Bjór og danskt Smurbrauð

img_5602

Smurbrauð er afskaplega skemmtilegur matur og getur verið virkilega elegant ef vel er að öllu staðið. Það eru nær engin takmörk fyrir því hvað maður getur raðað saman ofan á maltbrauðið.  Smurbrauð er einn af þessum réttum sem erfitt er að para með víni, eiginlega finnst mér það út í hött þegar ég hugsa út í það en það er svo sem önnur saga. Bjór er bara málið.

Mér finnst smurbrauð dálítið jóla jóla, kannski af því að vinahópurinn okkar frá Danmörku hittist ár hvert í Desember og gerir alls konar smurbrauð að hætti Dana saman.  Við Sigrún ákváðum þó að þessu sinni að bjóða góðum vinum okkar Lovísu og Darra í smurbrauð og bjórpörun núna fyrstu aðventuhelgina og auðvitað varð jólabjór fyrir valinu, en úrval jólabjórs sem stendur okkur Íslendingum til boða í vínbúðum landsins er orðið ansi myndarlegt.  Það er því ekki erfitt að finna rétta jólabjórinn með smurbrauðinu.

SMURBRAUÐ MEÐ RÆKJUKOKTEL.

img_5594Við vorum með þrjú mismunandi smurbrauð, fyrst bárum við á borð smurbrauð með rækjukokteil að hætti nafna míns, kollega og vini Ragnars Freys Ingvarssonar en við Sigrún vorum svo lánssöm nú á dögunum að þyggja matarboð hjá Ragnari og Snædísi.  Við kolféllum bæði fyrir þessum frábæra rækjukokteil sem við fengum í forrétt.  Okkur datt því í hug að nota hann á smurbrauð en það er alls konar skemmtilegt í honum, mango, engifer, chilli, rauðlaukur, paprika ofl og því mikið að gerast.  Sósan með er einnig svakaleg (sjá færslu Ragnars Freys).  Framreiðslan er nokkuð blátt áfram, gróft brauð, t.d. Fitty, brakandi sallatblað, svo rækjukokteillinn og loks skreytt með eggjabát, sítrónu, steinselju og rauðri papriku.
Fyrir þennan rétt var ég með frábæran bjór sem er nýr hér heima í jólabjórflóðinu, Santa Gose F&#%-It All frá dönsku snillingunum  To Øl. Danskt smurbrauð með dönskum bjór, ekkert meira viðeigandi!  Ég valdi Santa Gose af því að mig langaði í þurran og súran en þó mildan bjór.  Santa Gose er af gerðinni gose sem er forn þýskur súrbjór og því súr en dálítið saltur eins og gose á að vera en auk þess hafa To Øl strákarnir bætt við ástaraldinn, mango og guava sem smellpassar við rækjukokteilinn.  Þessi bjór er vægast sagt frábær með þessu smurbrauði, hann er nógu mildur til yfirgnæfa ekki viðkvæman rækjuréttinn en þó áberandi súr sem virkar rétt eins og sítrónan sem maður kreistir yfir.  Loks koma mildir ávaxtatónar fram sem fara mjög vel með mangoinu og chillíinu í rækjukokteilnum.
Virkilega flott að sjá hvað bæði rétturinn og bjórinn gerðu mikið hvort fyrir annað.  Ég mæli með þessu, það má svo sem vara hvaða súrbjór sem er, gose, gueuze eða jafnvel berliner weisse, bara að hann sé ekki of öflugur.


SMURBRAUÐ MEÐ RÆKJUKOKTEIL : gróft brauð, t.d. Fitty, smá majones lag, brakandi sallatblað ofaná, svo rækjukokteillinn frá Ragnari og loks skreytt með eggjabát, sítrónu, steinselju og rauðri papriku.

BJÓR MEÐ : Léttur, þurr og dálítið súr bjór er flottur með, t.d. gose, gueuze eða berliner weisse. T.d.  Santa Gose F&#%-It All jólabjór frá dönsku snillingunum  To Øl


SMURBRAUÐ MEÐ KÆFU, SVEPPUM OG BEIKONI.

img_5597
Næst bárum við fram klassíker sem alltaf er góður.  Smurbrauð með heitri danskri kæfu, beikoni og smjörsteiktum sveppum. Þetta er svo skreytt með súrum gúrkum og rauðbeðustrimlum. Þetta er bara svo gott og getur ekki klikkað.  Með þessu smurbrauði má hafa dálítið bragðmikinn bjór en þó ekki of öflugan.  IPA eða Pale Ale eru tilvaldir fyrir verkið, þessir stílar eru dálítið beiskir og beittir bjórstílar en það er einmitt eitthvað sem virkar vel með feitum mat.  Kæfan er feit, beikonið er svo sannarlega feitt og sveppina steikti ég uppúr syndsamlega miklu smjöri. Þetta er því dálítið mjúkur og feitur réttur sem gæti verið aðeins of mikið af því góða en beiskjan í þessum bjórum „sker“ fituna og opnar réttinn dálítið upp á gátt og dregur úr áferðinni.  Karamellukeimurinn sem stundum má finna frá karamaltinu í bjórnum gengur líka vel með grófa maltbrauðinu.  Sýran í gúrkunum og rauðbeðunum bindur þetta svo allt saman í flotta heild.
Við vorum auðvitað í jólaskapi og völdum jóla IPA, við buðum reyndar uppá tvo mis beiska, annars vegar einn af mínum uppáhalds jólabjórum Hoppy Lovin Christmas frá Mikkeller sem tekur dálítið í en er einnig með fallega sítrustóna, engifer og furunálar.  Mér finnst einnig alltaf aðeins mandarínusæta í honum.   Hins vegar vorum við með frábæran nýjan jólabjór frá Mikkeller sem ég smakkaði einmitt með kæfusmurbrauði á Øl og Brød by Mikkeller í Kaupmannahöfn á dögunum, Ginger Brett IPA sem er líka bruggaður með engifer og villigeri (Brettanomyces).  Þessi bjór er ofsalega flottur, léttir humlar og beiskja með örlítilli sætu og svo þetta „funky“ villiger.   Báðir þessir bjórar koma mjög vel út, Hoppy Lovin tekur aðeins yfirhöndina en stelur samt ekki senunni á meðan Ginger Brett tvinnast frábærlega saman við smurbrauðið, þvílík snilld.


SMURBRAUÐ MEÐ HEITRI KÆFU, SVEPPUM OG BEIKONI : Sveppir eru steiktir úr smjöri og miklu smjöri, alls ekki skola sveppina áður, þeir draga þá bara í sig vatnið.  Kryddið eftir smekk, salt, pipar og timian t.d. Beikonið á að vera stökkt, klippið beikonið í litla fallega strimla og steikið t.d. í minotugrilli. Svo er það bara gróft brauð, sallatblað yfir, kæfan (hituð aðeins á pönnu og söltuð eftir smekk) og svo raðar maður bara sveppum og beikoni yfir, súrar gúrkur og rauðbeður eftir smekk.  Efst kemur steinselja vel út.

BJÓR MEÐ : Með svona feitum og mjúkum rétt er tilvalið að nota beiskan bjór eins og IPA eða Pale Ale til að skera fituna og opna réttinn upp.  Þessi réttur er bragðmikill og þolir vel svona aðeins sterkari bjór.  IPA eða ef maður vill aðeins minni beiskju, Pale Ale eru flott pörun.  Við vorum í jólaskapi og völdum Mikkeller Hoppy Lovin Christmas og Mikkeller Ginger Brett IPA til að hafa smá val mtt beiskju.  Báðir flottir jólabjórar sem fást hér í vínbúðinni yfir hátíðarnar (2016)


SMURBRAUÐ MEÐ ROASTBEEF OG HEIMALÖGUÐU REMOLAÐI.

 

img_5613

Við enduðum svo kvöldið með roastbeef smurbrauði með heimalöguðu remúlaði, steiktum lauk og súrum gúrkum. Þetta er einfalt smurbrauð, gott roastbeef ofan á brauð, sallatblaðið góða, steiktur laukur, skreytt með súrum gúrkum og paprikustrimlum.
Svo er það heimalagaða remúlaðið: Ca 1 dl majones og 1dl sýrður rjómi hrært staman, í þetta er svo hært ca matskeið af hunang Dijon sinnepi, steinselja ca 2 matskeiðar og fínskornar súrar gúrkur 2 matskeiðar, vorlaukur, capers 1 tsk, karrý eftir smekk og pipar já og svo ögn Tabasko sósa til að fínstilla þetta.
Þó við séum mikið bjórfólk þá þýðir það ekki að við viljum ekki sjá neitt sem ekki er handverksbjór.   Ef bjórinn er góður og passar við matinn þá er okkur í raun alveg sama hvort hann kæmi frá Víking, Ölgerðinni eða Guði Almáttugum.  Boli Doppelbock frá Ölgerðinni er bara helvíti skemmtilegur matarbjór og smellpassar við roastbeef brauðið okkar.  Bjórinn er bragðmikill en engir öfgar.  Einkennandi er maltsæta og ristaðir tónar en þetta er að dansa vel við smurbrauðið.   En ég segi oft, það er aldrei hægt að skrifa um bragð eins vel og að smakka sjálfur þannig að…um að gera að prófa bara.


SMURBRAUÐ MEÐ ROASTBEEF, STEIKTUM LAUK OG HEIMALÖGUÐU REMÚLAÐI: Sem fyrr, gróft maltbrauð, smurt með þunnu lagi af majonesi, sallatblað ofan á og svo gott roastbeef, steiktur laukur, súrar gúrkur og remúlaði eftir smekk.  Loks skreytt með rauðum paprikustrimlum.

BJÓR MEÐ: bock og doppelbock eru alveg einstaklega skemmtilegir matarbjórar.  Bjórinn hefur töluverða sætu og svo ristaða tóna sem koma vel út t.d. með kjöti og ýmsum marineringum. Einnig er fínt að nota bock til að fá meiri sætu í rétt sem hefur gott af slíku. Við Íslendingar bruggum mikið af þessum stíl sér í lagi í kringum jólin.  Einn þessara er Boli Doppelbock frá Ölgerðinni.  Þetta er vandaður bjór og góður í matarpörun hvers konar.  Hér gerði hann einfaldan og fínan rétt ögn meira elegant og flóknari…..frábært!


Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s