerið í litla kubba, saxið vorlaukinn fínt sem. Hreisnsið fræin úr chili ávöxtunum og skerið fínt. Setjið allt þetta í skál og blandið varlega með höndunum. Munuið að chili er ekki gott í augu. Um að gera að skafa safann af mangoinu með í skálina. Kreistið safa úr súraldin eftir smekk yfir. Ég vil hafa dálítið mikið til að vinna á móti chili brunanum.
Grillið kjúklinginn, fínt að salta aðeins og skerið svo í bita og látið kólna. Bætið svo kjúklingabitum og káli í skálina og blandið varlega. Setjið svo sesam olíu yfir og ólífu olíu eftir smekk. Loks dreifið þið þessu á disk og sáldrið ögn af ferskum kóríander yfir.
BJÓRINN
Mango Magnifico (10%) er svakalegur bjór, einn sá skemmtilegasti þarna úti frá Founders í Michigan og tilheyrir svo kallaðri Backstage series sem eru bjórar sem Founders gerir aðeins einu sinni. Þetta er eins konar leiksvið bruggaranna, þeir sjóða saman eitthvað magnað og gott og svo kemur það bara ekki aftur þrátt fyrir miklar vinsældir (blessuð sé minning Bolt Cutters). Oft alveg geggjað stöff. Einstaka sinnum hafa þeir reyndar látið undan þrýstingi og gert sama bjórinn tvisvar. Mango Magnifico er frábær hugmynd, við erum að tala um bjór sem er hlaðinn mango og svo nota menn habanero chili til að skapa alveg djöfullegt en frábært mótspil við djúsí mangóið. Maður finnur engan veginn fyrir þessum 10% áfengis fyrr en þegar líður á kvöldið og maður er farinn á trúnó við nágrannana upp úr þurru. Mangoið er áberandi og svo einhver ofsafenginn ávaxtasæta. Bjórinn er samt sem áður þungur og magnaður og svo kemur léttur chili bruninn í gegn í restina. Svakalegur bjór sem ruglar saman sumri og vetri einhvern veginn á ljúfan máta? Bjórinn þarf að sérpanta via ÁTVR sem er í raun ekkert mál.
PÖRUNIN
Þessi pörun er nokkuð augljós ekki satt, mango og cili með mango og chili? Borðleggjandi!!! Stundum er nefnilega virkilega farsælt og bara allt í lagi að para saman eins bragði við eins bragð, þ.e.a.s bragð sem passar saman og magnar hvort annað upp. Rétturinn er ferskur í grunninn og mildur en ferskur chili ávöxturinn rífur hann dálítið upp og gerir hann öflugan og staðfastan. Kjúklingurinn er látlaus með þessu öllu saman en virkar sem nauðsynleg fylling og tengir saman lime, mango, kóríander og chiliið auðvitað. Maður gæti ætlað að Mango Magnifico væri of öflugur, við erum jú með 10% monster en nei, mangoið tengir skemmtilega við mangoið í salatinu og magnar hvort tveggja upp og sætan í bjórnum dempar dálítið brunann í salatinu. Rétturinn fær að njóta sín í munni en svo tekur bjórinn við og pakkar öllu inn í þétta mango umgjörð. Habanero bruninn frá bjórnum kemur svo alveg í restina og rífur ögn í. Það er ofsalega gaman að upplifa hér hvernig þessi magnaði bjór breytist til hins betra með þessu frábæra salati. Vandamálið hér er hins vegar að Mango Magnifico tileyrir Backstage series og verður ekki bruggaður aftur. Það er þó einhver slatti til ennþá held ég.
Önnur alveg geggjuð pörun er hinn glænýji Sæmundur frá Borg. Þessi bjór sem er mango pale ale er reyndar ekki kominn í búðir þegar þetta er ritað en hann er bara að detta í hús. Hér erum við með pale ale sem bruggaður er með mango puré sem gefur óneitanlega áberandi mango keim í gegnum hæfilega beiskju/humal bakgrunninn. Hér erum við með allt annan bjór, 4.7% vs 10% og enginn habanero bruni í restina. Við Sigrún ákváðum að prófa þennan karl með mango salatinu og viti menn, bjórinn er að brillera hérna. Eins og ég segi, ef manni finnst bjórinn góður einn og sér, þá er hann stórbrotinn í þessari pörun. Hér gerist eitthvað allt annað en hér að ofan, í stað þess að taka yfir og dempa réttinn þá kemur Sæmundur inn og rífur upp réttinn, humlar og beiskja í bjórnum rífa upp brunann í chiliinu og einnig mangokeiminn. Mangoið í bjórnum styður einnig vel við ferska mangoið í salatinu. Svo er aldrei of oft sögð tuggan um hve humlar og kóríander virðast eiga vel saman, dásamlegt. Hér erum við með tvo valmöguleika, annars vegar þróttmikill bjór sem tekur yfir á þægilegan og elegant máta og hins vegar léttur bjór sem tekur salatið upp á annað level og magnar allt upp á sama tíma og hann léttir á palettunni. Við Sigrún gátum ekki sameinast um hvor bjórinn væri betra match og því mælum við með báðum.